Morgunblaðið - 19.09.2004, Síða 30
30 SUNNUDAGUR 19. SEPTEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Tryggvi bjó um tíma á Nönnugötu og stundaði á
þeim tíma kvöldnámskeið í teikningu.
Eftir síldarvertíðina á Guðbjörgu er égá Bragagötunni í nokkurn tíma. Ég áþá dálitla peninga, kaupi fínt léreftog liti og dunda mér við að málamyndir úr nágrenninu í fallegu síð-
sumarveðri. Síðan fer ég aftur á Guðbjörgu á
reknet – sem er leiðinlegasti veiðiskapur sem
ég hef verið á og ég nenni alls ekki að tala um –
þangað til menntaskólinn byrjar í október. Við
vorum við Eldey og ég gat virt fyrir mér þann
magnaða fugl, súluna, hvernig hún steypir sér
lóðrétt niður og kemur upp aftur með síld í
kjaftinum. Ég prófaði að teikna hana en náði
ekki tökum á því.
Loftur fór í Menntaskólann á Akureyri en ég
bjó áfram einn með pabba. Það tók þó fljótlega
af, því ég gafst hreinlega upp, leigði mér kvist-
herbergiskytru á Nönnugötu 16 og flutti þang-
að með mitt litla hafurtask. Flosnaði um leið
upp úr náminu í menntaskólanum og las utan-
skóla eftir það. Ekki löngu eftir að ég flutti frá
pabba seldi hann Bragagötuna og keypti bíl-
skúr í Skipasundi. Þar bjó hann í nokkur ár og
drykkjuskapurinn versnaði enn. Við bræður
héldum að hann væri búinn að vera, en það sýn-
ir hvað hann var hraustur og mikill harðjaxl að
hann náði sér upp, fór að vinna á Skattstofu
Austurlands á Egilsstöðum og vann þar þangað
til hann fór á eftirlaun.
Kynnin af Hring
Sama haust fór ég á kvöldnámskeið að læra
teikningu hjá Hringi Jóhannessyni sem vann
fullan vinnudag á daginn hjá Kassagerð
Reykjavíkur og gerði það í mörg ár. Á sumrin
fór hann á heimaslóðir, norður í Aðaldal, kom
sér upp vinnustofu og málaði þar margar af sín-
um bestu myndum.
Samband mitt við Hring og fleiri ágæta fé-
laga, svo sem Þorstein frá Hamri, rofnaði að
mestu um tíu ára skeið, eftir að ég fór utan
haustið 1961, enda kom ég ekkert heim í nokk-
ur ár vegna blankheita. Það lifnaði hins vegar
aftur þegar ég sýndi með Magnúsi Tómassyni í
Gallerí SÚM 1972. Ljóðabækur Þorsteins fékk
ég hins vegar, hef haft af þeim mikla gleði og tel
hann besta skáld minnar kynslóðar. Í mörg ár
eftir þetta var Hringur mér einstaklega hjálp-
legur og ráðagóður við sýningahald í Reykja-
vík. Síðast hitti ég hann, glaðan og vinsamleg-
an, fyrir utan Óðinsgötu 15 í Reykjavík vorið
1995. Ég var á förum norður á Húsavík að mála
mynd fyrir dvalarheimilið Hvamm. Hann sagð-
ist koma norður á vinnustofuna í Haga í Aðaldal
eftir hálfan mánuð eða svo. Við ákváðum að
hittast og bundum fastmælum að heimsækja,
að hans mati, besta bar á Norðurlandi, Hótel
Reynihlíð í Mývatnssveit. Af því varð aldrei.
Hann lést úr bráðum blóðkrabba áður en við
náðum að hittast. Þorsteinn frá Hamri orti eitt-
hvert dásamlegasta minningarljóð sem ég hef
vitað síðan skáldið frá Hrauni í Öxnadal leið.
Það er í ljóðabókinni Meðan þú vaktir.
Af skýi niður
dís í dalinn stígur.
Með gát hún strýkur
gerði hvert og baðm:
Í dag er kvaddur
drengur góður héðan;
og vertu hljóður,
vindur, rétt á meðan
innsiglað duft
míns dána vinar hnígur
við angan heyja
frjórri mold í faðm.
Námskeiðin voru haldin undir vængjum
Handíðaskólans en ég var ekki orðinn nemandi
í skólanum þá, þótt líta megi á þetta námskeið
sem undanrás eða atrennu að skólanum. Hluti
af náminu hjá Hringi var að teikna módel,
stúlku sem átti að vera í sömu stellingu í 20
mínútur – það er ekki auðvelt að vera hreyfing-
arlaus í 20 mínútur – og var ætlast til að nem-
endur væru búnir að ná myndinni þegar daman
skipti um stellingu. Þetta voru æfingar í að
teikna hratt og fullkomin andstæða við að mála
fjallatoppana á Norðfirði.
Nám í skötulíki
Sverrir Haraldsson kenndi teikningu í Hand-
íðaskólanum og opnaði fyrir mér hvað má gera
með línu. Með árunum hef ég fengið meiri og
meiri áhuga fyrir því hvað lína er – hún er mag-
ískt fyrirbæri ef maður ræður við hana. Sverrir
var sjálfur afburðafínn teiknari og útskýrði
meðal annars hvernig einfalda má myndina.
Námið í báðum skólunum, Menntaskólanum
í Reykjavík og Handíðaskólanum, var í skötu-
líki. Ég þurfti að vinna fyrir mér og valdi það
einfaldasta sem ég hafði þar að auki heilmikinn
áhuga á: fór á togara, byrjaði á Ingólfi Arn-
arsyni en var á þremur til viðbótar áður en ég
flutti utan, Jóni Þorlákssyni og Geir. Þessir
voru allir frá Reykjavík en síðast var ég á Gylfa
frá Patreksfirði.
Til haustsins 1961 var ég því með annan fót-
inn á sjó og hinn í námi, fyrst í MR og síðan
Handíðaskólanum. Þó ég gæti ekki sótt skóla
eftir viðurkenndum ástundunarreglum lærði
ég mikið í málverki á þessu tímabili og lagði
grunninn að öllu því sem á eftir hefur komið. Í
tengslum við teikninámskeiðið kynntist ég mál-
urunum Einari G. Baldvinssyni og Jóhannesi
Geir. Þeir urðu góðir vinir mínir og af þeim
lærði ég áreiðanlega meira en ég hefði nokkru
sinni gert með því að sækja skólann að fullu.
Meðvitað og tilgerðarlaust
Tryggvi teygir og togar myndflötinn í verk-
um sínum og vill fara frjálslega með grunn-
atriði mynda sinna.
Sjálfur hef ég með árunum gengið lengra og
lengra í því að „ljúga“ sögum á myndflötinn,
teygja, toga og raða, ekki ólíkt ljóðum eða góðri
djasssóló hjá Armstrong, Johnny Hodges eða
Ben Webster. Þeir fara eitthvað annað með
melódíuna, fá eitthvað annað út úr henni með
ólíkum áherslum, velja ýmsar leiðir til að fá út
nýja heild. En þeir verða að vita hvert þeir
ætla, hvað þeir ætla að mjólka út úr melódíunni
og ekki má heldur nota of mörg krydd í sósuna,
því þá veit enginn hvaða bragð er af henni.
Leikaraskapurinn verður með öðrum orðum að
vera meðvitaður og tilgerðarlaus. Þetta er að
forma hugsun, vera í samvinnu við hljóðfærið
eða myndina og þarna var Einar G. Baldvins-
son svo sannarlega á heimavelli. Hann hélt fína
sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Ég fór
oft að skoða hana og ekki spillti að yfir henni
sat Margrét, kona Þórbergs Þórðarsonar,
skrafhreifin og bauð upp á kaffi af brúsa.
Alla þessi lygi í góðum skilningi, að fara
frjálst með elementin í myndunum, þessi
grunnatriði að búa til bíl sem er jafnstór og epli,
skip sem er jafnstórt og fingurinn á þér, eða
flugvél sem allir sjá að gæti aldrei flogið, hef ég
notað mér út í æsar. Ég teikna myndirnar fyrst
á glærur og varpa þeim á léreftið með skyggnu-
vél. Hvað þessar teikningar verða stórar er til-
viljanakennt, en þær má stækka og minnka í
ljósriti. Það er einmitt gulrótin sem dregur asn-
ann áfram. Ég bý til myndir þar sem öllu er
sullað saman, hlutum úr nútímanum og fortíð-
inni. Ég hef óþrjótandi ánægju af að skoða hluti
og fyrirbæri aftan úr steinöld og bulla með það
og velti fyrir mér hvernig þau virka í ýmsum
víddum og litum. Hvernig eitt virkar í rauðu,
annað í bláu, hvernig kemur út að þyngja eða
létta. Ljós form hafa tilhneigingu til að virka
stærri en dökk. Hvernig getur fuglsfjöður verið
skyld formi eins og sverði, og hvernig breytast
hlutföllin þegar „logið“ er til um stærðina? Bíll
getur verið jafnstór skorkvikindi ef maður vill
hafa hann þannig. Þetta er það sem ég kalla
myndmál.
Teikningin fyrst
Teiknarinn verður að koma fyrst og málar-
inn á eftir. Teikning getur legið í marga mánuði
en þegar hún er tekin fram aftur sést strax
hvort hún virkar eða ekki. Ef hún er ekki í lagi
er reynandi að breyta henni, bæta formum inn
í, eða fækka þeim. Þess vegna mála ég sumar
myndir í mörgum útgáfum. Þær geta verið
ljósbláar, víddirnar léttari, og svo má keyra
niður í hér um bil svart og allt þar á milli. Ég
hefði engan áhuga á að búa til myndir eftir
strangri uppskrift. Ef ég ætti að teikna og mála
beint á léreftið og vissi fyrirfram hvernig
myndirnar yrðu, er ég ekki viss um að ég myndi
nenna að standa í þessu. Einar hefur heldur
ekki vitað hvað myndi gerast ef hann breytti
einum eða fleiri flötum í mynd. Hann hefur
þurft að prófa. Nýjar hugmyndir fæðast meðan
á vinnunni stendur, þær nærast af samhang-
andi vinnu. Vatnið á myllunni er að halda sig við
efnið, vinna. Í góðri vinnutörn fæðast tvær-
þrjár nýjar hugmyndir sem þó má ekki „mat-
reiða“ strax. Á því stigi er smákrass betra en
vandaðri teikning. Riss eða laust krass (eins og
ég á í ferðavasabókum og litlum kompum)
minnir mann á en læsir engu föstu. Stærðar-
hlutföll og „þyngd“ hlutanna í mynd koma
seinna og liturinn síðast. Hugdetturnar eru oft
vanhugsaðar frá upphafi og lenda þá í rusla-
körfunni þar sem þær eru best geymdar, en út
úr þessu fyllast á endanum nokkrar möppur af
hráefni sem ég nota síðar.
Bókarkafli Tryggvi Ólafsson listamaður er landsmönnum vel kunnur og þótt hann sé ef til vill best þekktur fyrir myndlist sína þá
er Tryggvi ekki síður mikið fyrir að segja sögur. Hér er gripið niður í frásögn Helga Guðmundssonar sem rekur uppvöxt Tryggva á
Norðfirði, þroskasögu listamannsins og árin í Reykjavík og síðar Kaupmannahöfn.
Logið á myndflötinn
Hvað er bak við fjöllin? Tryggvi Ólafsson listmálari
segir frá er eftir Helga Guðmundsson. Útgefandi er
Mál & menning. Bókin er 206 bls. að lengd og
prýdd fjölda mynda.
Paradísarheimt eftir Tryggva Ólafsson.
„Ég bý til myndir þar sem
öllu er sullað saman, hlut-
um úr nútímanum og for-
tíðinni. Ég hef óþrjótandi
ánægju af að skoða hluti og
fyrirbæri aftan úr steinöld
og bulla með það og velti
fyrir mér hvernig þau virka
í ýmsum víddum og litum.
Hvernig eitt virkar í rauðu,
annað í bláu, hvernig kem-
ur út að þyngja eða létta,“
segir Tryggvi Ólafsson um
list sína. Bræður í varpa 1945. Tryggvi til vinstri en Loftur til hægri.