Morgunblaðið - 06.08.2005, Qupperneq 27
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. ÁGÚST 2005 27
MENNING
R
ík hefð hefur myndast fyrir því
að íslensk tónverk séu frumflutt
í Skálholtskirkju, í tengslum við
Sumartónleikana þar – röð tón-
leika í júlímánuði sem haldin
hefur verið í kirkjunni í meira en 30 ár. Gegn-
um tíðina hafa yfir 150 íslensk tónverk hljóm-
að í fyrsta sinn í Skálholti og eru þau af ýms-
um toga; ýmist skemmri eða styttri, fyrir
kóra eða einsöngvara, tónlistarhópa eða ein-
leikara og svo framvegis.
Staðartónskáldin svokölluðu kannast
margir við, en þau eiga rætur að rekja aftur
til upphafs Sumartónleikanna í Skálholts-
kirkju. Helga Ingólfsdóttir, stofnandi tón-
leikaraðarinnar, var frá upphafi ötul við að
frumflytja ný verk og smátt og smátt komust
fastari hefðir á. Árið 1986 var Jón Nordal
fenginn til að semja verk sérstaklega fyrir
Sumartónleikana í Skálholti og Hljómeyki
kom fram á tónleikum gagngert til að flytja
ný verk eftir hann. Síðan þá hefur nánast
undantekningarlaust tónskáld verið fengið til
að semja fyrir tónleikana, og þá kallast stað-
artónskáld.
Í hugtakinu felst að ákveðin tónskáld, í
flestum tilfellum íslensk, eru fengin til að
semja verk til frumflutnings á tónleikunum.
„Tónskáldin dvelja yfirleitt í Skálholti vikuna
fyrir frumflutninginn, fylgjast með æfingum
og taka þátt í mótuninni,“ útskýrir Sigurður
Halldórsson, sem senn lýkur sínu fyrsta
sumri sem listrænn stjórnandi Sumartón-
leikanna.
Í ár tók Sigurður þá ákvörðun að bjóða
fjórum ungum tónskáldum að vera stað-
artónskáld ásamt Jórunni Viðar, frumkvöðli í
íslenskum tónsmíðum. Fyrir valinu urðu þau
Anna S. Þorvaldsdóttir, Gunnar Andreas
Kristinsson, Hugi Guðmundsson og Þóra
Marteinsdóttir og hafa ný verk eftir þau öll
þegar verið frumflutt í Skálholti í sumar. Í
dag verða síðan sellóoktettar þriggja þeirra
frumfluttir, í flutningi hins nýstofnaða djúp-
strengjahóps Lilju, og í messu á morgun
verður fluttur kvartett eftir Þóru, sem Skál-
holtskvartettinn flytur.
Sigurður segist bjartsýnn fyrir hönd ís-
lenskra tónsmíða, ekki síst með hliðsjón af
reynslu sinni í sumar. „Ég veit að við getum
vænst mjög góðra hluta frá þessum höf-
undum. Ég hef lifað og hrærst í nýrri ís-
lenskri tónlist í yfir 20 ár og gegnum þann
tíma hefur það gerst sjaldnar og sjaldnar að
maður fái verk í hendur sem manni finnst
ekki áhugaverð. Að því leyti er standardinn
að hækka og verkin að verða betri að jafnaði.
Og þessi verk sem hafa verið frumflutt í sum-
ar finnst mér bera vott um frábæran árang-
ur.“
– Hvernig reynsla hefur það verið fyrir þig
að vera staðartónskáld í Skálholti í sumar?
Anna: „Það er búin að vera ofboðslega góð
og skemmtileg reynsla að vera staðar-
tónskáld í Skálholti og sérstaklega áhuga-
vert. Í tengslum við þetta verkefni hef ég
skoðað ofboðslega mikið af gömlum íslensk-
um sálmum sem mér hefur þótt mjög lær-
dómsríkt og spennandi. Það að vinna verkin
upp úr gömlum sálmum sem ég valdi eftir að
hafa skoðað fjölmarga fannst mér líka af-
skaplega áhugavert og það að sökkva sér of-
an í fortíðina með þessum hætti og draga
hana inn í nútíðina finnst mér alveg rosalega
spennandi.“
Hugi: „Í ár hefur þetta verið um margt
mjög ólík reynsla frá síðasta verkefni sem ég
fékk frá Skálholti, sumarið 2003. Þá voru mér
gefnar alveg frjálsar hendur með tónefnið en
núna var beðið um að notast við laglínur úr
tónlistararfinum og fyrir mig kallar það á allt
önnur vinnubrögð. Sumpart má segja að það
sé auðveldara að vera kominn með laglínu til
að vinna með áður en maður byrjar að vinna
verkið en að sama skapi getur það njörvað
mann niður og beint manni óþarflega mikið í
vissar áttir. Það er annars konar ögrun en að
vinna allt frá grunni.“
Þóra: „Þetta hefur verið alveg ótrúlega
skemmtileg reynsla að fá að taka þátt í jafn
stórum menningarviðburði og Sum-
artónleikar Skálholtskirkju eru. Ég hef
skemmt mér alveg konunglega við að fá að
skrifa verk fyrir þessa frábæru flytjendur og
þessa dásamlegu kirkju.“
– Nýttist staðurinn sjálfur og aðstaðan þar
þér með beinum hætti, eða hafðirðu þegar
samið verkin sem voru flutt?
Anna: „Verkin voru samin fyrir þetta til-
efni en ég notaðist ekki við staðinn með bein-
um hætti. Ég hafði Skálholtskirkju og hljóm-
burð hennar í huga þegar ég skrifaði verkin
en að öðru leyti nýtti ég mér ekki staðinn.
Hins vegar fannst mér mjög áhugavert að sjá
að þegar Hljómeyki flutti kórverkið þá röð-
uðu kórfélagar sér upp inni á bak við altarið í
boga og í blandaðri uppstillingu og það
fannst mér koma mjög vel út.“
Gunnar: „Ég rak reyndar (tón)smiðs-
höggið á seinna verkið meðan verið var að
æfa hið fyrra í Skálholti, en annars fór skap-
andi vinna að mestu fram í Hollandi, þar sem
ég er búsettur.“
Hugi: „Aðstaðan nýttist mér ekki beint, en
það má segja að hún hafi nýst óbeint. Verkin
samdi ég í Danmörku þar sem ég er búsettur.
Nánar tiltekið úti í horni í tólf fermetra
svefnherbergi á Öresundskollegíinu. Við slík-
ar aðstæður er gott að láta hugann reika upp
í Skálholt þar sem nóg er af plássi og kyrrð.
Staðurinn hefur lengi verið í sérstöku uppá-
haldi hjá mér, ekki síst eftir að ég dvaldi þar
á kyrrðardögum fyrir mörgum árum.“
Þóra: „Ég samdi verkin vitandi það að þau
yrðu flutt í þessari fallegu kirkju og langaði
því að leyfa hljómburði kirkjunnar að njóta
sín. Hafa tónlistina hálfgegnsæja. Kyrrláta
en samt á hreyfingu.“
– Hvað varð þér innblástur að þessu sinni?
Anna: „Sálmarnir og textar þeirra voru
mér óneitanlega innblástur að þessu sinni.“
Gunnar: „Hljóðfæraskipanin, hljómburður
kirkjunnar og auðvitað sálmarnir sjálfir og
lögin við þá. Mér bauðst að skrifa eitt verk
fyrir barokkhljóðfæri og söngvara að eigin
vali. Mér fannst barítónrödd henta best sálm-
inum „Mektugra synir, maktar drottni“ sem
ég læt fléttast inn í tónvef þar sem hljóðfæri
með svipaða eiginleika kallast á, þ.e. óbó og
fiðla, selló og kontrabassi, semball og bassa-
lúta. Hitt verkið er fyrir sellóoktettinn Lilju
sem var sérstaklega settur saman fyrir Sum-
artónleikana í ár, en það er einnig byggt á
gömlu sálmalagi: „Herra, þjer skal heiður og
virðing greiða“.“
Þóra: „Það var óskað eftir því að við mynd-
um byggja verk okkar á sálmum úr íslensk-
um handritum, þannig að ég fór inn á is-
mus.musik.is-vefinn og skoðaði gömul
handrit. Eftir að hafa leitað svolítið fann ég
tvo sálma úr Hymnodia Sacra sem höfðuðu til
mín bæði tónlistar- og textalega séð.“
– Hvaða augum líturðu það framtak Sum-
artónleikanna í Skálholtskirkju að bjóða ung-
um tónskáldum að vera staðartónskáld í ár,
auk Jórunnar Viðar?
Anna: „Mér finnst það alveg frábært fram-
tak og mjög mikilvægt og gott fyrir ung tón-
skáld að fá tækifæri til þess að vinna að
svona verkefnum. Það er ekki svo mikill vett-
vangur fyrir ung tónskáld á Íslandi að það er
gott að fá tækifæri til að takast á við eins
krefjandi verkefni og Sumartónleikar í Skál-
holti eru.“
Hugi: „Það er mjög virðingarvert og þarft.
Mér þótti mjög gaman að Jórunni var gert
svona hátt undir höfði í ár enda alltof sjaldan
sem hennar tónlist ratar á efnisskrár. Sum-
artónleikar í Skálholtskirkju eru líka eina
stofnunin hér á landi sem pantar ný verk frá
tónskáldum á hverju ári (sem ég veit af) og er
það mjög merkilegt að mínu mati að ekki
fleiri tónleikaraðir geri það í sama mæli og
Skálholt.“
Þóra: „Mér finnst þetta mjög gott framtak.
Skemmtileg hugmynd að láta yngstu tón-
skáldin semja í kringum elstu skrifuðu ís-
lensku tónlistina. Jórunn Viðar er eitt af okk-
ar betri tónskáldum og mikill frumkvöðull í
íslensku tónlistarlífi. Finnst það heilmikill
heiður að geta sagst eiga eitthvað sameig-
inlegt með þessari konu.“
– Hvernig líst þér á tónsmíðar á Íslandi um
þessar mundir?
Gunnar: „Tónsmíðaflóran hér virðist fjöl-
breytt og stíltegundirnar margar, þrátt fyrir
landfræðilega einungrun. Mörg íslensk tón-
skáld hafa jú stundað framhaldsnám erlend-
is, í ólíkum löndum, og hafa blessunarlega
komið aftur með nýja strauma og stefnur inn
í tónlistarlífið hér.“
Hugi: „Þar sem ég hef búið í Danmörku síð-
astliðin fjögur ár get ég kannski ekki alveg
dæmt um hvernig ný tónlist á Íslandi hefur
það akkúrat núna. Mér finnst ég samt skynja
það að hér er minna og minna pláss fyrir listir
sem krefjast einhvers af neytandanum og hin
auðmelta dægurmenning fær meira og meira
pláss. Í þjóðfélagi þar sem bókstaflega allt
snýst um peninga og fólk telur að hamingjan
sé í hlutfalli við stærð verðmiðans á jeppanum
sínum er erfitt að finna jarðveg fyrir óver-
aldlega hluti eins og listir. Kannski er það þess
vegna að það áhugaverðasta sem ég heyri af
íslenskri tónlist kemur frá fólki sem hefur búið
erlendis á meðan þessi íslenska peninga-
græðgisbylgja hefur skolað burtu skyni
manna á náttúru og listum. Get ég þar nefnt
Þuríði Jónsdóttur og Atla Ingólfsson sem hafa
búið á Ítalíu síðastliðinn áratug eða lengur.“
Þóra: „Mér líst mjög vel á þær. Finnst
vera heilmikil nýsköpun í gangi og jákvætt
hugarfar. Íslendingar eru mjög skapandi
fólk.“
– Telurðu að ný kynslóð tónskálda sé að
koma fram? Er hún öflug?
Anna: „Ég tel að það séu sífellt að koma
fram nýjar kynslóðir af tónskáldum, eins og í
flestu, hvort sem það er tengt listum eða ein-
hverju öðru. Tónsmíðar eru að mínu mati svo
persónulegur og opinn miðill sem er í eðli
sínu alltaf að þróast og þá fyrst og fremst hjá
tónskáldinu sjálfu. Það er ofboðslega erfitt að
benda nákvæmlega á það hvenær tímabila-
skipti verða í tónsmíðum og yfirleitt er það
einungis hægt þegar horft er yfir farinn veg
að liðnum nokkrum árum. Mér finnst hins
vegar sú þróun sem orðið hefur síðustu ára-
tugina vera mjög jákvæð og góð og ég held að
í dag séu tónskáld að gera það sem þau lang-
ar til frekar en að fylgja fastmótuðum reglum
þó að sjálfsögðu nýti þau sér hinar ýmsu að-
ferðir til að koma tónlist sinni á blað.“
Gunnar: „Jafnaldrar mínir í bransanum
hafa margt ólíkt og spennandi fram að færa
og eru óhræddir við að reyna fyrir sér í ólík-
um stíltegundum. Það verður gaman að fylgj-
ast með þeim mótast frekar í framtíðinni.“
Þóra: „Það er óneitanlega ný kynslóð tón-
skálda að koma fram en hvort hún er öflug
verður tíminn að leiða í ljós. Tel mig ekki
færa um að spá um slíkt.“
– Hvað er næst á dagskrá hjá þér sem tón-
skáldi?
Anna: „Ég er með nokkur verkefni á borð-
inu þessa stundina, en það sem er næst á
dagskrá hjá mér er að skrifa verk fyrir Aton-
tónlistarhópinn sem ætlar að flytja nokkur
ný íslensk verk á tónleikaferðalagi hér heima
og í Bandaríkjunum á næstunni. Ég fer einn-
ig að huga að því að skrifa verk sem var pant-
að hjá mér vegna útskriftartónleika í Hol-
landi. Svo er ég að skrifa mitt fjórða
hljómsveitarverk og er með ýmislegt annað í
gangi.“
Gunnar: „Að taka saman og endurskoða
eldri verk sem líkleg eru til að verða flutt aft-
ur en einnig að skrifa nýtt einleiksverk fyrir
píanó og dúó fyrir bassaklarínett og slag-
verk.“
Hugi: „Ég er núna í haust að byrja á öðru
mastersnámi í raftónlist í Sónólógíunni í Den
Haag. Mastersverkefnið mitt þar er ansi
viðamikið verk fyrir hljóðfærahóp, söngvara
og tölvu en það hyggst ég svo gefa út á
geisladisk að náminu loknu. Vegna umfangs
þessa verkefnis hef ég tekið að mér mun
færri verkefni en ella en auðvitað munu ýmis
smærri verkefni fylgja með.“
Þóra: „Ég er að fara að semja verk fyrir
norskan hörpuleikara að nafni Veronika
Adele Halten sem og verk fyrir Barnakór
Dómkirkjunnar. Einnig ætla ég að njóta þess
að hafa lokið tónsmíðanámi og flutt heim til
Íslands.“
Fjögur tónskáld af „ungu kynslóðinni“ hafa verið staðartónskáld á Sumartónleikum í Skálholtskirkju í ár, ásamt frum-
kvöðlinum Jórunni Viðar, og verða verk þeirra allra frumflutt á tónleikum í Skálholti um helgina. Inga María Leifsdóttir
lagði nokkrar spurningar fyrir fjórmenningana, þau Önnu S. Þorvaldsdóttur, Gunnar Andreas Kristinsson, Huga Guð-
mundsson og Þóru Marteinsdóttur, og ræddi við Sigurð Halldórsson, framkvæmdastjóra Sumartónleikanna, um valið í ár.
Morgunblaðið/Sigurður Jökull
Anna S. Þorvaldsdóttir
Morgunblaðið/Sigurður Jökull
Hugi Guðmundsson
Morgunblaðið/Jim SmartÞóra MarteinsdóttirMorgunblaðið/Sigurður Jökull
Gunnar Andreas Kristinsson
Tónsmíðar nýrrar kynslóðar
ingamaria@mbl.is
www.sumartonleikar.is