Morgunblaðið - 28.10.2005, Síða 11
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 28. OKTÓBER 2005 11
FRÉTTIR
FORMAÐUR skipulagsráðs Reykja-
víkur vill skoða af alvöru möguleika á
að flytja helstu umferðaræðar borg-
arinnar neðanjarðar. Með því að setja
stofnbrautirnar í stokka má spara
landsvæði, auka öryggi íbúanna, end-
urheimta tengsl við útivistarsvæði og
opna nýja möguleika til uppbygging-
ar á íbúðahúsnæði í eftirsóttustu
hverfum borgarinnar. Í stað stofn-
brauta yrðu þá rólegar íbúagötur á
yfirborði. Reykjavíkurborg mun í
nóvember standa fyrir vinnu í sam-
starfi fag- og hagsmunaaðila við að
leiða fram nýja sýn í samgönguskipu-
lagi og verður þar sérstaklega fjallað
um framtíð stofnbrautanna.
Vandinn fluttur til
Dagur B. Eggertsson, formaður
skipulagsráðs, segir mislæg gatna-
mót oft aðeins flytja til vandann og vill
velta öðrum hugmyndum upp. Hann
kallar mislæg gatnamót á Kringlu-
mýrarbraut og Miklubraut „stór-
karlalega og gamaldags“ lausn inni í
miðri borg sem yrði á kostnað nær-
liggjandi íbúahverfa.
„Í mörgum hverfum í Reykjavík
eru eðlilega vaxandi áhyggjur af um-
ferðarmálum,“ segir Dagur. „Bílaum-
ferðin í borginni er orðin gríðarleg og
í raun farin að ganga á lífsgæði íbú-
anna. Þannig að menn verða að setja
þessi mál rækilega á dagskrá og það
ætlum við að gera.“
Í þeirri umræðu sem framundan er
verður velt upp spurningum um
hvernig gerlegt sé að búa með bílnum
í öruggri og heilsusamlegri borg.
„Það kemur sannarlega til greina að
lækna þessi sár sem umferðarfljótin á
stofnbrautunum eru orðin,“ segir
Dagur. „Miklabraut og aðrar stórar
umferðaræðar eru í raun farnar að
kljúfa borgina niður
þannig að íbúahverfin
eru að verða eins og
umferðareyjur mitt í
umferðarhafinu og ör-
yggi íbúanna minna en
áður.“
Dagur segir því tíma-
bært að velta fyrir sér
„hvort einhver þessara
stórfljóta eigi ekki
heima neðanjarðar en
ofanjarðar verði rólegri
íbúagötur. Þetta myndi
gefa okkur færi á að búa
til nýtt borgarumhverfi
með húsum upp að göt-
um og í stað risavaxinna
hljóðmana fengjum við mannlíf og tré
á líflegum gangstéttum.“
Dagur segir að hugsanlega megi
mæta hluta af kostnaði við að setja
stofnbrautir í stokk með því að leyfa
byggingu ofan á umferðarmannvirkj-
unum. Það hefur að hans sögn víða
verið gert erlendis.
Staðan metin í
alþjóðlegu samhengi
Í undirbúningsvinnu sem fram hef-
ur farið í sumar hefur staðan í um-
ferðarmálum verið greind í alþjóðlegu
samhengi með því að bera Reykjavík
saman við aðrar borgir og taka saman
leiðir sem sambærilegar borgir hafa
farið til að draga úr umferðarálagi og
mengun sem er að sögn Dags alþjóð-
legur vandi sem meira eða minna all-
ar borgir glíma við. Í vinnustofum um
málið sem haldnar verða í nóvember
verða lausnir kynntar og skoðaðar
nánar. Í kjölfarið er ætlunin að
bregða reiknistokknum á þær, líkt og
Dagur orðar það.
En hvers vegna var Hringbrautin,
sem nýlokið er við að færa, ekki sett í
stokk, líkt og hugmyndir voru reynd-
ar uppi um?
„Þar vantaði raunhæfar lausnir
sem virtu vatnasvið Tjarnarinnar og
tryggðu um leið nauðsynlegar teng-
ingar við miðborgina og framtíðar-
byggð í Vatnsmýri auk þess sem ekki
náðist samstaða um þann aukna
kostnað sem stokkur hefði kallað á.
Hann var metinn á 3–4
milljarða,“ svarar Dag-
ur. Hann telur líklegra
að samstaða náist um
slíkt þegar til framtíðar
er litið. „Ég held að
margir hafi talið flutn-
ing Hringbrautarinnar
brýnan vegna uppbygg-
ingar á Landspítalanum
og hafi veitt því stuðn-
ing að fara í ódýrustu
útfærsluna sem fyrir
hendi var án þess þó að
útiloka einhverja mögu-
leika í framtíðinni.“
Dagur segir því lík-
legt að í þeirri vinnu
sem nú fari í hönd hjá borginni verði
sett á dagskrá að setja nýju Hring-
brautina í stokk, breyta henni í breið-
stræti eða fara aðrar leiðir til að vinna
gegn því að hún verði eins og óbrúan-
legt fljót í borgarmyndinni.
Þær stofnbrautir aðrar sem um
ræðir eru að sögn Dags Kringlumýr-
arbraut, Miklabraut og jafnvel hlutar
Sæbrautarinnar þar sem væntanleg
Sundabraut á að tengjast Vogunum.
Engin mislæg gatnamót?
Dagur segir að vissulega hafi þess-
ar hugmyndir áhrif á fyrirætlanir um
mislæg gatnamót Kringlumýrar-
brautar og Miklubrautar.
„Mislæg gatnamót á þessum stað
myndi aðeins færa vandamálið til,“
segir Dagur. „Það myndi færast niður
að gatnamótum Lönguhlíðar og
Miklubrautar og nærleg gatnamót.
Slík ákvörðun væri ekki einangruð,
hún myndi þýða að ákveða þyrfti að
setja mislæg gatnamót á öll næstu
götuhorn. Þá erum við komin með
kostnað upp á 12–15 milljarða. Þannig
að það er mjög mikið til vinnandi að
finna aðrar lausnir.“
Mikilvægt sé því að skoða aðra val-
kosti en mislæg gatnamót. „Við hljót-
um til dæmis að velta fyrir okkur
hvort tenging Kópavogs við miðborg-
ina með göngum í gegnum Öskjuhlíð
hljóti ekki að vera fyrr í forgangsröð-
inni og jafnvel tengingar yfir á Álfta-
nes sem myndu gera hringakstur um
höfuðborgarsvæðið mögulegan,“ seg-
ir Dagur. Stóru vatnaskilin sem þurfa
að verða eru þó að forgangsraðað
verði í þágu lífsgæða hverfanna. „Við
skulum ekki gleyma því að margar
bandarískar borgir voru í svipaðri
stöðu og við fyrir þrjátíu árum, með
mislæg gatnamót á hverju götuhorni
á teikniborðinu. Margar skemmtileg-
ustu borgir Bandaríkjanna eru ein-
mitt þær sem völdu að fara aðrar leið-
ir. Hinar sitja uppi með það að
meginhluti borgarlandsins fari undir
slaufuvirki og samgöngumannvirki
þar sem fólk getur sig hvergi hreyft
nema akandi.“ Dagur telur Reykvík-
inga ekki hafa efni á slíkum fórnum.
Íbúar og aðrir hagsmunaðilar
kallaðir að borðinu
Umræðan sem fer af stað í nóvem-
ber mun að sögn Dags fjalla um
þrennt. Í fyrsta lagi um umferðarmál-
in í Reykjavík í alþjóðlegu samhengi, í
samanburði við aðrar borgir þar sem
skoðað verður hvaða leiðir hafa verið
farnar til að draga úr umferð. Í öðru
lagi verður horft á stofnbrautirnar til
framtíðar og hvernig hægt er að
stuðla að sambúð þeirra við blómleg
og örugg íbúahverfi og í þriðja lagi
hvernig umferðarskipulag framtíðar-
innar eigi að vera. Verður sjónum þar
sérstaklega beint að framtíðarskipu-
lagi í Vatnsmýri og hvernig sam-
göngum á að vera háttað þar.
Auk verkfræðinga sem þekkja sér-
staklega til málaflokksins segir Dag-
ur að borgin vilji hefja vinnuna í sam-
starfi við Vegagerðina og bjóða til
þátttöku fulltrúum sveitarfélaga á
höfuðborgarsvæðinu, íbúum vissra
hverfa, „og síðast en ekki síst fulltrú-
um verktaka og fasteignafélaga sem
eru í verkefnum víða í borginni. Með
því að ná öllum þessum aðilum að
borðinu munum við komast lengra
með að móta framtíðarsýnina, skapa
samstöðu um hana og ekki síður
hrinda henni í framkvæmd.“
Helstu umferðaræð-
ar verði neðanjarðar
Bílaumferð farin
að ganga á lífsgæði
íbúanna, segir for-
maður skipulagsráðs
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur
sunna@mbl.is
Dagur B. Eggertsson
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Brúin yfir Miklubraut við Skeiðarvog/Réttarholtsveg hefur greitt mjög
umferð um aðliggjandi hverfi og inn og út af Miklubrautinni.
MAÐUR sem í október í fyrra birti
nöfn tveggja lögreglumanna á vef-
síðu og sagði þá leka upplýsingum til
fíkniefnasala hefur verið sýknaður af
ákæru um ærumeiðandi ummæli um
lögreglumennina. Taldi dómarinn að
ummælin féllu ekki undir þá laga-
grein sem ákært var vegna.
Maðurinn, Björn Sigurðsson, var
ákærður fyrir ummæli sem hann
birti á vefsíðunni www.dopsalar.tk
og www.dopsalar.blogspot.dk og fyr-
ir ummæli sem hann lét falla í Kast-
ljósi Ríkissjónvarpsins og í viðtali á
Útvarpi Sögu. Maðurinn sagðist við
yfirheyrslur hafa fengið þessar upp-
lýsingar hjá manni sem hefði verið
viðriðinn rán á syni hans og hjá öðr-
um ónafngreindum heimildarmönn-
um. Á vefsíðunni voru ummælin eft-
irfarandi:
„Lögreglumenn sem margir sögð-
ust fá uppl hjá. Og bar ég það upp á
þá báða“ og fylgdu nöfnin síðan. Í
sjónvarpsþættinum sagðist hann
hafa fengið „upplýsingar frá mörg-
um“ um að þeir lækju upplýsingum
og að ótilgreindur maður hefði sagst
fá upplýsingar hjá þeim.
Í ákæru ríkissaksóknara voru um-
mælin sögð varða við 234. grein al-
mennra hegningarlaga. Lögreglu-
mennirnir kröfðust skaðabóta,
annars vegar 800.000 króna og hins
vegar 750.000, og sögðu þeir m.a. að
þessi ummæli hefðu haft neikvæð
áhrif á orðspor þeirra og komið þeim
illa í starfi sem þeir hefðu ávallt sinnt
af fyllsta trúnaði.
Krafðist sýknu
Björn játaði að hafa birt ummælin
en krafðist sýknu þar sem þau gætu
aldrei talist móðgun skv. 234. grein
hegningarlaga, enda hefðu lögreglu-
mennirnir litið svo á að um ærumeið-
andi aðdróttanir væri að ræða skv.
235. grein. Sá munur er m.a. á þess-
um greinum að ef ærumeiðandi
móðgun (234. grein) er beint gegn
opinberum starfsmanni og hún varð-
ar starf hans, þá skal slíkt brot sæta
opinberri ákæru. Vegna brota á 235.
grein verða einstaklingar hins vegar
að höfða mál sjálfir.
Í niðurstöðu dómsins segir að um-
mælin sem ákært var vegna feli í sér
ærumeiðandi aðdróttanir um refsi-
vert athæfi, þ.e. brot lögreglumanna
í opinberu starfi. Með þessum að-
dróttunum hafi verið vegið „mjög
freklega“ að starfsheiðri þeirra. Þær
hafi verið til þess fallnar að skaða þá
persónulega og í starfi þeirra og
komi niður á trúverðugleika lögregl-
unnar í heild. Dómurinn féllst á hinn
bóginn ekki á að ummælin teldust
móðgun í skilningi 234. greinar. Þar
sem refsikrafan hefði eingöngu verið
byggð á þeirri grein yrði því að
sýkna.
Ásgeir Magnússon kvað upp dóm-
inn. Ragnheiður Harðardóttir vara-
ríkissaksóknari sótti en Sigmundur
Hannesson hrl. var til varnar.
Maður sem hélt úti vefsíðunni www.dopsalar.tk
Sýknaður af ákæru um
ærumeiðandi ummæli
Eftir Rúnar Pálmason
runarp@mbl.is
GREINARNAR í almennum hegn-
ingarlögum sem nefndar eru í
dómnum eru eftirfarandi:
234. gr. Hver, sem meiðir æru
annars manns með móðgun í orðum
eða athöfnum, og hver, sem ber
slíkt út, skal sæta sektum eða fang-
elsi allt að 1 ári.
235. gr. Ef maður dróttar að öðr-
um manni einhverju því, sem verða
myndi virðingu hans til hnekkis,
eða ber slíka aðdróttun út, þá varð-
ar það sektum eða fangelsi allt að 1
ári.
Ærumeiðandi
eða aðdróttandi?
JÓHANN Páll Símonarson sjómað-
ur gefur kost á sér í 9. sæti í próf-
kjöri Sjálfstæðisflokksins vegna
borgarstjórn-
arkosninga
næsta vor.
Jóhann hóf
störf hjá Eim-
skipafélagi Ís-
lands h.f. árið
1967 í hluta-
starfi. Árið 1969
um haustið var
Jóhann skráður
háseti á færeyska netabátnum
Leifi heppna sem gerður var út til
saltfiskveiða á Grænlandsmiðum.
Árið 1970 var Jóhann skráður
skipverji á Látraröst frá Patreks-
firði en þá var Finnbogi Magn-
ússon, hinn þjóðþekkti skipstjóri,
með bátinn. Eftir vetrarvertíðina
1970 gerðist Jóhann Páll farmaður
hjá Eimskipafélagi Íslands og hóf
störf á MS Bakkafossi sem háseti.
Frá árinu 1970 hefur Jóhann Páll
starfað óslitið sem háseti og síðar
sem bátsmaður á skipum Eim-
skipafélagsins, síðast á MS Brúar-
fossi. Jóhann neyddist til að fara í
land 2004 vegna afleiðinga alvar-
legs vinnuslyss í Færeyjum árið
1996.
Jóhann Páll Símonarson hefur
tekið þátt í félagsmálum og var um
árabil virkur félagi í Sjómanna-
félagi Reykjavíkur og gegndi þar
ýmsum trúnaðarstörfum. Þá hefur
hann látið sig öryggismál sjó-
manna varða og beitti sér meðal
annars fyrir átaki í þeim efnum
með því að efna til verðlauna á
sviði öryggismála sjómanna. Jó-
hann Páll hefur auk þess ritað
blaðagreinar um öryggismál sjó-
manna og látið til sín taka á þeim
vettvangi. Hann hefur tekið þátt í
hverfasamtökum Grafarvogs og
látið sig varða skipulagsmál og
tekið þátt í starfi á þeim vettvangi.
Jóhann Páll hefur um langt ára-
bil verið virkur í kosningastarfi
Sjálfstæðisflokksins í alþingis- og
sveitarstjórnarkosningum.
Gefur kost á sér í 9. sæti
STOFNFUNDUR aðstandendahóps
Geðhjálpar verður haldinn næst-
komandi sunnudag, 30. október,
klukkan 14, í húsnæði samtakanna
á Túngötu 12 í Reykjavík. Yf-
irskrift fundarins er Fram í dags-
ljósið.
Meginmarkmið hópsins er að
berjast fyrir því að þeir sem þjást af
geðsjúkdómum og aðstandendur
þeirra njóti sömu mannréttinda og
virðingar og aðrir í samfélaginu.
Árni Magnússon félagsmálaráð-
herra mætir á fundinn og greinir
frá því sem er að gerast í þessum
málaflokki í ráðuneyti hans og
hvernig 1,5 milljörðum verður var-
ið til uppbyggingar búsetu og end-
urhæfingar geðsjúkra, segir í
fréttatilkynningu.
Stofna aðstandendahóp Geðhjálpar