Morgunblaðið - 30.10.2005, Side 37
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 30. OKTÓBER 2005 37
En segjum sem svo að almenn samstaða
næðist á milli stjórnmálamanna og stjórnmála-
flokka um þessa hugmynd Davíðs Oddssonar.
Hvaðan eiga peningarnir þá að koma til þess að
standa undir kostnaði við stjórnmálabaráttuna?
Lengi var mikil andstaða við að þeir pen-
ingar kæmu úr opinberum sjóðum. En af
hverju ættu menn að vera á móti því?
Stjórnmálaflokkar og starfsemi þeirra eru
mikilvægur þáttur í lýðræðislegu stjórnkerfi
okkar. Það á ekki að líta á stjórnmálaflokkana
sem einhver vandræðabörn. Þvert á móti ber
að líta á þá sem grundvallarþátt í lýðræðinu.
Hið sama á við um þá einstaklinga, sem eru til-
búnir til að gefa sig að stjórnmálum. Það er
ekki allt eftirsóknarvert, sem fylgir stjórnmála-
baráttu. Þvert á móti. Þess vegna er í raun
þakkarvert að svo stór hópur fólks sé tilbúinn
til að gefa kost á sér í þann slag. Framlag
þeirra einstaklinga til þess að lýðræðið verði
virkt er mjög mikið.
Kostnaður við almennar kosningar er greidd-
ur úr almannasjóðum eins og vera ber. Nú þeg-
ar fá stjórnmálaflokkarnir umtalsverða fjár-
muni úr opinberum sjóðum til starfsemi sinnar.
Hver eru rökin fyrir því, að það geti ekki átt
við um meira og minna allan kostnað, sem sam-
staða getur orðið um varðandi lýðræðislegar
kosningar, hvort sem um er að ræða prófkjör
eða almennar kosningar?
Nú er vaxandi áhugi á því að auka beina
þátttöku almennings í ákvörðunum um mik-
ilvæg mál, hvort sem um er að ræða á lands-
vísu eða í sveitarstjórnum. Morgunblaðið fagn-
ar því enda hefur blaðið barizt markvisst fyrir
því frá því á vormánuðum 1997 eða í tæpan
áratug.
Segjum sem svo að þjóðaratkvæðagreiðsla
hefði farið fram um Kárahnjúkavirkjun. Hefði
verið sjálfsagt að þjóðarfyrirtækið Landsvirkj-
un hefði lagt verulega fjármuni í að kynna sín
sjónarmið í því máli í aðdraganda slíkrar at-
kvæðagreiðslu en að andstæðingar virkjunar-
innar hefðu þurft að safna fé með öðrum hætti
til þess? Auðvitað hefði það ekki verið sjálfsagt.
Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar eiga sinn
hlut í Landsvirkjun eins og aðrir landsmenn og
alls ekki eðlilegt að í slíkri kosningabaráttu
hefði fjármunum Landsvirkjunar verið beitt í
þágu annars sjónarmiðsins í því máli.
Það hefði heldur ekki verið eðlilegt að rík-
isstjórn og þingmeirihluti, sem vildi berjast til
sigurs í slíku máli gætu notað fjármuni almenn-
ings í því skyni en að minnihluti þings og aðrir
andstæðingar framkvæmdarinnar hefðu engan
aðgang haft að slíkum fjármunum.
Þetta er augljóslega eitt af þeim atriðum,
sem þarf að skoða vandlega í sambandi við
framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna um ein-
stök mál eða ef um er að ræða kosningar í ein-
stökum sveitarfélögum t.d. um skipulagsmál.
Rökin fyrir því að endurskoða þetta kerfi allt
eru sterk, skoða upp á nýtt fjárframlög úr op-
inberum sjóðum til stjórnmálaflokka og stjórn-
málastarfsemi almennt og ræða alvarlega þann
möguleika að settar verði almennar reglur um
framkvæmd prófkjöra og að kostnaður verði
greiddur úr almannasjóðum.
Allra hagur
Það eru hagsmunir
allra þjóðfélags-
þegna, að þetta kerfi
verði stokkað upp og heilbrigðari starfsháttum
en nú tíðkazt komið á. Það á líka við um þá sér-
hagsmunaaðila, sem kunna að freistast til þess
að kaupa sér aðstöðu eða aðgang að einstökum
stjórnmálamönnum með fjárstuðningi í próf-
kjörum eða almennum kosningum. Ástæðan
fyrir því er sú, að það getur alltaf verið ein-
hver, sem er tilbúinn til að borga meira. Og
sjaldan verður harkan meiri en þegar einn við-
skiptaaðili telur annan hafa náð viðskiptum í
skjóli sérstakrar fyrirgreiðslu.
Það eru líka önnur rök og af allt öðrum toga,
sem skipta máli í þessu sambandi. Efnuðum Ís-
lendingum fjölgar mjög. Viljum við halda þann-
ig á málum, að það verði bara efnaðir ein-
staklingar, sem geta leyft sér þann munað að
taka þátt í stjórnmálastarfi?
Í Bandaríkjunum hefur það lengi verið svo,
að ríkt fólk hefur haft meiri möguleika á að
taka þátt í stjórnmálum en hinir efnaminni.
Þetta kom skýrt í ljós, í frægri kosningabaráttu
þar haustið 1960. Þá tókust á John F. Kennedy
og Richard Nixon. Fjölskylda Kennedys hafði
auðgast mjög á verðbréfaviðskiptum fyrst og
fremst en á öðrum viðskiptum einnig, sem ekki
þoldu dagsins ljós. Nixon átti ekki neitt nema
eigin hæfileika. Kennedy vann og það var al-
mannamál á þeim tíma, að það hefði ekki sízt
verið vegna auðæfa fjölskyldu hans. Enn er sú
skoðun ofarlega á blaði, að atkvæði hafi verið
keypt í þeirri kosningabaráttu.
Viljum við að hér verði til þjóðfélag, þar sem
stjórnmálaþátttaka er að langmestu leyti á veg-
um hinna efnuðu en að þeir sem ekkert eiga
komi þar hvergi nærri? Mundi Alþingi Íslend-
inga endurspegla þjóðarviljann ef svo væri?
Auðvitað ekki.
Hér hafa verið færð rök að því, að áhrif pen-
inganna séu orðin svo mikil í okkar samfélagi,
að þeir séu farnir að hafa umtalsverð áhrif á
það hvernig lýðræðið virkar. Að það sé af þeim
sökum tímabært að endurskoða þetta kerfi allt
frá grunni.
Það eru hugmyndir um að banna fjárframlög
fyrirtækja til stjórnmálaflokka og einstakra
frambjóðenda. Þær tillögur ber að ræða af al-
vöru.
Það eru hugmyndir um að auka framlög úr
opinberum sjóðum til stjórnmálaflokka og ein-
stakra frambjóðenda. Þær ber að ræða af al-
vöru.
Það eru hugmyndir um að setja almennar
leikreglur um framkvæmd prófkjöra, hver svo
sem hlut á að máli og að kostnaður við þau
verði greiddur úr almannasjóðum.
Það eru ábendingar um það, að jafnræði
verði að ríkja á milli mismunandi sjónarmiða,
þegar kemur að þjóðaratkvæði um einstök mál
á landsvísu eða atkvæðagreiðslu innan sveitar-
félaga.
Öll þessi mál er nauðsynlegt að ræða á mál-
efnalegan hátt en ekki í þeirri tóntegund, sem
hefur einkennt nánast allar umræður um þessi
málefni hingað til.
Við eigum fátt sem meira máli skiptir en
hina lýðræðislegu stjórnarhætti okkar. Við
megum ekki fljóta sofandi að feigðarósi og láta
peningana, sem fljóta um samfélagið í gríð-
arlegum mæli, spilla því lýðræði.
Morgunblaðið/ÓmarÞokubakkar yfir Þingvallahrauni.
Rökin fyrir því að
endurskoða þetta
kerfi allt eru sterk,
skoða upp á nýtt
fjárframlög úr opin-
berum sjóðum til
stjórnmálaflokka og
stjórnmálastarfsemi
almennt og ræða al-
varlega þann mögu-
leika að settar verði
almennar reglur um
framkvæmd próf-
kjöra og að kostn-
aður verði greiddur
úr almannasjóðum.
Laugardagur 29. október