Morgunblaðið - 18.12.2005, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 18.12.2005, Blaðsíða 22
22 | 18.12.2005 F ramboð annar ekki eftirspurninni hjá Borgarbókasafni Reykjavíkurþessar vikurnar fyrir jólin. Jólabækurnar hverfa úr hillunum jafn-óðum og þær birtast. Það er hátíðarstemmning í aðalsafninu viðTryggvagötu og útibúum þess, útlán í hámarki og kynningar- og upplestrardagskrár setja svip á starfsemina eins og Brot-af-því-besta-dagskráin sem árlega er í Kringlusafninu svo dæmi sé nefnt. Bókakynningar, bókmennta- göngur og aðrir viðburðir eru m.a. á könnu Kristínar Viðarsdóttur, verkefn- isstjóra á þróunarsviði safnsins, sem segir að núna sé ekki unnt að panta jóla- bækurnar fyrr en í mars. „Við ákváðum í fyrra að hætta með biðlista fyrir jólin svo nú verður fólk að mæta og reyna að grípa þær bækur sem gefast í hvert skipti. Og ef nýju bækurnar eru ekki inni taka margir í staðinn bækur frá því fyrir síðustu jól til að fylla upp í eyðurnar.“ Hún segir að mest sé eftirspurnin eftir nýjum skáldverkum og ævisögum á þessum árstíma og svokallaðir metsölulistar virðist ekki hafa afgerandi áhrif á hana. „Það er frekar að ákveðnir flokkar bóka séu vinsælastir og þá árið um kring. Glæpasögurnar eru t.d. rosalega vinsælar, bæði íslenskar og á ensku. Þegar hins vegar kemur að því að fólk fer að panta á biðlista beinist athyglin gjarnan að þeim bókum sem mest voru í umræðunni fyrir jólin.“ Reynsla bóksafnafólks er sú að konur noti söfnin meira en karl- ar og aldurshópurinn 14 ára til þrítugs sé ekki eins áberandi og aðrir, sem þó hafi breyst nokkuð eftir að tónlistardeildir voru settar á laggirnar. „Við erum líka með teiknimyndasögudeild sem er mjög vinsæl hjá þessum aldurshópi. Þá tök- um við eftir því á þessum árstíma að fólk tekur mikið tímarit og bækur um heimili og húsbúnað og þess háttar.“ Engin boð eða bönn | Borgarbókasafnið reynir eins og hægt er að höfða til unglinga, að sögn Kristínar. „Við erum með heilmikið barna- og unglingastarf, t.d. í samvinnu við skólana. Fáum á hverju hausti níu ára krakka í 4. bekk í safn- kynningar og sjáum að það skilar sér ágætlega; krakkarnir koma aftur, jafnvel með foreldra sína með sér. Þá hafa barnabókaverðir farið í skólana með bóka- spjall og kynnt höfunda og bækur inni í skólastofunum, sem hefur gefið góða raun. Upplestrardagskrár fyrir unglinga hafa einnig tekist vel og eru góð leið til að ná til þeirra.“ Í seinni tíð hefur verið haft á orði að ritun og útgáfa íslenskra unglingabóka sé sem næst að leggjast af? „Já, þær eru a.m.k. mjög fáar í ár. Þótt fjöldinn sé nokkuð sveiflukenndur milli ára er eins og þýddar bækur, ekki síst þessar fantasíubækur á borð við Harry Potter, hafi komið inn í staðinn og höfði þá jafnvel líka til fullorðinna. Hitt er svo annað mál að unglingarnir eru farnir að lesa fullorðinsbækur í meira mæli en áður var. Skilin eru ekki eins skörp.“ Er það vegna þess, heldurðu, að unglingum liggur núna svo á að verða full- orðnir? „Kannski er það hluti af skýringunni. Sjálf á ég unglinga og þau eru farin að sækja í að lesa t.d. glæpasögur; þær virðast höfða til margra unglinga, auk fant- asíubókanna, jafnvel frekar en íslensku unglingabækurnar sem gjarnan fjalla um fyrstu ástina og eitt og annað sem þessi aldurshópur þarf að glíma við. Raunsæis- bækur standa þó að sjálfsögðu alltaf fyrir sínu.“ Þegar Kristín er spurð hvort bækur, t.d. glæpasögur, sem einatt innihalda óheflað orðbragð og opinskáar lýsingar á ofbeldi og kynlífi, séu bannaðar til út- lána fyrir vissa aldurshópa, rétt eins og kvikmyndir af þeim toga, svarar hún neitandi. „Við flokkum bækur nokkuð eftir því til hvaða aldurs- hópa þær höfða en bönnum ekki útlán með einhverjum merki- miðum. Það er kannski frekar foreldra að fylgjast með því hvað börnin eru að lesa. Þetta hefur þó komið til tals hjá okkur að sumar bækur, t.d. vissar teiknimyndasögur, væru ekki holl lesning fyrir tiltekinn aldur og þá höfum við frekar reynt að hafa þær ofar í hillunum eða eitthvað þess háttar en að vera með ritskoðun, boð eða bönn.“ Sjálf er Kristín Viðarsdóttir bókmenntafræðingur og kennari að mennt en hef- ur unnið hjá Borgarbókasafninu í tíu ár. Starfs síns vegna kveðst hún reyna að komast yfir að lesa sem mest af íslensku skáldverkaútgáfunni ár hvert. „Ég hef gaman af alls kyns bókum en er þó ekki mikið fyrir ævisögur. Glæpasögur höfða sterkt til mín og skáldsögur yfirleitt, er núna að lesa Sólskinshest Steinunnar Sig- urðardóttur og nýbúin með Stefnuljós eftir Hermann Stefánsson.“ Einn liður í kynningarstarfi Kristínar er að ritstýra bókmenntavef safnsins, bokmenntir.is, sem er núna fimm ára gamall og nýtur æ meiri vinsælda, m.a. í kennslu. Hún segir starfið mjög skemmtilegt. „Safnið er góður vinnustaður, mik- il mannleg samskipti og virkt samstarf milli starfsfólksins sem þarf að vasast í ýmsu.“ Það sem dró hana inn á þetta starfssvið var einfaldlega að henni hefur alltaf fundist gaman að lesa. „Í bókum er svo margt. Maður getur ferðast út um allan heim gegnum bækur, kynnst fólki, hugmyndum og lífsreynslu, sem er bæði til- finningalega og hugmyndalega gefandi.“ | ath@mbl.is Kristín: Glæpasögur höfða sterkt til mín … Í BÓKUM ER SVO MARGT SKILIN MILLI UNGLINGA- BÓKA OG FULLORÐINS- BÓKA ERU AÐ VERÐA ÓLJÓSARI, SEGIR KRISTÍN VIÐARSDÓTTIR, VERK- EFNISSTJÓRI HJÁ BORG- ARBÓKASAFNI REYKJA- VÍKUR, ÞAR SEM JÓLASTEMMNINGIN STENDUR SEM HÆST. L jó sm yn d: S ve rr ir Eftir Árna Þórarinsson Fantasíur í stað gömlu unglinga- bókanna …

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.