Morgunblaðið - 18.12.2005, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 18.12.2005, Blaðsíða 24
24 | 18.12.2005 Hvað er það sem skapar jólin? Ilmur af hangiketi, lit- skrúðugir pakkar undir jólatré, fjölskyldan öll samankom- in? Eða geta jólin verið falin í hvítlaukshrísgrjónum og rýtingum, sjúkrahúsrúmi á erlendu sjúkrahúsi, óupphituðu húsnæði í 12 stiga gaddi, fullkominni þögn eða spaghettíi með kartöfluflögum? Þótt flest höfum við ákveðnar og hefðbundnar hugmyndir um hvað sé nauðsynlegt á jólum er ekki víst að allir deili þeim með okkur eða hafi tækifæri til að upplifa jól samkvæmt þeim. Fimm ein- staklingar segja hér frá óhefðbundnum jólum sem þeir eiga að baki. Í sumum tilfellum réðu þeir ekki sjálfir neinu um framvindu mála en í öðrum var fyrirfram ákveðið að hafa öðruvísi jól en alla jafna. Hvort heldur sem var eru þeir sammála um að þessi jól hafi orðið þeim eftirminnilegri en ella. Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur Ljósmyndir Ásdís Ásgeirsdóttir JÓL? Ó JÓL, ÓJÓL … ÓJÓLALEG E in fátæklegustu jól sem Arna Björg Bjarnadóttir hefur upplifaðvoru árið 1996 þegar hún var au pair-stúlka hjá bandarískri fjöl-skyldu sem bjó rétt utan við Washington DC. „Áður en ég fór út gerði ég mér miklar hugmyndir um að eignast aðra fjölskyldu, um sára skiln- aðarstund og samband sem myndi vara löngu eftir að ég kæmi heim,“ segir Arna sem fljótlega lét af þeim draumum. „Hjónin sem ég var hjá voru augn- læknar sem unnu mikið og komu oftast ekki heim fyrr en klukkan ellefu á kvöldin. Ég gætti tveggja dætra þeirra, sem voru sex og átta ára, en þær sáu mömmu sína og pabba sjaldan.“ Ekkert vantaði upp á glæsileika einbýlishússins sem fjölskyldan bjó í en hið sama var ekki hægt að segja um ísskápinn „sem vældi af hungri“ eins og Arna orðar það. „Það var aldrei til neitt að borða og stundum ekki einu sinni mjólk eða seríos. Hins vegar voru alltaf til grænir hlaupkarlar sem stundum voru það eina sem ég gat gefið stelpunum að borða þegar þær voru svangar. Foreldrarnir gripu oftast skyndibita með sér á leiðinni úr vinnu og voru að kyngja síðustu bitunum af þeim fyrir framan Jay Leno á kvöldin.“ Arna bauðst fljótlega til að sjá um innkaupin á heimilinu því sýnt var að húsráðendur höfðu ekki tíma í slíkt en það var afþakkað. Þegar á leið féllust þeir þó á að skilja eftir klink af og til svo hægt væri að kaupa mjólk eða brauð þegar allir skápar voru tómir. „Þegar jólin nálguðust fór ég að velta fyrir mér hvort þau ætluðu virkilega ekki að kaupa í matinn,“ heldur Arna áfram. „Á jóladag vöknuðum við snemma og opnuðum pakka sem þau höfðu keypt á hlaup- um á leiðinni heim úr vinnu. Eftir það eldaði húsfrúin morgunmat sem samanstóð af pönnukökum og beikoni og þann dag skrifaði ég í dagbókina mína að það hefði verið ein og hálf beikonræma á mann. Að því loknu fórum við í messu þar sem ég þakkaði fyrir þá forsjón að fjöl- skylda mín hefði sent mér gula pakka í pósti fyrir jólin með síríussúkkulaði sem hélt lífinu í okkur stelpunum í desember.“ Að messunni lokinni kom napur veruleikinn í ljós. „Þá byrjuðu þau að afsaka sig fyrir að hafa gleymt að kaupa jólasteikina og skömmuðust sín greinilega mikið. Í framhaldinu var ekið á milli verslana sem auðvitað voru allar lokaðar og við end- uðum á því að koma við á bensínstöð þar sem húsbóndinn keypti snakk og gos. Þeg- ar við komum heim fór hann í golf en húsfrúin fann spaghetti í einhverjum skápnum sem hún sauð og setti tómatsósu út á. Með þessu höfðum við „kræsingarnar“ úr sjoppunni. Við borðuðum ekki saman og ég man ekki hvort ég stóð eða sat við eld- húsborðið meðan á máltíðinni stóð. Á eftir fór frúin að taka til og stelpurnar að leika sér. Ég fór hins vegar inn í herbergi þar sem ég settist við gluggann, skrifaði bréf og maulaði súkkulaði úr gula kassanum að heiman undir skagfirsku jólatónlistinni sem kom í sömu sendingu. Þegar pabbi og mamma hringdu í mig reyndi ég að láta á engu bera og sagði bara að þetta væri svolítið spes. Síðar sögðu þau mér að þau hefðu skynjað að hlutirnir væru ekki eins og þeir áttu að vera en vildu ekki vera að pína mig á því á þessum tíma.“ Ári eftir að Arna kom heim frétti hún af því að hjónin hefðu skilið. „Þegar öllu er á botninn hvolft hefði ég alls ekki viljað lenda hjá annarri fjölskyldu eða upplifa önnur jól því þetta var svo mikil lífsreynsla. Og í dag kann ég margfalt betur að meta mína eigin fjölskyldu, sem fram að þessu hafði bara verið sjálfsögð í mínum huga.“ JÓLASTEIKIN GLEYMDIST ÞEGAR JÓLIN NÁLGUÐUST FÓR ÉG AÐ VELTA FYRIR MÉR HVORT ÞAU ÆTLUÐU VIRKILEGA EKKI AÐ KAUPA Í MATINN. ARNA BJÖRG BJARNADÓTTIR Litlu jólin með hinum au pair-stúlkunum komst næst jólahaldi hjá Örnu árið 1996.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.