Morgunblaðið - 18.12.2005, Blaðsíða 42

Morgunblaðið - 18.12.2005, Blaðsíða 42
42 | 18.12.2005 Hvað ertu að fást við um þessar mundir? Þessa dagana kemst aðeins tvennt fyrir í huga mér. Annars vegar er ég að reyna að vekja athygli á bókunum fjórum frá Grámanni, bókaútgáfunni minni og konunnar. Hins vegar er ég að ljúka námskeiði um alþjóðaviðskipti í MBA-náminu við Háskóla Íslands, með öllu sem því tilheyrir, verkefni og prófi. Hver var tilgangurinn með því að stofna bóka- forlag? Er ekki tilgangurinn með öllu svona brölti að reyna að gera eitthvað sem hinir gera ekki? Ég held að það hafi tekist að einhverju leyti, þótt ég segi sjálfur frá. Þú varst blaðamaður í um tvo áratugi. Hvers vegna söðlaðir þú um á miðjum aldri og fórst að læra til bissnissmanns? Svona eftir á að hyggja vildi það mér til happs að gamli vinnustaðurinn minn lagði upp laupana. Þar með varð ég að taka ákveðna hluti tilver- unnar til endurskoðunar. Mig hafði lengi langað til að setjast aftur á skólabekk og ég þóttist viss um að MBA-námið myndi opna fyrir mér nýjar víddir. Það hefur sannarlega gengið eftir. Er það ekki skrýtin vending fyrir gamlan róttækling og marxista? Ja, öllu má nú nafn gefa! En vendingin er svo sannarlega skrýtin, því í náminu hef ég þurft að spá í ýmsa hluti sem ég hef lítið velt fyrir mér hingað til, svo sem arðsemi og þvíumlíkt. Það gagnast mér vonandi við rekstur bókaútgáf- unnar. Hvernig er að setjast á skólabekk aftur? Alveg stórkostlegt. Ég held að ég hljóti að vera annar maður núna en þegar ég byrjaði haustið 2004. Vonandi betri. Ég mæli hiklaust með þessu fyrir miðaldra. Mér hefur sjaldan fundist jafn- gaman í skóla og nú. En hvert stefndi hugurinn þegar þú varst lítill? Mig dreymdi alla vega ekki um að verða geim- fari. Kannski lögga eða brunakall. Man þó að bílaverkfræði var mér ofarlega í huga á ein- hverjum tímapunkti. En þú sérð nú hvernig það fór. Hvaða gildi hafa jólin fyrir þig? Ég lít fyrst og fremst á jólin sem kærkomið tækifæri til að slíta sig lausan frá dagsins amstri og slaka á með fjölskyldunni. Undanfarin tíu ár eða svo höfum við iðulega eytt jólunum í Fær- eyjum þar sem tengdamóðir mín býr og veit ég ekki betri stað en Þórshöfn til að reyna að kom- ast aftur í samband við sjálfan sig. Þar er ekki sama gegndarlausa og brjálæðislega kapphlaupið og stressið og hér, þótt heldur hafi nú hert á öllu á undanförnum árum. Ég er ekki mjög kirkju- rækinn maður en þetta árið langar mig til að fara í messu í dómkirkjunni í Þórshöfn, gamalli og virðulegri kirkju í miðbænum, steinsnar frá þing- húsinu og ráðhúsinu og Jacobsens Bókhandil, fallegustu bókabúð á byggðu bóli. Hvernig eru fjölskylduhagirnir? Konan mín heitir María Kristín Jónsdóttir, hún er doktor í taugasálfræði og vinnur með gamla fólkinu á Landakoti. Við eigum stóran og stæðilegan 11 ára strák, Kára, sem veit fátt skemmtilegra en að spila íshokkí. Hvað gerirðu í frístundunum? Á sumrin finnst mér skemmtilegast að spila golf, þótt undanfarin sumur hafi það ekki gengið of vel. Ég er aftur á móti lítið fyrir að fara út fyrir bæjarmörkin en hef þeim mun meira gaman af að hanga á kaffihúsum. Vildi helst stunda þá iðju á hverjum degi, eins og á námsárunum í Frakk- landi, en hef bara ekki tíma. Ekki enn. Hvernig vildirðu verja efri árunum? Ég er lengi búinn að tönnlast á því að ég ætli að flytjast til suðurfrans þegar ég verð orðinn stór og hef fengið að heyra það frá konunni að ég sé eins og biluð plata. En það ætla ég að gera, a.m.k. yfir köldustu og myrkustu vetrarmánuðina, til að sinna bókaútgáfumálum og spila golf og hanga á kaffihúsum. Ég sé fram á að geta látið þennan draum verða að veruleika innan ekki svo langs tíma. | ath@mbl.is Að gera eitthvað sem hinir gera ekki MAÐUR EINS OG ÉG | GUÐLAUGUR BERGMUNDSSON, BÓKAÚTGEFANDI OG MBA-NEMI L jó sm yn d: S ve rr ir Mér hefur sjaldan fundist jafngaman í skóla og nú … Þrátt fyrir kuldann og myrkrið sem umlykur allt og alla hér á norðurslóðum yfir vetrartímannhafa stystu dagar ársins lengi vel verið nátengdir birtu og yl í hugum okkar flestra. Þetta ervegna jólaljósanna fjölmörgu og litríku sem mannfólkið keppist við að setja upp í desember. Rekja má þá hefð að nota lítil kerti til að lýsa upp jólatré til miðrar sautjándu aldar. Hins vegar liðu tvær aldir til viðbótar áður en siðurinn varð útbreiddur, fyrst í Þýskalandi en þaðan breiddist hann áfram til Austur-Evrópu. Árið 1882 varð Bandaríkjamaðurinn Edward Johnson fyrstur til að lýsa upp jólatré með rafmagni. Tréð var staðsett í New York og notaði hann 80 litlar ljósaperur sem héngu á rafmagnssnúru til þess arna. Jólasería hans fór í fjöldaframleiðslu árið 1890 og um aldamótin 1900 hófu verslunareigendur að nota þessi rafmagnsljós til að auka á dýrð jólaskreytinga í verslunum sínum og búðargluggum. Segja má að Albert Sadacca hafi fengið svipaða hugmynd árið 1917, þá aðeins 15 ára að aldri. Fjöl- skylda hans seldi ýmiskonar jólatrésskreytingar, og á sumum þeirra voru lifandi ljós. Albert fékk hug- myndina eftir að kertaljós á jólatré ollu hörmulegum bruna í New York en í kjölfar hans breytti hann hluta ljósaskreytinganna sem fjölskylda hans seldi í örugg rafmagnsljós fyrir jólatré, og þar á meðal jólaseríur. Fyrsta árið seldust aðeins hundrað ljósaseríur með hvítum ljósum. Næsta ár notaði Sadacca litríkar ljósaperur og það varð til þess að markaðurinn tók við sér svo um munaði. Seinna stofnaði Albert og tveir bræður hans fyrirtækið NOMA Electric Company sem síðar varð stærsta jólaljósafyrirtæki í heimi. SAGA HLUTANNA | JÓLASERÍAN Litríku perurnar lokkuðu L jó sm yn d: Á sd ís

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.