Morgunblaðið - 27.12.2005, Blaðsíða 17
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 27. DESEMBER 2005 17
MENNING
! "#$%& '( ' )*+%&
,-& ./ 0'' 111!23+22!&
MYNDLISTARKONAN Inga Svala Þórs-
dóttir heldur um þessar mundir stóra einka-
sýningu í Villa Merkel safninu í Stuttgart í
Þýskalandi auk þess sem hún tekur þátt í sam-
sýningu eftir tíu listamenn í Louisiana-
listasafninu í Kaupmannahöfn. Einkasýning
Ingu Svölu í Villa Merkel safninu nefnist
„Borg 21° W & 64° N“. Í verkinu setur lista-
maðurinn fram hugmynd að milljónaborg sem
nefnist Borg, og er í Borgarfirði.
Inga Svala býr og starfar í Hamborg og seg-
ir hún safnstjóra Villa Merkel safnsins hafa
boðið sér að sýna eftir að hún sýndi í Kunst-
halle í Hamborg í fyrra. Allar ofangreindar
sýningar tengjast langtímaverkefni sem Inga
Svala vinnur að og felur í sér þróun á skipulagi
milljónaborgar.
„Í gegnum söguna hafa listamenn fyrst og
fremst unnið að rannsóknum á hugmyndum.
Sú hugmynd sem ég hef rannsakað frá árinu
1995 er: Hvað er borg? Hvernig getur góð
borg orðið? Hvar er best að hafa hana og á
hverju lifa borgarbúar? Í ferlinu valdi ég borg-
inni stæði við Borgarfjörð, kallaði hana Borg
og hef verið að byggja hana smám saman upp.
Þetta er borg sem á að lifa af sjálfri sér, þ.e. á
hugsun og hugviti borgarbúa fremur en fram-
leiðslu eins og hefð er í iðnaðarborgum. Þannig
forðast borgin að ganga á gæði náttúrunnar
sem borgin á að vera í miklu návígi og samspili
við,“ segir Inga Svala.
Teygir sig yfir fjórtán rými
Sýningin í Villa Merkel safninu sam-
anstendur m.a. af teikningum, málverkum,
ljósmyndum, módelum, skúlptúrum og mynd-
bandsverkum og teygir sig yfir fjórtán rými í
safninu. Inga Svala segir að með þessu viða-
mikla rými hafi henni gefist tækifæri til að út-
færa ýmsa þætti í borginni á ítarlegri hátt en
áður. „Ég set til dæmis upp útimarkað og sýni
arkitektúrmódel af mannvirkjum úr borginni,
m.a. af „Borgarkúplinum“ sem er lýsandi fyrir
áhersluna á hugsun í Borg en hann sýnir
augnablik hugljómunar í heila mannsins. Þá
sýni ég módel af stiga sem er mjög krefjandi í
útfærslu í arkitektúr. Stiginn er þannig gerður
að ekkert þrep er eins og endurspeglar það
lykilhugmynd í útfærslu og starfsemi borg-
arinnar. Ekkert form í borgarumhverfinu mun
endurtaka sig. Þetta er bæði örvandi fyrir
skynjun og þar með hugsun borgarbúanna og
mun vera sú þekkingarframleiðsla sem borg-
arbúar lifa á.“
Samsýning Ingu Svölu í Louisiana-safninu
tengist einnig borgarverkefni hennar. Sýn-
ingin nefnist „On Line – teikningar“ og sam-
anstendur af teikningum eftir tíu unga lista-
menn frá níu löndum. Sýningin er liður í nýrri
stefnu Louisiana-safnsins um að halda reglu-
lega sýningar á samtímamyndlist undir yf-
irskriftinni „Louisiana Contemporary“ en On
Line – teikningar er haldin samhliða yfirlits-
sýningu á verkum eftir Henri Matisse. Fram-
lag Ingu Svölu til samsýningarinnar eru teikn-
ingar af lestarstöðvum Borgar, teikningar er
sýna birtubrigði í Borginni og teikningar af yf-
irskyggðum dölum sem eru nokkurs konar út-
ópíur öruggra samfélaga úti í óbyggðum.
Vinnur að forrannsóknum
Þá sýndi Inga Svala verk úr borgarverkefn-
inu á menningarhátíð íslenskra listamanna í
Köln í nóvember síðastliðnum.
Þegar Inga Svala er spurð að lokum hvort
hún hyggist reisa borgina áður en yfir lýkur,
segist hún fyrst og fremst vinna að frumrann-
sóknum sem muni þó vonandi nýtast við bygg-
ingu borga. „Ég er fyrst og fremst að vinna að
forrannsóknum um borgir. Það er verið að
reisa borgir mjög hratt í dag, og aldrei eins
hratt og nú. Það er því mikil þörf á því að hugs-
að sé um lausnir á þessu sviði og vonandi sjá
því arkitektar og verkfræðingar um að reisa
Borg.“
Myndlist | Einkasýning Ingu Svölu Þórsdóttur í Villa Merkel-safninu
Borg hugmyndanna
Verk á sýningu Ingu Svölu Þórsdóttur „Borg 21° W & 64° N“.
Eftir Heiðu Jóhannsdóttur
heida@mbl.is
TITILL bókar þessarar á vafalaust
að vísa til þess að höfundur er orðinn
aldurhniginn. Efnið ber þess einnig
merki. Þetta er augljóslega afrakst-
ur og samsafn langrar ævi. Með hlið-
sjón af útliti er bókin rausnarlega úr
garði gerð. Bandið er eins og á hverri
annarri »jólabók«. Hönnun og teikn-
ingar eru verk listamanna. Sömuleið-
is er bókin meiri að umfangi og blað-
síðutali en títt er um kvæðabækur
sem út eru að koma þessi árin. Tekið
er fram að Menningarnefnd Fjarð-
arbyggðar og Menningarsjóður
Kaupfélags Héraðsbúa hafi styrkt
útgáfuna. Ekki er amalegt að eiga
slíka að bakhjarli, og sannarlega ekki
fyrir hvern sem er! Vonandi styrkja
þeir heiðursmenn fleiri ljóðskáld,
ekki veitir af; mörg þeirra lepja
dauðann úr skel; koma ekki út bók-
um sínum nema með betlistaf í hendi.
Í hélu haustsins skiptist í níu kafla
sem bera hver sitt heiti. Efnið er fjöl-
skrúðugt og spannar í raun flest sem
við ber í daglega lífinu og umræðu-
vert þykir á líðandi stund. Ljóst er
sem fyrr segir að kvæðin eru til orðin
á löngu æviskeiði, ort af ýmiss konar
tilefni og þá með mismunandi sjón-
armið fyrir augum. Ætla má að höf-
undur sé að leggja þarna fram tiltek-
inn hluta af ævistarfi sínu sem
jafnframt tengist öðrum hans at-
höfnum í lífinu. Efnið er mjög bundið
heimahögunum fyrir austan, þar
með talin flest tækifæriskvæðin sem
ort eru – og vafalaust líka flutt – við
ýmiss konar hátíðleg tækifæri.
Þarna er t.d. vígslukvæði frá árinu
1955. Kvæði er ort til Menntaskólans
á Egilsstöðum. Af efni þess má ráða
að það sé flutt á tíu ára afmæli stofn-
unarinnar. Ekki telst vera það hár
aldur; allt um það tímamót til að
minnast í sveit þar sem flest hafði
staðið í stað. Kvæði er ort til Lúðvíks
Jósepssonar á sjö-
tugsafmæli hans.
Lúðvík var svo þekkt-
ur að höfundur hefur
talið óþarft að tíma-
setja árnaðarósk-
irnar. Birt eru erfiljóð
sem ort voru eftir
flokksbræður og með-
þingsmenn. Konu
sinni helgar höfundur
sérstakan kafla. Og
foreldra sinna minnist
hann í ljóði. End-
urminningin frá
æskustöðvunum er
mánasilfri merluð
eins og gerst lýsir sér
í ljóðunum Um jól og Bernskunnar
blíðu jól. Hið fyrrtalda endar svo: »Í
hljóði bið ég guð að gefa mér / þá
gullnu bernskutrú sem dýrust er.«
Þótt höfundur kynni sig sem alvöru-
mann, því það gerir hann svo sann-
arlega, eru þarna gamanvísur þar
sem höfundur beinir spjótunum
óspart að sjálfum sér, vafalaust ort
til að flytja í heyranda hljóði, og þá í
einhvers konar gleðskap. Og ástin,
eftir á að hyggja, eldheit og rósrauð
– einnig hún kemur fyrir hér og hvar,
ekki má gleyma henni!
Yfir heildina litið er
kvæðasafnið svo sund-
urleitt að óþarft sýnist
að láta sem hér séu á
ferðinni einhver meiri
háttar skáldskaparmál.
Víðast hvar er ljóðformið
einungis búningur utan
um hugðarefni höfund-
arins. Áðurnefndur tæki-
færiskveðskapur er til að
mynda nokkurs konar
ræðumennska með rími
og ljóðstöfum, ortur og
fluttur til að minnast
tímamóta eða bregða
formlegri staðfestingu
yfir tiltekna athöfn. Auk tækifær-
iskvæðanna má ætla að önnur kvæði
séu mörg hver sett saman vegna
ákveðins tilefnis þótt ekki sé þess
beinlínis getið í fyrirsögn. Að leggja
eitthvert strangt ljóðlistarmat á þess
konar kveðskap þar sem listin er ein-
ungis yfirvarp eða aukageta væri
hvorki sanngjarnt né tilhlýðilegt.
Allt eins er ljóst að höfundur er
bundinn eldri hefð og hefur því fátt
nýtt fram að færa. Stíll hans, einkum
að því er tekur til árstíða, náttúrulýs-
inga og tækifæriskveðskapar, ber
með sér að hann hefur gengið í skóla
hjá gömlu þjóðskáldunum sem róm-
uðu fegurð landsins og göfgi mann-
gildisins með hátíðlegu orðskrúði.
Gildir það bæði um hugblæ og orð-
færi. Til dæmis að taka hefst eitt af-
mæliskvæðið á þessum ljóðlínum:
»Heill sé hugumdjörfum / hal á þess-
um degi.« Og átthögum sínum heils-
ar höfundur með þessum andheitu
ástarorðum: »Sólris á morgni, gulln-
ar perlur glitra / í grasi mjúku, ang-
an fyrir ber.«
Auk málfarsins hefur höfundur
einnig þegið mælsku sína frá sínum
gengnu lærimeisturum. Þannig ber
öll ljóðagerð Helga merki venjulegs
alþýðukveðskapar eins og hann gekk
og gerðist á uppvaxtarárum hans, og
raunar allt til dagsins í dag. Helgi
sómir sér því vel meðal annarra
sveitarskálda tuttugustu aldar. Við
hitt má setja spurningarmerki hvort
umsvif hans á öðrum vettvangi hafi
ekki sett hagmælsku hans vissar
skorður, gerst óþarflega harður
verkstjóri yfir skáldinu.
Tilefni og tækifæri
BÆKUR
Kvæði
eftir Helga Seljan. 157 bls. Félag ljóða-
unnenda á Austurlandi. Fáskrúðsfirði,
2005
Í hélu haustsins
Helgi Seljan
Erlendur Jónsson