Fréttablaðið - 03.07.2004, Blaðsíða 37

Fréttablaðið - 03.07.2004, Blaðsíða 37
LAUGARDAGUR 3. júlí 2004 25 Ráðstefna um Shakespeare er haldin um þessa helgi í Globe leik- húsinu í London. Þar koma fram kenningaglaðir fræðimenn, og sumir ansi hugmyndaríkir, til að ræða um verk skáldsins. Nokkrir þeirra munu kasta fram kenning- um sínum um að Shakespeare hafi ekki skrifað þau leikrit sem við hann eru kennd heldur hafi hinn raunverulegi höfundur falið sig bak við nafn Shakespeares. Og hver er þá höfundur mestu leik- rita bókmenntasögunnar? Heim- spekingurinn Bacon, segja sumir. Leikskáldið Christopher Marlowe, segja aðrir. Á ráðstefnunni mun meðal annars vera sett fram sú kenning að höfundurinn sé kona, Mary hertogaynja af Pembroke, systir skálds- ins Philips Sidney. Ekki eru allir jafn hrifnir af því að verið sé að hafa höfund- arverkið af Shakespeare og einn aðal Shakespeare sérfræðingur Breta, Stanley Wells, segir að engin ástæða sé til að efast um að Shakespeare hafi skrifað verk sín. Hugleiðingar um annað byggi einungis á samsæriskenn- ingum. ■ WILLIAM SHAKESPEARE Nú er komin fram kenning um að kona hafi skrifað leikrit hans. SIGURÐUR KÁRI KRISTJÁNSSON Arnaldur allur „Ég hef verið nokkuð duglegur við að lesa skáldsögur upp á síðkastið,“ segir Sigurð- ur Kári Kristjánsson alþingismaður, sem er lesandi vikunnar að þessu sinni. „Ég tók mig til að mynda til um daginn og las allar bækur Arnaldar Indriðasonar og varð ekki fyrir vonbrigðum. Fyrir fram hafði ég reyndar ákveðna fyrirvara á gagnvart ís- lenskum sakamálasögum. Einhverra hluta vegna hafði ég á tilfinningunni að íslensk- ar sakamálasögur væru ekki sérlega trú- verðugar, en annað kom á daginn. Bækur Arnaldar eru geysilega skemmtilegar af- lestrar og æsispennandi. Raunar höfðu bækurnar þau áhrif á mig að ég gat ekki lagt þær frá mér. Ég var hrifinn af öllum þessum bókum og eftir lestur þeirra kem- ur það mér alls ekki á óvart hversu vel Arnaldi hefur vegnað erlendis. Ef ég ætti að tiltaka einhver af verkum hans sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér myndi ég nefna Mýrina, sem mér fannst stórgóð. Þá var ég mjög hrifinn af Napóleonsskjölun- um, en hún sker sig dálítið úr öðrum verk- um Arnaldar, og það er óhætt að mæla með henni. Síðan var ég að ljúka við að lesa metsölu- bókina Da Vinci lykilinn eftir Dan Brown. Maður skilur eftir lestur þessarar bókar hvers vegna hún nýtur svo mikilla vin- sælda hér á Íslandi og um allan heim. Hún er raunar svo vinsæl að það má eig- inlega segja að maður sé varla maður með mönnum nema maður hafi lesið hana. Þetta er hörkuspennusaga sem er uppfull af óvæntum uppákomum og snjöllum leikfléttum. Bók sem erfitt er að leggja frá sér. Inn í söguna blandast síðan togstreita og valdabarátta milli Vatíkans- ins og ýmissa trúarhópa innan og utan kaþólsku kirkjunnar. Einna athyglis- verðastar við söguna eru síðan ýmsar túlkanir höfundar á Nýja testamentinu og klassískum kenningum kirkjunnar eins og við almennt þekkjum þær, sem studdar eru táknum og skilaboðum sem fram koma í listaverkum frægustu listamanna sögunnar, byggingasögu kirkjunnar og fleiru. Ég ætla mér hins vegar ekki að segja meira, enda vil ég forðast að spilla ánægju þeirra sem eiga eftir að lesa Da Vinci lykilinn, en ég get svo sannarlega mælt með henni. Þessa dagana er ég síðan að velta því fyrir mér hvaða bók ég ætti að taka fyrir næst. Mér finnst býsna freistandi að lesa nýút- komna ævisögu Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Ekki get ég sagt að Clint- on hafi verið í miklu uppáhaldi hjá mér, en ég gæti trúað því að saga hans sé áhuga- verð fyrir margra hluta sakir. Og ætli maður sé ekki ósammála mörgu sem þar kemur fram, en það getur verið gaman að því. ■ [ LESANDI VIKUNNAR ] Nýrrar skáldsögu Louis de Bern- iéres hefur verið beðið með mikilli óþreyju. Mánuðum fyrir útgáfu rifjuðu fjölmiðlar upp ævintýra- lega velgengni höfundarins og veltu því fyrir sér hvort hann muni endurtaka leikinn með nýju bók- inni. Biðin hefur reyndar verið löng því síðasta bók Berniéres, Captain Corelli’s Mandolin, kom út fyrir tíu árum. Hún gerði höfund- inn heimsfrægan og svo ríkan að hann hefði ekki þurft að skrifa aðra bók um ævina. Bókin seldist í einni og hálfri milljón eintaka og hefur hvað eftir annað lent á vin- sældalista almennra lesenda. Eftir útkomu bókarinnar líktu gagn- rýnendur höfundinum við Dic- kens, Waugh og Tolstoy en athygli vakti að bókin var ekki tilnefnd til Booker-verðlaunanna. Nýja skáldsagan heitir Birds Without Wings og er 625 blaðsíður. Sagan gerist á suðvesturströnd Tyrklands á árum fyrstu heims- styrjaldar en Captain Corelli’s Mandolin gerðist á grískri eyju í seinni heimsstyrjöldinni. Bækurn- ar eiga það sameiginlegt að fjalla um samfélag sem riðlast vegna stríðsátaka. Í Birds Without Wings er þó ekki að finna neina megin- sögu, eins og var í Captain Corelli þar sem elskendur voru í for- grunni. Berniéres segir þessa nýju bók betri en þá fyrri en það kemur í hlut gagnrýnenda og lesenda að fella lokadóm. Gagnrýnandi Sunday Times, Peter Kemp, er ekki hrifinn af bókinni. Hann segir skorta sterka persónusköpun, of mikið sé um þreytandi endurtekn- ingar og að verkið nái sér aldrei á flug. Samkvæmt þessu virðist hin langa bið ekki hafa verið þess virði. Birds Without Wings er sögð vera eins konar tilbrigði við Stríð og frið Tolstoys þar sem Kemal Atatürk er í hlutverki Napóleons. „Ég er einn af þessum höfundum sem eru alltaf að reyna að skrifa Stríð og frið,“ segir Berniéres. Franski útgefandinn hans ætlar að markaðssetja bókina sem nú- tímaútgáfu af hinu mikla verki Tolstoys. ■ Var Shakespeare kona?Ný bók eftir Berniéres

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.