Fréttablaðið - 15.11.2004, Blaðsíða 10
10 15. nóvember 2004 MÁNUDAGUR
Ráðgjafarmiðstöð fyrir fjölskyldur barna með sérþarfir:
Sjónarhóll opnaður
HEILBRIGÐISMÁL Sjónarhóll, ráð-
gjafarmiðstöð fyrir fjölskyldur
barna með sérþarfir, var opnað-
ur formlega á laugardaginn að
viðstaddri ríkisstjórn Íslands,
forsetahjónunum og bakhjörlum
miðstöðvarinnar. Þá var rúmt ár
liðið síðan 60 milljónir söfnuð-
ust í landssöfnun fyrir húsnæði
Sjónarhóls.
Ragna M. Marínósdóttir, for-
maður Sjónarhóls, segir pening-
ana hafa dugað fyrir húsnæðinu
að Háaleitisbraut 13 og öllu sem
til þurfti svo starfsemin gæti
hafist.
„Þetta er yndislegt húsnæði
og staðsetningin góð því í hús-
inu voru fyrir Styrktarfélag
lamaðra og fatlaðra en nú hafa
bæst við Sjónarhóll og aðildar-
félögin Umhyggja, Þroskahjálp
og ADHD-samtökin. Okkur
hefur tekist að búa til góða mið-
læga miðstöð þar sem fólk getur
fengið ráðgjöf og upplýsingar
hjá Sjónarhóli og komið til fé-
laganna í leiðinni. Þannig lítum
við með björtu ljósi til framtíðar
um gott samstarf og að geta auð-
veldað fjölskyldum barna með
sérþarfir eins mikið og hægt
er.“ - þlg
Nýsköpunarsjóður
er nánast auralaus
Nýsköpunarsjóður hefur ekki peninga til að fjárfesta í nýjum
verkefnum næstu ár. Forráðamenn hans hafa leitað til stjórnvalda og
lífeyrissjóða í landinu. Áhættufjárfestingar eru flestar í útlöndum.
VIÐSKIPTI Ástandið í nýsköpun og
hjá sprotafyrirtækjum hér á landi
er „virkilega bágborið“, að sögn
Gunnars Arnar Gunnarssonar,
framkvæmdastjóra Nýsköpunar-
sjóðs. Ástæðan er sú að sjóðurinn
hefur sem stendur ekki bolmagn
til að fjárfesta í nýjum hugmynd-
um umfram það sem hann hefur
þegar gert. Íslensk fyrirtæki og
einstaklingar líta mest til fjárfest-
inga erlendis, segir Gunnar Örn
og kveðst hafa áhyggjur af því.
„Það er ljóst að umhverfið á
markaðinum hefur breyst mjög
mikið,“ sagði Gunnar Örn. „Fyrir
nokkrum árum var töluvert um að
fyrirtæki og sjóðir væru að fjár-
festa í sprotafyrirtækjum. Þetta
gjörbreyttist í kringum 2001. Ný-
sköpunarsjóður, sem starfað hef-
ur í sjö ár, var mjög atkvæðamik-
ill í að fjárfesta í nýjum fyrir-
tækjum fyrstu fimm árin. Að
meðaltali var hann að setja um
milljarð á ári inn í nýsköpunar-
ferlið. Nú hefur sjóðurinn ekki
lengur bolmagn til þessa. Hlut-
verk hans í dag er að standa þétt
við þær fjárfestingar og fyrirtæki
sem hann á í, hefur trú á og munu
geta skilað honum hagnaði í fram-
tíðinni, þegar þau verða seld. En
hann hefur ekki farið inn í nýjar
fjárfestingar í á annað ár.“
Gunnar Örn sagði að forráða-
menn Nýsköpunarsjóðs hefðu átt í
viðræðum við ríkisvaldið um að
brúa bilið, þar til sjóðurinn gæti
selt nægilega mikið af eignum og
haldið áfram. Hefði verið farið
fram á tvo milljarða, sem myndu
dreifast á næstu tvö til þrjú ár.
„Þá höfum við komið þeirri
hugmynd á framfæri að ef Síminn
yrði seldur fyndist okkur ekki
óeðlilegt að hluti af söluverðmæt-
inu myndi renna til nýsköpunar í
hátæknifyrirtækjum framtíðar-
innar. Síðastliðið vor voru sam-
þykkt lög á Alþingi sem heimiluðu
Nýsköpunarsjóði að stofna sjóði
með öðrum. Við höfum farið til sjö
stærstu lífeyrissjóða í landinu og
kynnt hugmynd þar að lútandi
fyrir þeim. Þeir eru tilbúnir að
skoða hugmynd að slíku sam-
starfi, en engin ákvörðun hefur
verið tekin. Við vitum að lífeyris-
sjóðirnir eru að fjárfesta í slíkum
áhættufjárfestingasjóðum erlend-
is og því er það að okkar mati eðli-
legt að þeir skoði einnig slíka
kosti hér heima.“
jss@frettabladid.is
PÁFINN BLESSAR
Jóhannes Páll páfi II hélt bænastund frá
svölum Vatikansins í gær. Hvatti hann
meðal annars almenning til að þakka Guði
fyrir góða uppskeru.
VÍGSLA SJÓNARHÓLS
Á myndinni má sjá verndara landssöfnunar Sjónarhóls, sem fram fór í nóvember í fyrra;
forsetafrúna Dorrit Moussaieff ásamt forsetanum Ólafi Ragnari Grímssyni og Jóni Krist-
jánssyni heilbrigðisráðherra.
GUNNAR ÖRN GUNNARSSON
Íslensk fyrirtæki og auðmenn áhættufjárfesta nær einungis erlendis nú um stundir.