Fréttablaðið - 06.01.2005, Qupperneq 53
21FIMMTUDAGUR 6. janúar 2005
Þetta er fyrirsögn sem myndi fá
margan sælkerann til að súpa
hveljur. Hvað myndum við gera hér
á landi ef ÁTVR myndi taka þá
ákvörðun að hætta sölu á rauðvíni
og selja aðeins hvítvín? Við vitum
flest að rautt og hvítt í þessu sam-
hengi er álíka ólíkt og svart og hvítt
en færri spá í muninum á lager bjór
og öli (ale) sem er þó álíka af-
gerandi. Sem betur fer er fyrirsögn-
in uppspuni en hins vegar eru sam-
bærilegir atburðir að gerast í heimi
bjórsins.
Ég hef lengi verið fyrir bjórinn
gefinn og hef lagt stund á bjór-
smökkun nú um þó nokkurt skeið
(sjá www.bjorbok.net) Bjórsmökk-
un mín hófst frekar rólega þar sem
úrvalið var ekkert til að hrópa húrra
fyrir. Ekki leið á löngu uns ég hafði
smakkað allan þann bjór sem í boði
var og það rann upp fyrir mér
hversu lélegt úrval bjórs var á
Íslandi, það vantaði nánast allt öl.
Að vísu er stutt síðan við Íslending-
ar máttum hreinlega ekki versla
bjór í heimahögunum og erum við
því ung bjórdrykkjuþjóð. Hingað til
höfum við því haft afsökun fyrir lé-
legu úrvali. Þróunin lofaði góðu í
upphafi og við höfum orðið vitni að
komu öls m.a. frá Belgíu eins og
Duvel, Chimay, o.fl. Þetta eru allt
bjórar á heimsmælikvarða og fram-
tíðin virtist því björt, en Adam var
ekki lengi í paradís því í dag hefur
markaðurinn og íslensk bjórmenn-
ing orðið fyrir miklu áfalli. Fréttir
um að Chimay, Hoegaarden, Orval,
Westmalle og sjálfur konungurinn
Duvel séu dottnir út af markaði
koma eins og blaut tuska framan í
andlit okkar bjórgæðinga og maður
skilur ekki hvað er að gerast. Eru
Íslendingar einfaldlega bara þröng-
sýnir og íhaldssamir og vilja bara
sama gamla lagerinn til að drekka
frá sér allt vit um helgar, eða má
kenna um fáfræði, skorti á upplýs-
ingum og ótrúlega háu verðlagi?
Íslendingar hafa gaman að því að
pæla í rauðvíni, koníaki og öðru víni
þannig að við virðumst hafa þetta í
okkur, við erum ekki lengur ein-
hverjir ófágaðir sveitalubbar borð-
andi úldinn þorramat í torfkofunum
okkar.
Vandinn liggur í áfengislögunum
og ÁTVR sem hefur einkaleyfi á
smásölu áfengis og stjórnar því
hvaða áfengi við Íslendingar getum
notið sem og verðlagi. Í dag er nán-
ast ómögulegt að koma með nýjan
bjór á markað því áður en hann
kemst í fasta sölu þarf að seljast
ákveðið magn af honum í reynslu-
sölu. En til að vara seljist þarf neyt-
andinn svo að vita um tilvist hennar
og til þess að gera það þarf að aug-
lýsa hana sem aftur er ólöglegt á
Íslandi. Þetta er því óttalegur víta-
hringur. Enn fremur er álagning á
bjór ótrúleg og við getum státað af
dýrasta bjór veraldar. Ný vara eins
og hágæða bjór kemur því í reynslu-
sölu án þess að nokkur viti af henni
og þeir fáu sem uppgötva hana fyrir
tilviljun þurfa að punga út formúum
til þess að njóta hennar. Buddan
leyfir einfaldlega ekki tilraunir með
„skrítinn“ bjór. Það er kominn tími
til að gefa léttvín frjálst og auka
þannig samkeppni, lækka verð og ná
bjórmenningunni upp á svipuð plön
og víðast hvar í heiminum í kringum
okkur. Það eru lágmarks mannrétt-
indi að fá að njóta bjórs, eins elsta
og merkasta drykk mannkyns. ■
Rauðvínssölu hætt á Íslandi!
R. FREYR RÚNARSSON
SAMEINDALÍFFRÆÐINGUR
UMRÆÐAN
VÍNMENNING
Á ÍSLANDI
Óvenjulegt atvik
Mig langar hins vegar til að segja frá
því eina óvenjulega sem gerðist um
áramótin: Þegar ég var að moka stétt-
ina á gamlársdag heyrði ég háan hvell
sem var þó líkari þyt en sprengingu,
horfði á eitthvað sem líktist ryki
þyrlast upp og síðan skalf ljósastaur-
inn í langan tíma. Í eitt andartak
tengdi ég þetta við flugelda sem
höfðu sprungið af og til allan daginn
en svo rann upp fyrir mér að það gat
ekki staðist. Ég gekk að ljósastaurnum
og þarna lá grágæs í roti. Hún hafði
einfaldlega flogið á straurinn. Klaufa-
fugl. Ég hef af eðlilegum ástæðum
samúð með fýsískum klaufaskap. Eftir
dálitla stund rankaði hún úr rotinu,
stóð upp, slagaði burt og tókst síðan á
loft. Hana hafði greinilega ekki sakað.
Ennþá getur lífið komið manni á óvart
þó að í smáu sé.
Ágúst Borgþór Sverrisson á agust-
borgthor.blogspot.com
Harkaleg viðbrögð
Það eru dálítið harkaleg viðbrögð við
nýársræðum Halldórs Ásgrímssonar
og Karls Sigurbjörnssonar um fjöl-
skyldugildin að líta svo á að þeir vilji
reka konurnar aftur inn á heimilin –
að umhyggja þeirra fyrir fjölskyldunni
sé í rauninni karlremba. En sjálfsagt
hafa þeir báðir átt góðar mæður sem
voru heima þegar þörf var – gáfu
þeim heitan mat í hádeginu og eitt-
hvað gott með kaffinu. Ég held meira
að segja að biskupsmóðirin hafi alla
tíð verið í þjóðbúningi. Ég get samt
ómögulega séð að forsætisráð-
herrann og biskupinn séu að gera út á
samviskubit kvenna sem geta ekki
boðið börnum sínum slíkar traktering-
ar. Mér finnst allavega dálítil eftirsjá í
stórfjölskyldunni – hvað sem líður
kvenfrelsi, nútímalegum lifnaðarhátt-
um og fjölmenningu.
Egill Helgason á visir.is
Ágætt hjá forsetanum
Ágætt hjá forseta vorum að kveða upp
úr með það að aldrei aftur mætti
koma kennaraverkfall – eða að börn-
in mættu aldrei aftur kynnast skóla-
starfi sem iðjuleysi hvernig sem hann
orðaði þetta nú. Slík orð um áramót
eða á hátíðarstundu eru ágæt en
duga nú skammt. Kennarar eru lang-
tífrá ánægðir með kjör sín – sveitarfé-
lögin munu áfram búa við harðan
kost því að við munum alltaf kjósa þá
yfir okkur sem lofa skattalækkun. Eftir
fimm ár verða komnir nýir og ferskir
forystumenn kennara – ný bylgja af
ungu og áhugasömu fólki - einnig um
bættan hag sinn. Uppskrift af kenn-
araverkfalli er til staðar. Enginn vilji er
til staðar að afnema verkfallsrétt. Vita-
skuld verða fleiri kennaraverkföll.
Baldur Kristjánsson á baldur.is
AF NETINU
SENDIÐ OKKUR LÍNU
Við hvetjum lesendur til að senda okk-
ur línu og leggja orð í belg um málefni
líðandi stundar. Greinar og bréf skulu
vera stutt og gagnorð. Eingöngu er tek-
ið á móti efni sem sent er frá Skoðana-
síðunni á visir.is. Þar eru nánari leið-
beiningar. Ritstjórn ákveður hvort efni
birtist í Fréttablaðinu eða Vísi eða í
báðum miðlunum að hluta eða í heild.
Áskilinn er réttur til leiðréttinga og til
að stytta efni.