Fréttablaðið - 21.02.2006, Blaðsíða 36
21. febrúar 2006 ÞRIÐJUDAGUR24
menning@frettabladid.is
Kl. 17.00
Jeffrey Nebolini flytur fyrirlestur
um grafíska hönnun í LHÍ í Skip-
holti 1. Nebolini hefur sem grafísk-
ur hönnuður unnið fyrir fjölda viðskiptavina,
allt frá risafyrirtækjum til enstaklinga.
Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku og
nefnist „ Graphic Design from the Neck Up
- Expanding the field at Cranbrook Academy
of Art“, eða Grafísk hönnun frá hálsmáli og
upp úr - að færa út kvíarnar við Cranbrook
Academy of Art.
!
Þau Jón Atli Jónasson og Ösp Viggósdóttir koma
fram á Skáldaspírukvöldi í Iðu í kvöld. Þau lesa
bæði úr skáldsögum sínum, sem komu út á síðasta
ári. Þetta eru fyrstu skáldsögur þeirra beggja, en
Jón Atli hefur áður sent frá sér smásögur auk þess
að hafa sent frá sér hvert leikritið á fætur öðru á
síðustu árum.
Jón Atli les úr skáldsögu sinni, Í frostinu, sem
kom út núna fyrir jólin. Þar segir frá ungri einstæðri
móður í Reykjavík sem þvælist á milli skylduverka
og skemmtana, að því er virðist án tilgangs og
stefnu.
Ösp les úr skáldsögu sinni, Níunda sumar Úlfs,
þar sem segir frá ungum dreng sem býr í litlu þorpi
fyrir norðan. Níunda sumarið hans reynist við-
burðaríkt, hann finnur til dæmis fjöður af engli og á
sunnudögum hittir hann Guð og fær pönnukökur.
Báðar bækurnar hafa notið vinsælda lesenda og
eru gestir hvattir til að vekja upp umræður að lestri
loknum.
Skipuleggjari Skáldaspírukvöldanna er Benedikt
S. Lafleur, en þetta kvöld er hið 55. í röðinni frá því
að Skáldaspírukvöldin hófust. Núna í vetur hafa
þau verið haldin vikulega í bókaversluninni Iðu við
Lækjargötu. Upplesturinn fer fram í bókahorninu
á jarðhæðinni, en gestum er frjálst að koma með
veitingar að ofan.
Jón Atli og Ösp lesa í Iðu
JÓN ATLI JÓNASSON
Þau Ásdís Valdimarsdóttir,
Michael Stirling og Stein-
unn Birna Ragnarsdóttir
glíma við Brahms á tónleik-
um í Salnum annað kvöld.
„Tríóið er eitt af fallegustu verkum
sem ég þekki,“ segir Ásdís Valdi-
marsdóttir víóluleikari um Tríó í a-
moll fyrir víólu, selló og píanó eftir
Johannes Brahms.
Á tónleikum í Salnum í Kópa-
vogi annað kvöld ætlar Ásdís að
flytja þetta tríó ásamt eiginmanni
sínum, Michael Stirling, sem
leikur á selló, og Steinunni Birnu
Ragnarsdóttur píanóleikara.
„Þetta er fyrsta verkið sem
Brahms samdi eftir tímabil þar
sem hann átti í erfiðleikum með að
skrifa. Það var svo klarinettuleik-
ari sem veitti honum innblástur og
þá samdi hann þetta gullfallega
tríó. Það er eitthvað svo sérstak-
lega innilegt við það,“ segir Ásdís
og Steinunn Birna tekur hiklaust
undir það.
„Þessi músík er ekkert venju-
leg. Brahms er svona gæsahúðar-
tónskáld og í tónlistinni hans er
bæði mikil dýpt og mikill sársauki
- eins og hjá þessum körlum öllum.
Þeir voru ekki neinir trúðar heldur
fólk sem hafði sterkar tilfinningar
og gekk í gegnum ýmislegt.“
Til dæmis segir Steinunn Birna
að óendurgoldin ást Brahms til
Klöru Schumann svífi yfir vötn-
unum. „Það heyrist alveg ábyggi-
lega í tríóinu, sérstaklega ef vel er
hlustað.“
Á tónleikunum ætla þær Ásdís
og Steinunn Birna einnig að flytja
báðar víólusónöturnar sem Brahms
samdi. Þessi þrjú verk, tríóið og
sónöturnar tvær, eru í miklum
metum hjá víóluleikurum, enda er
þarna saman komið allt það helsta
sem Brahms samdi fyrir víólu.
Ekki er algengt að þessi verk
séu öll þrjú flutt saman á tónleik-
um. „Það er ögrandi verkefni að
takast á við þessi þrjú verk í einum
rykk,“ segir Steinunn Birna.
„Þetta er stór og mikill biti en líka
ofboðslega fallegur og það er þessi
fegurð sem gerir það að verkum að
maður leggur svona á sig.“
Með þessum tónleikum láta þau
gamlan draum sinn rætast, sem er
að flytja þessi þrjú stóru víóluverk
Brahms. Um leið ætla þau að taka
þessi þrjú verk upp og gefa út á
disk síðar á árinu.
Ásdís Valdimarsdóttir lauk
námi frá Juilliard-tónlistarháskól-
anum í New York, en starfsvett-
vangur hennar hefur síðan verið í
Evrópu.
Hún hefur verið mjög virk í
tónlistarlífinu þar, bæði sem ein-
leikari og þátttakandi í kamm-
ermúsík, og unnið með mörgum
heimsþekktum listamönnum.
Brahms-tónleikar þeirra Ásdís-
ar, Michaels og Steinunnar Birnu
hefjast klukkan 20 annað kvöld. ■
Engin venjuleg tónlist
ÁSDÍS VALDIMARSDÓTTIR OG STEINUNN BIRNA RAGNARSDÓTTIR Þær ætla að flytja helstu víóluverk Brahms á tónleikum í Salnum annað
kvöld ásamt sellóleikaranum Michael Stirling.
> Ekki missa af ...
... Vetrarhátíð í Reykjavík sem
hefst á fimmtudag og stendur
fram á sunnudag með fjölmörg-
um menningarviðburðum.
... Háskólatónleikum í Norræna
húsinu í hádeginu á morgun þar
sem KaSa-hópurinn flytur tón-
list eftir Sveinbjörn Sveinbjörns-
son og Leif Þórarinsson.
... sýningu Gabríelu Friðriks-
dóttur í Listasafni Reykjavíkur,
Hafnarhúsinu, þar sem hún sýnir
framlag sitt til Feneyjatvíærings-
ins á síðasta ári.
HVAÐ? HVENÆR? HVAR?
FEBRÚAR
18 19 20 21 22 23 24
Þriðjudagur
■ ■ TÓNLEIKAR
20.00 Finnski píanóleikarinn
Katariina Liimatainen og tékkneski
fiðluleikarinn Dagmar Prochazka
leika tónlist eftir Joonas Kokkonen,
Kai Nieminen, Igor Stravinsky og Bela
Bartok í Norræna húsinu.
■ ■ FYRIRLESTRAR
12.00 Ásta S. Helgadóttir, for-
stöðumaður Ráðgjafarstofu um fjár-
mál heimilanna, flytur erindi tilgang
og starfsemi Ráðgjafarstofunnar á
Lögfræðitorgi Háskólans á Akureyri, í
stofu L201 Sólborg við Norðurslóð.
12.10 Birna Þórarinsdóttir
flytur fyrirlesturinn “Jeppar og
jakkaföt? Kynjamyndir í íslenskri
utanríkisstefnu” á hádegisfundi
Sagnfræðingafélags Íslands í
Þjóðminjasafni Íslands.
17.00 Jeffrey Nebolini flytur fyrir-
lestur um grafíska hönnun í LHÍ í
Skipholti 1.
■ ■ FUNDIR
16.30 Samtök móðurmáls-
kennara, Félag íslenskra fræða
og Íslenska málfræðifélagið
efna til málþings um styttingu
náms til stúdentsprófs í fyrir-
lestrarsal Þjóðarbókhlöðunnar.
Framsögumenn verða Halla
Kjartansdóttir, Dagný
Kristjánsdóttir, Guðrún
Þórhallsdóttir, Halldóra Björt
Ewen og Sigurður Konráðsson.
■ ■ BÆKUR
20.00 Að þessu sinni lesa Jón Atli
Jónasson og Ösp Viggósdóttir
upp úr nýjum bókum sínum á
Skáldaspírukvöldi í Iðu í Lækjargötu.
Upplýsingar um viðburði og sýningar
sendist á hvar@frettabladid.is ekki
síðar en sólarhring fyrir birtingu.