Fréttablaðið - 27.02.2006, Síða 22
27. febrúar 2006 MÁNUDAGUR
Litla dúkkuhúsið að Vörðustíg
2 í Hafnarfirði er að verða
mikill dýrgripur.
„Við reynum að halda öllu sem upp-
runalegustu og förum alveg eftir
bókinni,“ segir Magný Jónsdóttir,
sem ásamt eiginmanni sínum Reyni
Sigurðssyni er að endurbyggja
húsið að Vörðustíg 2. Það hefur
staðið í látleysi á grunni sínum frá
árinu 1916 og fyrir tveimur árum
stóð til að það viki fyrir nýbygg-
ingu. „Hjartað í mér tók kipp þegar
ég frétti að þetta hús ætti að hverfa
því þar hafði nánast engu verið
breytt frá upphafi,“ segir Magný,
sem eignaðist húsið með því að
bjóða betur en sá sem ætlaði að
rífa það. Hún segir þau hjón hafa
notið ráðlegginga Magnúsar Skúla-
sonar hjá Húsafriðunarnefnd við
endurbæturnar og að húsið hafi
hlotið styrk úr húsverndarsjóði
Hafnarfjarðarbæjar á liðnu ári.
Grunnflötur hússins er aðeins
um 32 fermetrar og íbúðin var á
einni hæð en geymslur uppi í risi
og í kjallara. Nú hafa Magný og
Reynir látið stækka kjallarann og
koma þar fyrir nútíma snyrtingu
og svefnherbergi sem gengið er
niður í úr stofunni. Að utanverðu
er húsið komið í endanlegt horf en
inni eru mörg handtök eftir. Allt
þarf að sérsmíða, hurðir, glugga og
lista, til að yfirbragðið verði
nákvæmlega eins og það var. „Þetta
er dýrt því það verður að hugsa
fyrir hverju smáatriði,“ segir
Magný og strýkur panelinn í stof-
unni, sem er ótrúlega heillegur og
verður pússaður upp. Gólfin fá
svipaða meðferð og meira að segja
litla eldhúsinnréttingin frá 1916
verður látin halda sér. „Svo verður
kamína í litlu stofunni,“ segir
Magný brosandi og bætir við. „Það
verður að láta rjúka úr litla skor-
steininum öðru hvoru.“
gun@frettabladid.is
Eldhúsinnrétting frá 1916
Vinalegur snerill.
Litla húsið er í góðum félagsskap annarra með upprunalegt yfirbragð. Grjóthleðslan neðan við húsið er á minjaskrá.
Húsið við Vörðustíg 2 stendur rétt ofan við
höfnina og hefur horft á skipin koma og
skipin fara síðan 1916.
Eldhúsinnréttingin frá 1916 verður pússuð
upp og látin lifa áfram.
Þótt enn sé margt ógert þar til Magný getur flutt inn hefur mikið áunnist. Það sér hún þegar hún skoðar filmur af húsinu eins og það var
þegar hún og Reynir keyptu það. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Húsið var í niðurníðslu þegar Magný og Reynir keyptu það enda hafði það staðið autt og
óupphitað í tíu ár. MYND/MAGNÝ