Fréttablaðið - 25.03.2006, Side 30

Fréttablaðið - 25.03.2006, Side 30
 25. mars 2006 LAUGARDAGUR30 Kiwanis er indjánamál og þýðir „Við höfum sam-skipti“. Fyrstu samskipti okkar Sigurbergs eru í rólegri götu í Hlíðunum: „Kom inn!“ heyr- ist kallað fyrir innan luktar dyr og þegar ég opna brosir hann mót mér úr hjólastól sem líkami hans hefur orðið æ háðari síðastliðin fjögur ár. „Það eru tólf ár síðan ég fór að finna fyrir máttleysi og þreytu í vöðvum, en þá var ég að vinna í hljóðfæraverslun ásamt Rafni heitnum Jónssyni tónlistarmanni, sem nú er látinn úr MND-sjúdómn- um. Það var um sama leyti og Rafn fékk greiningu sína að ég fékk mína, en það er fjölvöðvarýrnum sem er afar sjaldgæfur sjúkdóm- ur sem virkar nákvæmlega eins og MND nema þar eyðileggja taugaboð vöðva líkamans, meðan næring frá kirtlastarfsemi stöðv- ar uppbyggingu vöðva líkama míns þegar ónæmiskerfið ræðst á vöðva sem óvini og eyðir þeim eftir því sem maður reynir meira á sig,“ segir Sigurbergur af æðru- leysi, en hann má helst ekki blikka auga án þess að eyða vöðvum eins og hann orðar það í gríni. „Þetta var heilmikið áfall til að byrja með, en þegar maður á ekk- ert val reynir maður að sætta sig við orðinn hlut. Væri ég að velta fyrir mér allan daginn hvað ég ætti bágt væri ég skælandi í koddann minn út í eitt. Auðvitað koma stundir sem ég verð dapur en ég hef að mestu unnið mig út úr þessu,“ segir Sigurbergur, sem í eirðarleysi daganna fann sér nýjan tilgang í starfsemi Kiwanis- klúbbsins Kötlu. „Einna verst við veikindi er hægagangur tímans. Maður dett- ur fljótt úr félagslegum tengslum og áttar sig á því hverjir eru hinir sönnu vinir. Þeim má líkja við bækur í bókaskáp, sem maður veit hvar eru þótt maður sé ekki alltaf að lesa í þeim. Þannig eru góðir vinir; maður getur alltaf bankað upp á og það er ætíð opnað. Þannig hefur það líka reynst með Kiwanis- vini mína og þar af leiðandi gefið mér talsvert meira en mörgum öðrum að starfa með klúbbnum vegna þess að félagsleg þörf mín er standandi opin,“ segir Sigur- bergur, sem eyðir drjúgum tíma í starf fyrir Kiwanis sem hann getur unnið heiman frá sér í gegn- um tölvu. „Mér finnst gott að leggja mitt af mörkum; þá líður dagurinn, ég hringi í menn og sendi bréf, þeir koma og allt gefur það mér sam- skipti við fólk. Það var því happ að komast í tengsl við þessa hreyf- ingu og mannbætandi að vera þar inni.“ Foringjaefni og hugsjónir Kiwanis er alþjóðahreyfing sem starfar að mestum hluta í Banda- ríkjunum og Kanada, þar sem hún á uppruna sinn. „Þegar hún flæddi yfir Evrópu var Ísland eitt hið fyrsta sem inn- leiddi Kiwanis utan Ameríku. Þá viðgengust hér mikil höft og geng- isfellingar, og menn höfðu lítið við að vera. Til að byrja með stóðu að hreyfingunni forstjórar og ríkir menn sem sumir komu úr Frímúr- arareglunni og hittust á hádegis- fundum einu sinni í viku. Fyrsti klúbburinn var nefndur Hekla og tveimur árum síðar varð Katla til,“ segir Sigurbergur, sem sjálf- ur hefur verið tylft ára í hinni fer- tugu Kötlu. „Kiwanis breiddist um landið eins og eldur í sinu fyrir tilstuðlan forstjóra sem margir höfðu rúman tíma, ferðuðust víða, en tóku með sér Kiwanis-félaga meðan þeir funduðu í sjávarplássum til að afla félaga. Alls eru Kiwanis-klúbb- arnir fjörutíu talsins í dag; flestir á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sig- urbergur, sem fékk fyrst tilboð um inngöngu rúmlega þrítugur. „Þá hafði ég engan áhuga enda vinnandi myrkranna á milli eins og títt var um fjölskyldufeður. Þegar veikindin tóku mig úr ann- ríki vinnumarkaðarins og ég fór sjálfur að róast fór ég aftur á fund Kiwanis og fann strax að mér fannst gott að eiga þar staðfastan punkt og félagsskap,“ segir Sigur- bergur, sem er menntaður tónlist- arkennari, húsasmiður og skipa- smiður. „Megnið af starfsævinni starf- aði ég við smíðar og hljóðfæra- kennslu, en þegar tómarúmið kom í kjölfar veikindanna áttaði ég mig á því að við konan fórum aldrei neitt né gerðum eitthvað saman. Ég hafði verið að spila allar helgar dinnertónlist á Skálafelli, Mímis- bar og Grillinu, og konan átt sínar vinkonur sem hún hitti. Í Kiwanis kynntumst við einstökum mann- eskjum saman, en segja má að ein- kenni Kiwanis-manna sé mikið félagslyndi og þörf til að láta gott af sér leiða,“ segir Sigurbergur en Kiwanis-fundir eru haldnir tvisv- ar í mánuði þar sem félagsmenn hittast yfir snæðingi og notaleg- heitum auk þess að vinna að brýn- um góðgerðarmálum. „Félagskapur eins og Kiwanis er frekar á niðurleið því nýliðun gengur illa og margt annað sem ungum mönnum finnst meira spennandi, en þetta fer reyndar dálítið eftir klúbbum. Eftir því sem klúbburinn er eldri hækkar meðalaldurinn. Klúbbarnir eru því misungir; margir að því er virðist deyjandi en aðrir kröftugir eins og Eldey í Kópavogi og Höfði í Grafarvogi, þar sem eru menn frá 35 ára aldri og biðraðir eftir inngöngu,“ segir Sigurbergur en Kiwanis hefur á undanförnum árum staðið fyrir ungliðastarfi sem skilað hefur góðum árangri. „Í nýjasta klúbbnum úr Borg- arholtsskóla eru röskir strákar um tvítugt sem gera nákvæmlega það sama og við; leita verðugra verkefna til að láta gott af sér leiða. Það hefur sýnt sig að stór hluti öldungarþingmanna Banda- ríkjanna og þar á meðal Bill Clin- ton fyrrum Bandaríkjaforseti var í ungliðastarfi Kiwanis, en þar uxu þeir upp í foringjaefni, urðu meiri félagsverur en ella, með þeim jókst sjálfstraust og þeir lærðu samskipti og leiðir til að koma hugðarefnum sínum á framfæri.“ Margar hendur vinna létt verk Góðgerðarstarf Kiwanis beinist fyrst og fremst að börnum heims, en einnig einstaka málum er varða aðra minnihlutahópa. „Fyrst voru í Kiwanis kaup- sýslumenn sem ætluðu sér stóra hluti í viðskiptum, en það varð snemma umdeilt því stofnandinn hafði hugsað Kiwanis sem mann- gæskusamtök. Á hverju ári fær Kiwanis bréf frá einstaklingum og félagasamtökum sem leita aðstoð- ar, en þó hefur dregið úr því hin síðari ár. Árlega styrkjum við Íþróttafélag fatlaðra og þriðja hvert ár göngum við í hús og selj- um K-lykilinn en andvirði sölunn- ar rennur til Geðhjálpar og fyrir þá peninga var hús Geðhjálpar við Túngötu keypt,“ segir Sigurberg- ur og nefnir einnig til sögunnar liðsinni Kiwanis við börn. „Á vorin dreifum við hjóla- hjálmum til allra barna sem hefja nám í sex ára bekk um haustið. Eimskip gefur hjálmana og Sjóvá- Almennar sjá um dreifingu, en þannig fer vinnan fram; við beit- um okkur saman og fáum til liðs fyrirtæki sem leggja vilja málefn- inu lið. Dæmi er beiðni frá sam- býli í Kópavogi sem hafði fengið bíl gefins frá Heklu, en gat svo ekki rekið hann. Bréf barst um hvort við gætum styrkt rekstur bílsins en til þess þurfti trygging- ar og eldsneyti svo við fórum í Sjóvá-Almennar sem glaðir gáfu tryggingar til tveggja ára og lögð- um sjálfir fimmtíu þúsund krónur í bensín, en leituðum til Hreyfils sem vildi leggja það sama fram úr eigin bensíntönkum. Þannig gat sambýlið rekið bílinn næstu þrjú árin,“ segir Sigurbergur um eitur- snjöll úrræði Kiwanis. „Eitt merkasta verkefni Kiw- anis fór af stað hjá alþjóðahreyf- ingunni, meðal annars fyrir til- stuðlan Eyjólfs Sigurðssonar sem þá var heimsforseti Kiwanis, og nefnist Joðverkefnið. Joðskortur í ákveðnum heimshlutum olli því að konur urðu óbyrjur eða fæddu mjög vansköpuð börn, en manns- líkaminn þarf ekki meira en fram- an á hnífsoddi af joði til að koma í veg þennan joðskort, svo herför var gerð til að dreifa joði á þessu svæði og saltframleiðendur fengn- ir til að skaffa joðbætt salt sem dreift var sem borðsalti um allar þessar byggðir og nú þekkist joðskortur ekki lengur í veröld- inni,“ segir Sigurbergur stoltri röddu af árangri Joðverkefnisins sem enn er unnið með góðum árangri. Betra líf Á liðnum fjörutíu árum hefur Katla staðið fyrir stórmerkilegum framkvæmdum, sem fennt gæti yfir í minnisbönkum landsmanna með tímans tönn. „Ááttunda áratugnum var Ingólfur Guðbrandsson ferðamóg- úll forseti Kötlu, en hann hafði á ferðalögum sínum séð að hundar voru notaðir til fíkniefnaleitar í útlöndum. Hugmynd hans var fálega tekið af íslenskum stjórn- völdum; hundar gætu jú aldrei komið í stað manna. Ingólfur lét ekki segjast, fór út og náði í eitt stykki hasshund sem hann flutti sjálfur inn til landsins. Þetta kost- aði mikið vesen en hundurinn var á endanum gefinn Rannsóknarlög- reglunni og kom á daginn stór- merkilegur árangur hans við að finna fíkniefni í farangri,“ segir Sigurbergur og nefnir annað verk Kötlu sem braut blað í íslensku samfélagi. „Sendiferðabílstjóri hafði keyrt fatlaða í hjólastólum og bar upp þá hugmynd hvort Katla væri tilbúin að kaupa lyftu í bílinn svo auð- velda mætti flutningana. Þetta gerjaðist með mönnum en á end- anum var ákveðið að flytja inn sérútbúinn bíl frá Bandaríkjun- um, sem kallaðist Kiwanis-bíllinn. Gengisfelling varð á sama tíma og ekki nægir aurar til að leysa bílinn úr tolli en þá kom samvinnumátt- urinn fram þegar Kiwanis-klúbb- ar af öllu landinu lögðust á eitt og leystu út bílinn. Borginni var boð- inn bílinn en vildi ekki taka við honum svo næstu tvö árin keyrðu Kötlumenn bílinn upp á dag til skiptis og þá hóað í næsta vegfar- anda að hjálpa með stólana inn í hús. Á endanum var bílinn keyrð- ur í innkeyrslu Birgis Ísleifs Gunnarssonar, þáverandi borgar- stjóra, og lyklarnir settir í póst- kassann. Ekki leið nema vika þar til Ferðaþjónusta fatlaðra var stofnuð og Strætisvagnar Reykja- víkur tóku að sér aksturinn, en nú eru þessir bílar orðnir margir í þjónustu fatlaðra,“ segir Sigur- bergur og þakkar slíkar framfarir frjóum mönnum og stórhuga innan Kiwanis-hreyfingarinnar. „Það kom til tals að setja upp lyftu í sundlaug Sjálfsbjargar sem átti innflutt að kosta tugi milljóna. Innan Kötlu er snjall vélaverkfræð- ingur sem taldi víst að gera mætti lyftu fyrir minni pening, svo hann teiknaði hana sjálfur og lét smíða; eina í heita pottinn og aðra í sund- laugina, sem kostaði þrjár milljón- ir. Nú tilheyrir flestum sundlaug- um slíkur búnaður og þykir sjálfsagður,“ segir Sigurbergur, en lengi mætti telja stórvirki Kötlu þótt ljúfasta verkefnið hljóti að vera Kötludúkkan sem gefin hefur verið ungum sjúklingum Barna- spítala Hringsins um langa hríð. „Kötludúkkan er skemmtilegt fyrirbæri; handsaumuð taudúkka fyllt með tróði, án andlits og klæðnaðar, en börnin geta skapað sitt eigið þjáningarsystkin sem þau teikna á andlit og halda utan um til að gleyma eigin einsemd. Þurfi að sprauta barnið er dúkkan sprautuð fyrst og plástruð líka, en læknar og hjúkrunarfólk segir þetta gefast ákaflega vel,“ segir Sigurbergur brosmildur og í hátíð- legu afmælisskapi, enda afmælis- barnið rétt að byrja að fagna og heilt afmælisár eftir til afreka og gleðistunda. ■ Við höfum samskipti Í vorinu hjólar sjö ára stúlka áköf og ánægð með rauðan hjálm á höfðinu. Á Barnaspítala Hringsins knúsar lítill drengur taudúkku sem hann plástrar gegn einsemd og lasleika, en í henni á hann þjáningar- systkini. Þau eiga hjálminn og dúkkuna Kiwanisklúbbnum Kötlu að þakka, en Katla heldur upp á fjöru- tíu ára afmæli sitt 31. mars. Þórdís Lilja Gunnarsdóttir fór á fund Sigurbergs Baldurssonar, fyrrverandi forseta Kötlu, en í veikindum hefur Katla orðið honum annað og meira en öðrum félagsmönnum. KÖTLUDÚKKAN Ungur drengur á Barna- spítala Hringsins með Kötludúkkuna sér til halds og trausts í sjúkrarúminu, en með dúkkunni gleyma börnin eigin einsemd og vanlíðan. SIGURBERGUR BALDURSSON Í KIWANIS- KLÚBBNUM KÖTLU Sigurbergur er bundinn við hjólastól en var áður starfandi tónlistar- kennari og smiður. Hann segir félagsskap og starf innan Kiwanisklúbbsins Kötlu hafa gefið sér mikið og auðgað líf sitt, en Katla verður fertug í lok mánaðarins. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.