Fréttablaðið - 24.07.2007, Síða 19
Írski dresserinn er í miklu
uppáhaldi hjá Guðnýju Hall-
dórsdóttur kvikmyndaleik-
stjóra sem fann gripinn á
fornsölu í London. Hún fékk
skömm í hattinn frá föður
sínum fyrir að draga heim
breskan eldivið.
„Ég fékk skápinn á markaði í
Camden-hverfinu í London árið
1980. Hann er um hundrað ára
gamall og hefur staðið einhvers
staðar í húsi í London þangað til
ég fékk hann í hendurnar. Þessir
skápar eru með mörgum skúffum
og leynihólfum og voru mjög í
tísku á sínum tíma. Þeir eru alltaf
kallaðir írskir dresserar en þegar
ég fékk hann þóttu þessir gripir
ekki mjög smart lengur og þess
vegna nokkuð framboð af þeim,“
segir Guðný Halldórsdóttir kvik-
myndaleikstjóri sem hefur nýver-
ið lagt lokahönd á kvikmyndina
Veðramót sem frumsýnd verður
7. september.
Guðný hafði lengi haft augastað
á skápnum og fór oft niður í
Camden til að skoða hann áður en
hún fékk hann í hendurnar. „Ég
festi mér hann um leið og ég sá
hann fyrst og borgaði inn á hann.
Síðan kom ég oft til að heimsækja
hann og borga af honum. Skápur-
inn kostaði 900 pund á þeim tíma
og var mín eigin útskriftargjöf
þegar ég útskrifaðist úr kvik-
myndaskólanum í London. Síðan
dúndraði ég honum um borð í skip
á leið til Íslands, batt um hann
kaðal og skrifaði Reykjavík,
Ísland á hann,“ segir Guðný sem
segist hafa mætt nokkrum
skömmum frá föður sínum vegna
skápsins.
„Skápurinn er ákaflega illa
byggður og þegar faðir minn sá
fráganginn á bakhliðinni, skamm-
aði hann mig eins og hund fyrir að
flytja með mér breskan eldivið
yfir hafið. Síðan sá hann framan á
hann og gúdderaði hann,“ segir
Guðný hlæjandi.
Síðan skápurinn kom til Íslands
hefur hann alltaf haldið til í Mos-
fellsdal. Fyrst í foreldrahúsum
Guðnýjar að Gljúfrasteini og
síðan á hennar eigin heimili
skammt frá.
Hann er fyrirferðarmikill og
hefur sjaldan verið færður úr stað
með tveimur undantekningum.
„Hann hefur verið tekinn í sundur
tvisvar og færður til að komast í
vinnu hjá mér. Þá lék hann hlut-
verk í Skilaboðum til Söndru og
Karlakórnum Heklu. Annars væri
nær að byggja utan um hann frek-
ar en að færa hann til á heimil-
inu,“ segir Guðný sem segir að
skápurinn sé í fínu lagi þrátt fyrir
aldur og lélegan frágang. „Það
eina sem lætur á sjá eru hand-
föngin sem hundunum finnst svo
gott að naga.“
Að sögn Guðnýjar er búðin þar
sem skápurinn fékkst enn á sama
stað í London að selja eitthvað
Bretadrasl. Enda löng hefð fyrir
endurnýtingu á húsgögnum í
borginni.
„Þegar ég bjó í borginni kom
hestvagn eldsnemma á laugar-
dagsmorgnum og tók húsgögn
sem fólk vildi losa sig við. Síðan
fór þetta á einhvern flóamarkað,
ekki ósvipað Góða hirðinum hér.
Svo mér finnst líklegt að skápur-
inn hafi komið úr einhverri slíkri
ferð,“ segir Guðný.
Skömmuð fyrir
írska dresserinn