Fréttablaðið - 21.10.2008, Blaðsíða 29

Fréttablaðið - 21.10.2008, Blaðsíða 29
ÞRIÐJUDAGUR 21. október 2008 21 Nú er gaman að fara í leikhús, varð fullorðinni konu að orði að sýningu lokinni. Gunnar Eyjólfsson lék á alla sína strengi í túlkuninni á hinum brjóstumkennanlega aldraða Jón- atan sem blindur lítur til baka á sín eigin stóru mistök í lífinu. Okkur er það líklega mjög hollt að líta aðeins í baksýnisspegilinn, kynnast aftur því fólki sem ein- hvern veginn hvarf í skugga kaup- hallanna. Og mikið væri það nú gott núna ef einhver einn og aðeins einn risi upp og tæki á sig ábyrgðina á því að hafa siglt þjóðarskútunni í strand, blindur eða siðblindur. Í hinu ágæta leikriti Jökuls Jak- obssonar, Hart í bak, sem frum- sýnt var í Þjóðleikhúsinu á föstu- daginn, segir frá skipstjóranum Jónatan sem orðinn er nær elliær og blindur, en á fjörutíu árum fyrr að hafa siglt flaggskipi íslenska flotans í strand, sjálfri þjóðar- skútunni. Jónatan var á skip- stjórnartíma sínum í góðum efnum og bjó í fínu tvílyftu húsi en þegar við kynnumst honum hokrar hann hjá dóttur sinni sem framfleytir sér með spádómum og vændi. Á heimilinu býr einnig nítján ára sonur spákonunnar Áróru, Láki, sem flosnað hefur úr námi og helst ekki í vinnu. Hann kennir mistökum afans og líferni mömmunnar um uppgjöfina. Þau búa í kofa niður við slipp en höfðu áður búið á Stýrimannastíg eða einhvers staðar þar um slóðir. Spákonan Áróra hegðar sér þrátt fyrir fátæktina eins og hún sé enn ríkimannsprinsessan sem allir piltar bæjarins þráðu á sínum tíma. Hún er í slagtogi við Finn- björn ruslasala sem hefur efnast á þrotlausu basli svona til þess að sýna hinum, og var bara fátækur þræll meðan hún var skipstjóra- dóttirin fína en nú hafa hlutverkin snúist við þannig að hann er ekki aðeins bjargvættur hennar heldur einnig kúgari. Stígur er skósmiður og mikill guðsmaður. Líklega kynntur til leiksins til að sýna okkur að Jón- atan vill engum skulda þar sem hann getur ekki borgað fyrir skó- viðgerð og heimtar að Stígur fari aftur með skóna, en einnig er Stígur notaður sem eins konar trúður eða upplyfting í hinu ann- ars nokkuð tilbreytingarlausa og vonlausa lífi hinna persónanna. Austan af landi birtist allt í einu ung stúlka hvers móðir hafði þekkt Áróru og þar sem hún þekk- ir engan í bænum æxlast hlutirn- ir þannig að hún flytur inn til þeirra. Hjalti Rögnvaldsson fer með hlutverk kennarans Péturs, mið- aldra piparsveins sem trúir á Láka og gerir allt til þess að hjálpa honum. Hjalti nær hér fantagóðum tökum á þessum gegnheila korrekt manni og faðm- lag þeirra Láka, þegar hann lofar að kosta hann til liðsforingja- námsins er eitt af eftirminnileg- ustu atriðum þessarar uppfærslu, Elva Ósk Ólafsdóttir túlkar hlut- verk Áróru af innsæi og festu og lögn á þessari sterku persónu hjá leikstjóra er að hún stendur allan tímann með ákvörðunum sínum, hverjar sem þær eru. Elva sýnir hér að vanda að í henni er glóð sem þarf ekki nema að blása í til þess að allt hitni. Kjartan Guðjónsson hefur mikla kómíska hæfileika og eng- inn vandi að láta hann sprella. Hér er leikstjórinn greinilega með dempara á honum sem gerir það að verkum að túlkun hans á Stíg skósmið og furðufugli verður hreinlega eitt það besta sem hann hefur tekist á við. Engar öfgar, bara ótrúlega ámátlegur og fynd- inn. Jökull Jakobsson hefði orðið sjötíu og fimm ára í ár og sjálf- sagt að heiðra hann og minnast sem leikritaskálds og það er eng- inn vafi á því að endursýning Hart í bak á einkar vel við þótt leikritið sem slíkt sé meira eintal margra persóna heldur en eiginlegt fram- vinduverk. Það er greinilegt að mikil vinna hefur verið lögð í persónusköpun og textavinnu enda verður það nokkuð á kostnað búninga og lýs- ingar. Ungu stúlkurnar þrjár, vin- konur Láka, sem þær Þórunn Lár- usdóttir og Esther Talía Casey leika, og Árdís eru í nútímadress- um, sem er svo sem ekkert nýtt innan leiklistarsögunnar, meðan aðrir eru búningum frá fimmta eða sjötta áratugnum. Þetta val að láta þær skoppa um í þessum lit- skrúðugu spútnik-klæðum er kannski til að fá einhvers konar tímaleysi og sýna að unglingar eru alltaf nákvæmlega eins. Árdísi leikur Þóra Karítas Árna- dóttir af mannlegri hlýju og þó svo að hún hafi einnig verið leit- andi, kom til þess að finna föður sinn, er hlutverk hennar þó eins konar andstæða hinna, því henni er ekki nuddað upp úr því að hafa siglt þjóðarskútunni í strand. Jónatan verður eins og þjónn- inn í Kirsuberjagarðinum, aleinn eftir þegar allir eru farnir. Skver- ar sig upp í úniformið og hyggst hitta þá menn sem nú ráða á kontórnum eins og hann er búinn að vera að skipuleggja með sjálf- um sér síðustu hálfa öld. Þegar leiknum lýkur, Áróra farin til Friðbjarnar, Láki á leið í liðsfor- ingjanám og Jónatan leiddur út úr sinni veröld af byggingaverka- mönnum, en hans bíður elliheimil- ið sem hann er ekki par hrifinn af, er eins og nýr tími taki við. Gamli tíminn víkur fyrir hinum nýja og er ekki að vita nema hægt væri síðar að snúa einmitt þessu lokaatriði við, það er: vistmenn elliheimila bera út byggingaverk- taka. Það eru ýmis gullkorn í texta Jökuls Jakobssonar sem fellur einstaklega vel að ástandi líðandi stundar, enda sýndu viðbrögð áhorfenda það. Þetta er vel unnin og vönduð sýning af hendi leik- stjórans Þórhalls Sigurðssonar, þó hún hafi verið full hæg í fyrri hlutanum, en stjarna kvöldsins var tvímælalaust einn elsti starf- andi leikari landsins, Gunnar Eyj- ólfsson. Gunnar svíkur engan í túlkun sinni, með varfærnislegri nálgun af virðingu og elsku á manni sem haldinn er þráhyggju iðrunar. Engar öfgar í hreyfing- um hins sjónskerta og þrátt fyrir angistina skilaði sér hvert orð og atkvæði út í öll horn Þjóðleikhúss- ins. Elísabet Brekkan Ég skulda ekki Guði, ég skulda fólkinu LEIKLIST Stjarna kvöldsins er Gunnar Eyjólfsson. MYND ÞJÓÐLEIKHÚSIÐ/EDDI LEIKLIST Hart í bak eftir Jökul Jakobsson Leikstjóri: Þórhallur Sigurðsson Leikmynd: Sigurjón Jóhannsson Búningar: Margrét Sigurðar og Sigur- jón Jóhannsson Tónlist: Jóhann G. Jóhannsson Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason Leikarar: Gunnar Eyjólfsson, Elva Ósk Ólafsdóttir, Þórir Sæmundsson, Hjalti Rögnvaldsson, Þóra Karítas Árnadótt- ir, Pálmi Gestsson, Esther Talía Casey, Þórunn Lárusdóttir og Baldur Trausti Hreinsson. ★★★★ Vel unnin og vönduð sýning í samstarfi við Borg arleikhúsið kynnir: Höfundar og flytjendur: Margrét Sara Guðjónsdóttir Sveinbjörg Þórhallsdóttir Jared Gradinger 30. október kl. 20 - UPPSELT 1. nóvember kl. 15 2. nóvember kl. 20 Aðeins þessar 3 sýningar! Sýnt á Stóra sviði Borgarleikhússins Tryggðu þér miða núna! 568 8000 / midi.is PRIVATE DANCER www.panicproductions.is MENNTAMÁLARÁÐUNEYTIÐ www.takk. is

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.