Fréttablaðið - 21.12.2008, Page 10
10 21. desember 2008 SUNNUDAGUR
SAMFÉLAGSMÁL Illugi Gunnarsson, þingmaður
Sjálfstæðisflokks, hefur fengið það vandasama
verkefni að vera organisti í Flateyrarkirkju á
aðfangadag. „Ég var organisti þarna meðfram
öðrum störfum eftir snjóflóðið 1995 en þá vann
ég í verksmiðjunni Skelfiskur,“ segir Illugi. „Ég
hafði svo sem ekki mikinn bakgrunn í orgelspili
en ég tók þetta að mér að spila í messunum og
ætli mér hafi ekki orðið einstaka sinnum á í
messunni líka,“ segir hann og hlær við.
Að þessu sinni mun hann þó koma með
dýrmæta reynslu að orgelinu í Flateyrarkirkju.
„Ég fór út og var nokkra mánuði í Róm árið
1997 þar sem ég lærði hjá James Edward
Goettsche sem var yfirorganisti í Vatíkaninu.
Þetta var alveg ógleymanlegur tími. Svo var ég
svo lánsamur að fá að taka þátt í páskamess-
unni í Vatíkaninu. Framlag mitt var reyndar
ekki svo ýkja mikilfenglegt en ég hafði það
hlutverk að fletta nótnablöðunum fyrir
organistann. En hvað sem því líður þá hef ég
allavega upplifað það að vera við messu hjá
Jóhannesi Páli páfa II.“
Illugi hefur verið, eins og aðrir þingmenn, í
karpi um fjárlögin og gefst því ekki mikill tími
til undirbúnings við orgelleikinn. Í gamansemi
segir hann það miður að ekki skuli vera hægt að
slá þessu tvennu saman og spila fjárlögin.
Aðspurður hvort hann kvíði því að spila í
messunni vegna lítils tíma til undirbúnings
segir hann, „nei,nei. Það er nú venjulega þannig
að ef réttu nóturnar eru fleiri en feilnóturnar
þá er manni alveg óhætt að láta sjá sig meðal
fólks á eftir,“ segir hann hógvær. Þeir sem vilja
heyra fínpússaðan hljóðfæraleik þingmannsins
geta eflaust gert það þótt hann sé önnum
hlaðinn en hann gaf út geisladisk með píanóleik
sínum árið 2004.
Hann vann til margra ára á Flateyri og fer
þangað oft enda giftur Brynhildi Einarsdóttur
sem er þaðan; dóttur Einars Odds heitins
Kristjánssonar.
jse@frettabladid.is
Úr þinginu í orgelleik um jól
Illugi Gunnarsson þingmaður verður organisti Flateyrarkirkju í messunni á aðfangadag. Hann hefur
numið orgelleik í Róm og tók þátt í páskamessu hjá Jóhannesi Páli páfa í Vatíkaninu.
ILLUGI GUNNARSSON VIÐ PÍANÓIÐ Þingmaðurinn mun
sjá um orgelleik í messunni á aðfangadag í Flateyrar-
kirkju. Fjárlögin verða ekki á efnisskránni.
STJÓRNSÝSLA Sameining sveitar-
félaga er ráðstöfun sem hlýtur að
koma til alvarlegrar skoðunar í
hagræðingaraðgerðunum sem nú
er gripið til í samfélaginu öllu.
Þetta er mat Halldórs Halldórsson-
ar, bæjarstjóra á Ísafirði og for-
manns Sambands íslenskra
sveitarfélaga.
Halldór telur reynsluna af þeim
sameiningum sem orðið hafa á síð-
ustu tæpu tuttugu árum almennt
góða en frá 1990 hefur sveitar-félög-
um fækkað úr 224 í 78. „Þegar hefur
verið hagrætt mikið en ég er sann-
færður um að það eru miklir mögu-
leikar á frekari hagræðingu,“ segir
Halldór sem er til dæmis þeirrar
skoðunar að sameina beri öll sveit-
arfélög á Vestfjörðum í eitt.
Halldór segir að við sameiningu
sveitarfélaga sparist fyrst og
fremst peningar með fækkun yfir-
stjórna. Þar geti hlaupið á talsvert
háum fjárhæðum. Á móti komi að
oft verði til nýr kostnaður, til
dæmis, vegna almenningssam-
gangna og margvíslegrar nærþjón-
ustu. Nettóniðurstaðan sé engu að
síður sparnaður en hafa beri í huga
að hann skilar sér ekki endilega
strax.
Fyrir nokkrum árum kynnti Þórð-
ur Skúlason, þáverandi fram-
kvæmdastjóri Sambands sveitarfé-
laga, eigin hugmyndir um
sameiningu. Gerðu þær ráð fyrir
rúmlega þrjátíu sveitarfélögum í
landinu. Halldór segist telja hug-
myndir Þórðar góðar, raunhæft sé
að fækka sveitarfélögum um rúm-
lega helming. - bþs
Formaður Sambands sveitarfélaga segir sameiningar kost í sparnaðaraðgerðum:
Mikið sparast við fækkun yfirstjórna
HALLDÓR HALLDÓRSSON Formaður
Sambands íslenskra sveitarfélaga.
DÓMSMÁL Rúmlega tvítugur
maður hefur verið dæmdur í níu
mánaða fangelsi fyrir að flytja
með flugi frá Kaupmannahöfn
215,52 grömm af kókaíni sem
hann faldi innvortis. Efnin ætlaði
hann til sölu og dreifingar.
Maðurinn játaði brot sitt
skýlaust fyrir dóminum.
Umræddur maður á sakaferil að
baki, bæði ítrekuð fíkniefnabrot
og ölvunarakstur.
Við ákvörðun refsingar nú leit
dómurinn til þess að maðurinn er
ungur að árum og hefur játað
brot sitt. Vegna alvarleika
málsins þótti skilorðsbinding hins
vegar ekki koma til greina. - jss
Rúmlega tvítugur maður:
Í fangelsi fyrir
kókaínsmygl
STJÓRNMÁL Siv Friðleifsdóttir,
þingmaður Framsóknar, segist
aldrei hafa fengið lán til hluta-
bréfakaupa í
Decode.
Hún vísar á
bug fullyrðing-
um sem gengið
hafa um netið
ljósum logum.
Þar er hún sögð
hafa fengið 75
milljónir á
vildarkjörum til
að kaupa
hlutabréf í
Decode. Þetta lán sé verið að
afskrifa í Landsbankanum.
„Ég hef ekki tekið lán til
hlutabréfakaupa í Landsbankan-
um, sem er minn viðskiptabanki,
og ég hef ekki fengið neitt
afskrifað. Punktur.“ - kóþ
Siv Friðleifsdóttir:
Fékk aldrei lán
fyrir Decode
BJÖRGUNARSTÖRF Pakistanskir
björgunarmenn leituðu í gær að fólki
í rústum verslunarkjarna í Rawalpindi
í Pakistan en verslunarkjarninn hrundi
eftir að hann varð eldi að bráð. Að
minnsta kosti einn hefur fundist látinn
í rústunum og þá hafa tólf fundist
alvarlega slasaðir. NORDICPHOTOS/AFP
SIV
FRIÐLEIFSDÓTTIR