Tíminn - 26.09.1982, Síða 4

Tíminn - 26.09.1982, Síða 4
SUNNUDAGUR 26. SEPTEMBER 1982 Kafli úr nýrri bók Ingólfs Margeirssonar, Erlend andlit, sem Iðunn sendir frá sér innan skamms KOPAR FRÁ CHILE ■ - Langar þig til að verða ríkur? spurði Hasse og rétti mér vodkaflöskuna. - Hvem langar ekki til þess? spurði ég á móti, saup af stút og gretti mig þegar hrár og sterkur vökvinn hríslaðist niður kokið. - Já, en ég meina núna... í nótt, sagði hann og horfði á mig opnum, barnslegum augum. Ég vissi ekki hverju ég átti að svara og við héldum áfram að strjúka svitann sem fossaði um nakta líkama okkar. Við önduðum þungt, varminn brenndi kokið og sveið loftgöngin og hjartað flögraði undir brjóstvöðvunum eins og skelfdur fugl í búri. -Hitinn er fyrst réttur þegar þér frnnst neglurnar losna frá puttunum, var viðkvæði Hasses. Umrætt hitastig var í uppsiglingu og ég reis á fætur og gekk út úr gufubaðinu. Gufubað er kannski fullhátíðlegt orð. Hasse hafði tvíhólfað gamlan skúr sem eitt sinn þjónaði hlutverki þvottahúss. Gufubaðið samanstóð í rauninni af nokkrum feysknum tréstólum og ryðguðum ofni sem kominn var til ára sina. Vanalega tók heilan dag að hita upp 'ofngaripinn en væri hann fyrst orðinn rauðglóandi skilaði hann samanlögðum varma helvítis. Sturtuherbergið var helmingur skúrsins óbreyttur; fúnir, óeinangraðir tréveggir og sprungið steypugólf með niðurfalli. Hasse hafði leitt inn vatnsslöngu og þrætt hana upp með veggnum uns strúturinn myndaði hvatlegan r. boga og féll ofan í beyglaða niðursuðudós setta naglagötum sem dreifðu vatnsbununni. Þetta var sturtan. Við blésum og rumdum þegar ískalt vatnið skall á sjóðheitum, rennsveittum líkömunum. Að loknum kattarþvotti skelltum við okkur í fötin og settumst á bekkinn fyrir framan skúrinn. Það húmaði að kvöldi, loftið var hreint og tært og bar leifar horfins síðsumars þó dagatalið sýndi þriðju viku vetrar. Haustið hafði sagt skilið við gróðurinn sem beið hnípinn eftir fyrstu fannkomu. Enn lét kulið sig vanta og dagarnir héngu brúnir og lífvana milli árstíðarskiptanna. Sólsetrið kom fyrr og varði skemur, það var eins og snöggblóðug rýtingsstunga í dökkbláan himininn, hann hvell- lýstist hið neðra og hóf fram svartar og skýrar útlínur skóglendisins en fjaraði út hið efra í reikulu skuggarófi. Hinstu geislar sólarinnar féllu á járnbrautarteinana sem sveigðust í löngum boga meðfram húsunum og þeyttu þeim rauðglóandi framhjá fótum okkar og áfram að málmbrúnni við dökkan skógarjaðarinn. Á stökum stað var jörðin haustvolg, hún andaði hægt og eimslæður stigu úr mýrum; fugl bauð góða nótt. - Það er fínt í Vestmannalandi, sagði Hasse. Hann notaði lýsingarorðið fínn að hætti Svía, áreynslulaust orð sem fól í sér tilfinningar án þess að opinbera sálarlíf viðkomandi, hlutlaust orð sem gaf mikið í skyn. íslendingur hefði sagt fagur, fallegur, jafnvel unaðslegur. Við opnuðum bjórdósirnar með lágum smelli, það glyttí í kaldan vökvann gegnum gatið á álhimnunni og þunnur ölreykurinn liðaðist upp um rifuna og bar veika angan af humlum. - Virkilega fínt, endurtók Hasse og virti fyrir sér Ijósaskiptin. Hann lofsöng þetta lén Svíaríkis að öllum jafnaði þó hann væri sjálfur ættaður nokkru norðar, úr Dölunum eins og framburður hans bar vitni urn. Orðin ultu yfir varirnar, sum hvelfd og kringlótt, önnur hnattlaga mynduð aftarlega í kokinu og slepptu ekki munninum fyrr en þau höfðu steypt sér kollhnís á tungunni sem stakkst án afláts upp í góminn. Hasse stundi af vellíðan. Hann teygði úr hávöxnum, þéttholda líkamanum, strauk stórri höndinni yfir blautt, snöggklippt hárið og drakk úr dósinni í löngum, hægum teyg. Hann ropaði, kreisti dósina flata með fingrum, sem gátu beygt limmeyring, og opnaði nýja dollu. - Þú svaraðir ekki spurningu minni, sagði hann rólega, langar þig til að verða ríkur í nótt? Ég bar bjórinn að vörunum í stað þess að svara. Nasirnar þeyttu m óðu yfir kalt állokið og líkaminn sendi frá sér litlar svitaperlur. Hverju átti ég að svara Hasse? Ég hafði heyrt spurninguna marg- sinnis áður. Þegar fundum okkar bar saman í fyrsta sinn hafði sama spurning verið ofarlega í huga hans: Langar þig til að verða ríkur? Ég hafði eignast góða vini sem bjuggu í Vestmannalandi. Hús þeirra var lágreist og stóð við hliðina á afvikinni járnbrautastöð sem sænska samgöngukerfið hafði stimplað óarðbæra og lagt niður fyrir löngu. Þessa vini mína heimsótti ég stundum um helgar, einkum að vetrarlagi þegar námsbækurnar og þungi mannlífsins í Stokkhólmi var orðinn mér einum um of og ég þráði sveitarloft og fábrotið líf öðru fremur. Hasse bjó í stöðvarhúsinu. Ég sá hann stundum um helgar við annrík skyldustörf fjölskyldufeðra; klippa grasið, koma upp rólum á blettinum, sópa fyrir framan dyrnar, vökva skrautblóm og 'nytjajurtir eða bera ógrynni plastpoka inn í húsið að lokinni innkaupaferð. Gestgjafar mínir fræddu mig á því að hann væri giftur, ætti þrjú börn undir skólaaldri og ynni sem verkstjóri við járnbrautar- fyrirtækið. - Þess vegna leigja þau stöðvarhúsið nær endurgjaldslaust, útskýrðu vinir mínir. Svo var það cinn morgun að við hittumst milli húsa. Hann kynnti sig og sagðist heita Hasse Andersson og spurði hvort ég væri nýfluttur á staðinn. Ég sagðist vera í heimsókn hjá vinum mínum en væri annars við nám í Stokkhólmi. - Hvað lestu? spurði hann. - Leiklistarsögu, svaraði ég. - Langar þig til að verða ríkur? spurði hann. Þetta voru fyrstu orðaskipti okkar Hasses. Hann kom mér undarlega fyrir sjónir; hávaxinn, stórbeinóttur og eilítið lotinn í herðum. Andlitið var barnslegt, allt að því barnalegt, augunsljóog spyrjandi, munnurinn lítill og opinn til háifs, kinnamar skvapmiklar ■ og festulausar. - Barn í tröllsham, hugsaði ég með sjálfum mér. Rangari ályktun hef ég ekki dregið af nokkrum manni. Vissulega var Hasse risi að burðum en barn var hann ekki. Bak við grímu óvitans leyndist mikil eðlisgreind, hröð og rökrétt hugsun og hamslaus sjálfsbjargarviðleitni. Þrátt fyrir litla sem enga menntun (hann entist skylduna með herkjum) var honum ekkert framandi undir sólunni, sér í lagi kunni hann skil á öllu sem laut að hagrænni hlið lífsins, og hann hefði getað skákað hvaða vélaverkfræðingi sem var með sérþekkingu sinni. Bilaði eitthvað hjá nágrönnunum var óðar sent eftir Hasse. Hann birtist oft í dyrunum hjá vinafólki mínu með verkfærakassann í öðrum hramminum en rjúkandi sígarettu í hinni. Einfeldningslegur spurnarsvipurinn flökti um hold- ugt andlitið meðan vandamálið var útskýrt fyrir honum, hvort sem það var stífluð vatnsleiðsla, bilað rafkerfi eða mótor sem neitaði að fara í gang. Hann var vanur að gjóta augunum á bilunina og stinga upp á úrræðum. Síðan stillti hann sér afsíðis og horfði á okkur reyna hinar og þessar aðgerðir án árangurs. Allan tímann stóð hann hreyfingarlaus og örvaði okkur og við hlýddum ráðum hans og bendingum í einu og öllu. Andlitið sýndi engin svipbrigði og það var ekki fyrr en ístran lék á reiðiskjálfi, að við komumst í raun um, að hann hafði haft okkur að fíflum allan tímann og var að dauða kominn af innibyrgðum hlátri. Þegar allir höfðu skellt uppúr kippti Hasse málunum í lag með einu handtaki. Hann var útséður viðskiptamaður. Ég hafði veitt því athygli að hann sankaði að sér öllum hugsanlegum vélum og varahlutum, allt frá litlum jarðýtum niður í einstakar skrúfur og bolta. Það var mikið um mannaferðir kringum hús hans flesta laugardagsmorgna og eitt sinn innti ég hann eftir þessum gestkomum. - Ó, þetta er bara fólk sem svarar auglýsingum mínum í blaðinu, svaraði Hasse og vildi gera lítið úr málinu. - Hvað auglýsir þú? - Svona hitt og þetta sem ég hef til sölu. - Til sölu? - Já, þeir hjá járnbrautafyrirtækinu henda ýmislegu sem þeir þurfa ekki að nota. Ég tek dótið með heim, lagfæri kannski eitthvað og sel fólki ódýrt sem þarf á þessu að halda. Nokkru síðar sá ég Hasse selja ódýrt. Hann setti upp fávitasvipinn, þóttist ekki hafa vit á apparatinu og klóraði sér í hausnum meðan kaupandinn brosti að honum í laumi. Þegar viðskiptin voru um garð gengin, veifaði Hasse á eftir fórnarlambi sínu sem ók harðánægt á brott með snjóplóg merktan járnbrautarfyrirtækinu. Hasse lét höndina falla og sneri sér að mér: - Þessi var með vitlausari sem ég hef hitt! Hann taldi seðlana enn einu sinni áður en hann stakk þeim í rassvasann. Síðar sagði bróðir hans mér að Hasse hafði vasast í braski allt frá fermingaraldri og ávallt komið út með gróða. - Hasse er eini maðurinn að mér vitandi sem orðið hefur stórauðugur á herþjónustu, sagði hann. Hann tók nefnilega að sér að klippa dátana, þó hann hefði aldrei tekið í rakaraskæri. Að lokum var hann orðinn það vinsæll að offíséramir létu hann frekar klippa sig en að fara til almennilegs rakara. Þó við Hasse væmm ólíkir í flestu, tókst með okkur góð vinátta. Ég var satt að segja farinn að hlakka meira til að hitta Hasse en vini mína þegar ég brá mér í þessar helgarferðir úr höfuðborginni. Eftir talsverð kynni höfðum við fundið sameiginleg áhugamál: Músík og létta laugardagsdrykkju. Þegar Hasse komst að því að ég kunni nokkur grip á gítar hætti hann ekki að suða í mér fyrr en ég hafði tekið hljóðfærið með mér eina helgina. Um leið og ég steig úr bílnum, dró hann mig upp í eldhús þeirra hjóna, hallaði hurðinni aftur, setti tvö staup fyrir framan okkur og afmeyjaði hálfa vodkaflösku. - Nú skálum við fyrir tónlistinni, sagði Hasse og fékk glettinisglampa r augun. Skál! Við skáluðum og ég lék fyrir hann nokkur þvæld bítlalög meðan hann gæddi séf á innihaldi flöskunnar. - Þetta er nú gott og blessað, sagði hann þegar ég lagði frá mér gítarinn. En nú skal ég leika fyrir þig almennilega músík! ‘ Hann brosti íbygginn og sljó og vínrök augun skutu neistum innibyrgðar eftirvæntingar. Hann teygði sig bak við lágan skáp og halaði fram stóra harmóníku. Hann spennti hana á sig án orða, kinkaði kankvíslega til mín kolli og þandi hljóðfærið. Ég hlustaði orðlaus á hann. Maður og dragspil urðu eitt; sérhver vöðvi og sin, já, hver fruma í líkama hans var hlaðin tónlist, maðurinn allur var músík. Hann lék sænsk harmóníkulög einvörðungu; valsar, polkar, ham- bóar, skottísar og rælar streymdu um eldhúsið, Ijóshærðar jántor dönsuðu á tréskóm um skóga og kjarr, yfir græna velli og bylgjandi kornakra, það var sumar og sól, angan af sóleyjum, bláklukkum, gullblómum og gleymmérei, þýður andvari, brennandi kvöldhiminn,flickorogJónsmessunótt. Upp frá því stjórnaði Hasse tónlistarkvöldum okkar sem tóku smám saman á sig fast snið: Hann bauð upp á bjór og snafs, náði í nikkuna og sáði gullkornum úr fjársjóði sænskra þjóðlaga meðan ég reyndi að slá gripin í takt við dragspilið. - Það er miklu fínna að spila saman tveir heldur en að leika einn, sagði Hasse. Að ári verður haldin mikil þjóðlagahátíð á Gotlandi og ég tek þig með! Gunillu, eiginkonu Hasses, þótti ekki jafnmikið til þessara músíkkvölda koma og okkur. Hún var lágvaxin og Ijóshærð, og hafði gifst Hasse þegar hún var átján. Áralangt basl við eldhúsborðið og barnarúmin hafði gert hana dauðskelkaða við utanaðkomandi og þó ég hafi verið tíður gestur á heimili þeirra þorði hún aldrei að heilsa mér að fyrra bragði. Ég heyrði hana aldrei mæla heilar setningar, heldur muldraði hún setningabrot, alltaf í afsökunartóni og forðaðist að horfa í augu viðmælandans. Hasse var hins vegar óumræðanlegur húsbóndi á sínu heimili, hann brýndi raustina ef krakkarnir höfðu uppi læti og gauragang, og hann skipaði konu sinni miskunnarlaust fyrir verkum. Vinir mínir, sem voru frekar róttækir, sögðu að Hassse væri ágætis náungi en mikill kynjafasisti og þau hefðu uppörvað Gunillu á laun að gera uppreisn gegn honum. Og þar eð mennt væri máttur hefðu þau komið því til leiðar að Gunilla var byrjuð að sækja kvöldnámskeið í hjúkrun í Vásterás. Ekki nóg með það; að undirlagi þeirra hafði Gunilla farið ein í sólarlandaferð (og kynnst manni) og væri nú á drjúgri leið að brjótast undan áralangri kúgun og Æ ijamisrétti. En þrátt fyrir vaxandi uppreisn Gunillu hélt sambúðin enn sínu striki þegar hér var komið sögu, og hjónaband þeirra var í engu frábrugðið venju; það byggðist á ógnunarjafnvægi líkt og sfórvelda pólitíkin. Gunillu óx ftskur um hrygg í hvert skipti sem Hasse lyfti bikar og hún skaut örvum sínum miskunnarlaust á kaf í þennan akilliesarhæl hans. aðfinnslur hennar voru þó lausar við háreysti og skammir. Hún safnaði reiðinni, hatrinu, beiskjunni og fyrirlitningunni saman í sarp þagnarinnar; ávarpaði mann sinn aðeins með einsatkvæðisorðum eða sendi honum augnagotur sem hefðu nægttilað kollvarpa mannýgum tudda. Hún svaf aldrei hjá honum þegar hann hafði bragðað vín eða var timbraður. - Músíkin er fínni en kynlífið, sagði Hasse þegar hann ympraði á misklíð þeirra hjóna og var vanur að bæta við: - Og endist miklu lengur! Vopn Guniilu gerði það að verkum, að Hasse tók að drekka í laumi, hann var sífellt að gera við bílinn sinn í skúmum eða dytta að ýmislegu í verkfærageymslunni. Auðvitað gat hann átt það á hættu að hún kæmi honum að óvörum, sagði hann mér og þess vegna hefði hann byggt gufubaðið: - Hún þolir ekki hita svo hér er ég hólpinn! Að sjálfsögðu vissi Gunilla upp á hár hvenær hann hafði smakkað það. Til að fyrirbyggja allan misskilning vil ég taka það fram að Hasse var enginn ofdrykkjumaður. Hann skellti þessum snöfsum sínum í sig um helgar, aðallega á föstudagskvöldum og gutlaði kannski eitthvað í öli næsta dag, svona til að halda verstu timburmönnunum utan gátta, en þar við sat. Hann stritaði eins og púlshestur alla vikuna, lét sig aldrei vanta í vinnu og hagaði sér í einu og öllu sem flestir telja að sé' til sóma og hæfi fjölskyldufeðrum. En í líkingu við allt fólk sem telur lífið dýrmætt og álítur að skyldustörf og brauðstrit fullnægi ekki öllum þörfum líkama og sálar, bjó Hasse til öryggisloka en hleypti gufunni út stöku sinnum. Nefnilega snafsinn og nikkuna. Með víni varð Hasse ljóðrænn, allt að því skáldlegur. Listþörf hans fossaði fyrst og fremst gegnum hljóðfærið en hann lauk einnig upp öðrum sálarhirslum sínum. Þótt orðaforði hans hafi hvorki borið þekkingu né bókalestri vitni, voru tilfinningar hans hreinskilnar og óspjallaðar og hann kom þeim til skila á sinn hátt: - Nú finnst mér lífið vera fínt, sagði Hasse. Þegar hann var í þessu ástandi gat aðeins ein hugsun komið honum niður á plan raunveruleikans að nýju; óskin um skjótan og auðtekinn gróða. Hann hætti stundum í miðjum valsi, lagði frá sér dragspilið og sagði líkt og við sjálfan sig. - Mikið vildi ég vcrða ríkur... Eða: - Nú veit ég hvernig ég verð ríkur! Hasse lifði í voninni um stóru fúlguna, tækifærið sem mundi gera hann vellauðugan á einni nóttu. Meðan hann beið eftir að draumurinn rættist, lét hann sér nægja að þéna smásummur sem hvergi komu fram á launaseðlum eða skattaframtali. Iðulega þegar hann fékk góðar hugmyndir, vildi hann óður og uppvægur fá mig með í leikinn, en ég hafði alltaf fúlsað við honum enda aldrei haft viðskiptataugar og leiðist brask að eðlisfari. Þess vegna var spurning Hasses þetta blíða nóvemberkvöld, þegar við sátum með bjórinn fyrir framan gufubaðsskúrinn, síður en svo framandi. Ég hafði heyrt hana oftsinnis: Viltu verða ríkur? Hins vegar hafði tímasetning spurningarinnar vakið forvitni mína. Langar þig til að verða ríkur... í nótt? hafði Hasse spurt. Ég þerraði svitaperlurnar af enninu. - Hvað vakir fyrir þér núna? - Viltu vera með? í rödd hans leyndist einhver áeggjan. - Segðu mér fyrst frá hugmynd þinni. Hann drakk lengi af bjórnum, stundi síðan lágt og sagði: - Það fer flutningalest hér framhjá skömmu fyrir miðnætti. Hún er fullhlaðin koparstöngum sem liggja í opnum vögnum. Það er þessi kopar frá Chile sem allt rifrildið hefur verið út af í blöðunum. Þú kannast við málið, er það ekki?

x

Tíminn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.