Tíminn - 05.04.1986, Blaðsíða 9

Tíminn - 05.04.1986, Blaðsíða 9
Tíminn 9 Laugardagur 5. apríl 1986 Illlllllllllllllll! MINNING llllllllllllll lllllllllllllillllllllll llllllllllllllllllllllUllllllllllllllllllllll llllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllll Björn Stefánsson - fyrrverandi skólastjóri Fæddur 9. nóvember 1914. Dáinn 30. mars 1986. Látinn er eftir langvinn veikindi Björn Stefánsson fyrrv. skólastjóri á Ólafsfirði á 7Zaldursári. Með Birni er til foldar hniginn einn hinn mæt- asti maður, sem ég hef átt samskipti við og unnið með um áratuga skeið. Svo var hann grandvar í öllu að fágætt er. AhugiTians á hvers kyns framförum í verklegum efnum og menningarmálum og þjóðrækni hans mætti vera hverjum manni fyrir- mynd, en ekki síður framganga hans í opinberum málum og öllum félags- málum þar sem háttvísi réði í orðum og athöfnum um leið og í engu var slakað á um stefnu og örugga mála- fylgju. Lífsskoðun Björns var jafn- fastmótuð og prúðmennskan var honum eðlislæg. Og aldrei lá hann á liði sínu. Athafnasemi hans og dugn- aður gerði hann að afkastamanni í öllum störfum, sem hann tók að sér. Heilsteypt skapgerð og skoðanafesta mótaði allt hans líf og olli því að eftir hann hlaut að liggja merkt ævistarf. Björn Stefánsson var fæddur í Héðinsfirði árið 1914, en fluttist ungur að aldri til Ólafsfjarðar og vann þar allt sitt æviverk. Hann var með sanni elskur að heimahögum sínum, undi hvergi nema þar, og vildi hag Ólafsfjarðar og Ólafsfirð- inga í öllu. En þótt Björn væri átthagakær og ynni heimabyggð sinni allt er hann mátti, skorti hann hvorki víðsýni í almennum málum né menntaáhuga og fýsn til fróðleiks. Sjálfur gekk hann menntaveg, var útlærður kennari og stundaði fyrst og fremst kennslu og skólastjórn sér tíl lífsframfæris. Að þeim störfum gekk hann ekki með neinni hálf- velgju, heldur lagði sig þar allan fram, ekki aðeins með því að rækja kennsluskyldu sína í þröngum skiln- ingi og standa vel í stöðu sinni sem skólastjóri, heldur stundaði hann sérmenntun og endurhæfingu í kennarastörfum alla ævi að kalla meðan heilsan leyfði. í því var hann fyrirmyndarmaður eins og í svo mörgu öðru. Félagsmálaáhugi Björns var margslunginn. Svo áhugasamur kennari og uppeldisfrömuður sem hann var hlaut áhugi hans að beinast að æskulýðs- og íþróttamálum, enda lagði hann mikið á sig fyrir þau málefni. En af eðlilegum ástæðum er mér kunnastur og minnisstæðast- ur áhugi hans á stjórnmálum, því að á því sviði lágu leiðir okkar saman og þar kynntist ég honum best. Björn var forystumaður framsókn- armanna í Ólafsfirði um áratuga skeið og naut mikils trausts í sinn hóp og almennra vinsælda. Hann sat lengi í bæjarstjórn Ólafsfjarðar og gegndi óteljandi öðrum nefndar- og trúnaðarstörfum í þágu bæjarfélags- ins. Hann var einnig aðalforystu- maður samvinnumanna í Ólafsfirði og varla mun ósérplægni hans og sönn félagshyggja hafa komið betur í ljós en í þeirri baráttu, sem sam- vinnumenn hafa orðið að heyja á þeim stað. í þeirri orrahríð var Björn Stefánsson jafnan ótrauður og trúr hugsjón sinni og sannfær- ingu, þótt ekki brygðist honum hátt- vísi og menningarleg framganga í þeim viðskiptum. Ljúft er mér að geta starfa Björns Stefánssonar í þágu Kjördæmis- sambands framsóknarmanna í Norðurlandskjördæmi eystra. Við stofnun sambandsins vorið 1960, sem leiddi af breyttri kjördæmaskip- an, sem framsóknarmenn voru þá lítt hrifnir af, var Björn kosinn í fyrstu stjórnina ásamt fleiri mætum mönnum, og þá var lagður sá grund- völlur að starfi kjördæmissambands- ins og fyrirkomulagi kjördæmis- þinga, sem haldist hefur óbrevtt að öllu verulegu til þessa dags. Fyrstu ár sambandsins og reyndar meðan heilsa hans leyfði var Björn tíðum fulltrúi á kjördæmisþingum, tók þar mikinn þátt í störfum og kynnti sig mjög að góðu. Um nokkurt skeið var Björn með kjörbréf sem einn af þremur varaþingmönnum Fram- sóknarflokksins í Norðurlandskjör- dæmi eystra, en ekki tók hann sæti á Alþingi. Björn Stefánsson kvæntist eftirlif- andi konu sinni, Júlíönu Jónsdóttur frá Eiðum í Grímsey, 18. júlí 1944 og áttu þau alla tíð heima á Ólafsfirði og ólu þar upp myndarlegan hóp velgefinna barna sinna. Heimili Björns og Júlíönu hef ég fengið að kynnast nokkuð á ferðum mínum til Ólafsfjarðar. Ýkjulaust held ég því fram að það heimili sé eitt hið nettasta og þrifalegasta sem ég hef séð. Snyrtimennskan hjá þeim hjón- um átti varla sinn líka, en þá er reyndar nauðsynlegt að taka það fram að falleg heimili og þrifnaður hefur mér virst vera áberandi og ánægjulegt einkenni í Ólafsfirði. Nú gætu menn freistast til að halda, að þau Björn og Júlíana hafi búið í veglegu húsi og haft rúmt um sig. En svo var ekki. Húsið var gamalt og íbúð þeirra á jarðhæðinni enginn breiðvangur. En svo var öllu vel fyrir komið og slík var umgengnin að þar virtist nægt húsrými og nóg af öllu og ekki tiltökumál að hýsa næturgest, ef ekki fleiri en einn þegar svo stóð á. Matarmenning húsfreyju og snyrtimennska hennar í framreiðslu fór ekki fram hjá gestum og hversu allt fór þarna lipurlega fram í þröngri stofu, þótt matargestir væru margir. Nú eru leiðarlok hjá Birni Stefáns- syni. Vinir hans og samherjar munu ætíð geyma minningu hans í þakklát- um huga og þakka honum samfylgd- ina. Ekkju hans og börnum sendi ég samúðarkveðju mína og konu minnar. Ingvar Gíslason. „Flýt þér, vinur, í fegra heim; krjúptu að fótum friðarboðans ogfljúgðu á vængjum morgunroðans meira að starfa guðs um geim". Þessar ljóðlínur eftir Jónas Hall- grímsson komu í huga mér þegar ég settist niður í þeim tilgangi að skrifa fáein kveðjuorð vegna útfarar Björns Stefánssonar, fyrrverandi skólastjóra, sem lést á Hornbrekku í Ólafsfirði 30. mars s.l. á 72. aldursári. Þessi vísuorð eiga vel við Björn sem var annálaður fyrir heiðarleika. snyrtimennsku og vinnusemi. Þessir eiginleikar gerðu hann að frábærum stárfsmanni og embættismanni, enda voru honum falin ýmis trúnaðarstörf á lífsleiðinni og í framhaldi af því finnst manni alveg sjálfsagt að Björn glími við ný viðfangsefni í annarri tilveru og fái „meira að starfa guðs um geim“. Ekki er ætlunin að rekja hér æviferil Björns, enda þekkja aðrir þann þátt betur og eru færari að fjalla um hann, en ég vil þakka fyrir góða viðkynningu og vinsemd í minn garð og fjölskyldu minnar þau ár sem við þekktumst. Ég hitti Björn fyrst árið 1974. Kynnin hófust með þéttu handtaki og brosi sem náði líka til augnanna. Mér féll strax vel við manninn. Síðan liðu árin. Við hittumst stöku sinnum en ekki oft fyrr en ég fluttist til Ólafsfjarðar ásamt fjölskyldu minni. Þá kynntist ég Birni betur, enda komum við hjónin og synirnir oft á heimili þeirra Björns og Illu í Aðalgötu 20 og nutum þar mikillar gestrisni og vináttu eins og svo margir aðrir. Þar hefur oft verið margt um manninn og gestkvæmt, enda þurfti Björn oft að taka menn með sér heim í mat og kaffi. Þá var gott að eiga góða konu. Við Björn ræddum margvísleg málefni og það var bæði fróðlegt og skemmtilegt, enda ekki komið að tómum kofanum hjá honum. Tvisvar ókum við út í Ólafsfjarðarmúla. Þar fórum við okkur hægt, Björn sagði mér hin og þessi örnefni og rakti sögu vegagerðar fyrir Múlann. Þetta eru mér ógleymanlegar ferðir og fyrir þær vil ég þakka. Að leiðarlokum er bjart yfir tilver- unni. Bjart vegna þess hvegotterað geta rifjað upp góðar minningar og vitnað til farsæls ævistarfs. Því vil ég aftur gera orð Jónasar Hallgrímssonar að mínum þar sem hann segir í einu kvæða sinna: „Gráti því hér enginn göfugan föður, harmi því hér enginn höfðingja liðinn; fagur var hans Iffsdagur, en fegri er upp runninn dýrðardagur hans hjá drottni lifanda. “ En þrátt fyrir þennan fallega kveð- skap þá fylgir líka söknuður og að sjálfsögðu mestur hjá þeim sem best þekktu Björn. Við þjónin vottum Illu, börnunum og aðstandendum öllum okkar dýpstu samúð og þökkum innilega fyrir vinsemd á liðnum árum. Valtýr Sigurbjarnarson. Árin líða, vinir og samferðamenn hverfa yfir móðuna miklu og við stöndum eftir fátækari en áður. Björn Stefánsson fyrrverandi skóla- Stjóri í Ólafsfirði er látinn, hann andaðist í sjúkradeild Hornbrekku á páskadag. Björn var fæddur að Vík í Héðins- firði 9. nóvember 1914. Þaðan flutt- ist hann með fjölskyldu sinni að Vatnsenda í Ólafsfirði árið 1922, þar ólst hann síðan upp og starfaði til fullorðinsáranna eða þar til mögu- leikar sköpuðust til að ganga inn á menntabrautina. Hann stundaði nám við Héraðs- skólana að Laugarvatni og Reyk- holti. Kennaraprófi lauk hann frá Kennaraskóla íslands árið 1942, sama ár gerðist hann kcnnari við Barnaskóla Ólafsfjarðar og gegndi því starfi óslitið til ársins 1960 er hann tók við skólastjórn þess skóla og var skólastjóri til ársins 1977 er hann varð að hætta störfum vegna heilsubrests. Þann 18. ágúst 1944 giftist Björn eftirlifandi eiginkonu sinni Júlíönu Jónsdóttur ættaðri frá Grímsey, hún var þá ekkja og átti eina dóttur Rakel Jónsdóttur sem búsett er í Reykjavík. Þau Björn og Júlíana eignuðust síðan saman fjögur börn þau eru: Jón Þór verkfræðingur búsettur á Álftanesi, Stafán héraðs- læknir í Ólafsfirði, Ermenga Stefan- ía kennari búsett á Hellissandi og Hörður læknir dvelur við framhalds- nám í Svíþjóð. Þótt aðalstarf Björns væri helgað Barnaskóla Ólafsfjarðar við kennslu og síðar skólastjórn gaf hann sér tíma til að sinna félags- og sveita- stjórnarmálum enda hlóðust á hann fjölmörg ábyrgðar- og trúnaðarstörf, þar má þá t.d. nefna að hann var formaður Framsóknarfélags Ólafs- fjarðar í aldarfjórðung, og sat í Bæjarstjórn Ólafsfjarðar fyrir það félag í 8 ár. Fyrsti formaður íþrótta- bandalags Ólafsfjarðar. í fram- kvæmdanefnd byggingar Félags- heimilisins Tjarnarborgar. Formað- ur skátafélagsins Útverðir. Formað- ur stjórnar Sparisjóðs Ólafsfjarðar í 8 ár. Björn var einlægur samvinnu- maður og studddi af alhug sam vinnu- félög, hann var íormaður stjórnar Kaupfélags Ólafsfjarðar frá 1957 til 1977 og lagði fram mikið starf í þágu þess félags. Þegar hugmyndir vöknuðu um gerð vegar fyrir Ólafsfjarðarmúla var Björn þar í fararbroddi áhuga- og baráttumanna, honum var falin verkstjórn við fyrstu tilraunina til að gera veg fyrir Múlann, en það verk var unnið í sjálfboðavinnu og fyrir samskotafé. Ýmsum fleiri trúnaðarstörfum gegndi Björn enda ósérhlífinn og lagði mikla alúð við allt sem honum var trúað fyrir, hann var einstaklega vandvirkur og mikið snyrtimenni, skilaði engu verkefni frá sér nema mjög vel frá gengnu. Samviskusemi Björns var einstök, hann mátti hvergi vamm sitt vita og var ekki í rónni fyrr en allt sem hann var að fást við stemmdi nákvæmlega, það sem hann tók að sér að gera og lofaði stóð eins og stafur á bók, hann hefur því áreiðanlega sett sér boðorðið „orð skulu standa". Það var því gott að eiga Björn fyrir samherja og samstarfsmann, fyrir það færi ég honum nú að leiðarlokum mínar innilegustu þakkir. Fyrir hönd Bæjarstjórnar Óláfsfjarðar færi ég honum einnig þakkir fyrir mikil og óeigingjörn störf í þágu byggðarlags- ins. Við Þórgunnur vottum eftirlifandi eiginkonu, börnum, tengdabörnum og barnabörnum innilega samúð. Blessuð sé minning mæts manns. Ármann Þórðarson. SAMVINNUr" tryggingarL ÁRMÚLA 3 108 RFIYKJAVIK SÍM! (91)681411 V Útboð Tilboð óskast í eftirtaldar bifreiðir sem skemmst hafa í umferðaróhöppum. Mazda 626 diesel árgerð 1986 Mitsubishi Lancer árgerð 1986 Subaruj 10 GL4 WD árgerð 1985 Skoda 105 árgerð 1985 Opel Ascona árgerð 1984 Mazda 323 árgerð 1983 Daihatsu Runabout árgerð 1983 Toyota Carina árgerð 1979 Subaru 1600 árgerð 1978 Volvo 244 DL árgerð 1977 Toyota Corolla árgerð 1976 Saab 99 árgerð 1976 Bifreiðirnar verða sýndar að Höfðabakka 9, mánudaginn 7. apríl 1986 kl. 12-16. Á sama tíma: í Borgarnesi: Range Rover árgerð 1974 í Keflavík: Mazda 626 árgerð 1981 Tilboðum sé skilað til Samvinnutrygginga, Ármúla 3, Reykjavík eða umboðsmanna þriðjudaginn 8. apríl 1986 kl. 12. fyrir kl. 12, Útboð Hreppsnefnd Hveragerðishrepps óskar eftir tilboð- um í jarðvinnu og steypuvirki skólphreinsistöðvar við Varmá ásamt girðingu umhverfis svæðið. Helstu magntölur eru: Gröftur: 1370 m3 SteypaS250: 26 m3 Girðing: 305 m Útboðsgögn verða afhent frá og með þriðjudegin- um 8. apríl n.k. á skrifstofu Hveragerðishrepps, Hverahlíð 24, Hveragerði og á Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf., Ármúla 4, Reykjavík gegn 2000 kr. skilatryggingu. Tilboðum skal skila á skrifstofu Hveragerðishrepps fyrir kl. 11.00, föstudaginn 18. apríl n.k. og verða þau þá opnuð þar að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska. VERKFRÆÐISTOFA SIGURÐAR THORODDSEN HF VERKFRÆÐIRÁÐGJAFAR FRV Sjúkraliðar Sjúkraliða vantar að dvalar og sjúkradeild Forn- brekku Ólafsfirði. Umsóknarfrestur til 24. apríl 1986 upplýsingar gefur forstöðumaður í síma 96-62480.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.