Tíminn - 28.03.1987, Blaðsíða 19

Tíminn - 28.03.1987, Blaðsíða 19
Laugardagur 28. mars 1987 Tíminn 19 MINNING lllllllllllli TómasSigurgeirsson Fæddur 18. apríl 1902 Dáinn 17. febrúar 1987 Þegar ég var unglingur heyrði ég eldra fólk stundum spyrja eitthvað á þessa leið, er ókunnan gest bar að. garði. Hver er maðurinn? Hvaðan kem- ur hann? Hvert er ferðinni heitið? Þetta kom mér í hug er ég tók að rifja upp minningabrot um Tómas Sigurgeirsson, Reykhólum. En hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 17. febr- úar síðastliðinn. Vorið 1926 kom nýr ábúandi að Miðhúsum í Reykhólasveit, Þórar- inn Árnason ættaður héðan úr sveit- inni, en hafði um skeið haft á leigu skólabúið á Hólum í Hjaltadal. Kona hans var Steinunn Hjálmars- dóttir, dóttir hjónanna Kristínar Þorsteinsdóttur og Hjálmars Þor- lákssonar Þorljótsstöðum í Vestur- dal, Skagafirði. Með þeim kom ungur búfræðingur frá Hólum, hér öllum ókunnur. Hver var hann? Hvaðan var hann Hvað ætlaðist hann fyrir? Þannig var spurt en fátt um svör. Maðurinn vakti strax athygli. Hann var allur hinn karlmannleg- asti. Hann söng og dansaði og tók strax fullan þátt í ungmennafélagi sveitarinnar. Hann bar með sér framandlegan blæ. Hann talaði með öðrum málhreim en hér þekktist og orðaval hans var að nokkru frábrugðið breiðfirskri málvenju. Brátt varð nágrönnum það ljóst að þessi farandsveinn var í betra lagi liðtækur til allra starfa. Hann var hagvirkur og átakagóður. Auk þess kunni hann nokkra þá hluti sem hér voru lítt eða ekki þekktir. T.d. kunni hann að spinna á vél. En hvaðan var hann? Frá Stafni í Reykjadal var sagt. Engir hér höfðu borið þann stað augum eða heyrt hans getið. Nú vita allir fulltíða sveitungar mínir nokkur deili á þeim stað. Fyrir um þrjátíu árum kvaddi ég dyra að Stafni, eða öllu heldur Vallholti, hjá Ingólfi bróðurTómas- ar og konu hans Bjargeyju Arn- grímsdóttur. Þetta var síðsumars seint að kveldi í rigningu og dimm- viðri. Mætti reyndar flokka þetta tiltæki mitt undir frekju eða jafnvel ósvífni að ryðjast inn á ókunnugt heimili með konu og þrjú börn. Auðvitað gerði ég þetta í blóra við Tómas, enda hafði hann tekið loforð af mér að koma við í Stafni í ferð minni til Mývatns. Skal það ekki orðlengt frekar en þarna var tekið á móti okkur af alúð og rausn. Eftir ágæta nótt litaðist ég nokkuð um garða í Stafni. Við blöstu víðlend tún, snyrtimennska og miklar bygg- ingar svo að líkara var þorpi en afskekktu sveitabýli. Einhver hefir sagt mér að um skeið hafi verið sex lögbýli þar, er þeir Stafnsbræður stunduðu búskap á. „Römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til.“ Þess munu þó færri dæmi að jafn fjölmennur hópur einnar fjölskyldu bindist æskustöðvunum eins sterk- um böndum og Stafnsbræður. Ekki skal ég um það dæma hversu glöggt mitt gestsauga var. En frá Stafni fór ég með þá vitund að þar myndi heimafenginn baggi fullkomlega metinn til jafns við að- fenginn. Tómas var einn af átta bræðrum fæddur 18. apríl 1902. Sonur hjón- anna Kristínar Ingibjargar Péturs- dóttur og Sigurgeirs Tómassonar í Stafni og sá eini er hlaut staðfestu víðsfjarri æskustöðvum. En það mun enganveginn hafa verið ætlan hans er hann hleypti heimdraganum og fór í Hólaskóla. í minningargrein um Pétur, bróð- ur Tómasar, ritar Páll H. Jónsson rithöfundur svo: „Heimilið var til þess fallið að þroska ástundun, áhuga og félags- hyggju. Próf úr þeim heimilisskóla hafa þeir Stafnsbræður staðist með ágætum.“ En hvað hugðist Tómas fyrir á vordögum 1926? Hann hafði kennt vanheilsu vetur- Reykhólum inn áður og taldi sig ekki færan til allra verka. Það sagði hann undirrituðum oftar en einu sinni, að eiginlega hefði ekki verið gert ráð fyrir öðru en hann aðstoðaði Þórarin við búferlaflutn- inginn og dveldi svo eitthvað fram- eftir sumrinu, eða allt sumarið eftir ástæðum, einkum varðandi heilsu hans sjálfs. En vefur örlaganna er margslung- inn og þættir hans óræðir lítt skyggn- um huga. Tómas átti eftir að lifa og starfa hér full sextíu ár og verða virkur þátttakandi í framvindu héraðsins á þessum breytingatímum. Hann náði fljótlega fullri heilsu en Þórarinn tók að kenna þess meins er dró hann til dauða sumarið 1929, þá 37 ára gamlan. Steinunn stóð þá uppi ekkja með fimm börn á aldrinum tveggja til sjö ára. Ekki veit ég hvaða hræringar hafa bærst í brjósti Tómasar á þessum erfiðu tímum. Hitt er ég sannfærður um, eftir áratuga kynningu, að ekki hefur hvarflað að honum að yfirgefa heimilið við slíkar aðstæður. Það hefði strítt gegn drengskapar- vitund hans. Fljótt á litið gæti það hafa verið umhugsunarefni fyrir ungan hæfi- leikamann með ótal möguleika inn- an seilingar að axla þessa ábyrgð. Það var ekki auðleyst dæmi í upphafi kreppunnar að taka við fjárvana búi í ótryggri ábúð og eiga að sjá farborða stórri fjölskyldu. En þarna steig Tómas sitt gæfu- spor. Hann eignaðist traustan lífsföru- naut þar sem Steinunn var, en þau gengu í hjónaband síðla árs 1930. Börnum hennar varð hann ham- ingjuvaldur og tryggur forsvarsmað- ur. Tómas og Steinunn voru um margt ólík, en samheldni þeirra, ást og virðing í sambúðinni samhæfðu krafta þeirra þann veg að kostir beggja nutu sín til fulls. Börn Steinunnar og Þórarins eru: Lilja, húsmóðir Grund Reykhóla- hreppi, Þorsteinn, járnsmiður Reykjavík, Hrefna, húsmóðirKópa- vogi, Anna, húsmóðir Kópavogi, Hjörtur, framkvæmdastjóri sunn- lenskra sveitarfélaga Selfossi. Steinunn og Tómas eignuðust tvö börn: Kristínu Ingibjörgu, yfirljós- móður, Reykjavík og Sigurgeir, bónda Mávavatni, Reykhólum. 1939 misstu þau hjón ábúð á Miðhúsum og fengu þá hálfa Reyk- hóla til ábúðar. Þar stunduðu jrau búskap óslitið meðan kraftar leyfðu og vel það. Áður er það fram komið að Tómas var fæddur og uppalinn á traustu menningarheimili, þar sem félags- hyggja og samhjálp sat í fyrirrúmi. Þessa eiginleika drakk Tómas í sig með móðurmjólkinni og þeir fýlgdu honum ófölskvaðir til hinstu stundar. Heimilisskólinn á Stafni brást honurn ekki. Hér var eitt sinn sagt að hann væri eini samvinnumaðurinn vestan Gils- fjarðar. Má vera að einhverjum hafi þótt fullmælt. Hvað um það. Ég fullyrði að enginn var honunt einlægari og sannfærðari samvinnu- maður hér um sveitir. Ekki hirði ég að tína til öll þau trúnaðarstörf er Tómas gegndi. Hvoru tveggja er að mér leiðast slíkar þulur og annað hitt að þulan yrði langt um of löng. Mér líst svo til að hann hafi komið við stjórn vel flestra félagasamtaka er til falla í einu sveitarfélagi. Nokkurra þátta verð ég þó að geta sérstaklega. Hann var í forystu Búnaðarfélags Reykhólahrepps um áratugabil og síðustu árin heiðursfélagi. Yfir fjörutíu ár var hann forðagæslumað- ur. Ég man ekki hvort Tómas var nokkurn tíma í stjórn Kaupfélags Króksfjarðar. En þeim félagsskap vann hann ærið starf. Hann hafði lengi á höndum ullarmóttöku. Vann við söltun á kjöti meðan sá verkunar- máti tíðkaðist, bæði á Reykhólum og Króksfjarðarnesi. Þá kom í hans hlut að sjá um móttöku á vörum við Reykhólasjó meðan aðdrættir voru með þeim hætti. Síðar þróaðist þetta í útibú Kaupfélagsins á Reykhólum er Tómas veitti lengi forstöðu. Öll þessi störf leysti hann af hendi af frábærri trúmennsku og ósér- plægni og horfði aldrei til eigin launa. Atvikin höguðu því svo til að í fjörutíu ár hefur aðeins skammur húsavegur aðskilið heimili okkar. Sá vegur var mun skemmri væri hægt að mæla samskipti og samstarf á áþreifanlega mælistiku. Ég tel mig því mæla af nokkurri þekkingu í þessum minningabrotum. Ekki vorum við alltaf samstiga. Hann var virkur og traustur fram- sóknarmaður og heill þar sem ann- ars staðar. Það var ekki minn farveg- ur og svo var með fleira. En þetta hafði engin áhrif á nábýli okkar og samstarf. Tómas var alltaf boðinn og búinn til þess að veita aðstoð ef með þurfti. Samskipti okkar þessi ár voru margvísleg og af ýmsum toga. Allt frá því að gantast saman á leiksviði. Leggja á bakið 100 kg síldarmjölsekki eða kolapoka við uppskipun og vaka yfir doða- kúm. Alltaf var Tómas samur og jafn. Hinn trausti hlekkur. Það kom stundum fyrir að hann væri seinn til svars er vanda bar að höndum sem þurfti að leysa. Eftir andartaks hlé kom oft þetta svar. „Ætli maður reyni ekki“. Þar með var málið útkljáð og liðveisla hans fulltryggð. Það er langur vegur frá Stafni til Breiðafjarðar talið í kílómetrum, en þó miklu lengra sé mælt í búskapar- háttum. Það er tvennt ólíkt að stunda búskap á heiðarbýli norður í Þing- eyjarsýslu eða á hlunnindajörð við Breiðafjörð þar sem segja má að hálft jarðargagnið sé í sjó. Það er sitt hvað að stunda heyskap í eyjum eða á fjalli. Það þarf bæði þekkingu og reynslu til að nytja hlunnindi svo vel fari. Allt þetta tileinkaði Tómas sér á skömmum tíma. Naut hann þar meðfæddrar vandvirkni og hag- leikni. Hann varð að vísu aldrei sjósóknari til jafns við innfædda breiðfirska formenn. En hann náði þeim tökum á báti er dugðu honum til að nytja eyjagagns og aðdrátta. Tómas safnaði ekki fjármunum. Til þess lágu ýmsar ástæður. Stórt heimili til framfærslu, oft þröng og ótrygg ábúð. En síðast en ekki síst hversu veitul þau hjón voru. Hann reisti sér aldrei hurðarás um öxl með lántökum. Hans lífsstfll var í ætt þeirrar kynslóðar, er taldi farsælast að sjá fótum sínum forráð. Þau hjón voru með afbrigðum gestrisin og nutu þess að blanda geði við gesti sína og veita þeim af rausn. Staðurinn og störf Tómasar buðu upp á gestanauð. Það vakti reyndar furðu margra hversu vel þeim hjón- um nýttist aflafé sitt. En þar kom til nýtni þeirra og umhyggja. Og alla tíð voru þau veitendur. En Tómas safnaði öðrum verð- mætum. Hann eignaðist vináttu og virðingu meðbræðra sinna. Með leyfi Kristínar dóttur hans langar mig að lokum að minnast hér atviks er hún sagði mér frá. Þegar búið var að kistuleggja var nokkur óvissa um hvort næðist strax í bíl til þess að flytja kistuna vestur en óhægt var um geymslu hennar á staðnum. Er þetta var rætt gefur sig fram ungur maður og segir: „Ég lána ykkur bara minn bíl.“ Kristín sagðist hafa orðið undr- andi, því hún þekkti manninn ekki og hann gerði engan fyrirvara um ökumann eða annað er bílinn varð- aði. Vegna uppruna mannsins kem- ur mér ekki á óvart þótt hann sé skjótgreiðvikinn. Þó langar mig til að seilast lengra. Maðurinn vissi reyndar full skil á Tómasi því hann var fæddur hér í sveit en fluttist ungur úr byggðarlag- inu. Hins vegar efast ég um að hann hafi nokkur bein tengsl haft við þá er þarna voru staddir. Sjálfsagt hefur honum einnig verið kunnugt að afi hans og faðir voru góðvinir Tómas- ar. En var það næg ástæða til að treysta ókunnu fólki fyrir bílnum? Nú gef ég mér þá forsendu að vinátta feðranna hafi á vissan hátt átt þarna hlut að máli og þann veg fannst mér Kristín líta á málið. Væri þá ekki leyfilegt að álykta að samhygð, samhjálp og samvinna séu þau verðmæti er gildi halda þótt annað reynist hjóm. Undir það myndi Tómas taka mætti hann mæla. Það var hans sannfæring og þeirri sannfæringu var hann trúr. Tómas er horfinn af sviðinu. Við sem áttum samleið með honum í áraraðir þökkum og söknum hans. í okkar augum eru Reykhólar aðrir en áður. Ég og fjölskylda mín vottum Steinunni og öðru vandafólki samúð okkar. Jens Guðmundsson. Einar Birkir Guðbergsson Kveðjuorð frá afa og ömmu í Bol- ungarvík, Anítu systir og fjölskyldu. Vegir Drottins eru órannsakan- legir, og í dag kveðjum við með harmi og söknuði litla drenginn okkar, sem er látinn. Einar litli fluttist með foreldrum hingað vestur og var hann litla sólskinið í lífi okkar allra, fallegt og yndisiegt barn sem hann var og ávallt verður í hugum okkar og við vitum í hjörtum okkar að Jesús sagði leyfið börnunum að koma til mín en bannið þeim það ekki, því þeirra er Guðs ríki. Með þetta fyrirheit ritningarinnar vitum við elsku foreldrar að Drottinn mun veita ykkur huggun í sorg ykkar. Það er rúmt ár síðan Einar og foreldrar fluttust til Reykjavíkur og við viljum þakka fjölskyldu tengda- dóttur okkar að Áshóli í Holta- hreppi fyrir alla hlýju og umhyggju í garð Einars litla og Drottins blessun. Sigríður Guðbergsdóttir og fjölskylda. Ég get varla trúað þvf ennþá að heimsins besti frændi sé kominn til Guðs, aðeins 3 ára og átta mánuðum betur. Þessi myndarlegi og skýri drengur sem alltaf var tilbúinn að gera allt sem hann gat til að gleðja aðra, bæði menn og dýr. Og þegar ég minnist þess get ég ekki annað en hugsað um það sem stendur r' Opin- berun Jóhannesar 19.11. Pá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir TrúrogSannur, hann dœmirogberst með réttvísi. Það er ekki hægt að segja annað en þau sem Guð elskar, deyja ung. En það verðum við að muna að meðan minningin er til, deyr enginn, þess vegna verður Einar Birkir alltaf hjá okkur. Kristur minn ég kalla á þig komdu að rúmi mínu. Gakk hér inn og geymdu mig Guð í faðmi þínum. Með þessu vil ég votta elsku stóru systur minni og besta mági í heimi, Önnu Grétarsdóttur og Guðbergi Br. Birkissyni mína innilegustu samúð. Elín Grétarsdóttir, Áshól. Ástarkveðjur frá afa og ömmu Áshól. Fæddur 17. júlí 1983 Dáinn 23. mars 1987 í dag er til grafar borinn Einar Birkir Guðbergsson að Hraungerð- iskirkju. Harmafregnin um hina skyndilegu brottför Einars litla skilur eftir í hjörtum okkar sorg og djúpan söknuð. Einar hafði flust vestur til Bolung- arvíkur með foreldrum sr'num Guð- bergi Birkissyni syni Birkis Skúla- sonar og Sigríðar Guðbergsdóttur og Anítu systir sem eru búsett hér vestra. Móðir Einars er Anna Grét- arsdóttir frá Áshóli í Holtahreppi. Þau hjón urðu okkar einlægir vinir og Hjalti sonur okkar og Einaý litli hinir mestu mátar og leikfélagar. Þeir voru nánast óaðskiljanlegir og voru ávallt fagnaðarfundir er þeir hittust. í hugum okkar er ennþá lítill og fallegur drengur sem kom bros- andi og glaður að hitta okkur í Meiri-Hlíð. Einar fluttist fyrir rúmu ári til Reykjavíkur þar sem foreldrar hahs stofnuðu lítið einkafyrirtæki og naut hann heimilis þeirra og ástúðar. Einnig vitum við að hann átti ekki síður ástkæra fjölskyldu í Bolungar- vík. Því hann átti einnig hlýju og aðdáun afa og ömmu að Áshól í Holtahreppi. Enda var Einar nátt- úrubarn í sér og naut þess að segja okkur frá þeim unaðsreiti er hann þar átti. Okkur er ekki gert kleift að ráða gátur þessarar tilveru okkar hér á jörð, en mánudaginn 23. mars síð- astliðinn var litli drengurinn hrifinn burt af þessari jörð frá elskandi foreldrum og ástkærri fjölskyldu til þess að hvíla í faðmi og umsjá Drottins. Kæru vinir, við vottum ykkur inniiega samúð okkar og guðs blessun. Fjölskyldan í Meirí-Hlíð Bolungarvík. Ragnar Haraldsson, Sigríður Þórðardóttir, Hjalti Ragnarsson, Gísli Ragnarsson. Kveðjuorð frá langömmu og langafa Ástarfaðir himinhœða, heyr þú barna þinna kvak, en í dag og alla daga í þinn náðarfaðm mig tak. Einar Birkir er horfinn frá okkur yfir móðuna miklu þessi fallegi dugn- aðar drengur og allt skeður þetta fljótt og hljótt, því slysin gera ekki boð á undan sér. Þegar þessar sorg- arfréttir bárust okkur, gátum við vart talað saman, grátkökkurinn sat í hálsi okkar. Svona er lífið, að heilsast og kveðjast. Elsku Iitli langömmu og -afa drengur með augun sín skær og bláu liefur kvatt þennan heim, aðeins á fjórða árinu. Þegar hann kom í heimsókn á Brávallagötuna með mömmu og pabba var líf og fjör. Það var spennandi að fara í feluleik bak við sófa og undir borð og stóla. Hann geislaði af lífsgleði og krafti en minningin um hann lifir. Já, sefist sorg og tregi þér saknendur við gröf, því týnd er yður eigi hin yndislega gjöf. Hún hvarf frá synd og heimi til himins, fagnið því, svo hana guð þar geymi og gefi fegri á ný. (Björn Halldórsson, frá Laufási) Langamma og langafi

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.