Lesbók Morgunblaðsins - 25.11.2006, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 25.11.2006, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 25. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Til hvers Torfusamtök? Eftir Önnu Kristínu Jónsdóttur akj@hi.is Fátt eða eiginlega ekki neitt er raunverulegt við raunveruleikasjónvarp. Þó svo að þar megi sjá venjulegt fólk í óvenjulegum kring- umstæðum, og margir telji aðdráttarafl slíkra þátta ekki síst liggja í því að áhorfendur geti legið á gægjum, þá er þetta mestan part til- búningur. Staðfesting á þeim tilbúningi sést í baráttu höfundasamtaka í Bandaríkjunum, WGA Writers’ Guild of America, fyrir bættum kjörum þeirra sem starfa við raunveruleika- sjónvarp og spinna söguþræði í þættina. Í sumar sem leið fóru tólf starfsmenn sem vinna við America’s Next Top Model í verkfall. Þeir höfðu haft þann starfa að berja saman þætti sem hanga saman og búa til sögu sem er innan við klukkutími úr kannski tvö hundruð klukku- stunda upptökum. Þessir starfsmenn höfðu borið titilinn sagnamenn en þeirra að engu getið í listanum yfir þá sem búa til þættina. Nú vildu þeir fá að ganga í höfundasambandið og fá borgað í samræmi við samninga við hand- ritshöfunda og þeir vildu láta sín getið í lista yfir þá sem búa til þáttinn í lokin. Launagreið- andinn vildi ekki samþykkja þetta og eftir margra vikna deilu fólu þeir klippurum sem eru í öðru verkalýðsfélagi að búa til þættina án aðkomu sagnaþulanna. En þessari deilu er alls ekki lokið og það er víðar sem barist er fyrir viðurkenningu á því starfi sem felst í því að smíða alla þessa þætti sem hafa oft verið kynntir eins og sjálfsprottnir og ekta. Þætt- irnir um leitina að ofurmódelinu eru mikið til unnir eftir á en aðrir leggja upp með hundrað síðna drög að þætti áður en byrjað er að mynda „án handrits“. Kjaradeilan hjá starfs- mönnum Tyru Banks, beinir sjónum að því sem margir telja vera eina helstu ástæðuna fyrir því að raunveruleikaþættirnir svokölluðu hafa sprottið upp eins og gorkúlur á und- anförnum árum. Þeir eru ódýrari en leikið efni og ennþá hægt að borga þátttakendum miklu minna eða bara ekki neitt fyrir að vera með. Jafnvel peningavinningurinn sem sigurveg- arinn fær í lokin vegur ekki svo þungt. En hverjar eru ástæður þess að raunveru- leikaþættirnir hafa orðið svona vinsælir, burt- séð frá litlum framleiðslukostnaði? Oft heyrist að þættirnir höfði til lægstu hvata áhorfenda, séu forheimskandi og ekkert nema gægjuþörf haldi fólki við skjáinn. Nú er það auðvitað svo að það eru margar mismunandi útgáfur af þessum þáttum þó svo að um þá sé fjallað und- ir einum hatti. Margir þeirra eru eiginlega bara eins og spurninga- og þrautaþættir sem hafa fylgt sjónvarpi frá árdögum þess. Æv- intýri eyjarskeggjanna í Survivor, Idolið, dansþættirnir og hinar dásamlegu tískuþraut- ir Heidiar Klum sverja sig í þessa ættina. Þar var reyndar tekið fram í lokin að framleið- endur hefðu sitt að segja um það hverjir héldu áfram og árangur í þrautunum skipti ekki öllu. Sem sagt enn meiri tilbúningur og ekki einu sinni heiðarleg keppni – eða hvað? Gera má því skóna að sú gleði sem áhorfendur hafa af því að fylgjast með slíkum þáttum sé nú samt bara á við venjulegan spurningaþátt. Þetta er sem sagt skyldara því að horfa á Gettu betur en því að liggja á glugga nágrannans. En hvað með þætti þar sem fylgst er með lögreglu í elting- arleik við glæpamenn og hina undarlegu þætti um frillur, kokkála og fleira fólk, Cheaters? Sálfræðingar hafa velt því fyrir sér hvað fær fólk til að horfa á slíka þætti. Rannsóknir benda til þess að þrátt fyrir margendurteknar staðhæfingar um raunveruleikasjónvarp sem gluggagægjur þá sé það frekar Þórðargleðin og sjálfsupphafningin sem finna má til heima í stofu. Áhorfandinn sé þrátt fyrir allt ekki eins illa staddur og þessir fávitar sem sjá má á skjánum. Sálfræðingunum líst heldur ekki á blikuna þegar þeir komast að því að í raun- veruleikaþáttum þessarar gerðar sé verið að ala fólk upp í því að horfa á niðurlægingu ann- arra sér til skemmtunar. En undanfarið hefur leitað á mig ákafur söknuður eftir sjónvarpsefni sem stendur traustum fótum í gamaldags raunsæi. Mig langar ekki í meira raunveruleikasjónvarp enda vita allir að það er fátt raunverulegt við þannig sjónvarpsefni. Nei, ég hef ekki áhuga á því að fylgjast með fólki sem reynir að finna stein sem getur klofið kókóshnetu eða horfa á það slafra í sig skelfisk. Og af því að ég veit að raunveruleikasjónvarpið er bara tilbúningur þá vil ég fá leikið efni, vil sögur af fólki sem í mesta lagi dettur á hausinn og meiðir sig og á börn sem vilja ekki klæða sig. Sögur þar sem það er sprenghlægilegt og alveg nægilega öf- ugsnúið þegar Emma setur sokkabuxurnar á hausinn á sér. Mér finnst sem sagt vanta efni þar sem hvunndagstilveran fær að blómstra. Svo er bara að sjá hvort einhver annar en ég finnur þessa þörf og peninga til að búa til efni sem í er samhljómur við tilveru þriggja barna móður í Norðurmýrinni sem druslast í vinnuna og prjónar í hjáverkum, fyllist valkvíða þegar kemur að því að finna eitthvað til í kvöldmat- inn og man aldrei eftir því að smyrja nestið fyrir börnin kvöldið áður. Keppendur í stjörnuleik Survivor „En undanfarið hefur leitað á mig ákafur söknuður eftir sjónvarpsefni sem stendur traustum fótum í gam- aldags raunsæi. Mig langar ekki í meira raunveruleikasjónvarp enda vita allir að það er fátt raunverulegt við þannig sjónvarpsefni.“ Satt eða logið? » Og af því að ég veit að raun- veruleikasjónvarpið er bara tilbúningur þá vil ég fá leikið efni, vil sögur af fólki sem í mesta lagi dettur á hausinn og meiðir sig og á börn sem vilja ekki klæða sig. FJÖLMIÐLAR I Til hvers er listgagnrýni í fjölmiðlum? Tilhvers er hægt að ætlast af listgagnrýn- endum sem skrifa í dagblöð? Þetta eru ein- hvers konar eilífðarspurningar. Kannski vegna þess að svörin við þeim liggja ekki í augum uppi. Og líka vegna þess að sjónarmið listgagnrýnendanna og listamannanna fara sjaldnast saman. List- gagnrýnendurnir og þeir sem stýra menningarumfjöllun dagblaðanna eru langflestir á þeirri skoðun að gagnrýni sé fyrst og fremst skrifuð fyrir lesendur blað- anna, til leiðbeiningar fyrir lesendur í menn- ingarneyslu sinni. Lesendur vilja í grófum dráttum vita um hvað viðkomandi verk fjallar, hvernig það tekur á viðfangsefninu og að endingu hvort verkið sé gott eða vont. Markmið dóma eru því nokkuð skýr frá þess- um bæjardyrum séð. Úr röðum listamanna heyrast hins vegar oft raddir um að dagblaðagagnrýni sé ekki nægilega fagleg. Á bak við þá skoðun virðist búa krafa um að slíkir dómar eigi að miðast við þekkingu þeirra sem eru innvígðir í við- komandi listgrein, jafnvel fræðin sem fjalla um þá listgrein. Augljóst er að sú krafa stangast á við áðurnefnt markmið dagblaðs- ins og dómanna sem það birtir, það stangast á við þá kröfu að allt efni í blöðunum sé skilj- anlegt öllum lesendum og einnig þá kröfu að skrif blaðanna þjóni hagnýtum tilgangi fyrir lesendurna. Þeir lesendur sem vilja fá faglega eða fræðilega umfjöllun um áhugamál sín leita frekar í fagtímarit eða fræðirit. Hér á landi hefur vandinn hins vegar verið sá að það eru ekki til fagtímarit um margar þeirra listgreina sem stundaðar eru í landinu, svo sem tónlist, myndlist, arkítektúr og svo fram- vegis. Af þeim sökum hafa kröfurnar um fag- lega og fræðilega umfjöllun flust yfir á fjöl- miðlana. Og satt að segja hafa þeir reynt að svara þeim með sínum hætti, að sumu leyti í gagnrýni og að sumu leyti í blaði eins og Les- bók. Það breytir því hins vegar ekki að þenn- an greinarmun á umfjöllun fyrir hinn al- menna lesanda og sérfræðinga á aðskiljanlegum sviðum mannlífsins verður dagblað að gera. II Þetta þýðir ekki að þeir sem skrifa list-gagnrýni í dagblöðum séu ekki fagmenn á sínu sviði. Þeir eru það þvert á móti und- antekningarlaust. Margir þeirra eru reyndar hámenntaðir í sínu fagi og með mikla reynslu af miðlun þekkingar sinnar. Og þessa þekk- ingu og reynslu eiga þeir að nota til þess að greina og skrifa á þann hátt að allir geti skil- ið og notið. Takist þeim það eru þeir að gegna starfi sínu eins og dagblaðið vill að þeir gegni því, annars ekki. neðanmáls Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs- ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins Eftir Þórð Magnússon thordur@heimsnet.is ! Í dag kl.1400 stendur til að halda smá samkvæmi í Iðnó til heiðurs Torfusamtökunum. Stundum þegar ég nefni það við fólk að nú standi til að virkja Torfusamtökin og gera þau aft- ur að þeim öfluga þrýstihópi sem að þau voru, verður fólk hvumsa og spyr á móti, "Nú, af hverju? Stendur til að rífa eitthvað merkilegt hús?". Þetta tómlæti fólks hefur orðið mér hugarefni þar sem þeir sem hafa fylgst með húsverndarmálum geta ekki annað en verið uggandi yfir því bakslagi sem orðið hefur bara núna á síðust 5-10 árum. Sú öfluga vakning í húsvernd sem varð á áttunda áratugnum hefur nánast verið kaffærð í hugmyndafræði sem bergmálar löngu útdauða stefnu í borg- armálum, stefnu sem þekkist vart nú orð- ið annarstaðar í heiminum. Þessi vakning sem varð fyrir u.þ.b. 30 árum varð þó til þess að fallið var frá að rífa mörg hús sem teljast nú sjálfsögð og eru stolt okkar Reykvíkinga, þar má nefna gamla Iðnskólann, Fríkirkjuveg 11, Tjarnargötuna eins og hún leggur sig, Torfuna, húsin á Kirkjustræti og fleiri og fleiri. Það er augljóst að hún var til góðs, afhverju þá ekki að halda áfram á sömu braut. En hvaða bakslög er um að ræða? Laugavegurinn er nærtækt dæmi og kannski það eina sem fólk almennt veit af. Sitt sýnist hverjum og sumum finnst ekki sömu verðmæti liggja í Laugaveg- inum og í Torfunni á sínum tíma. Það sem fæstir gera sér grein fyrir hins vegar er að þessi niðurrifsáform hafa í rauninni tekið Laugaveginn í gíslingu og ef eitt- hvað heft eðlilega framþróun. Meirihluta eldri húsa þar eru nú í eigu lóðabraskara sem engan áhuga hafa á uppbyggingu eða verslun yfir höfuð, heldur einungis því að ávaxta það fé sem liggur í lóðunum sjálfum. Það gera þeir með því að beita Reykjavíkurborg stöðugum þrýstingi um meira byggingarmagn og hefur Reykja- víkurborg því miður spilað með. Það er flestum að verða ljóst að þeir sem þrýstu hvað mest á um niðurrif voru annaðhvort blindaðir af gróðafíkn eða einfaldlega skammsýnir. Megin röksemdin á bak við niðurrif Laugavegs var upprunalega sú að gera ætti verslunarstarfsemi hátt und- ir höfði, nú liggur hins vegar fyrir að flest þau byggingaráform sem uppi eru snúa að því að reyna koma sem flestum íbúð- um fyrir á lóðunum. Í stuttu máli, það er engin pressa um að byggja nema þeir geti byggt ódýrar, arðvænlegar íbúðir. Slippsvæðið, þ.e. Nýlendugata og nær- götur er annað dæmi um að Torfu- samtökin þurfa að láta að sér kveða. Nú þegar hafnarsvæðið hefur allt verið tekið undir nýbyggingar er mikil hætta á því að það sama gerist og gerðist í Skugga- hverfinu, þ.e. lóðabraskarar láti ekki hafnarsvæðið nægja og reyni að sölsa undir sig íbúahverfi sem fyrir eru en ættu að sjálfsögðu að fá að dafna á sínum eigin forsendum. Hér þarf að sjá til þess að Reykjavíkurborg sýni meiri staðfestu en hún hefur sýnt hingað til en það er staðreynd að nú þegar má finna fyrir vissum verktakadauða sem farinn er að einkenna svæðið, braskarar vita að Reykjavíkurborg gefur alltaf eftir ef kippt er í rétta spotta. Mistökin í Skugga- hverfinu mega ekki endurtaka sig, mis- tök sem Torfusamtökin vöruðu eindregið við á sínum tíma. Og það eru fleiri mál sem eru brýn, Torfan setti á sínum tíma fordæmi sem vert er að fylgja. Fyrir borg sem vill vera nútímaleg og halda al- þjóðlegri sérstöðu, vera menningarborg og sögustaður sem gaman er að sækja heim þá eru fólgin ómetanleg tækifæri í byggingararfi Reykjavíkur. Það er spurning um nú eða aldrei að koma þess- um málaflokki í skikkanlegan farveg. Til þess eru Torfusamtökin. Höfundur er tónskáld.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.