Lesbók Morgunblaðsins - 25.11.2006, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 25.11.2006, Blaðsíða 9
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 25. NÓVEMBER 2006 9 Eftir Hjálmar H. Ragnarsson hjalmar@lhi.is N ý ópera eftir Karólínu Ei- ríksdóttur við líbrettó eftir Sjón var frumsýnd í Ís- lensku óperunni síðastliðið laugardagskvöld. Hér er um mikinn viðburð að ræða í ís- lensku tónlistarlífi. Ekki er aðeins sjaldgæft að fluttar séu óperur hér landi eftir íslensk tónskáld heldur er hér um að ræða sérlega vel heppnað verk, dramatískt vel byggt upp og allur flutningur af fínustu gæðum. Við- tökur áheyrenda voru eftir því, gríðarleg stemming var á frumsýningu og listafólkið kallað margsinnis fram. Karólína hefur áður skrifað tvær óperur, Mann hefi ég séð (1988) sem pöntuð var af Vadstena-akademíunni í Svíþjóð og Maður lif- andi (1999) sem Messíana Tómasdóttir hafði frumkvæði að í nafni Strengjaleikhússins. Þessi nýja ópera, Skuggaleikur, er rökrétt framhald af hinum tveimur í tónskáldaferli Karólínu. Í Mann hefi ég séð tekst Karólína á við ástina og dauðann, óperan er í raun sorg- arsöngur og uppgjör við hin óumflýjanlegu örlög mannsins. Maður lifandi fjallar einnig um dauðann, en nú frekar þannig að ekkert getur forðað manninum frá sínu lokamarki, hvorki góðir eiginleikar hans, hæfileikar né jarðnesk auðæfi. Í Skuggaleik tekst Karólína enn á ný á við dauðann gagnvart lífinu, en nú í formi dæmi- sögu þar sem verða hlutverkaskipti á milli þeirra sem ganga á lífsins vegum og þeirra sem þjóna myrkrinu. „Skáldið“ er fulltrúi ljóssins og „Skugginn“ fulltrúi myrkursins. Undir liggur að báðir þessir búa í hverju okk- ar, spurningin er hver hefur yfirhöndina hverju sinni. Sagan vekur margar spurn- ingar; um skáldgáfuna, um siðferðiskenndina, og ekki síst um tvískipt eðli mannsins og þau ólíku öfl sem í honum brjótast. Þetta efni tekst þeim Karólínu og Sjón að draga til mik- ilfenglegs uppgjörs þar sem allir þræðir tengjast saman í lokin en okkur áheyrendum er látið eftir að taka afstöðu, hverjum fyrir sig. Í góðri óperu er líbrettóið aflvaki tónlistar- innar. Svo er greinilega í þessu tilviki. Texti Sjóns er mjög skáldlegur en um leið einfaldur og skýr. Hann byggir söguna á frægri dæmi- sögu H. C. Andersens en allur ljóðtextinn er verk Sjóns. Karólína fylgir blæbrigðum text- ans eftir, bæði í smærri atriðum og í hinu stærra samhengi. Mörg skemmtileg uppbrot koma í textanum sem gefa tilbreytingu frá hinum alvarlegri tónum verksins. Nokkrar bráðfyndnar senur létta framvinduna og vel tekst til með tilvitnanir út fyrir söguefnið. Þetta er texti sem öll tónskáld dreymir um að fá að semja við. Tónlist Karólínu sprettur úr þeim tónheimi sem hún hefur á mjög sérstakan hátt þróað allt frá því hún kvaddi sér fyrst hljóðs sem tónskáld í byrjun níunda áratugarins. Tónvef- urinn er gagnsær, engu ofaukið í útsetn- ingum og flæðið markast af úthugsaðri tón- og hljómbyggingu. Í Skuggaleik finnst mér Karólína leyfa sér fleiri útúrdúra og meiri sjálfshúmor en oft áður, en þó án þess að heildarmyndin beri skaða af. Tónlistin er samfelld fyrir hvern þátt þannig að hún stíg- ur frá einu augnabliki til annars frekar en að hún raðist upp í afmörkuðum aríum eða frá- sagnarköflum. Í þessu fylgir hún auðvitað þeirri þróun í óperu sem á rætur sínar að rekja allt til Wagners og þeirra tónskálda sem líta á óperuformið frekar sem tónlist- ardrama en dagskrá með aðskildum atriðum. Þetta form gerir miklar kröfur til höfund- arins en um leið opnar það nýja möguleika til að takast á við söguefnið. Karólína sýnir hér að með því að fara erfiðari leiðina nær hún sterkari heild og um leið meiri dýpt í skiln- ingi sínum á efninu. Uppsetning óperunnar er á vegum Strengjaleikhússins í samvinnu við Íslensku óperuna. Strengjaleikhúsið er í raun Mes- síana Tómasdóttir, sem rekur þetta leikhús á eigin forsendum fyrir eigið fé, þó með dyggri aðstoð eiginmanns síns, Péturs Knútssonar. Þetta er sjötta óperan sem Messíana setur upp, allt eru það óperur sem hún hefur pant- að frá íslenskum tónskáldum og sett upp af eigin rammleik. Ef einhver Íslendingur á skil- ið heiðursorðu fyrir uppbyggingu í íslensku óperulífi þá hlýtur það að vera Messíana. Messíana sér um allt útlit sýningarinnar, leikmynd, búninga, brúður og grímur, en lýs- ing er í höndum snillingsins Davids Walter, sem undanfarin ár hefur starfað að mestu í Ástralíu, en kemur sem betur fer hingað heim öðru hvoru í sérstök verkefni. Í einu orði sagt er sýningin mikil veisla fyrir augað og er ekki annað hægt en að njóta hvers augnabliks. Söngvararnir standa sig með mikilli prýði, kunna sín erfiðu hlutverk mjög vel, og skila textanum þannig að mjög auðvelt er að skilja hann. Sérstaklega er gaman að sjá þarna í hópnum unga söngvara sem bera uppi sín hlutverk með öryggi og stigvaxandi krafti allt frá upphafi til enda. Hljómsveitin undir stjórn Guðna Franzsonar spilar mjög vel, öll minnstu blæbrigði skila sér til áheyr- enda og hún myndar þann þétta grunn sem öll framvindan á sviðinu byggir á. Í lokin vil ég óska öllum aðstandendum sýningarinnar til hamingju með vel heppnað verk; höfundum, flytjendum, tæknifólki og framleiðendum. Það er gaman fyrir okkur öll þegar vel tekst til með nýtt verk, sérstaklega þegar það er borið fram af þeim metnaði og myndugleik sem hér um ræðir. Skáldið og Skugginn Skuggaleikur nefnist ný ópera eftir Karólínu Eiríksdóttur sem frumsýnd var í Íslensku óp- erunni fyrir viku. Hér er vakin athygli á þessu verki og birtur hluti af texta Sjóns fyrir óperuna. Skuggaleikur „Söngvararnir standa sig með mikilli prýði, kunna sín erfiðu hlutverk mjög vel, og skila textanum þannig að mjög auðvelt er að skilja hann,“ segir Hjálmar um sýninguna. Þegar leðurblakan rumskar, þegar kóngur legst á meltuna, þegar flugan kælir væng, þegar Máni tekur við af Sólu, þá á ég þögla stund með sjálfum mér, með honum litla mér ... Þegar náttar, (þetta þarf varla að segja fróðum lesanda eins og yður), en þegar náttar, já, náttar á Jörðu, þá rifja ég upp með sjálfum mér, með honum litla mér ... ... að þegar náttar, þá hvílir sig Jörðin, þá hvílir sig Jörðin í skugga, í skugganum af sér, eins og þú hjá mér. Og þá man ég skugga af bók sem sýndi mér, honum litla mér ... ... að þegar „Skugginn mikli“ rís og stofnar ríki skugga, þá stígur Máni fram fyrir Sólu, og stendur þar kyrr: Þá verða allir skuggar einn og enginn lítill meir ... Já, þá verða allir skuggar einn og aldrei birtir meir ... Sjón Draumur skuggans Höfundur er tónskáld. Morgunblaðið/Brynjar Gauti Höfundur er skáld og rithöfundur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.