Lesbók Morgunblaðsins - 25.11.2006, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 25.11.2006, Blaðsíða 8
8 LAUGARDAGUR 25. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Sigríði Þorgeirsdóttur sigrthor@hi.is Í Lesbók síðustu viku gerir Eyjólfur Kjalar Emilsson að umtalsefni skrif mín um kvenfyrirlitningu í platónskri heimspeki. Þar vísar hann m.a. í svar mitt á Vísindavefnum við spurningu um hugmyndir Platons um kynin sem og í erindi sem ég flutti í tilefni af 10 ára af- mæli kynjafræðináms við Háskóla Íslands og birtist 28. október sl. í Lesbók. Vissulega er hér ekki um að ræða fræðigreinar í ströngum skiln- ingi enda fjarri mér að telja mig til sérfræðinga í forngrískri heimspeki. Hins vegar hef ég kynnt mér og kennt heilmikið um fordóma gegn konum og karlhverfan mannskilning sem hefur litað flesta kafla heimspekisögunnar og eru framangreindir pistlar mínir um Platon og Sókrates innan þess ramma. En rétt skal vera rétt og Eyjólfur, sem er sérfræðingur í forn- grískri heimspeki, hefur ýmislegt við skrif mín að athuga. Raunar virðist hann telja sjálfan sig á heimavelli í kynjafræðilegum efnum því hann fullyrðir að gagnrýni sem sé einhvers virði byggist á „kvenlegri nálgun“ sem feli í sér um- hyggju og næmi fyrir aðstæðum. Til að valda ekki frekari vonbrigðum er mér því ljúft að fara mjúkum höndum um skrif Eyjólfs í eftirfarandi svari mínu. Eyjólfur átelur mig fyrir textafræðilega rangfærslu við túlkun mína á því hlutverki sem Xanþippa, eiginkona Sókratesar, leikur á dauðastund hans, eins og henni er lýst í Faídon. Vissulega vitnaði ég ekki orðrétt í þýðingu Sig- urðar Nordals, heldur umorðaði „láttu ein- hvern fara heim með hana“ í „leiðið þessa konu burt“. Ég fæ hins vegar ekki séð að grundvall- armerkingarmunur sé á minni eigin frjálslegu umorðun og þýðingu Sigurðar á grísku sögn- inni „apágein“ sem merkir samkvæmt orðabók Liddel & Scott að fara burt með, leiða í burt eða fara með heim, enda er sagt að farið hafi verið „burt með hana, en hún hljóðaði og barði sér á brjóst“. (Faídon, 60 a). Umorðun mín litast af því að mér finnst kuldalegur tónn í þessum orð- um. Ég er ekki ein um þessa skoðun, ekki einu sinni í íslenskum fræðaheimi. Sigurbjörn Ein- arsson, fyrrum biskup, hefur skrifað af mikilli tilfinningu og visku um þetta sama atvik í grein sinni „Xanþippa og systur hennar“ sem birtist í greinasafninu Grikkland ár og síð. Þar segir hann að sér finnist kenna svala af viðbrögðum Sókratesar þegar Xanþippa, sem sat þarna með ungan son þeirra Sókratesar í fanginu, fer að hágráta. Ólíkt Eyjólfi, sem virðist telja það ofureðlilegt að Xanþippa hafi í raun einkum harmað það að Sókrates gæti brátt ekki lengur ástundað rökræðu með félögum sínum, leitast Sigurbjörn við að setja þessa senu í samhengi við afstöðu Platons, höfundar frásagnarinnar, til kvenna. Sigurbjörn skrifar: „Það er augljóst, að Platon sér engin mis- smíði á þeirri mynd af Sókratesi, sem birtist í þessu atviki. Því er öfugt farið. Hann dregur þetta fram í aðdáun og til þess að vekja aðdáun á meistara sínum, rósemi hans … er óhagg- anleg, hann er með öllu ósnortinn af hljóðum og sífri konu sinnar, drengurinn kemur honum ekkert við, hann er of upphafinn til þess, að til- finningar nákominna orki á hann eða skipti hann neinu … Og manni verður hugsað, að nokkuð dýru verði sé sá fullkomleiki goldinn, sem kostar það, að menn fórni frumlægum til- finningum til maka og barns og geti brugðist við harmi þeirra af svo ósnortnu hlutleysi.“ Sigurbjörn bætir um betur með því að segja að lýsingar á Xanþippu beri þess almennt merki að aðdáendur Sókratesar hafi „þurft skuggann af henni til þess að ljóminn af honum nyti sín því betur“. Sigurbjörn hikar ekki við að túlka afstöðuna til Xanþippu í ljósi bágrar stöðu kvenna og lotningar fyrir heimi karla og göfgun hins karllega á þessum tíma í Grikk- landi hinu forna. Konur og þrælar töldust ekki til frjálsra borgara í gríska borgríkinu. Konurnar áttu að halda sig innan veggja heimilisins. Þær voru eign eiginmanna sinna, réttlausar og útilokaðar frá þátttöku í opinberu lífi. Og við Sigurbjörn erum ekki ein um að horfa á hlutina í þessu samhengi. Sama gerir Julia Annas, einn þeirra kvenheimspekinga á sviði forngrískrar heim- speki sem Eyjólfur vísar til sem bandamanns síns í umvöndunargrein sinni. Hún heldur því fram konur á þessum tíma hafi lifað lífi sem er helst sambærilegt við líf kvenna í Saudi Arabíu samtímans. Einmitt í ljósi þessa er athyglisvert að Platon hafi í verki sínu um fyrirmyndarríkið mælt fyrir jafnrétti kynjanna í stétt úrvals- liðsins. Hins vegar deila fræðimenn um það hvort afstaða Platons í Ríkinu geti í raun talist femínismi. Til dæmis halda Gunnar Skirbekk og Nils Gilje því fram í Heimspekisögu sinni að jafnréttishugsjón rits Platons um fyrirmynd- arríkið sé alls ekki slík, eins og ég bendi á í mín- um skrifum. Eyjólfur telur þá skoðun léttvæga. Það skýtur skökku við vegna lofsamlegra um- mæla hans um fræðimenn eins og Juliu Annas, sem hafa velt fyrir sér hugmyndum Platons um kynin. Hún skrifaði þekkta grein fyrir mörgum árum þar sem hún komst að sömu niðurstöðu og Skirbekk og færði fyrir því rök að Platon hafi verið allt annað en femínisti. Það er fleira sem Eyjólfur finnur að. Þannig gerir hann það að sérstöku umtalsefni að ég skuli kalla dauðastund Sókratesar fæðing- arstund vestrænnar heimspeki, eins og ég hafi aldrei heyrt um hina svonefndu forsókratísku spekinga. Það er sjálfstætt rannsóknarefni og kannski skilgreiningaratriði hvar og hvenær það sem við köllum heimspeki hafi byrjað. Var það við umbreytinguna frá heimi goðsagnanna til heims rökhugsunarinnar, þegar mythos breyttist í logos? Þurfum við kannski að leita enn lengra og aftar, ef út í það er farið? Til dæmis hélt Nietzsche því fram að hugmynd- irnar um eilíft líf sálarinnar og endurfæðingu hennar í samræðunum um Sókrates megi rekja til austurlenskrar speki. Hvað sem líður allri slíkri hugmyndasögulegri fornleifafræði er ekkert athugavert við það að kalla dauðastund Sókratesar merka upphafsstund okkar heim- spekihefðar. Þarna fórnar maður lífi sínu fyrir leitina að sannleikanum, en sannleiksleitin hef- ur verið leiðarljós heimspeki og vísinda allar götur síðan. Þessi harmræna stund markar nýtt upphaf og því er Sókrates óumdeilanlega vendipunktur í heimspekisögunni. Og að lok- um. Samkvæmt hinni þýsku heimspeki- hugtakaorðabók var nafnorðið heimspeki fyrst notað af lærisveinum Sókratesar, þar á meðal Platón. Eyjólfi finnst gagnrýni mín laus við alla kvenlega mýkt. Þetta er erfitt að skilja. Er ekki einmitt samúð mín með Xanþippu og kynsystr- um hennar og meðaumkun með körlunum sem voru fastir í kvenfyrirlitningu dæmi um slíka mýkt? Þegar ég hóf heimspekinám voru hinir kvenfjandsamlegu kaflar heimspekisögunnar nær undantekningalaust afgreiddir af kenn- urum sem „börn síns tíma“ og látið þar við sitja. Það var ekki fyrr en femínískir heimspek- ingar komu til sögunnar að farið var að grafa dýpra og sýna fram á að fordómarnir gegn kon- um gegnsýrðu oft mannskilning ráðandi strauma heimspekisögunnar. Á undanförnum árum hefur verið unnið við að afhjúpa þennan mannskilning. Einnig hafa verið grafnir upp „gleymdir“ kvenheimspekingar fyrri tíma sem ekki hafa fengið inngöngu í „kanónu“ heim- spekinnar. Því fer þó fjarri að femínískir heim- spekingar gefi kenningar hefðarinnar upp á bátinn. Hefðin er enn sem fyrr uppspretta við- leitni til að hugsa vandamál heimspekinnar áfram og þannig leita femínískir heimspek- ingar oft fanga í kenningum heimspekinga fyrir tíma til að víkka mannskilninginn út þannig að hann taki til eiginleika sem hafa verið eignaðir konum. Gott dæmi um slíkt er hin frumlega túlkun Luce Irigaray á hellislíkingu Platons, sem Eyjólfur segir sig og vinkonur sínar í fræð- unum sem „hafa allar lesið sinn Platon“ láta sem vind um eyru þjóta. Irigaray túlkar hellislíkinguna sem mynd- hverfingu um móðurlífið. Með því umskapar hún þessa myndlíkingu, sem hefur verið í sí- felldri endursköpun fyrir tilstilli túlkana fræði- manna og skálda gegnum aldirnar. Eyjólfur kýs hins vegar að skilja þetta á þann veg að Irigaray meini bókstaflega að hellirinn sé móð- urlíf. Móðurlífið er í túlkun Irigaray mynd- hverfing fyrir allt það sem tvíhyggja Platons hefur sett skör lægra en hið karllega sem er tengt vitsmunum, sál og menningu. Hið kven- lega hefur verið tengt líkama, tilfinningum, náttúru, jörðinni. Markmiðið með myndhverf- ingu Irigaray er að hafna þessari tvíhyggju. Eyjólfur telur hins vegar að ég boði með hjálp Irigaray umsnúinn platonisma. Ég sé með öðr- um orðum sjálf fórnarlamb þeirrar tvíhyggju sem ég gagnrýni og vilji bara gera hinu kven- lega hærra undir höfði. Ef Eyjólfur hefði haft fyrir því að lesa sína Irigary, fyrst hann er á annað borð að tjá sig um hugmyndir hennar, kæmist hann fljótlega að því að svo er ekki. Heimspekingar sem vísa í Irigaray í þessu samhengi boða ekki að karlinn sé hið eina og konan fjöld, heldur að við öll séum tvennd eða margbreytileg. Það er ódýrt að gera strámann úr femínískri heimspeki eða heimspeki mis- munarins, eins og hún er oft kölluð nú á dögum, með því að skilja hana á þann hátt sem Eyjólfur gerir. Það er heldur ekki rétt að vinkonur hans í fræðunum hirði ekki um heimspeki Irigaray. Charlotte Witt hefur t.d. skrifað um verk Irig- aray og bæði ritstýrt bókum og ritrýnt greina- söfn sem fjalla um eða birta túlkanir Irigaray á forngrískri heimspeki. Kenning Irigaray um hellinn er nokkurs konar and-kenning af því tagi sem oft hefur varpað nýju og fersku ljósi á fornar kenningar og þokað fræðunum áfram. Heimspeki Platons er ekki síst stórkostleg vegna þess að hún er óþrjótandi uppspretta hugmynda og túlkana og femínískir heimspekingar leitast einmitt við að nýta sér kenningar hefðarinnar til þess að opna rými fyrir mannskilning sem endurspeglar bet- ur fjölbreytileika mannlegs lífs. Til þess þarf stundum að strjúka heimspekinni „gegn hára- laginu“ eins og Walter Benjamin orðaði það. Platon er fánaberi tvíhyggjunnar, en það úti- lokar síður en svo að nýjar túlkanir á honum geti nýst til að yfirstíga þessa sömu tvíhyggju. Við þurfum ekki að óttast að slíkar túlkanir séu árás á platonska heimspeki. Sókrates og Platon eru ekki fórnarlömb femínista! Það er í anda þeirrar samræðu sem er að- alsmerki platonskrar heimspeki að fara í sam- tal við heimspekinga á borð við Irigaray í stað þess að fordæma þá án þess að leitast við að skilja þá. Eyjólfur kýs frekar vopnaskak en málefnalegan ágreining. Hann kallar mig „hina hughraustu skjaldmey“ sem „bregði sverði sínu“ til að leggja heimspekinga að velli. Ég hélt að svona tungutak heyrði sögunni til í hug- vísindatexta árið 2006. Þetta minnir á upphróp- anir karlbókmenntafræðinganna sem deildu á fyrstu femínísku bókmenntafræðingana hér á landi fyrir aldarfjórðungi eða svo. Spurningin snýst ekki um sverð eða skjöld. Eyjólfur tekur sérstaklega fram í lok greinar sinnar að hann aðhyllist „fullkomið jafnræði kynjanna“. Hvers vegna vill hann þá ekki skiln- ing og samræðu fremur en höfnun og vopna- skak? Hvers vegna vill hann ekki fjölbreyti- legar túlkanir og opna umræðu? Þess í stað lýkur hann máli sínu með þeim orðum að hann óttist að ég sem kennari í heimspeki við Há- skóla Íslands afvegaleiði nemendur mína með því að upplýsa þá á minn hátt um kvenfyrirlitn- ingu í sögu heimspekinnar. Sókrates var dæmdur til dauða fyrir að afvegaleiða og spilla æskulýð Aþenuborgar með því að kenna þeim að spyrjast gagnrýnir fyrir um það sem sjálf- gefið þykir. Mér finnst ég þess vegna vera í góðum félagsskap. Að þurfa skuggann af henni til að ljóminn af honum njóti sín betur Ljósmynd/Alda Sverrisdóttir Hugsuðurinn „Það var ekki fyrr en femínískir heimspekingar komu til sögunnar að farið var að grafa dýpra og sýna fram á að fordómarnir gegn konum gegnsýrðu oft mannskilning ráð- andi strauma heimspekisögunnar, “ segir Sigríður Þorgeirsdóttir. Eyjólfur Kjalar Emilsson heimspekingur gagnrýndi Sigríði Þorgeirsdóttur fyrir slæ- legan og óþarflega femínískan lestur á Plat- oni í síðustu Lesbók. Sigríður svarar fyrir sig hér og segir að skrif Eyjólfs Kjalars minni á upphrópanir karlbókmenntafræðinganna sem deildu á fyrstu femínísku bókmennta- fræðingana hér á landi fyrir aldarfjórðungi eða svo. Höfundur er dósent í heimspeki við Háskóla Ís- lands. » Það er í anda þeirrar samræðu sem er aðalsmerki platonskrar heimspeki að fara í samtal við heimspekinga á borð við Irig- aray í stað þess að fordæma þá án þess að leitast við að skilja þá. Eyjólfur kýs frekar vopnaskak en málefnalegan ágreining. Hann kallar mig „hina hughraustu skjaldmey“ sem „bregði sverði sínu“ til að leggja heimspekinga að velli. Ég hélt að svona tungutak heyrði sögunni til í hugvísindatexta árið 2006.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.