Morgunblaðið - 15.02.2006, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 15.02.2006, Blaðsíða 29
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 15. FEBRÚAR 2006 29 MINNINGAR var svo afdráttarlaust lifandi, geti verið allur. Ég þakka allt sem hann hefur gefið okkur, og færi börnum hans, Kristínu systur hans og ástvin- um öllum, innilegustu samúðarkveðj- ur. Guðrún Pétursdóttir. Manni getur stundum fundist að við lifum á tímum anti-renessansins. Allt er gert að fagi, sett í hólf. Menn geta verið sérfræðingar með háar gráður í kartnöglum eða kúbeinum og kannski er það svo allt sem þar er upp á að bjóða. Því næst kemur að þeim vanda að útfylla tómstundirnar. Út úr þessu kerfi fá menn fastar stöður í samfélaginu. Gylfi Gíslason var aldrei í neinni stöðu, þótt hann væri smiður að mennt. Til þess hafði hann allt of vítt áhugasvið. Hlutirnir voru opnir fyrir honum og því fór hann sínar eig- in götur. Reyndi aldrei að vera frum- legur, vissi að borgaralegur smekkur ristir ekki djúpt. Var lítið fyrir tísku- stefnur. Vel sjálflærður í stílfræði og listasögu, margfróður um skáldskap og listir. En hann var fyrst og fremst mjög persónulegur teiknari eins og margir vita. Ekki síst þar tala verk hans sínu máli. Hann gerði reyndar flesta hluti vel. Gat séð húmor í húsgögnum og göml- um húsum og jafnvel nýjum bílum. Ef maður gekk með honum úti á götu átti hann til að reka upp skellihlátur, var þá ef til vill að hugsa um þær breytingar sem gerðar höfðu verið á nýjustu árgerð af ákveðnum bíl. Gylfi var framúrskarandi útvarps- maður, vel máli farinn, laginn og mál- efnalegur gagnvart viðmælendum sínum. Það er ekki ónýtt að eiga snældur frá honum með viðtölum við þá bræður Þórberg og Steinþór frá Hala og fleira gott fólk. Hann bjó hér í húsinu í Kaup- mannahöfn í meira en hálft ár, teikn- aði og smíðaði og lagfærði alla skap- aða hluti. Auðfundið var að hann bar virðingu fyrir handverki liðins tíma í húsinu. Hann fylgdist vel með þjóð- félagsmálum. Kom í kaffi tvisvar á dag og stundum í mat, alltaf búinn að lesa eitthvað nýtt eða hlýða á tónlist sem hann var að melta; fróður, forvit- inn og opinn. Síðast fórum við saman á tónleika með saxófónleikaranum Sonny Rollins í Tívolí. Gylfi var lengi eftir það að kryfja tónlistina, bar sam- an, af diskum, hinn unga Rollins og hinn aldraða sem við höfðum heyrt og séð. Frásagnargáfa hans og málfar allt var afar lifandi, og oft var hann hrók- ur alls fagnaðar við matarborð í góð- um félagsskap. Þeir gátu verið góðir saman hér í Köben, Gylfi og skáldið Einar heitinn Bragi. Eftir allt sem hann hafði innt svo fallega af höndum var fagnaðarefni að Gylfi skyldi hljóta Íslensku bók- menntaverðlaunin. Í ársbyrjun hringdi ég til hans og óskaði honum til hamingju með ritgerðina um teiknar- ann Kjarval í hinni nýju og stórfeng- legu bók um meistarann. Gylfi hafði þá á orði að sig langaði til að koma aft- ur út til okkar einhverntíma með vor- inu. En nú er þessi góði drengur far- inn í aðra ferð. Við Gerður samhryggjumst börn- um Gylfa og öðrum aðstandendum. Við munum lengi minnast þessa fá- gæta vinar. Tryggvi Ólafsson. „Við sjáumst á Bessastöðum á fimmtudaginn“ voru síðustu orðin sem okkur Gylfa fóru í milli. Þetta var mánudaginn 30. janúar eftir að við höfðum setið og skrafað og skeggrætt yfir kaffibolla og bjórglasi eins og svo oft undanfarin misseri. Hann var glaður og stoltur, hann var á leiðinni að taka við Íslensku bókmenntaverð- laununum. Ég man eftir Gylfa í Þingholtunum og Miðbæjarskólanum um og eftir miðja síðustu öld, hann var ögn eldri en ég og við kynntumst ekki meira en til að nikkast á götu þegar við full- orðnuðumst. Svo lágu leiðir saman fyrir nokkrum árum þegar undirbún- ingur hófst að útgáfu Kjarvalsbókar. Gylfi var hafsjór af fróðleik um Kjar- val og fylgdist með bókargerðinni af miklum áhuga, gaf góð ráð og léði okkur ýmis gögn sem hann hafði viðað að sér í áranna rás. Þegar ákveðið var að í bókinni yrði sérstakur kafli um „teiknimeistarann Kjarval“ þótti einsýnt að enginn væri Gylfa hæfari til að skrifa slíkan kafla. Hann gekk til verksins eins og eðli hans bauð af krafti, einlægni og ósvik- inni aðdáun á viðfangsefninu. Í því starfi kynntist ég Gylfa enn betur og lærði að meta vandvirkni hans, metn- að og ósérhlífni. Fyrir innsæi hans og skilning varð Kjarvalsbókin betri og fyllri en ella hefði orðið. Farinn er góður vinur, höggvið skarð sem ekki verður fyllt. Hávamál kenna okkur að orðsporið máist ekki; minning lifir og er huggun þeim sem eftir sitja. Þeir Bessastaðir sem Gylfi fór til eru annars heims. Þar líður honum vel og mun taka á móti okkur þegar við söfnumst þangað í fyllingu tímans. Afkomendum hans bið ég blessun- ar í sorginni. Einar Matthíasson. Á lífsins leið verða einstaklingar, sem kynnst er í dagsins önn, misjafn- lega minnisstæðir. Leiðir okkar Gylfa Gíslasonar lágu saman vegna áhuga hans á Þingvöllum og viðgangi þjóð- garðsins þar. Sumarmorgun fyrir nokkrum ár- um varð uppi fótur og fit á ráðherra- skrifstofunni í menntamálaráðuneyt- inu, þegar þangað kom sveittur og móður gestur, sem sagðist tafarlaust þurfa að hitta ráðherrann. Þar var Gylfi Gíslason á ferð og taldi sig eiga svo brýnt erindi við mig vegna mál- efna Þingvalla, að hann hafði hjólað þaðan um nóttina til að ræða við mig, um leið og ég kæmi til starfa. Samtal okkar varð til að sannfæra mig um einlægan áhuga Gylfa á því, að halda hlut Þingvalla sem best fram og kynna þjóðgarðinn á þann veg, sem sæmdi. Allt, sem Gylfi vann fyrir Þingvallanefnd, gerði hann af ein- stakri alúð með virðingu og ást á staðnum að leiðarljósi. Vegna korta og kynningarefnis, sem Gylfi Gíslason vann fyrir Þing- vallanefnd, verður nafn hans tengt Þingvöllum um ókomin ár. Kynni okkar Gylfa snerust ekki að- eins um Þingvelli og hvort sem ég hitti hann á förnum vegi eða hann kom til fundar við mig, skildi ég við hann með nýja hugmynd eða verkefni til umhugsunar. Hann lauk því miður ekki öllu, sem við höfðum á döfinni, en minning hans lifir og mér þykir vænt um, að leiðir okkar lágu saman. Blessuð sé minning Gylfa Gísla- sonar. Björn Bjarnason. Kynni okkar Gylfa hófust vorið 1997, er Þingvallanefnd, sem ég starfa fyrir, samþykkti að gefa út ör- nefna- og göngukort yfir þjóðgarðinn á Þingvöllum. Leitað var til Gylfa til að vinna kortið, hann gaf sig allan í verkið og sýndi því mikinn áhuga frá fyrsta degi. Ég man vel eftir okkar fyrsta fundi í húsi hans við Skólastræti sem hann kallaði með nokkrum rétti, „smækk- aða mynd af florentinskri höll“. Í vinnustofu hans var í senn gott og áhrifamikið andrúmsloft, alls staðar teikningar, málverk og bókverk, m.a. smábækur fyrir börn með fyrirmynd- um úr þjóðsögum og ævintýrum, full- ar af snilldar teikningum og þeirri glettni sem víða gætir í hans verkum. Frá þeirri stundu þróaðist með okkur góð vinátta. Þær eru margar stund- irnar, sem við áttum saman og lögð- um á ráðin um gerð kynningarefnis sem varðaði þjóðgarðinn og margt fleira. Við fórum til Þingvalla til skrafs og ráðagerða og á Þingvöllum var hann lengst af það sumarið. Hann fékk inni í gömlum sumarbústað við vatnið og þaðan gerði hann útá sínu fjallahjóli. Með teikniblokk, penna og örnefna- skrár, hjólaði hann um þá fjölmörgu stíga og slóða sem liggja um þjóð- garðinn, mældi og teiknaði og stað- færði örnefni. Kortið, sem nefnist „Gönguleiðir í Þingvallahrauni“, og kom út vorið eftir, er tímalaus leið- sögn um þjóðgarðinn sem nýst hefur fjölmörgum gestum þjóðgarðsins afar vel. Starfsfólkið hafði orð á því að gott væri hversu Gylfi væri ötull við að líta inn og láta vita af sér á þönum sínum um þjóðgarðinn, fá upplýsingar og miðla sínum uppgötvunum. Annað verk sem Gylfi vann fyrir þjóðgarðinn vil ég nefna en það er „Sögurefill“, 5 m langt verk með teikningum og texta sem lýsa helstu atburðum og straumum í sögu Ís- lands og Þingvalla í tímaröð, frá 874– 2000. Gylfi samdi textann við mynd- irnar og þar kom í ljós góð kunnátta hans í sögu og hversu auðvelt hann átti með að skrifa góðan og hnitmið- aðan texta. Hann lá dögum saman yf- ir myndum og texta sem hann bar títt undir sérfróða menn. „Refillinn“ var sýndur í Þjóðmenningarhúsinu 2004 og í vor verður hann settur upp við fræðslumiðstöðina á Þingvöllum. Fimmtudagskvöldin á Þingvöllum hafa orðið vinsælir fyrirlestrar þar sem sérfróðir einstaklingar hafa tekið að sér leiðsögn um Þingvelli og fjallað um sérstök viðfangsefni tengd staðn- um. Eitt slíkt kvöld sumarið 2003 var undir leiðsögn Gylfa. Þar fræddi hann þátttakendur um listamenn sem unn- ið hafa á Þingvöllum, dvöl þeirra og störf þar og um áhrif náttúru og sögu Þingvalla á listamenn. Þetta varð ógleymanleg og fróðleg kvöldstund í fallegu veðri. Í framhaldi af því kom fram sú hugmynd hjá formanni Þing- vallanefndar, Birni Bjarnasyni, að fá Gylfa til að skrifa bók um þetta efni. Þetta var eitt af þeim verkefnum, sem biðu Gylfa ásamt mörgum öðrum, sem lagt hafði verið á ráðin um og við áttum eftir að framkvæma. Þegar hann lést var hann að leggja síðustu hönd á röð upplýsingaskilta sem setja á upp á þekktum sögustöð- um á Þingvöllum í vor. Það er mikill missir við skyndilegt fráfall Gylfa Gíslasonar. Ég tel það forréttindi að hafa átt samstarf við hann. Hann var töframaður í sinni list og afburðateiknari. Hann var á marg- an hátt óvenjulegur maður, skemmti- legur, fróður og vel að sér um marga hluti. Það var gott að koma til hans í Skólastræti og ræða við hann, fylgj- ast með starfi hans og fjölmörgum hugmyndum, sem margar urðu að veruleika í flinkum höndum hans. Fyrir hönd starfsfólks þjóðgarðs- ins á Þingvöllum vil ég þakka Gylfa einstaklega góð og skemmtileg kynni. Með söknuði kveðjum við Herdís góðan vin. Hans er minnst sem einkar góðum kennara í listnámi kvenfólks- ins í fjölskyldunni, gefandi í öllum samskiptum og hafði miklu að miðla. Fjölskyldu Gylfa votta ég samúð mína. Sigurður K. Oddsson. Það var snemmsumars fyrir par ár- um að þú komst nánast hlaupandi eft- ir götunni og sást hvorki né heyrðir, heillaður af svartþresti. Við hjónin stoppuðum þig og minntum á að það væri líka til eitt- hvað á jörðu niðri, við í þessu tilfelli, sem vert væri að kannast við og heilsa. Uppveðraður og upptekinn af fegurð augnabliksins var ekki auðvelt að koma þér aftur í jarðsamband þarna á gangstéttinni. Svo kallaði sá svarti aftur og þú varst rokinn lengra og víðar. Við minnumst ágætra kynna við góðan dreng, ljúfling og sögumann, sem var aldrei spar á að segja sögu lífsins, hrífandi í litríkri frásögn, full- ur kímni og innlifunar. Sagan gat ver- ið af kynlegum kvistum mannlífsins eða bara upplifun á sköpunarverki Guðs, sem alltaf var fallegt, alltaf eitt- hvað nýtt að skoða og færa á blað. Ofarlega er minning um ferð frá Þingvöllum, þú á hjóli í mótvindi, sem er alltaf þegar ferðast er á þann hátt á Íslandi. Samt feginn að þér og hjólinu skyldi kippt með. Fullt af sögum, fyrst af kortagerð þinni á helgum stað Íslands- og kirkjusögunnar og svo bara af öllu hinu, sem var alltaf ná- lægt. Kortið ekki hefðbundið, enn fékk „fugleperspektiv“ að njóta sín í verki þínu og átti einkar vel við, líkt og myndin okkar heima af Austurvelli og Hótel Borg. Skemmtilegt form og minnir stöðugt á þig. Og nú ertu floginn, vinur. Svart- þrösturinn er enn í hverfinu, hefur meira að segja sezt í garðinn heima og þegið næringu. Við ætluðum alltaf að hóa í þig og kynna þig fyrir honum. Megi Guð almáttugur sjá svo um að þér fatist hvorki flug né söngur á nýj- um lendum og orðið „fugleperspek- tiv“ fær nýja og dýpri merkingu. Pjetur Þ. Maack, Ragnheiður Ólafsdóttir. Mig minnir að það hafi verið um og upp úr Þjóðhátíðarárinu 1974 sem tóku að birtast teikningar í helgar- blaði Þjóðviljans sem vöktu athygli mína. Viðfangsefnið var úr kunnug- legri Reykjavík áður en bíllinn fór með hana út í móa. Hús og fólk og sjónarhornið eins og horft væri úr mikilli hæð alskyggnum augum gegn- um veggi og skilrúm með tilheyrandi alskynjun. Og það sem fyrir augu bar var innblásið svo góðlátlegri kímni að manni kom ósjálfrátt í hug sjónar- horn Skaparans, en einhvers staðar er því haldið fram að hann hafi innst inni gaman af sköpunarverki sínu, sé nánast smáhlæjandi allan daginn. Smiðurinn. Þannig skynjuðu fyrri menn einmitt Guð, „Yfirsmiður allra hluta“ er heitið sem Eysteinn velur honum í Lilju. Gylfi sem var í senn smiður og myndlistarmaður líktist hugblæ verka sinna. Sú karlmannlega yfir- vegun og ró sem fylgdi öllu hans lát- æði kallaði fram línurnar: „He has the whole world in his hands.“ Röddin og fasið bjó yfir einhverjum hömdum krafti sem eins og birti ekki nema brot af því sem bjó að baki. Lífsmáti hans var kapítuli út af fyr- ir sig. Það var engu líkara en hann lifði í eigin tíma og veröld sem lyti öðrum lögmálum en okkar hinna. Til dæmis var ekki hægt að ganga að honum eins og venjulegu fólki í síma- skrá, hvað þá netfangi og varla heldur heimilisfangi. Einna helst að líta við á Mokka ef menn ætluðu að hafa tal af honum, en þar var gangur hans álíka reglulegur og sólarinnar. Það sætti jafnan tíðindum að hitta manninn, ævinlega var eins og hann byggi yfir einhverju stórkostlegu leyndarmáli eða eitthvað verulega mikið væri í aðsigi. Hann kom víða við sem listamaður, myndskreytti bæk- ur, hannaði sýningar og gerði þætti fyrir útvarp og sjónvarp. Ég minnist þáttar hans um Reykjavík frá dögum svart-hvíta sjónvarpsins þar sem hann hjólaði um götur borgarinnar í skjannabjartri sumarnóttinni og tal- aði við húsin. Ekki ósennilegt að hann hafi numið þá list af Þórbergi, en við fótskör hans settist Gylfi undir ævilok meistarans og tók upp á bönd svo úr varð dýrmæt heimild á hljómplötu. Þá hafa nýlega runnið yfir skjái lands- manna svipmyndir hans af öðrum listamönnum, að ógleymdum reglu- legum innskotum um menn og mál- efni í þættinum Mósaik. Allt brennt marki Gylfa: kímniblandinni ástríðu. Svanasöngur hans var svo löng og ítarleg ritgerð um stórmeistara ís- lensks myndmáls, Kjarval. Verkefnið var að gera „teiknaranum“ skil, en út- koman er blæbrigðarík mynd af mál- aranum og manninum í því stóra broti sem hæfði viðfangsefninu. Hér var komið framlag Gylfa til Kjarvalsbók- arinnar sem hreppti íslensku bók- menntaverðlaunin í fræðaflokki – deginum eftir að Gylfi var allur. „Það syrtir að er sumir kveðja“ orti Davíð skáld frá Fagraskógi og mann- líf Reykjavíkur verður óneitanlega kollóttara við ótímabært fráfall Gylfa Gíslasonar. Þungbært að mega ekki lengur eiga von á að hitta hann og verða um stund aðnjótandi andrúms- ins þar sem eitthvað mikilvægt skal vera í vændum. Og enn einusinni stöndum við and- spænis þessu ótrúlega: að lífið er ekki endalaust og tíminn ekki ótakmark- aður. Né heldur tækifærin til að segja það sem við vildum sagt hafa. Pétur Gunnarsson. And the seasons they go round and round And the painted ponies go up and down We’re captive on the carousel of time We can’t return, we can only look behind From where we came And go round and round and round In the circle game (Joni Mitchell.) Þegar fréttist um lát Gylfa vinar okkar kom þessi 40 ár söngtexti Joni Mitchell upp í hugann. Hann geymir vel þann tíðaranda sem var allsráð- andi þegar Gylfi var ungur maður og greinir frá hringekju lífsins sem við erum öll þátttakendur í, og jafnframt framþróun þess og takmörkunum. Þetta var tími breytinga, tími til að ögra stöðnuðum hugmyndum, og tími gerjunar meðal ungs fólks um víða veröld. Róttækar samfélagsbyltingar áttu sér stað, ekki síst þar sem tónlist- in var höfð sem baráttutæki, og listir almennt. Gylfi tók þátt í öllum þessum hrær- ingum af eldmóði listamannsins og af sönnum áhuga og einlægni. Fann hann hugsjónum sínum meðal annars farveg í Súm-hreyfingunni og gjör- þekkti sögu íslenskrar myndlistar. Hann bar mikla virðingu fyrir þeim listamönnum sem ruddu braut henn- ar og hann fyrirleit lágkúrulega van- virðingu á gömlu íslensku meisturun- um. Einstakt dæmi um þetta er hans stóri þáttur í nýútkominni verðlauna- bók um Jóhannes S. Kjarval, þar sem listamaður fjallar af skilningi og þekkingu um teikningar annars lista- manns. Verðlaunum þeim sem bókin hlaut, auðnaðist honum þó ekki aldur til að veita viðtöku. Gylfi var bóngóður vinum sínum og miðlaði af fullkominni óeigingirni visku sinni, verklagni og þekkingu. Þær eru ófáar stundirnar sem við ræddum saman um menn og málefni en ekki síst um íslenska list og lista- menn. Við viljum með þessum fátæklegu orðum minnast trausts vinar sem var okkur mikils virði, vinar sem virðist hafa skroppið frá í stutt ferðalag. Gylfi hefur nú samt stigið af hringekj- unni aðeins á undan okkur sem enn erum fangar tímans og höldum leikn- um áfram um sinn. Hann horfir kannski á okkur vorkunnlátum aug- um með pípuna sína, teikniblokkina og blýantinn í hönd og bíður þess að ljúka upp augum okkar fyrir hinni sönnu list sem við leitum öll að. Við kveðjum vin okkar með virð- ingu og trega og vottum fjölskyldu hans allri dýpstu samúð. F.h. Morkinskinnu, Ólafur Ingi Jónsson, Hilmar Einarsson. Gylfi Gíslason var nemandi í Mynd- listaskólanum í Reykjavík árin 1965– 70 og lagði einkum stund á teikningu hjá Hringi Jóhannessyni. Fram á síð- asta dag tók Gylfi virkan þátt í mód- elteikningu sem kennarar og aðrir myndlistamenn sóttu í skólanum enda þótti Gylfa nauðsynlegt að þjálfa í sífellu augað og halda hendinni lip- urri. Ég hafði samband við Gylfa síðast- liðið haust og bað hann um kenna módelteikningu á myndlista- og hönn- unarsviði skólans og þó verkefnin væru ærin sló hann til. Í tímum hjá Gylfa ríkti einbeiting og áhugaglampi skein úr augum nemenda; þau fundu að sá sem hélt um stjórnvölinn þekkti viðfangsefnið gjörla og gat opnað þeim nýja og óvænta sýn. Það er alltaf jafn gaman að fylgjast með kennur- um miðla þekkingu af jafn miklum eldmóði og Gylfi gerði í sinni kennslu. Gylfi afrekaði margt á sviði mynd- listar, hann myndskreytti fjölda bóka, gerði sviðsmyndir, var sýningarstjóri og rak gallerí. Ekki hvað síst er mik- ilvægt framlag hans í miðlun á ís- lenskri myndlist. Gylfi féll frá þegar margt var um að vera í starfi hans sem fræði- og þáttagerðarmaður en á síðasta ári hlutu þættir hans um ís- lenska myndlistarmenn tilnefningu til Edduverðlauna og hann var einn höf- unda bókarinnar um Kjarval sem hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin í byrjun febrúar. Gylfi var sérstaklega lipur og snjall teiknari og lærdómsríkt væri og áhugavert að sjá teikningar hans í samhengi, bæði myndskreytingar, módelteikningar og skissuvinnu. Von- andi fáum við tækifæri til að njóta þessara verka hans síðar. Starfsfólk Myndlistaskólans þakk- ar Gylfa samfylgdina og sendir vinum og fjölskyldu samúðarkveðjur. Fyrir hönd Myndlistaskólans í Reykjavík, Ingibjörg Jóhannsdóttir skólastjóri. „Hann er mjög efnilegur þessi ungi listamaður sem er að sýna teikningar sínar um þessar mundir.“ Sú sem komst svo að orði var Barbara Árna- son myndlistarmaður. Þetta var í byrjun áttunda áratugarins en ég var stödd á heimili hennar og manns hennar, Magnúsar Á. Árnasonar SJÁ SÍÐU 30

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.