Morgunblaðið - 09.01.2007, Síða 20
Þ
etta var 1. apríl en ekkert plat,“
segir Sigurlín Margrét Sig-
urðardóttir, táknmálsþula og
varaþingmaður Frjálslynda
flokksins. „Sjónin var orðin
mjög léleg, ég sá allt í móðu og var mjög
þreytt og orkulítil og hafði verið lengi auk
þess sem ég fann fyrir óþægilegum þrýst-
ingi í fingrum og tám. Ég hafði raunar
enga orku til þess að fara á sýninguna
Matur 2006 en Guðráður, bróðir minn sem
er kjötiðnaðarmaður, var að dæma í
keppni á sýningunni og mig langaði að sjá
hann. Þegar við hittumst spurði hann mig
hvernig mér liði og ég sagði eins og var,
mér liði mjög illa og þyrsti sífellt í vatn eða
annan vökva. Hann dreif mig þá með sér á
bás sem Samtök sykursjúkra voru með á
sýningunni, en þau voru að kynna blóðsyk-
urmæla og aðrar vörur fyrir sykursjúka,
og bað um að ég yrði mæld. Starfsfólkið
vildi það nú ekki í fyrstu þar sem mælarnir
á borðinu væru aðeins til sýnis, ekki til
notkunar. Hann sagði mig þá vera með öll
einkenni sykursýki sem þarna voru skráð
á kynningarspjaldi. Ég stóð þarna og
horfði á þau í móðu þrátta en bróðir minn
hafði betur og að lokum lét starfsfólkið til-
leiðast og mældi mig með besta og nýjasta
mælinum sem reyndar hafði ekkert verið
notaður. Mælirinn sýndi strax tölurnar
29,6 og á honum blikkaði rauð aðvör-
unarbjalla. Starfsfólk bássins trúði ekki
niðurstöðunum og mældi mig aftur, nú
með eldri mæli, en sá mælir sýndi einfald-
lega strik og rauða aðvörunarbjöllu – við
hönnun hans var ekki gert ráð fyrir að fólk
væri með jafn há blóðsykursgildi og ég var
með.“
Lögð inn á Landspítalann
í snatri
Starfsfólkið ráðlagi Guðráði að fara
samstundis með Sigurlín Margréti á
bráðamóttöku Landspítalans sem hann og
gerði. „Það sagði að fólk með jafnhá blóð-
sykurgildi og þessi væri venjulega í dái eða
í dái á leið á sjúkrahús í sjúkrabíl. Guð-
ráður reif mig samstundis af stað. Þegar
við komum á bráðamóttökuna tók á móti
okkur sami hjúkrunarfræðingurinn og
hafði tekið á móti mér tveimur vikum áður.
Hún mældi mig og mælirinn sýndi gildin
33,0 og rauðu aðvörunarbjölluna. Hjúkr-
unarfræðingurinn náði í annan mæli og
mældi blóðsykursgildin aftur sem voru
þau sömu. Ég var strax sett á insúlín og
gefið saltvatn. Mér fór fljótlega að líða að-
eins betur og smám saman fór sjónin að
skýrast.“
– En nú hafðirðu verið í skoðun á bráða-
móttöku Landspítala – háskólasjúkrahúss
tveimur vikum fyrr, var blóðsykurinn ekki
mældur þá?
„Það var tekin blóðprufa en ekki blóð-
sykursmæling. Enginn virðist hafa skoðað
niðurstöður blóðprufunnar, a.m.k lét eng-
inn mig vita hverjar niðurstöður hennar
voru. Ég er heyrnarlaus en skildi eftir
bæði netfang og gsm-símanúmer svo að
hægt væri að senda mér sms-boð og greina
mér frá niðurstöðunum. En þarna var hin
tveggja vikna gamla mæling skoðuð og
hún sýndi að blóðsykursgildin höfðu þá
verið 22. Eðlileg blóðsykursgildi eru á
bilinu 5–6,5,“ segir Sigurlín Margrét sem
ekki skilur hvers vegna heilbrigðiskerfið
biður um rannsóknir en fylgir þeim síðan
ekki eftir.
Og reyndar segir hún farir sínar ekki
sléttar í samskiptum við heilbrigðiskerfið.
„Ég hafði reynt að fá að koma í blóðsyk-
urspróf á Heilsugæslustöðinni í Garðabæ
en var neitað á þeim forsendum að læknir
yrði að fyrirskipa það. Ég varð því að
panta tíma hjá heimilislækninum sem ég
og gerði og fékk tíma 10. apríl – þurfti sem
sagt að bíða í 12 daga. Þú spyrð kannski
hvers vegna ég hafi ekki farið á Lækna-
vaktina en ég reyni í lengstu lög að fara
ekki þangað vegna þess að ég hef haft
slæma reynslu af því. Þar ríkti um tíma lít-
ill skilningur á samskiptalegum aðstæðum
mínum og mér fannst niðurlægjandi að
starfsfólkið í móttökunni skyldi hafa átt að
ráða því og meta hvort panta ætti tákn-
málstúlk eða ekki, hvað sem leið lögum um
réttindi sjúklinga. Við sem erum heyrn-
arlaus verðum að geta átt óheft samskipti
við heilbrigðisstarfsfólk. Það eru for-
sendur laganna um réttindi sjúklinga.“
Breytti um lífstíl og 25 kíló fuku
Sigurlín Margrét þurfti að gera margar
breytingar á lífi sínu í kjölfar greining-
arinnar, bæði varðandi mataræði og hreyf-
ingu „Stærsta breytingin var að fjarlægja
allan sykur úr fæðunni. Fyrsta inn-
kaupaferðin eftir greiningu var dálítið
kostuleg þar sem ég í fyrsta sinn las al-
mennilega allar innihaldslýsingar og
komst að ýmsu misjöfnu – satt best að
segja var fátt sem komst ofan í körfuna,“
segir hún og hlær. „Pakka- og niðursoðinn
dósamatur fékk að fjúka því ég tók MSG
eða þriðja kryddið, eins og það er kallað,
alveg út. Á mínu heimili er allur matur nú
eldaður frá grunni. Ég hef alltaf haft gam-
an af eldamennsku svo það er lítið mál fyr-
ir mig. Ég steiki upp úr olíum í stað smjör-
líkis eða nota eigin fitu kjötsins. Þá hef ég
bætt meira af trefjum á matseðilinn og að
sjálfsögðu ávöxtum og grænmeti. Mjólk-
urvörur skar ég niður og ég borða minna
af kolvetnisríkum matvælum en áður. Þá
borða ég hrökkbrauð í staðinn fyrir brauð
og nota brún hrísgrjón og speltpasta í
staðinn fyrir kartöflur, sem ég hef þó
stundum. Svo má ekki gleyma vatninu, ég
drekk mikið vatn, það er besti drykk-
urinn.“
Sigurlín Margrét segir að það hafi vissu-
lega verið erfitt fyrstu mánuðina að venj-
ast breyttu mataræði, að borða reglulega
og þá rétt magn. „Ég borða á tveggja tíma
fresti. Mér fer að líða illa ef of langur tími
líður á milli matarbita, þá verð ég sljó.“
Æfir, syndir og endurnýjar
fataskápinn
Hreyfingin hefur líka skipt sköpum.
„Ég var skiljanlega mjög orkulítil þegar
ég greindist með sykursýkina og skapið
eftir því,“ segir hún hlæjandi. „Ég byrjaði
á því að fara í rólega göngutúra sem smám
saman urðu lengri eftir því sem þol og
þrek jókst. Þegar ég í fyrsta sinn gekk
hringinn í kringum Vífilstaðavatn, sem er
um 3,5 km þá tók það mig 72 mínútur með
pásum á milli en núna fer ég hringinn á 25
mínútum og er aðeins byrjuð að hlaupa,“
segir Sigurlín Margrét stolt.
Hún syndir líka og síðastliðið haust
byrjaði hún í líkamsrækt í Sporthúsinu
undir handleiðslu einkaþjálfara. „Núna fer
ég sjálf og gengur ágætlega. Mér líður
miklu betur, bæði andlega og líkamlega,
aðallega vegna þess að ég er búin að missa
næstum 25 kg frá því að ég greindist.“
Og ekki er allt svo illt að ekki boði eitt-
hvað gott. „Ég er ekki frá því að mat-
arreikningurinn hafi lækkað svolítið sem
er auðvitað ekki verra en á móti hafa fleiri
krónur farið í fatakaup, ég hef þurft að
endurnýja fataskápinn frá grunni,“ segir
hún og brosir. „Nú fer ég reglulega í blóð-
sykursmælingu á heilsugæslunni og á
þriggja mánaða fresti fer ég til heim-
ilislæknisins. Nú er langtímavirkni blóð-
sykursins hjá mér 5,9 sem er mjög gott en
sykursýki er þannig sjúkdómur að það er
mikið undir manni sjálfum komið hvernig
maður höndlar hann. Það er hægt að láta
sér líða vel með sykursýki og lifa með
henni geri maður allt rétt,“ segir Sigurlín
Margrét sem er afar þakklát bróður sínum
sem hún segir sennilega hafa bjargað lífi
sínu.
Morgunblaðið/Ásdís
Vellíðan Sigurlín Margréti líður vel í dag og finnur lítið fyrir einkennum sykursýkinnar enda leggur
hún áherslu á rétt mataræði og góða hreyfingu til þess að halda blóðsykrinum innan eðlilegra marka.
Eftir Sumir hafa það á orði við táknmálsþuluna
að hún sé alveg að hverfa af skjánum.
Sykursýki Sigurlínar Mar-
grétar Sigurðardóttur upp-
götvaðist ekki á heilbrigð-
isstofnun heldur á
matvælasýningu. Hér segir
hún Unni H. Jóhannsdóttur
frá því og breytingunum sem
hún gerði á lífsstíl sínum í
kjölfarið. Með breyttu mat-
aræði og líkamsrækt hefur
hún misst 25 kg og hefur
aldrei verið í betra formi.
Fyrir Sigurlín var alltaf þreytt, fann fyrir þrýsting
í fingrum og tám og stöðugum þorsta.
Sigurlín Margrét telur að
skoða þurfi hvort aðgengi
fólks að blóðsykursmæl-
ingu sé nægilega gott í
ljósi reynslu sinnar.
uhj@mbl.is
„Bróðir minn bjargaði lífi mínu“
heilsa
20 ÞRIÐJUDAGUR 9. JANÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ