Morgunblaðið - 13.08.2007, Page 12
12 MÁNUDAGUR 13. ÁGÚST 2007 MORGUNBLAÐIÐ
Á
kvörðun HB Granda um
að hætta fiskvinnslu í
Reykjavík hefur komið
sumum á óvart. Þessi
ákvörðun kemur
Bryggjuspjallara þó alls ekki á óvart.
Að hans mati hefur hún legið í loftinu
nokkuð lengi, eða allt frá því að
Grandi og HB á Akranesi sameinuð-
ust. Þá virtist það þegar nokkuð ljóst
að mestu samlegðar möguleikarnir
lægju í því að flytja starfsemina upp á
Akranes. Þar var mjög góð fiski-
mjölsverksmiða en fiskimjölsverk-
smiðja Granda í Reykjavík var bæði
gömul og afkastalítil og auk þess með
mjög takmarkað starfsleyfi. Fisk-
iðjuver voru hins vegar mjög góð á
báðum stöðum. Það má reyndar segja
að þrátt fyrir miklar tæknilegar
breytingar í fiskiðjuverinu í Reykja-
vík, hafi verið kominn tími á endur-
nýjum þar. Þegar allt lék í lyndi var
haldið úti öflugri fiskvinnslu á báðum
stöðum og reyndar heyrðust þær
raddir að Akurnesingar óttuðust að
starfsemin yrði öll, að undanskildri
fiskimjölsverksmiðjunni, yrði flutt til
höfuðborgarinnar. Nú hefur verið
tekin ákvörðun um hið gagnstæða.
Stjórnendur HB Granda hafa gefið í
skyn að ástæða þessarar breytingar
sé hinn mikli niðurskurður á þorsk-
kvóta. Bryggjuspjallari dregur það í
efa. Nýtt fiskiðjuver á Akranesi á
ekki að taka til starfa fyrr en árið
2009, gangi allar fyrirætlanir eftir.
Eftir þann tíma má hins vegar búast
við því að þorskkvótinn verði þegar
aukinn á ný. Hvort hann verður jafn-
mikill og á þessu fiskveiðiári, eða
jafnvel meiri, á eftir að koma í ljós, en
mörg teikn eru á lofti um það að að-
stæður til uppvaxtar stofnsins séu
góð. Það kom meðal annars fram í
grein Garðars Ólasonar, útgerðar-
manns og fiskverkanda í Grímsey í
Morgunblaðinu nú um helgina. Sjór-
inn við Grímsey iðar af lífi. Það kom
líka fram í viðtali við Gylfa Gunnars-
son í Morgunblaðinu fyrir skömmu.
Það er alveg ljóst að margt er þorsk-
stofninum hagstætt um þessar mund-
ir, þótt nýliðun síðustu ára hafi ekki
verið góð. Því má í raun búast við því
að þegar nýtt fiskiðjuver HB Granda
á Akranesi verður tilbúið til vinnslu,
geti þorskkvóti HB Granda verið orð-
inn jafnmikill og hann var á þessu
fiskveiðiári. Þótt stjórnendur HB
Granda kjósi að skýra þessar breyt-
ingar með niðurskurði á þorskkvót-
anum grunar Bryggjuspjallara að
það sé ekki skýringin. Hann telur að
þarna hafi ráðið hrein hagkvæmn-
isjónarmið, sem hafi lengi legið í loft-
inu. Fiskvinnsla í gömlu höfninni á
undir högg að sækja. Íbúðabyggð og
önnur starfsemi óskyld sjávarútvegi
sækir stöðugt á og mikil eftirspurn er
eftir lóðum fyrir íbúðabyggð við höfn-
ina. Þessi ákvörðun HB Granda er
skynsamleg, hvort sem um niður-
skurð þorskkóta er að ræða eða ekki.
Það er svo hins vegar önnur spurning
hvers vegna ekki er rekið upp rama-
kvein vegna þess að sjávarútvegsfyr-
irtæki færir sig um set. Það hefði allt
orðið vitlaust ef til dæmis Samherji
hefði ákveðið að flytja starfsemi sína
frá Dalvík eða Brim fiskvinnslu sína
frá Akureyri og eitthvert annað. Því
miður virðist sjávarútvegur ekki
skipta Reykvíkinga miklu mála og
vafalaust eru ekki margir bæjarbúar
sem vita það að Reykjavík er kvóta-
hæsta höfn landsins.
hjgi@mbl.is
Ákvörðun sem kemur ekki á óvart
BRYGGJUSPJALL
Hjörtur Gíslason
» Vafalaust er mörg-
um ekki ljóst að
Reykjavík er kvóta-
hæsta höfn landsins.
FISKAFLINN í júlí var 116.878 tonn. Það er
28 þúsund tonnum meiri afli en í júlí 2006. Þá
var aflinn 88.639 tonn. Aflaaukning milli ára er
vegna mikils afla af makríl og meiri síldarafla
en í fyrra.
Botnfiskaflinn í júlí 2007 var 35.235 tonn
sem er tæplega 5 þúsund tonnum minni afli en
í júlí í fyrra þegar botnfiskaflinn var 40.310
tonn. Þorskafli í nýliðnum júlí var fjórðungi
minni en í júlí 2006 eða 7.156 tonn á móti 9.660
tonnum í fyrra. Helmingssamdráttur ufsaafla
skýrir að mestu samdrátt botnfiskafla milli ára
í júlí en ufsaafli var 5.001 tonn en aflinn var
10.912 tonn í júlí 2006. Landað var 48 þúsund
tonnum af norsk-íslenskri síld í júlí 2007 en afl-
inn í júlí í fyrra 35 þúsund tonn. Tæplega 22
þúsund tonnum veiddust af makríl í ár. Í júlí
2006 fór að bera á makríl með síldarafla og afl-
inn var þá nærri 3 þúsund tonn.
Heildarafli íslenskra skipa á árinu var orð-
inn 975 þúsund tonn í lok júlí 2007. Það er 97
þúsund tonnum meiri afli en á sama tíma á síð-
asta ári þegar heildaraflinn frá janúar til júlí
var 878 þúsund tonn. Aukning í afla milli ára
stafar af meiri loðnu- og síldarafla í ár. Heild-
arafli fiskveiðiársins 2006/2007 þegar einn
mánuður var eftir var 1.352.782 tonn. Þar af
var botnfiskaflinn 490.324 tonn. Á sama tíma á
síðasta fiskveiðiári var heildaraflinn 1.204.331
tonn en botnfiskaflinn var þá meiri eða 496.009
tonn. Rækjuafli var slakur í júlí, þó tæplega
fimmfalt meiri afli en í júlí 2006.
Ljósmynd/Þorgeir Baldursson
Fiskveiðar Fiskaflinn í júlí var meiri nú en í
fyrra. Hins vegar dróst botnfiskafli saman.
Mun meiri
fiskafli í
júlímánuði
ÚR VERINU