Morgunblaðið - 03.09.2007, Side 8
8 MÁNUDAGUR 3. SEPTEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Eftir Davíð Loga Sigurðsson
david@mbl.is
OLE Petenya Yusuf-Shani er kominn
langan veg til að sækja alþjóðlega
ráðstefnu um landeyðingu og eyði-
merkurmyndun sem staðið hefur alla
helgina á Selfossi og lýkur á morgun.
Hann er höfðingi úr maasai-ætt-
bálknum í Kenýa en hingað er hann
kominn því að samfélag hans hefur
ítrekað hlotið viðurkenningu fyrir
frumkvöðlastarf á sviði landverndar
og sjálfbærrar nýtingar landsins.
„Ég er hingað kominn því að ég vil
deila reynslusögu okkar með ráð-
stefnugestum. En ég vil líka vita
meira og læra af fulltrúum hér á þess-
ari ráðstefnu,“ segir Ole Petenya.
Hann fer fyrir Shompole-samfélags-
sjóðnum en um er að ræða tíu þúsund
manna samfélag maasai-manna sem
frá árinu 1979 hafa beitt nýjum að-
ferðum til að vernda landið og græða
á nýjan leik.
Um er að ræða 62.000 hektara
landsvæði en Ole Petenya segir aðra
hópa maasai-manna undanfarið hafa
veitt Shompole-samfélagssjóðnum
umráðarétt yfir þeirra landi einnig
því að þeir hafi getað séð að mikill ár-
angur hafði náðst. Landið sem Ole
Petenya hefur með að gera er því nú
ein milljón hektara.
Lykillinn að bættum lífsskilyrðum
– en maasai-menn hafa þurft að tak-
ast á við mikla fátækt – hefur falist í
því að taka upp umhverfisvæna ferða-
mennsku, jafnframt því sem menn
yrkja landið áfram eins og forverar
þeirra hafa gert um aldir, þó með
skynsamlegri hætti en áður.
Stýra nýtingu landsins betur
Landeyðing hefur verið mikið
vandamál í heimkynnum Ole Petenya
– um þriggja klukkustunda akstur frá
höfuðborg Kenýa, Nairobi. „Hjá
maasai-ættbálknum njóta menn
meiri virðingar eigi þeir mikinn bú-
fénað,“ segir Ole Petenya. „Því meira
sem menn eiga af búfé, því hærra eru
þeir í virðingarstiganum. Það er því
mikil samkeppni um að hafa sem
mest af búfé. En það veldur miklu
beitarálagi og landeyðingu. Og þetta
er líka vítahringur því að ef á okkur
skellur mikil þurrkatíð og gróðurinn
er enginn því að búféð hefur etið hann
allan þá er ekkert vatn að hafa [gróð-
ur festir vatnið] og búféð deyr. Og þá
eykst fátæktin.
Allt helst því í hendur og með lofts-
lagshlýnuninni er fyrirséð að þurrkar
munu verða algengari og erfiðara
verður að treysta á úrkomuna.
Við erum því að takast á við þessar
stóru spurningar núna. Við höfum
reynt að skipuleggja nýtingu landsins
nákvæmlega. Á rigningartímanum
beitum við fé á tiltekið svæði og þegar
þurrkatíminn skellur á beitum við fé
annars staðar til að landið geti jafnað
sig á fyrri staðnum og gróður vaxið á
ný. Með þessum hætti drögum við úr
landeyðingu.
Beiti menn fé á landið allt árið um
kring veldur beitarálagið því að þegar
vindasamt verður þá fýkur allur
gróður burt og eyðimörk myndast.“
Það má því segja að hjá Shompole-
samfélagssjóðnum séu menn að
framkvæma það sem sérfræðingarnir
á ráðstefnunni á Selfossi hafa lagt
áherslu á að yrði að gera: stjórna nýt-
ingu lands betur. Og frumkvöðla-
starfsemi þeirra hefur hlotið verð-
skuldaða athygli, Ole Petenya segir
þau hafa hlotið tvenn bresk verðlaun,
World Aware-verðlaunin og Whitley
Laing-verðlaunin. Og nú síðast var
Shompole-samfélagið verðlaunað af
Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna,
UNDP.
Mikilvægt að geta tekið
upp nýja hætti
Sem fyrr segir hefur Ole Petenya
tign höfðingja hjá maasai-þjóðinni.
Því fylgi ábyrgð, mönnum sé falið að
taka ákvarðanir sem varða heill sam-
félagsins og afkomu. Með því að taka
upp nýja lifnaðarhætti, þ.e. með því
að taka á móti ferðamönnum, jafn-
framt því sem landið er nýtt á skyn-
samlegan máta, séu þau að taka eigin
örlög í sínar hendur. Það þýði ekki að
kvarta yfir fátækt og þiggja svo ölm-
usur erlendra hjálparsamtaka og al-
þjóðastofnana, menn verði að vera til-
búnir að horfa til nýrra tækifæra og
gera þær breytingar sem þarf á lifn-
aðarháttunum. „Á okkar eigin máta
erum við því að takast á við loftslags-
hlýnunina, þúsaldarmarkmið Sam-
einuðu þjóðanna og fátæktina,“ segir
hann.
Þurfa að vera tilbúnir
að taka upp nýja siði
Maasai-menn í Kenýa hafa náð góðum árangri í baráttu
sinni gegn fátækt með því að stýra nýtingu landsins betur
Morgunblaðið/Davíð Logi
Maasai Ole Petenya Yusuf-Shani með höfðingjastafinn sinn, sá er kominn
langan veg frá heimkynnum sínum í Kenýa.
ÞAÐ er ekki spurning hvort, heldur
hvenær Íslendingar ná því marki að
útblástur koltvísýrings í andrúms-
loftið verði ekki meiri en þarf að
binda af kolefni. Þetta var nið-
urstaða þeirra Önnu Maríu Ágústs-
dóttur, Árna Bragasonar og Andrés-
ar Arnalds en þau fluttu á laugardag
erindi um þetta efni á ráðstefnu um
landeyðingu og eyðimerkurmyndun
sem haldin er á Selfossi.
„Við höfum þessa sérstöðu á ís-
landi að við erum með gríðarlega
hátt hlutfall af endurnýjanlegum
orkugjöfum sem ætti að tákna það
að við værum með afar litla losun
koltvísýrings á mannsbarn,“ segir
Andrés en hann er aðstoðarforstjóri
Landgræðslu ríkisins. „En vegna
hins orkufreka iðnaðar, s.s. álfram-
leiðslu og járnblendis, auk sam-
gangna og sjávarútvegs erum við til-
tölulega ofarlega í losun
gróðurhúsalofttegunda. Við eigum
hins vegar meiri möguleika en aðrar
þjóðir á að draga verulega úr los-
uninni; með því að hverfa frá jarð-
efnaeldsneytinu yfir í rafmagn eða
vetni eða annað því um líkt. Svo
verður að gera stórátak í að taka
umferðarhnútana af götunum, með
því að auka al-
mennings-
samgöngur. Er
það endilega rétt
lausn á sam-
gönguvandanum
t.d. í Reykjavík
að gera umferð-
arbrýr á mörgum
hæðum, t.d. á
Kringlumýr-
arbraut, í stað þess að setja einfald-
lega afl í almenningssamgöngur?“
Auðlind á villigötum
Andrés kveðst að vissu leyti líta á
koltvísýring sem auðlind á villigöt-
um. Frumefnið kolefni, þegar það er
í formi CO2, beri ábyrgð á meiru en
2⁄3 gróðurhúsaáhrifa í heiminum.
Þetta sama frumefni, bundið í líf-
rænt efni í gróðri og jarðvegi, sé
hins vegar undirstaðan fyrir frjó-
semi landsins, vatnsmiðlun og svo
margt annað sem við byggjum til-
veru okkar á. „Kolefnisbinding felur
einfaldlega í sér að plöntur taka til
sín kolefnishlutann úr CO2, en skila
frá sér súrefninu. Það má því jafn-
framt segja að gróðurinn sé lunga
jarðar,“ segir Andrés.
Segir Andrés að í ljósi þess hversu
Ísland hefur glatað miklu af sínu
upphaflega gróðurlandi sé svigrúm
til kolefnisbindingar hér á landi
gríðarlega mikið. „Það væri alveg
svigrúm til að auka árlega bindingu
kolefnis með gróðri um nokkrar
milljónir tonna, jafnvel allt að fimm
milljónum tonna, sem er nokkurn
veginn það sem Ísland losar í dag.“
Hann segir hins vegar fjarri því
sjálfgefið að svo langt eigi að ganga
í bindingu kolefnis, slík verkefni
þurfi að helgast af fjölþættum mark-
miðum í tengslum við endurreisn
landkosta og varast beri að spilla
mikilvægum vistkerfum eða lands-
lagsheildum í okkar viðkvæmu nátt-
úru. Mikið svigrúm sé þó óneit-
anlega fyrir hendi.
Ekki spurning um
hvort, heldur hvenær
Andrés Arnalds
Í HNOTSKURN
»Ísland losar ríflega þrjármilljónir tonna af gróð-
urhúsalofttegundum á ári
hverju.
»Norðmenn hafa sett sérmarkmið þess efnis að vera
ekki með neina nettólosun koltví-
sýrings árið 2050.
ÞETTA HELST ...
SAMKVÆMT frásögn Financial
Times um helgina eru innherjavið-
skipti með bréf í félaginu sem rekur
norrænu kauphallir OMX til rann-
sóknar hjá sænska fjármálaeftirlit-
inu og málið sömuleiðis komið á borð
efnahagsbrotadeildar sænsku lög-
reglunnar. Er rannsóknin til komin
vegna yfirtökutilboðs kauphallarinn-
ar í Dubai í OMX.
Viðskipti með bréfin fóru fram í
sænsku kauphöllinni 9. ágúst sl. og
þeim stóð HSBC-bankinn sem hefur
verið ráðgjafi kauphallarinnar í
Dubai við yfirtökutilboðið. Þá er til
skoðunar hjá sænskum yfirvöldum
hvernig samskipti HSBC átti við
fleiri áhættusjóði sem keyptu bréf í
OMX hinn 9. ágúst. Á þeim degi gaf
kauphöllin í Dubai út yfirlýsingu um
að hún hefði eignast 4,9% hlut í OMX
og ætlaði sér frekari kaup af áhættu-
sjóðum, upp að 23% hlut.
Innherjaviðskipti með bréf OMX
Lögreglurann-
sókn í Svíþjóð
● LAURI Mikael Rosendahl hefur
verið ráðinn framkvæmdastjóri
Kaupthing Bank Oyj, dótturfélags
Kaupþings banka í Finnlandi. Lauri
Rosendahl hefur undanfarið gegnt
starfi framkvæmdastjóra útibús
Carnegie í Finnlandi jafnframt því
sem hann gegndi stöðu fram-
kvæmdastjóra markaðsviðskipta.
Áður gegndi hann sambærilegum
störfum hjá ABN Amro og Deutsche
Bank í Finnlandi. Lauri hefur rúmlega
20 ára starfsreynslu á fjármálamark-
aði. Hann mun hefja störf hjá Kaup-
þingi þann 1. desember næstkom-
andi.
Tommi Salunen, fráfarandi fram-
kvæmdastjóri Kaupþings í Finnlandi,
mun áfram gegna starfinu til 1. des-
ember og verða Rosendahl til að-
stoðar til áramóta.
Breytingar í Finnlandi
● BENEDIKT
Árnason hefur
verið ráðinn sem
aðstoðarforstjóri
Askar Capital.
Benedikt kemur
til bankans frá
Norræna fjárfest-
ingarbankanum í
Helsinki þar sem
hann hefur starfað sem einn af að-
stoðarframkvæmdastjórum bankans
og svæðisstjóri fyrir Ísland. Frá
1996 til 2005 starfaði Benedikt sem
skrifstofustjóri fjármálamarkaðar í
iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
Benedikt er hagfræðingur að
mennt. Hann lauk hagfræðiprófi frá
Háskóla Íslands árið 1990 og MA-
prófi í hagfræði og MBA-prófi frá Há-
skólanum í Toronto árin 1991 og
1993. Þá hefur Benedikt lokið prófi í
verðbréfaviðskiptum frá Prófnefnd
verðbréfaviðskipta. Hann hefur m.a.
stýrt fjölda opinberra nefnda um fjár-
mála- og orkumarkaði og setið í fjöl-
mörgum stjórnum fyrirtækja.
Benedikt til Askar
SKRIFAÐ hefur verið undir kaup
Landsnets á flutningsvirkjum í eigu
Orkuveitu Reykjavíkur, OR. Kaup-
verðið er 1,3 milljarðar króna og
greiðir Landsnet fyrir raforkuvirkin
með 900 milljónum í reiðufé og 400
milljónum í hlutafé í Landsneti.
Guðmundur Þóroddsson, forstjóri
Orkuveitu Reykjavíkur, segir að sal-
an komi til með að skerpa skil dreif-
ingar og flutnings á raforku, sem sé
til þess fallið að auka gegnsæi á þess-
um mikilvæga markaði.
„Okkur hefur tekist á síðustu ár-
um að lækka mjög raunverð raforku
til almennings með því að einbeita
okkur að því sem við gerum best.
Með því að flytja þessar eignir yfir til
Landsnets skerpum við áherslur
okkar enn frekar,“ segir Guðmund-
ur.
Þórður Guðmundsson, forstjóri
Landsnets, segir þetta einfalda
rekstur flutningskerfis raforku og að
betri yfirsýn fáist yfir kerfið. „Það er
ennfremur fagnaðarefni að fá Orku-
veitu Reykjavíkur í hluthafahóp
Landsnets,“ segir Þórður.
Við kaupin hefur Landsnet eign-
ast allt meginflutningskerfi landsins,
en fyrir skemmstu keypti Landsnet
flutningsvirki Hitaveitu Suðurnesja.
Kaupa
flutnings-
virki OR
Raflínur Fulltrúar OR og Lands-
nets undirrita kaupsamningana.
LME, félag í eigu Marel Food Syst-
ems, Landsbankans og Eyris Invest,
hefur aukið hlut sinn í hollenska iðn-
fyrirtækinu Stork í 43,3%. Fyrir átti
LME 32% hlut.
Í tilkynningu frá LME kemur
fram að með auknum eignarhlut sýni
félagið langtímaskuldbindingu gagn-
vart Stork. Auknum eignarhlut sé
jafnframt ætlað að tryggja og
vernda þá fjárfestingu sem þegar
hafi verið lögð í félagið. Er þar átt
við yfirtökutilburði breska fjárfest-
ingafélagsins Candover, sem hótað
hafi að þvinga út aðra hluthafa, jafn-
vel þó að þeir náði aðeins 51% hlut í
Stork. Hefur LME verið mjög
andsnúið yfirtöku Candover.
Að sögn Árna Odds Þórðarsonar,
forstjóra Eyris Invest og stjórnar-
formanns Marel Food Systems,
stefnir LME að viðræðum við fram-
kvæmdastjórn, stjórn og aðra hlut-
hafa Stork um framtíð félagsins með
það að markmiði að auka ávinning
allra hagsmunaaðila.
LME eykur við
hlut sinn í Stork
VIÐSKIPTI/ATHAFNALÍF