Morgunblaðið - 09.09.2007, Síða 32

Morgunblaðið - 09.09.2007, Síða 32
kína 32 SUNNUDAGUR 9. SEPTEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ M AÓ Tse-Tung, leið- togi kínverska al- þýðulýðveldisins frá stofnun þess 1949 til dauðadags 1976, var sjálfhverfur og gjör- samlega siðlaus valdasjúklingur, sem leitaði einkum í smiðju til sov- éska einræðisherrans Jósefs Stal- íns. Þetta er mat Jung Chang, höf- undar bókarinnar Mao: The Unknown Story eða Maó: Sagan sem aldrei var sögð, sem út kom í júnímánuði árið 2005, kemur nú út í íslenskri þýðingu og vakið hefur mikla athygli víða um heim. Chang er fædd í Kína en býr nú í Bretlandi ásamt eiginmanni sínum, sagnfræð- ingnum Jon Halliday, sem ritaði bókina með henni. Þau hjónin taka þátt í Bókmenntahátíðinni í Reykja- vík, sem hefst í dag og stendur út vikuna. Bók þeirra Changs og Hallidays er mikið rit, meira en 800 blaðsíður að lengd, og er byggð á ítarlegum rannsóknum þeirra. Bókin geymir harkalega gagnrýni á Maó formann og valdatíð hans og rekur ítarlega þær hörmungar sem hann kallaði yfir kínversku þjóðina. Talið er að um 70 milljónir manna hafi týnt lífi í hungursneyð og margvíslegum voðaverkum, sem framin voru í valdatíð formannsins í nafni fram- fara og kommúnisma. Maó lýsa þau sem morðingja sem hikaði ekki við að láta handtaka og drepa þá sem hann taldi standa í vegi sínum. Bók þeirra hjóna er yfirvöldum í Kína þyrnir í augum, hún er bönnuð í landinu og stjórnvöld hafa jafn- framt leitast við að tryggja að um- sagnir um hana komi ekki fyrir augu lesenda í Kína. Þannig var eitt tölublað tímaritsins Far Eastern Economic Review bannað í Kína vegna þess að þar birtist ritdómur um verkið. Jung Chang er einnig höfundur metsölubókarinnar Villtir svanir, sem segir sögu þriggja kynslóða kínverskra kvenna, hennar sjálfrar, móður hennar og ömmu. Sú bók kom út í íslenskri þýðingu hjá Máli og menningu. Morgunblaðið náði á föstudag tali af Jung Chang á heim- ili hennar í Bretlandi og tók eigin- maður hennar þátt í lokahluta sam- talsins. – Nú liggja fyrir ítarlegar upplýs- ingar um þær hörmunar sem Maó formaður kallaði yfir kínversku þjóðina. Ég geri mér ljóst að erfitt er að svara þessari spurningu í stuttu máli en hvers konar maður var hann, var það persónuleiki hans eða eitthvað í uppeldinu, sem gerði að verkum að hann gat gerst sekur um slík voðaverk og svo brjálsem- islega stjórnarhætti? „Uppeldið réði engu um það. Maó hlaut venjubundið uppeldi og ekkert sem hann upplifði í æsku hefði getað framkallað sérstaklega þann mann sem hann varð. Mikilvægasti þátt- urinn í sálarlífi hans var sókn eftir völdum, honum stóð gjörsamlega á sama um þjáningar annarra. Hann hugsaði aðeins um sjálfan sig og völd sín.“ – Honum er á stundum lýst sem 20. aldar keisara… „Ég held að sú lýsing sé ósann- gjörn í garð kínverskra keisara! Margir þeirra voru góðviljaðir menn þótt vissulega gerðust sumir þeirra sekir um ógeðfellda verknaði. Sumir þeirra voru að sönnu einræð- isherrar en enginn þeirra var jafn slæmur og Maó. Jósef Stalín var fyrirmynd Maós formanns, hann var andlegur lærifaðir hans. Maó var því fyrst og fremst afkvæmi ein- ræðishyggju 20. aldar. Í bókinni segjum við sögu hans, sögu, sem var um margt afar dramatísk og tengd- ist einnig atburðum utan Kína. Við eftirlátum síðan lesendum okkar að draga sínar ályktanir.“ Arfleifðin og umboðið til valda – Hversu mikilvæg er arfleifð Maós í Kína samtímans? Er hún áberandi og enn haldin mikilvæg? „Kína eftir dauða Maós er ólíkt því ríki sem hann stýrði. Núverandi ráðamenn hafa sagt skilið við stóran hluta arfleifðar hans og þá á ég við hroðalegustu birtingarmyndir hennar, fólk býr ekki lengur við hryllinginn, sem einkenndi valda- skeið hans. En á hinn bóginn er það svo, að núverandi stjórnvöld eystra eiga rætur sínar í valdatíð Maós. Ríkisstjórnin stendur því uppi með hluta arfleifðar hans. Mynd af Maó hangir enn á Torgi hins himneska friðar og leiðtogar Kína vísa enn til sín sem arftaka Maós. Geta menn séð fyrir sér stóra mynd af Hitler hangandi í miðborg Berlínar og ráðamenn Þýskalands halda því fram að þeir séu arftakar hans? Þetta er gjörsamlega óásættanlegt á 21. öld. Þann dag sem myndin af Maó verður tekin niður mun hið nýja Kína líta dagsins ljós, velviljuð þjóð, sem umheimurinn getur átt eðlileg samskipti við.“ – Það er sumsé mikilvægt fyrir núverandi ráðamenn í Kína að standa vörð um arfleifð formanns- ins? „Já, Kína er ekki lýðræðisríki og stjórnin þarf að leita leiða til að rétt- læta völd sín, þá staðreynd að það er Kommúnistaflokkurinn sem ræð- ur. Ráðamenn sækja því lögmæti sitt til Maós og segja hann stofn- anda „hins nýja Kína“. Þetta er auð- vitað alrangt. Önnur ástæða er sú, að stjórnin getur ekki liðið að Maó sé fordæmdur því þar með væri jafnframt kveðinn upp dómur yfir Kommúnistaflokknum. Kína er enn um margt kommúnískt ríki, það á ef til vill ekki við um hugmyndafræð- ina og efnahagsstefnuna en á mörg- um sviðum er kommúnísk harðlín- stefna ríkjandi, það á t.a.m. við um þau höft sem lögð eru á frelsi fjöl- miðla og tjáningarfrelsið. Efasemd- ir um Maó eru því röklega tengdar efasemdum um flokkinn og hið óskoraða vald hans.“ Hörmungar og heilaþvottur – Er ungu fólki í Kína enn gert að tileinka sér hugsun hans og kenn- ingar? „Nei, því er ekki gert að leggja stund á kenningar hans. Unga fólkið sætir á hinn bóginn heilaþvotti í þá veru að hann hafi verið mikilmenni, sem vann góðverk fyrir land og þjóð þótt hann hafi gerst sekur um nokk- ur mistök. Þetta tel ég stór- hættulegt nú þegar 30 ár eru liðin frá því að Maó lést. Ungt fólk í dag, þeir sem eru yngri en 30-35 ára, man vitanlega ekkert eftir Maó og því ástandi sem ríkti í landinu. Unga fólkið trúir því ekki, að atburður á borð við hungursneyðina miklu hafi gerst, það segir gjarnan að frásagn- ir hinna eldri hljóti að vera ýkjur, að óhugsandi sé að 40 milljónir manna hafi týnt lífi í henni. Það trúir því ekki að fólk hafi soltið í hel, það fær ekki trúað því að hryllingur menningarbyltingarinnar sé sögu- leg staðreynd. Í menntakerfinu er ekki fjallað um þessa atburði og stjórnvöld hafa bannað öll birting- arform tjáningar þar sem leitast er við að lýsa lífinu í Kína í valdatíð Maós. Með þessu eru stjórnvöld að framkalla vítahring. Því meiri sem heilaþvotturinn er því erfiðara verð- ur að fordæma Maó. Vilji núverandi ráðamenn á einhverju stigi úthrópa Maó verður það sífellt erfiðara eftir því sem tímar líða fram vegna þess að unga fólkið fær ekki trúað þessu og telur formanninn hafa verið mikla hetju.“ – Verður ekkert gott sagt um þennan mann? „Hugtakið „gott“ er siðrænt og Maó var gjörsamlega siðlaus. Vita- skuld bjó hann yfir vissum eigin- leikum, hann var um sumt framsýnn og síðan hafði hann unun af bókum. Maó svaf í gríðarstóru rúmi og við hlið hans í rekkjunni voru jafnan bækur, sem hann gat gripið í ef hann vaknaði að nóttu til. Lestur í rúminu var helsta tómstundagaman hans. En vandinn er sá að hann vildi ekki leyfa milljarði Kínverja að lesa bækur. Þegar ég var að alast upp í Kína fóru fram bókabrennur um landið allt. Í næstum tíu ár höfðum við ekkert að lesa ef frá eru taldar nokkrar bækur, sem okkur var sagt að lesa.“ Heimspeki sjálfsupphafningar og höfnunar – Á Vesturlöndum var því haldið á lofti að hann væri mikill heimspek- ingur, hugsuður og skáld. Var hann það? „Hann smíðaði sér vissulega eigin heimspeki. Í riti frá árinu 1918 þar sem er að finna hugleiðingar hans um þýska heimspeki kemur greini- lega fram að heimspeki Maós sner- ist einvörðungu um hann sjálfan. Hann upphóf sjálfan sig yfir allt og hafnaði fyrirbrigðum á borð við ábyrgð, samvisku, skyldu og góðvild í garð annarra. Hann taldi vilja sinn og langanir óvéfengjanlegar birtingarmyndir hins góða og þar með þess siðlega. Hann taldi sjálfan sig miðpunkt alls og sagði berum orðum að fólk á borð við hann hefði aðeins skyldum að gegna gagnvart sjálfu sér. „Framtíðin og fortíðin snerta á engan veg raunveruleika sjálfs míns,“ sagði hann meðal ann- ars, öll heimspeki hans var gjör- samlega sjálfhverf og fól í sér höfn- un gagnvart öðru fólki. Maó var prýðilegt skáld. Á hinn bóginn var alsiða í Kína í tíð Maó að menn fengjust við skáldskap, innan menntakerfisins var námsmönnum t.a.m. gert að yrkja ljóð. Þegar til- vonandi embættismenn gengust undir próf í tíð keisaranna var ljóð- listin talin mikilvægasta efnið. Kín- Maó var siðlaust afkvæmi alræðishyggjunnar REUTERS Heilaþvottur Kínverskir hermenn sýna mátt sinn og megin í borginni Changzhi í norð-austurhluta Kína. Mynd af leiðtoganum er á sínum stað og yfir henni gnæfir slagorðið „Lengi lifi maóisminn“. Arfleifð formannsins er enn mótandi í Kína þótt ógnarstjórnin sé ekki söm og áður. Jung Chang og John Halliday, höfundar rómaðrar bókar um Maó formann, eru gest- ir á Bókmenntahátíð- inni í Reykjavík sem hefst í dag. Ásgeir Sverrisson ræddi við þau um einræðisherr- ann, bókina og ástandið í Kína nú um stundir. »Mikilvægasti þátt-urinn í sálarlífi hans var sókn eftir völdum, honum stóð gjörsam- lega á sama um þján- ingar annarra. Gagnrýni Jung Chang ásamt bresku rithöfundunum Salman Rushdie (t.v) og Graham Swift. Rushdie sætti for- dæmingu í ríkjum múslíma fyrir bók sína Söngvar satans og dauðadómur var kveðinn upp yfir honum í Íran. Hon- um hefur nú verið aflétt en bækur Jung Chang eru bannaðar í Kína.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.