Morgunblaðið - 13.07.2008, Side 31
vorum ekki úti við, þá vorum við að teikna og
lita.
Pabbi var iðinn við að segja okkur til, þegar
hann hafði tíma. En honum féll bezt að vinna
einn og við urðum að vera ákaflega prúð til að fá
að fylgjast með honum uppi í vinnustofunni
hans.“ „Þegar við vorum lítil var okkur vinalega
snúið við og beint út úr vinnustofunni aftur,“
segir Sigrún. „en þegar við stækkuðum fengum
við að sitja inni og fylgjast með honum vinna.“
„Ég man vel þegar ég var að hlaupa til pabba og
sýna honum hvað ég væri að gera,“ segir Katr-
ín, „og hann var alltaf svo hvetjandi.“ Þær Þór-
hildur og Katrín muna eftir samstarfi við föður
sinn í sambandi við landbúnaðarsýningarnar,
sem Jóndi teiknaði margt fyrir og Sigrún minn-
ist þess að hafa hjálpað föður sínum við stærri
verk; auglýsingaskilti og þess háttar. „Ég man
eftir mér úti í fjárhúsi að mála skiltin,“ segir
Þórhildur. „Pabbi teiknaði letrið og gerði
skapalón sem ég málaði svo í gegnum.“
Gunnar Rafn segir, að hann hafi alla tíð verið
hugfanginn af list. Honum fannst gaman að
teikna sem strákur, „en svo dró svolítið úr því,
þegar ég var vændur um að draga upp myndir
af Andrési Önd og ýmsum dýrum.
Fjórtán ára í sveitinni í Bárðardal þótti mér
við hæfi að fara að mála eins og alvörumálari.
Ég sótti mjóar spýtur upp á háaloft, klippti bút
úr 50 kg hveitipoka og strengdi mér einskonar
léreft til að mála á.“
Gunnar Rafn nam myndlist á yngri árum á
Akureyri og seinna í Bandaríkjunum. Hann
hefur haldið þrjár einkasýningar: á Akureyri,
Húsavík og í Söderhamn í Svíþjóð og átt verk á
samsýningum hérlendis og erlendis.
„Ég fitlaði við píanóspil fram eftir aldri og
mér fannst gott að geta gripið í hljóðfæri og
málað í tómstundum.“
Hann segir engin listræn tengsl hafa verið
milli hans og föður hans. „En ég vissi af lífs-
kúnst hans: landslagsmyndum, auglýsingum,
manna- og dýramyndum. Systkini mín föð-
urmegin hafa ekki tengzt mér í listinni heldur.“
Gunnar Rafn er sérfræðingur í skurðlækn-
ingum. Hann segist hafa sett sér það markmið 8
ára eða yngri að verða læknir, bóndi og skáld.
„En læknisstarfið átti hug minn allan þar sem
ég vildi hjálpa sem flestum.“
Guðbjörg segist ekki hafa borið það við að
teikna hvað þá mála eftir að hún fór frá Lamb-
ey. „Ég hef ekkert verið á þeirri línunni,“ segir
hún. En systkini hennar segja listfengi hennar
á hannyrðasviðinu viðbrugðið og m.a. saumaði
hún bútasaumsteppi með 45 kveðjum frá
Lambeyjarættinni, sem þau systkinin gáfu
móður sinni áttræðri. Guðbjörg vann um árabil
á skrifstofu Leikfélags Reykjavíkur en starfaði
síðast sem fjármálastjóri BSRB.
„Börnin mín fjögur teiknuðu langtímum sam-
an þegar þau voru lítil og það án þess að ég væri
að halda því að þeim. Þetta er einhver þörf, sem
hljóp yfir mig, en lét þau ekki í friði."
Nú stundar eitt barna hennar myndlist-
arnám í listaháskólanum.
Þórhildur var sextán ára, þegar hún fékk inn-
göngu í Myndlista- og handíðaskólann. Hún
segir að pabbi hennar hafi haft orð á því að hún
væri fullung, en engu að síður hvatt hana ein-
dregið til þess að fara í skólann. „Þetta var það
eina sem ég alltaf ætlaði mér og það var ekki
eftir neinu að bíða fyrst ég komst inn.“ En af
hverju valdi hún grafíkina? „Það var eiginlega
Herði (Ágústssyni) skólastjóra að kenna eða
þakka. Mig langaði í málverkið, en Hörður hef-
ur efalaust séð að ég var ekki nógu burðug til
þess og að auglýsingateiknun hentaði mér bet-
ur. Hún var líka talin öruggara lifibrauð.“
Nú rekur Þórhildur eigin auglýsingastofu, en
hún hefur einnig teiknað og málað í frístundum,
einkum portrett, en líka farið með trönur út í
náttúruna og málað. „Mér er ekki hægt að feta í
fótspor föður míns í málverkinu. En þetta er
einhver innri þörf sem verður að fá útrás, hvað
sem það kostar.“
Kristjana hafði gaman af því að teikna sem
barn. „Ég var alltaf eitthvað að teikna eins og
hinir krakkarnir og fékk ágætis einkunnir fyrir
teikningu í skóla en svo varð nú ekkert fram-
hald á því.“
Kristjana hefur starfað fjármálamegin á
vinnumarkaðnum og er nú fjármálastjóri
Ferðaskrifstofu Íslands ehf.
„Pabbi var mjög glöggur talnamaður og var
meðal annars kjörinn endurskoðandi Mjólk-
urbús Flóamanna í tugi ára. Ég man ég spurði
hann einu sinni á mínum yngri árum, af hverju
ég hefði ekki erft listgáfuna frá honum eins og
hin systkinin og þá sagði hann og kímdi: Ætli
þú hafir þá ekki bara fengið eitthvað annað í
staðinn, og hefur þá líklega átt við reiknigáf-
una.“
Þó Kristjana sé ekki að teikna, þá segist hún
hafa mjög gaman af því að skoða alla myndlist
og listaverkabækur. „Og svo er nú ekki ónýtt að
hafa alla þessa listamenn í fjölskyldunni. Það er
næsti bær við að gera hlutina sjálf.“
Sveinbjörn sver af sér allar tilraunir til teikn-
inga, hvað þá með liti. „Ég var alltaf með hug-
ann við útiverkin. Þótt þú snúir öllu við hjá mér,
þá finnurðu ekki eina einustu mynd eftir mig.“
Hann segist þó hafa fylgzt með listsköpun föður
síns af tilhlýðilegri virðingu, en hugur hans hafi
verið bundinn við útistörfin. „Það er nóg af list-
inni í systkinum mínum. Einhver verður að
sinna landinu,“ segir hann og hlær, en hann hef-
ur lengst af stundað landbúnað.
Kristinn segist hafa teiknað sem barn eins og
gengur og gerist, en látið allt slíkt eiga sig eftir
það. Búskapurinn hefur átt hug hans allan og
hann býr á Staðarbakka, næsta bæ við Lambey.
Þegar ég geng á hann segir hann dræmt að
hann viti ekki hvort hann eigi að segja frá því,
að hann hafi á Hvanneyri teiknað nokkra hest-
hausa, en aldrei haft sig í það síðan að bæta
skrokknum við. „Ég læt systurnar alveg um
þetta. Náttúran og fjallaferðir eru mín áhuga-
mál. Við Sveinbjörn löbbum mikið til fjalla og
förum þá inn í hvert gil og skoðum listina sem
þar er. Hún er náttúrlega bara stórbrotin.“
Katrín lærði grafíska hönnun eins og Þórhildur
og starfaði við hana þar til bílslys batt endi á
langar setur við teikniborðið. „Ég var búin að
vinna með pabba og Þórhildi að ýmsum sýn-
ingum svo það lá beint við að leggja þetta fyrir
mig.“ Með starfinu teiknaði Katrín; notaði
blýant, kol og túss en greip líka í pensilinn.
„Þetta hafa mest verið tækifærisgjafir innan
fjölskyldunnar, en ég hef nokkrum sinnum sýnt
á kaffihúsum og selt þá eitthvað.“
Nú starfar Katrín við fjölskyldufyrirtækið
Steinastein, þar sem hún hefur aðstöðu til að
teikna og mála. Blundar það í henni að taka
skrefið til fulls yfir í málverkið? „Það getur svo
sem vel verið. En ég er bara að leika mér. Ég sé
á hverjum degi eitthvað í umhverfinu sem mig
langar að mála og þegar ég er að tala við fólk
grípur mig allt í einu löngun til þess að teikna
andlit þess. Það er nú bara lítið brot af þessu
sem kemst á pappírinn, en þetta er mín leið til
þess að tjá mig.“
Þorsteinn segist ekki kalla það að mála, þótt
hann taki upp pensil á tíu ára fresti og máli 3, 4
myndir. En hinsvegar er hann með blýantinn á
lofti flesta daga sem garðyrkjuverktaki og
teiknar upp lóðir. „Ég hugsa lóðirnar oft á blaði
og þá má vel vera að eitt og annað slæðist með.“
Grjótið er hans efni og þess sér víða stað á
Hvolsvelli. „Ég hef aðeins verið að vinna í grjót,
þegar fólk hefur viljað hafa íslenzka steina í
garðinum sínum. Þá prófa ég svona eitt og ann-
að.
Ég hef alltaf haft ánægju af grjóti. Einn
frændi minn og forfaðir var grjóthleðslumaður í
Mýrdalnum. Kannski mér kippi eitthvað í kynið
til hans. Og svo hef ég átt það til að flísa mósaík-
myndir á steina, þegar vel liggur á mér.“
Þegar ég geng á hann um teikningar og
myndverk svarar hann: „Svo ég tali nú eins og
verktaki, þá eru sumir fæddir vélamenn. Það
segir hins vegar ekki að við hin getum ekki lært
á vélar. En þær „lista“-systur mínar voru bara
búnar að búnka á vörubílinn með sinni vél áður
en ég fattaði, hvernig átti að setja mína vél í
gang.“
Þorsteinn segist vera ákafur skógræktar-
sinni. Og áhugaljósmyndari er hann eins og þau
fleiri systkinin.
Sigrún segir að myndsköpunin hafi verið fastur
partur af tilverunni og segist ekki muna eftir
sér öðruvísi en að hún hafi gaman af að teikna
og skapa. „Þegar ég var lítil ætlaði ég alltaf að
læra listmálun. Áhuginn dofnaði á unglingsár-
unum en blossaði svo upp aftur og ég sótti um
inngöngu í Myndlista- og handíðaskólann, mest
til að sjá hvort ég kæmist inn eða ekki, því ég
var á leið í hjúkrunarfræði. En fyrst ég komst
inn í MHÍ þá varð ekki aftur snúið. Og þá kom
ekkert annað en málverkið til greina, auglýs-
ingateiknunin heillaði mig ekki, þótt hún væri
kannski praktískari.“
Eitt ár var Sigrún á Granada á Spáni og tók
þá málun sem aðalfag og ljósmynda- og skúlp-
túráfanga í vali. Hún fetar nú í fótspor föður
síns og kennir myndmennt við Hvolsskóla. Og
býr á Ásvelli í túnfætinum hjá Lambey.
„Ég hef gaman af að vinna með fallega liti og
er mikill náttúruunnandi. Mér finnst gaman að
skoða listir frá sem flestum sjónarhornum. Ég
hef hins vegar ekki verið dugleg að mála, en nú
er ég alveg að setja kraft í það, því ég verð með
sýningu í Sögusetrinu á Hvolsvelli, sem opnar í
ágústlok.“
Ég spyr hvort þau systkinin hafi aldrei hug-
leitt að halda samsýningu. „Jú,jú. Við höfum oft
spáð í það. Og ég er viss um að við látum verða
af því.“
Allt út af honum Jónda
Lambeyjargenin eru langlífari en sem nemur
einni kynslóð, því listhæfileikar leynast víða
með barnabörnunum og í þeim hópi eru nem-
endur á listnámsbrautum og í listaháskóla.
Einnig hafa sum þeirra lært listir á yngri árum,
þótt þau hafi ekki gert þær að ævistarfi.
Og áhrif Jónda í Lambey ná út fyrir ættina.
Fyrir utan Sögusetrið á Hvolsvelli hitti ég
Katrínu J. Óskarsdóttur sem sýnir þar hesta-
myndir. Hún lærði grafíska hönnun og hefur
unnið á því sviði, en hefur síðustu ár í auknum
mæli snúið sér að málun og teikningu.
„Hann Jóndi kenndi mér teikningu og hafði
mikil áhrif á það hvað við nemendur hans hugs-
uðum og gerðum. Það fylgdi honum sérstakt
andrúm. Og fyrir hans orð fór ég í Myndlista-
og handíðaskóla Íslands. Ég ætlaði í leiklistina
en Jóndi sagði mér að láta það ógert og læra að
teikna og mála í staðinn. Og nú er ég hér að
sýna myndirnar mínar. Allt út af honum
Jónda.“
Lesbók Morgunblaðsins 16. september 1995: Gísli Sig-
urðsson: Bóndinn í Lambey – Teiknaði tvö þúsund aug-
lýsingar í Rafskinnu.
Sunnudagsblað Morgunblaðsins 29. desember 1996:
Árni Johnsen: Jóndi er kominn heim.
Lambeyjarhjónin Ragnhildur Sveinbjarn-
ardóttir og Jón Kristjánsson.
Kristinn Stórbrotin list í giljunum Þorsteinn Grjótið er mitt efni. Gunnar Rafn Litglaður læknir
Guðbjörg Ekkert á listalínunni Kristjana Erfði reiknigáfuna
Sigrún Með sýningu í ágúst Sveinbjörn List að sinna landi
Þórhildur Einhver innri þörf
Katrín Er bara að leika mér
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13. JÚLÍ 2008 31