Morgunblaðið - 25.10.2008, Qupperneq 6
6 FréttirINNLENT
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 25. OKTÓBER 2008
Eftir Silju Björk Huldudóttur
silja@mbl.is
NÆSTA ár mun vafalaust verða Ís-
lendingum erfitt. Hins vegar hefur ís-
lenskt samfélag áður tekist á við
breyttar þjóðfélags- og efnahagslegar
aðstæður með góðum árangri og því
eru allar líkur til þess að þjóðin kom-
ist hratt og örugglega upp úr þeim
öldudal sem framundan er. Á kom-
andi ári mun landsframleiðslan hugs-
anlega dragast saman um allt að 10%
með tilheyrandi auknu atvinnuleysi,
ráðgert er að verðbólgan muni ganga
hratt yfir og verða 4,5% undir lok
næsta árs. Þetta var meðal þess sem
fram kom á blaðamannafundi sendi-
nefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
sem haldinn var í húsakynnum rík-
issáttasemjara í gær.
Á fundinum sagði Paul Marthias
Thomsen, aðstoðarframkvæmdar-
stjóri Evrópudeildar Alþjóðagjald-
eyrissjóðsins og formaður sendi-
nefndar sjóðsins hérlendis, að til
skamms tíma væri hættan sú að þeg-
ar gjaldeyrismarkaðir yrðu opnaðir á
ný yrði gjaldeyrisflótti sem myndi
leiða til enn frekari lækkunar krón-
unnar. Slíkt gæti haft alvarlegar af-
leiðingar fyrir skuldsett heimili og
fyrirtæki. Því væri meginverkefnið
nú að koma á stöðugleika í gjaldeyr-
ismálum. Að sögn Thomsen eru við-
ræður þegar hafnar við ráðamenn
hinna Norðurlandanna, en hins vegar
væri ekki útilokað að Japanar og
Rússar gætu komið til aðstoðar.
Styðja íslensku áætlunina
Í máli Petya Koeva Brooks, yfir-
hagfræðings Evrópudeildar Alþjóða-
gjaldeyrissjóðsins, kom fram að mik-
ilvægt væri að íslenska bankakerfið
yrði endurreist sem allra fyrst til þess
að það geti stutt vel við efnhagslífið á
næstu árum. Spurður um skilyrði
lánsins lagði Thomsen áherslu á að
mikilvægt væri að tala um samstarf
íslenskra yfirvalda við Alþjóðagjald-
eyrissjóðinn sem heildarpakka þar
sem fyrst og fremst væri verið að
leggja áherslu á ítarlega efnahags-
áætlun með það að markmiði að koma
á efnahagslegum stöðugleika á ný og
grynnka á fyrirsjáanlegum skuldum
íslenska ríkisins frá og með árinu
2010. Sagði hann sendinefndina heils
hugar styðja fram komna efnahags-
áætlun íslenskra yfirvalda, enda væri
hún forsenda þess að sjóðurinn legði
Íslendingum lið. Spurður hvort sam-
komulag íslenskra stjórnvalda við
bresk stjórnvöld um sátt um stöðu
innstæðueigenda á Icesave-reikning-
um í Bretlandi væri skilyrði fyrir að-
komu og fjárhagsaðstoð Alþjóða-
gjaldeyrissjóðsins hérlendis svaraði
Thomsen því neitandi, en tók fram að
auðvitað væri mikilvægt að sátt næð-
ist um málið.
Framsækin efnahagsáætlun
Dominique Strauss-Kahn, fram-
kvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyris-
sjóðsins, segir á vef stofnunarinnar að
Ísland hafi samið framsækna efna-
hagsáætlun sem miði að því að end-
urvekja traust á bankakerfinu, koma
á jafnvægi í gengismálum á næstunni
og í ríkisfjármálum til lengri tíma lit-
ið. „Ég tel að þessar ákveðnu aðgerðir
réttlæti hve aðgengi að fé úr sjóðnum
er rúmt, en það samsvarar 1,190% af
kvóta Íslands í Alþjóðagjaldeyris-
sjóðnum, og verðskuldi stuðning al-
þjóðasamfélagsins.“
Erfiðir tímar framundan
Efnahagsáætlun íslensku ríkisstjórnarinnar er þríþætt Ná þarf stöðugu gengi krónunnar
Undirbúa á markvissar aðgerðir til að styrkja stöðu ríkissjóðs Endurreisa þarf íslenska bankakerfið
Morgunblaðið/Kristinn
Stinga saman nefjum Friðrik Már Baldursson, Ásmundur Stefánsson og Paul Marthias Thomsen á blaðamanna-
fundi sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem tilkynnt var um samstarf sjóðsins við íslensk stjórnvöld.
Í HNOTSKURN
»Ísland fær 2,1 milljarðBandaríkjadala að láni
hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum
til tveggja ára til að styðja
við uppbyggingu efnahags-
lífsins.
»Framkvæmdastjórn sjóðs-ins mun nú fara yfir áætl-
un Íslands, en ráðgert er að
formlegt samkomulag geti
legið fyrir í byrjun nóvember.
»Strax við staðfestingustjórnar sjóðsins koma
830 milljónir dala til greiðslu.
FORYSTUMENN ríkisstjórnarflokkanna vona að með
yfirlýsingunni um að formlega verði leitað eftir láni
hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum komist gjaldeyr-
isviðskiptin í lag. Geir H. Haarde skoraði jafnframt á
útflytjendur að koma með gjaldeyri til landsins. Með
falli Glitnis, Landsbankans og Kaupþings hrundu milli-
bankaviðskipti íslenskra banka við erlenda. Þó að
tryggð hafi verið innlend bankastarfsemi sem og inni-
stæður Íslendinga þarf sem fyrst að koma upp virkum gjaldeyrismark-
aði hérlendis, enda gæti langtímastöðvun gjaldeyrisviðskipta haft geig-
vænleg áhrif á íslenskt efnahagslíf. Þetta var meðal þess sem fram kom
í máli Paul Marthias Thomsen.
Sagði Thomsen að halda yrði fast um peningamálastefnuna hérlendis
á næstunni til þess m.a. að hindra að fjármagn hverfi út úr kerfinu með
áframhaldandi falli krónunnar. „Til að hindra þetta mun sjóðurinn
leggja Íslendingum til fjármagn og einnig eru miklar líkur til þess að
önnur lönd muni verða reiðubúin að leggja ykkur til fjármagn á grund-
velli þessa samnings sem hægt verður að nota til að ná gengi krónunnar
stöðugu,“ sagði Thomsen og nefndi í því sambandi að líklegt væri að
hinar Norðurlandaþjóðirnar myndu taka með jákvæðum hætti þátt í því
verkefni. Spurður hvort fastheldin peningamálastefna fæli í sér hækkun
stýrivaxta vildi Thomsen ekki svara því og sagði það myndi koma í ljós
á næstu dögum. gag@mbl.is, silja@mbl.is
Gjaldeyrisviðskiptin í lag
AÐ MATI Paul Marthias Thomsen verður verkefnið til
lengri tíma að koma á jafnvægi í ríkisbúskapnum. Segir
hann að mikil umskipti muni nú verða á stöðu íslenska
ríkisins sem hafi verið lítið skuldsett en verði nú mjög
skuldugt. Ekki liggi hins vegar fyrir hverjar skuldirnar
verði í raun fyrr en eftir nokkur ár þegar ljóst verður
hver verðmæti íslensku bankanna í útlöndum séu. Einn-
ig segir hann ljóst að minnkandi skatttekjur muni leiða
til aukins halla á ríkisrekstri.
Þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
voru spurð um skattahækkanir á blaðamannafundi sínum og sögðu þau að
það væru ekki gerðar kröfur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að hér yrðu
hækkaðir skattar. Ingibjörg sagði hins vegar að vel gæti verið að skera
þyrfti niður og hækka skatta á næstu tveimur eða þremur árum á meðan
farið yrði í gengum versta kúfinn. „En það er þá sjálfstætt pólitískt ákvörð-
unarefni okkar hér innanlands.“ gag@mbl.is, silja@mbl.is
Skattahækkanir mögulegar
„VIÐ þurfum að auka hagvöxtinn til að geta skapað ný
störf svo að þeir sem eru að missa vinnuna hérna fái
störf við hæfi. Þetta eru verkefni sem blasa við,“ sagði
Geir H. Haarde þegar hann kynnti ákvörðun ríkisstjórn-
arinnar um formlega umsókn um lán frá Alþjóðagjald-
eyrissjóðnum. Með falli bankanna þriggja, þ.e. Glitnis,
Landsbankans og Kaupþings, hafa að minnsta kosti
fimm hundruð manns misst vinnuna.
Að sögn Petya Koeva Brooks þarf að endurskoða regluverkið og eft-
irlitið með fjármálastofnunum hérlendis til þess að tryggja að svipaðir at-
burðir geti ekki gerst aftur. „ Auk þess þarf að setja upp skipulagða form-
gerð sem hefur það að markmiði að endurheimta eignir bankanna sem
lentu í erfiðleikum. Einnig þarf að tryggja að matið á eignum bæði gömlu
og nýju bankanna fari fram eins hratt og kostur er“
gag@mbl.is, silja @mbl.is
Endurskoða þarf eftirlitið
FRÉTTASKÝRING
Eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttir
gag@mbl.is
GERA þarf úttekt sérstaklega á því
hvort eftirlitsstofnanir, svo sem
Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og
ráðuneytin, hafi ekki virkað sem
skyldi í eftirliti sínu með mark-
aðnum. Það kom fram í máli for-
sætisráðherra, Geirs H. Haarde, og
utanríkisráðherra, Ingibjargar Sól-
rúnar Gísladóttur, á blaðamanna-
fundi í Ráðherrabústaðnum við
Tjarnargötu í gær. Þá var tilkynnt
um að ríkisstjórnin hygðist sækja
formlega um lánveitingu frá Al-
þjóðagjaldeyrissjóðnum.
„Ég tel að þingið þurfi að koma að
[úttektinni] og við þurfum að fá að-
ila erlendis frá til að aðstoða okkur
svo fullt traust og trúverðugleiki
ríki um að tengsl og hagsmunir ráði
ekki för,“ sagði Ingibjörg Sólrún.
Undir það tók Geir H. Haarde. Hún
sagði jafnframt sjálfgefið að rík-
issaksóknaraembættið skoðaði
hvort einhver lögbrot hefðu átt sér
stað í tengslum við fjármálakrepp-
una.
Þá sagði Geir að ný umgjörð um
peningamálastefnu Seðlabankans
kæmi vel til greina. Hins vegar yrðu
breytingar ekki gerðar fyrr en efna-
hagsþrengingar þjóðarbúsins væru
afstaðnar. Hlutverk Seðlabankans
nú væri að annast tengslin við Al-
þjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann ítrek-
aði einnig að ekki stæði til að skipta
um menn í brúnni í bankanum á
þessari stundu. Hann réði því.
Dökk staða framundan
Geir sagði stöðuna í samfélaginu
erfiða. „Myndin sem blasir við er sú
að það verður verulegt fall í þjóð-
arframleiðslu. Það verður verulega
aukinn halli á ríkisbúskapnum. Það
er óvissa um verðbólguna á meðan
gengið er ekki komið í fastar skorð-
ur.“ Þetta væru verkefnin sem
þyrfti að fást við. Næstu sex mán-
uðir yrðu mjög erfiðir. Komin væri
mynd á hvernig staðan yrði en ekki
væri tímabært að gefa upp spá rík-
isstjórnarinnar. „Við viljum ekki
eiga á hættu að setja viðræðurnar í
uppnám með óvarlegum orðum,“
sagði Ingibjörg Sólrún.
Fólk standi saman
Geir sagði að nú væri mikilvægt
að fólk missti ekki kjarkinn. Það
stæði saman og styddi hvað annað á
þessum erfiðu tímum. „Ég býst við
því að nú séu margir sárir og reiðir
en nú er ekki tíminn til þess að leita
að blórabögglum,“ sagði hann.
„Þegar við komumst út úr þessu
óveðri verður nægur tími til að velta
því fyrir sér hverjum er um að
kenna og hvort einhver hafi brotið
af sér og hvort og þá hverja eigi að
sækja til saka. En fyrst verðum við
að bjarga hér efnahagslífinu.“ Óljóst
væri hvenær rétti tíminn kæmi, en
ríkissaksóknaraembættið rannsak-
aði nú hvort lög hefðu verið brotin.
Geir og Ingibjörg vilja trausta úttekt
Morgunblaðið/Golli
Forsætisráðherra og utanríkisráðherra Geir H. Haarde og Ingibjörg Sól-
rún Gísladóttir leita formlega eftir láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.