Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 1963, Page 46

Náttúrufræðingurinn - 1963, Page 46
40 NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN er síðan ha£i hlutazt í sundur. Þessu víðáttumikla meginlandi hefur verið gefið nafnið Gondwanaland (3. mynd). Kenningin um Gondwanaland er alls ekki ný af nálinni, því að hún er upphaflega sett fram 1885 af austurrískum jarðfræðingi, Edward Suess. Þar sem Suðurskautslandið var þá alls ekki þekkt, var það ekki talið vera hluti af Gondwanalandi. Suess reiknaði ekki með neinni tilfærslu meginlandanna, heldur taldi hann, að svæðin á milli þeirra hefðu sokkið í sjó. Það var þýzki landkönnuð- urinn Alfred Wegener (1880—1930), sem fyrstur ruddi þeirri kenn- ingu til rúms, að núverandi meginlönd á yfirborði jarðar hefðu færzt til. Taldi hann m. a., að N- og S-Ameríka hefðu eitt sinn verið áfastar við Evrópu og Afríku, og bentu strandlínurnar beggja megin Atlantshafsins á, að svo hefði verið. Önnur rök fyrir þess- ari kenningu voru fellingafjöllin á vesturströnd bæði N- og S- Ameríku, sem hefðu myndazt, þegar þessi meginlönd færðust vestur á bóginn. Fellingafjöll þessi eru frá fyrri hluta tertiertímabilsins, og ætti þessi tilfærsla landanna að hafa átt sér stað þá. Nú vill svo til, að fellingafjöllin á þeim hluta Suðurskautslands- ins, sem veit að Kyrrahafinu, eru beinlínis framhald af Andes- fjöllunum, svo að vafalaust má telja, að þau hafi myndazt sam- tímis og á sama hátt. Ætti þá Suðurskautslandið að hafa færzt vestur á bóginn um leið og meginlönd Ameríku. Þær rannsóknir á jarðlögum Suðurskautslandsins, sem gerðar hafa verið síðustu árin, eru taldar styðja kenninguna um tilveru Gond- wanalands og tilfærslu meginlandanna. Bendir margt til þess, að Suðurskautslandið hafi verið þar sem nú er Indlandshaf, en hafi færzt þaðan á tertiertímabilinu og á þann stað, sem það er nú. Und- ir lok tertiertímabilsins tók að kólna á allri jörðinni, þar á meðal Suðurskautslandinu, sem þá var komið á suðurskautið. Yfir það lagðist síðan ísaldarjökull á sama tíma og á sama hátt og gerðist á norðanverðu norðurhveli jarðar. Norðurhvelið hefur nú löngu losnað við meginhlutann af sínum ísaldarjökli, en suðurhvelið geymir ennþá á Suðurskautslandinu stóran hluta af jöklum ísaldar- innar. Má segja, að enn sé ísöld á Suðurskautslandinu. Aðalheimildirnar að þessari grein eru sóttar í nokkrar greinar í Scienlific American, september 1962. Teikningarnar gerði Petrína Jakobsdóttir, að nokkru eftir sömu lieimild og að nokkru eftir korti, sem National Geographic Society gaf út í febrúar 1963.

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.