Náttúrufræðingurinn - 2008, Side 74
Náttúrufræðingurinn
í september vart við töluverðar hreyfingar á sigsvæð-
inu sem Siglufjarðarvegur liggur um á Almenningum
í Fljótum. Þá má einnig nefna grjóthrun og skriður
við ísafjarðardjúp og á Ströndum í tengslum við vor-
leysingar og rigningar í júnímánuði, en þá féllu m.a.
aftur og aftur skriður úr sama gilinu í Gleiðarhjalla í
Eyrarfjalli ofan við Isafjarðarkaupstað. En skriðuföll
geta orðið víðar en á landsbyggðinni, því þetta árið er
getið um grjóthrun á Grafarvogssvæðinu í Reykjavík,
en þar hrynur alltaf af og til úr klettum ofan við
Sævarhöfða þannig að slysahætta getur skapast á göt-
unni.
Mestu skriðuföllin á árinu urðu aftur á móti við
sunnanverðan Eyjafjörð dagana 20. og 21. desember.
Þessi skriðuföll urðu í kjölfar þess að snögglega
hlýnaði mikið í hvassri sunnanátt eftir langan snjóa-
og kuldakafla. Undir þykku snjólagi leyndist þíð jörð
þar sem vatn hripaði auðveldlega niður þannig að
jarðvegur og jarðlög urðu fljótt vatnsósa, sérstaklega
þegar til viðbótar við leysinguna tók að rigna mikið.
Af þessu leiddi að mikil flóð og vatnavextir urðu í
öllum ám og lækjum á svæðinu og orsökuðu m.a. stífl-
urof við Djúpadalsárvirkjun og hlaup úr uppistöðu-
lóni, en fljótlega tóku auk þess skriður og einstaka
krapaflóð að falla. Mest kvað að skriðuföllum í Eyja-
fjarðardal, Djúpadal, Öxnadal og Hörgárdal en auk
þess í Eyrarlandshálsi ofan við Akureyri. Þetta eru
þau svæði þar sem mest úrkoma féll aðfaranótt 20.
desember en auk þess féllu stakar skriður á öllu sunn-
anverðu Eyjafjarðarsvæðinu. Flestar féllu skriðurnar
snemma morguns 20. desember en vegna þess hve
vatnsósa jarðvegur og jarðlög voru orðin af öllu þessu
leysingar- og rigningarvatni féllu af og til skriður þar
til kólnaði að morgni 21. desember. Mesta athygli
vöktu skriðuföllin við bæinn Grænuhlíð í Eyjafjarðar-
dal en þar féllu 35-40 stórar og litlar skriður á um 3 km
löngum kafla. Af öðrum skriðum má nefna mjög stóra
skriðu sem féll niður fjallshlíðina rétt utan við eyði-
býlið Kolgrímastaði í Eyjafjarðardal og þá féllu einnig
stórar og áberandi skriður við Steinsstaði og Bakka í
Öxnadal. Fjöldi skriðna féll einnig fremst í Hörgárdal,
í nágrenni Búðarness, Flögu og Staðarbakka, og þá féll
stór og áberandi skriða rétt innan við bæinn Skriðu
utar í sama dal. Leysingar á vetri eru ekki óþekkt
fyrirbrigði við Eyjafjörð og á Miðnorðurlandi, en
sjaldgæft er að falli saman svona miklar leysingar og
úrkoma. Svona mikil skriðuföll á þessum árstíma eru
ekki þekkt úr heimildum á þessum hluta Eyjafjarðar-
svæðisins og verður að fara aftur til ársins 1887 til að
finna sambærilegar hamfarir, en þá annars staðar í
Eyjafirði.
Skjálftar
Engin stórtíðindi urðu á skjálftasviðinu. Samkvæmt
upplýsingum frá eðlisfræðisviði Veðurstofu íslands
varð öflugasta skjálfta ársins vart rétt austan við Kleif-
arvatn þann 6. mars og mældist 4,7 stig. Hann fannst
víða um Suðvesturland. Skjálftavirkni var hins vegar
fremur lítil á Suðurlandi og undir Mýrdalsjökli virtist
lítið um að vera miðað við undangengin ár. Hrinan
sem þar hófst 1999 og stóð út árið 2004 virðist nú
alveg liðin hjá. Undir Vatnajökli var aftur á móti all-
mikil virkni. I apríl kom hlaup úr eystri Skaftárkatlin-
um og í kjölfar þess varð lítil skjálftahrina. Mesta hrin-
an í Vatnajökli hófst 24. september sunnan Kistufells
með skjálfta upp á 4,1 stig en honum fylgdu um 200
eftirskjálftar. Órói var einnig í grennd við Herðubreið,
við Herðubreiðartögl sunnan fjallsins og einnig norð-
an þess.
Skjálfti varð 8 km SA af Flatey þann 1. nóvember.
Stærð hans reyndist 4,2 stig og fannst hann víða um
Norðurland. A þriðja hundrað eftirskjálftar mældust
næstu daga.
Athyglisverðustu skjálftar ársins urðu við Djúpu-
vík á Ströndum. Þar varð skjálftahrina dagana 7.-13.
september. Alls mældust 22 skjálftar og var sá stærsti
3,5 stig. Þessir skjálftar komu aðeins fram á mælum en
fundust ekki. Þetta voru svokallaðir innflekaskjálftar
sem urðu fjarri flekaskilum og kunnum skjálftabelt-
um. Þetta er í fyrsta sinn sem skjálftavirkni hefur orð-
ið vart við Djúpuvík.
Reikistjömum sólkerfisins fækkar!
Þótt engin stórmerki bæri fyrir augu á himinhvelinu á
árinu 2006 verður það að teljast allmerkilegt í sögu
stjörnufræðinnar. I marga áratugi hafa menn leitað að
tíundu reikistjörnunni, sem sumir hafa nefnt X. Nafn-
ið er margrætt og getur bæði táknað hina óþekktu
stærð eða niðurstöðu og rómversku töluna 10. A síð-
ustu missirum hafa fundist allstórir hnettir í útjaðri
sólkerfisins og einn þeirra, Eris, er stærri en Plútó.
Þessir hnettir líkjast Plútó um margt, ganga á ílöngum
Mynd af nokkrum stórum hnöttum scm ganga á brautum utan
Neptúnusar. Stærstur er Eris, sem heitir eftir gyðju missættis í
grískri goðafræði. Eris hefur tungl sem fengið hefur nafnið
Dysnomia, en hún var dóttir Erisar.
74