Samvinnan


Samvinnan - 01.08.1950, Blaðsíða 6

Samvinnan - 01.08.1950, Blaðsíða 6
Margföldunartaflan Smásaga eftir ÖRN SNORRASON VI N U R M I N N, sem er barnakennari, sagði mér þessa sögu: Eg var við kennslu í smáþorpi á Norður- landi fyrir nokkrum árum, og þar sem ég var eini kennarinn við skólann, hafði ég auðvitað titilinn skólastjóri, mér, og þó eink- um konu minni, til mikillar ánægju. Börnin komu tíu ára í skólann til mín, og þá voru þau flest orðin nokkurn veginn læs, en á hinn bóginn kunnu þau harla lítið í reikningi, svo að mikill hluti kennslutím- an; fór í þá námsgrein. Reikningur hefur ekki alltaf verið mín sterka hlið, og oft hef ég rekið mig á þá stað- reynd, að svo er ávallt um fleiri, ekki sízt blessuð börnin, sem pínd eru miskunnarlaust með þessum skrælþurru og steindauðu tölum, þangað til sálin í þeim er orðin eins og lang- ur talnadálkur og hjartað eins og ógreiddur reikningur. Þó er það sérstaklega eitt, sem alltaf hefur verið mér þyrnir í augum og bein í hálsi, og það er hin bannsetta marg- földunartafla. Það er lagt fyrir okkur kenn- arana að kenna börnunum töfluna, svo að þau kunni hana utanbókar, en mér hefur alltaf verið ljóst, hvílík misþyrming það er á blessuðum börnunum að þrýsta Jreim til að læra alla þessa runu án nokkurrar hjálp- artækm. Mikill hluti skólabarnanna þennan vetur hafði enn ekki lært töfluna, og Jtau, sem áttu að hafa lært hana, kunnu hana illa eða ekki, svo að ég ákvað að reyna að framkvæma það, sem lengi hafði verið ætlun mín að gera, ef tækifæri byðist. Öllum er ljóst gildi söngsins í kennslunni, því að þar er gleðin samferða. Það, sem mér hafði dottið í hug að gera, var að kenna börnunum margföldunartöfluna undir lög- um, sem þau kynnu, láta þau syngja hana. Trésmiðurinn í þorpinu var formaður skólanefndar, og fór ég til hans, því að mér fannst hyggilegra að gera þetta ekki algjör- lega upp á mitt eindæmi. „Hafið þér nokkuð á móti því, að ég láti börnin syngja margíöldunartöíluna?" Hann ýtti gleraugunum upp á ennið og leit á mig. „Syngja?" >.Já, ég álít, að Jrað verði léttara fyrir þau að læra hana, ef þau syngja hana. Hafið þér nokkuð á móti því, að ég geri tilraun með þfctta?" „A ég að spónleggja þennan skáp, sem þér báðuð mig um eða bara bæsa hann?" „Bæsa, bara bæsa. Já, hafið þér nokkuð á móti því, að ég reyni Jretta?" „Onei," sagði formaður skólanefndar og tók hefilinn sinn og fór að hefla. Eg flýtti mér út og var hinn ánægðasti. Fyrri hluti vetrar var reglulega skemmti- legur. Eg hef aldrei kennt reikning af ann- arri eins ánægju, og ég veit, að börnin voru ánægð líka. Eg hef aldrei fengið eins góðan árangur af kennslu. Það var sungið hálfan daginn, og er kom fram í desember, gat ég tekið börnin upp í töflunni, hvar sem var; þau kunnu hana öll. HÉR fara á eftir lögin, sem ég lét börnin nota við margföldunartöfluna: Tvisvar sinnum taflan: Kátir voru karlar. Þrisvar sinnum taflan: Táp og 'fjör. Fjórum sinnum taflan: Eldgamla ísafold. Fimm sinnum taflan: Komdu og skoðaðu í kistuna mína. Sex sinnum taflan Þú, vorgyðja, svífur. Sjö sinnum taflan: Meistari Jakob. Atta sinnum taflan: Já, flýt þér nú snót mín. Níu sinnum taflan: Hve sæl, ó, hve sæl. Að vísu fóru lögin ekki alls staðar vel við textann, t. d. var Kátir voru karlar heldur stutt, svo að tvisvar tíu varð útundan, en það var svo auðlært, að það gerði ekkert til. Eins þurfti líka að draga talsvert sums staðar eða hlaupa á atkvæðum, en börnin urðu fljótt leikin I þessu og höfðu ánægju af. Ég lét reikna mest í tímunum framan af vetri, en eftir nýárið lét ég krakkana hafa heimadæmi. Eitt kvöld í janúar sat ég heima við skrif- borðið og leiðrétti stíla. Konan var frammi í eldhúsi að baka kleinur. Allt í einu heyrði ég einhvern hávaða frammi, og konan kom inn og sagði, að læknisfrúin vildi tala við mig. „Hún er víst reið út af einhverju," bætti hún við. Ég stóð á fætur, lagaði hálsbindið mitt og þurrkaði svitann af skallanum. „Hvað eruð þér að kenna börnunum?" hreytti frúin út úr sér, um leið og hún snar- aðist inn úr dyrunum. Ég vissi ekki, hvaðan á mig stóð veðrið. „Hvað ég kenni þeim? Ja, það er nú ýmislegt. Hvað eigið þér við?" „Kennið þér börnunum að syngja marg- földunartöfluna?" „Já, ég geri það, og þér megið trúa því, að það er miklu léttara fyrir þau, því að. .. .“ „Léttara! Fussum svei! Hvernig haldið þér að sé að eiga heima I sama húsi og krakki, sem syngur hálfan daginn Komdu og skoð- aðu í kistuna mína, Meistari Jakob, Kátir voru karlar og þess háttar lög? Nei, strák- urinn er að gera mig snarbrjálaða." „Já, ég skal viðurkenna, að það er dálítið óheppilegt með Jón litla, því að hann er svo skrækróma og ekki lagviss, en skóla- nefndarformaðurinn hefur nú. ...“ „Þér ættuð bara að skammast yðar að geta ekki kennt eins og maður. Ég heimta, að þér látið krakkana hætta þessu söngli, annars skal ég klaga yður fyrir fræðslumála- stjóra." „Já, en frú mín góð, Montessori segir einhvers staðar, að það sé. ... “ „Mér er alveg sama, hvað hver segir! Þér skulið láta börnin hætta þessu eða hafa verra af!“ „Það er sjálfsagt, frú, að ég reyni að breyta til, en annars er haft eftir Pestalozzi, að það sé ekki.... “ „Mér er alveg sama, hvað einhverjir pestar- gemlingar segja! Þér skuluð venja börnin af þessu, eða ég tek til minna ráðal“ Hún strunsaði út, og ég elti hana út á götu. „Heyrið þér, frú,“ sagði ég, en hún virti mig ekki viðlits. Ég beið, þangað til hún var horfin fyrir húshorn, en þá kallaði 6

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.