Samvinnan


Samvinnan - 01.11.1950, Blaðsíða 7

Samvinnan - 01.11.1950, Blaðsíða 7
hann í friði? Mundi hún ekki minna hann á þennan verknað, jafnt í vöku og svefni? Þær tóku til að hvísla á ný raddirn- ar hið innra. Þú hefur ekki aðra útgönguleið en að falsa, hvíslaði hin slæma rödd. Þú verður að hugsa um skyldulið þitt. Hvað verður sagt við drengina þína: Stal hann pabbi þinn ekki hérna um árið, hvað var það nú mikið? Voru það ekki tíu þúsund krónur? Eða raddir nágrannanna: Þarna gengur Álfur Bogason. Var það ekki hann, sem náði sér í tíu þúsund krón- ur? Þeir geta hreykt sér hátt, þessir oflátungar. Svona verður þetta, og þaðan af verra, hvíslaði röddin. Þú ert heigull, ef þú ekki gerir þetta. Svona, vertu nú ekki að þessu hiki. Það dagar óð- ar, og þessi verk er bezt að vinna, þegar aðrir sofa. Þú ert einn, og eng- inn sér til þín. Láttu ekki hverja stund líða, án þess að hafast eitthvað að. Ætlarðu að fara í hundana út af þessum smámunum? Þannig sótti hún á hann, þessi rödd. Hún var ísmeygileg og sannfærandi, vilji hans varð veikari með hverri mínútu, sem leið. Hin röddin varaði hann við þess- um verknaði. Það kemst allt upp um síðir, hvíslaði hún. Þótt þú reynir að bera höfuðið hátt, þá skalt þú alltaf minntur á brot þitt. Langtum far- sælla er að skýra rétt og samvizku- samlega frá öllu. Reyndu að semja. Þú lætur Hildi vita af þessu. Hún leggur á ráðin með þér. Hún sparar eins og hún getur, svo að þú getir greitt rétt skuldina. Þetta og ekkert annað áttu að gera. Allt annað er óheiðarlegt og þér ósamboðið. Heyr á endemi! Hvað ætli það sé ósæmilegt. Þú veizt að margur mað- urinn hefur gert þetta. Láttu ekki smávegis tilfinningasemi aftra þér. Falsaðu, falsaðu, hafðu hraðann á. Tíminn líður. Dagurinn er að renna á loft. Ekkert hik lengur. Álfur gerði ýmist að svitna eða kólna. Þessi barátta var að verða hon- um ægilega þung. Svipur hans varð enn dimmari, og þegar hann tók hníf- inn sinn úr vasanum til þess að ná út tölu á einum reikningnum, þá skalf hönd hans, eins og á gamalmenni. Hann reis upp, gekk hratt um gólf eins og sá, sem er að forðast eitt- hvað ægilegt. Hann reyndi að ná jafnvægi á hug- ann. Var ekki betra að fá dálítinn frest? Hver vissi nema þeir félagar hans féllust á það. Þó skaut þeirri mót- báru upp, að slíkt væri í raun og veru það sama og kannast við allt saman. Grunur þeirra mundi vakna. Nei, hann gat ekki gert það. Átti hann að hætta á að falsa reikn- ingana? Já, það var ekki um annað að gera. Hann gæti ef til vill lagað þetta á næsta ári. Það var bezt að gera þetta. Láta allar góðar aðvaranir víkja. Herða sig bara upp í þetta, og vera ekki að þessu hiki lengur. Þarna hékk þykki yfirfrakkinn hans. Það yrði líklega bezt að fara í hann, því að það var farið að kólna inni í skrifstofunni. Hann fór í frakkann. Þessi þykki og góði frakki átti sér sína sögu, og þótt undarlegt megi virðast þá hafði Álfur aðeins farið í þennan frakka einu sinni áður. Hann hafði ekki ætl- að að kaupa frakkann, en Hildur hætti ekki fyrr en hann keypti hann. Það rifjaðist nú upp fyrir honum, að hann hafði farið í frakkann einu sinni í haust, og í kvöld hafði hann ekki ætlað að fara í hann, en Hildur hætti ekki fyrr en hann lét undan. Já, Hildur, hún var góð. Alltaf reyndust ráð hennar holl. Það var notalegt að klæðast þessari skjólgóðu flík. Svo tók hann ákvörðun. Hér eftir ætlaði hann ekki að hika. Hildur átti það ekki skilið, að hann léti hana lenda á hálfgerðum vergangi vegna ímyndaðrar samvizkusemi. Álfur settist á ný við borðið. En hönd hans skalf. Var honum kalt? Nei, því fór fjarri. Hann krosslagði hendur á brjósti sér og sat þannig litla stund. Stormurinn hvein og öskraði eins og fyrr, og baráttan um sál Álfs Boga- sonar var að ná hámarki. Hann var veginn og léttvægur fundinn. 'C'N hvað var þetta? Hvað var þarna ' í brjóstvasa nýja frakkans? Það var eitthvað hart viðkomu. Hvað hafði hann látið í vasann? Álfur varð forvitinn og stakk hendinni niður í vasann. Ha, hvað kom hann með — bók — sparisjóðsbók? Hvernig stóð á henni? Hver átti þessa bók? Álfur leit á blaðið, þar sem nafn eigand- ans er venjulega skrifað. Hvað sá hann? Var glýja í augum hans? Þarna stóð skýrum stöfum, svo að ekki varð um villzt: „Þróttur“. Hann fletti áfram. Þarna stóð skrif- að: „20. september, innlagt krónur tíu þúsund.“ Álfur vissi hvorki upp né niður. Var hann að missa vitið? Hvernig stóð á þessari bók? Af hverju var hún í vasa hans? Hvað hafði gerzt? Voru þetta þessar tíu þúsund krónur, sem hann hafði verið að leita að, þessir peningar, sem voru nærri því búnir að gera hann að glæpamanni? Hann greip dagbókina, líkt og drukknandi maður grípur í bjarg- hring. Hann fletti henni frá 20. sept- ember og fór nákvæmlega yfir hverja einustu línu, alla bókina út. Og það var hvergi nokkurs staðar stafkrók- ur um þessa fjárhæð. Skyndilega rann upp ljós fyrir Álfi. Nú mundi hann hvernig stóð á þessu. í september í haust ákváðu þeir fé- lagar að leggja í sérstaka bók hagn- að af tekjum eins bátsins. Skyldi þetta fé vera stofnfé íshúsbyggingar, sem þeir höfðu í hyggju að byggja, strax og hentugleikar leyfðu. Hann hafði síðan lagt féð í sparisjóðinn, látið bókina í vasann og steingleymt henni. Upp frá þeim degi hófst líka mokfiskirí, svo að hann var í marga daga með hugann við það, og það var varla hægt að segja, að hann kæmi nálægt bókhaldinu. Svo þegar hann fór að færa á ný, var bókin ekki við hendina, og hann hafði gleymt eins og fyrr segir að færa þessa fjárhæð úr sjóðnum, og því sýndi sjóðurinn tíu þúsund krónu innieign. Svona var öll sagan. Hann varð að játa að þessi dráttur á að koma öllu á sinn stað var óafsakanlegur. En nú hafði birt til í sál Álfs Bogasonar. Myrkrið, ömurleikinn og hin illa rödd höfðu orðið að þoka. Gleði hans var takmarkalaus og upp frá brjósti hans leið þakklát stuna, þakklæti manns, sem setur öllu ofar að vera ráðvand- ur og heiðarlegur. Og nú var hönd hans ekki skjálf- andi, er hann greip pennann og skrif- aði skýrum stöfum í dagbókina: „Af vangá hefur fallið niður að færa á reikning sparisjóðsins krónur 10.000.oo.“ Og nú kom allt rétt út. Hann vann af kappi nokkra stund. Síðan tók hann saman bækur og skjöl og lét allt inn í skáp. Nú gat hann farið heim, heim til Hildar. Hann ætlaði að segja henni alla söguna, þakka henni fyrir, að hún lét ekki undan honum með að fara í frakkann. Hann leit yfir skrifstofuna, og nú var svipur hans ekki dimmur, fal- (Framhald á bls. 22.) 7

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.