Spegillinn - 01.04.1983, Blaðsíða 9

Spegillinn - 01.04.1983, Blaðsíða 9
Ættfræði framboðanna Vilmundur Gylfason er ættborinn þingmaður og ráðherra af svokölluðu Aragötukyni. Hann er sonur Gylfa Þ. Gíslasonar, fyrrv. formanns Alþýðu- flokksins og ráðherra 15 ár samfleytt, dóttursonur Vilmundar Jónssonar þing- manns, tengdasonur Bjarna Benedikts- sonar forsætisráðherra, uppeldissonur Ólafs Jóhannessonar utanríkisráðherra (sjaldan launar kálfur ofeldið) og í fjöl- skyldutengslum við Halldór Blöndal, Ragnhildi Helgadóttur og fleiri þing- menn. Hann er því réttborinn forsætis- ráðherra eins og hann hefur margsinnis bent á í ræðu og riti. En það voru ýmsir ættleysingjar í Alþýðuflokknum sem stóðu í vegi fyrir frama hans og því fór sem fór. Hann neyddist til að stofna sinn eigin flokk og flytja frumvarp um nýtt forsætisráðherraembætti og hefur þann- ig búið í haginn fyrir óhjákvæmilega framtíð sína. Jón Baldvin Hannibalsson er annað dæmigert fyrirbæri. Hann er sonur Hannibals Valdimarssonar þingmanns ráðherra og formanns hvorki meira né minna en þriggja stjórnmálaflokka. Að auki er hann giftur inn í ættina Schram en þau systkini eru öll gott dæmi um pólitísku ættfræðina, þau Bryndís, Ell- ert, Gunnar og Magdalena. Jón Baldvin er búinn að reyna fyrir sér í öllum þeim flokkum sem faðir hans var formaður fyrir og nú loksins er ætterni hans farið að njóta sín. Þess skal getið að Hannibal er skírður í höfuðið á Hannibal, sem lagði Rómaveldi í rúst, en Jón Baldvin heitir eftir Jóni Baldvinssyni, fyrrv. for- manni Alþýðuflokksins og varð því snemma ljóst að hann var útvalinn til metorða í hópi Hannibalssona. Jóhanna Sigurðardóttir er að sjálf- sögðu dóttir Sigurðar Ingimundarsonar þingmanns Alþýðuflokksins og erfði þingsæti hans. Þegar Bjarni Guðnason fyllti það skarð, sem Vilmundur tæmdi, var það að sjálfsögðu fyrir ætternis sakir eða öllu heldur tengda. Hann er tengdasonur Tryggva Þórhallssonar forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins. Al- kunna er að Tryggvi yfirgaf Framsókn- arflokkinn áður en hann var allur og hefur Bjarni nú tekið upp fallið merki hans og lagt tvo flokka að velli og reynir nú við hinn þriðja. Þess skal getið að Gunnar Thoroddsen er í fjölskylduteng- slum við Bjarna og spillir það ekki. Verst er að Emanúel Morthens er ekki á lista Alþýðuflokksins því að hann er kominn af Victor Emanúel Ítalíukon- ungi og hefði því örugglega komist á þing. Við getum víða borið niður en til gam- ans skulum við taka fyrir tvo ástsælustu leiðtoga Sjálfstæðisflokksins, ef frá er talinn Ólafur G. Einarsson, þá Albert Guðmundsson og Geir Hallgrímsson. Það hefur að vísu aldrei heyrst að Albert væri af ættum kominn en hann er alís- lenskur eins og hann sýndi fram á af sinni alkunnu snilld í sjónvarpi fyrir skemmstu. Þetta er mjög mikilvægur eiginleiki eins og þeir vita sem kynbætur stunda. Flestir Islendingar eru komnir af frönskum skipbrotsmönnum, gyðing- legum kaupmönnum eða öðrum óþjóðalýð og er því Albert sannari ís- lendingur en flestir nútímamenn. Þetta hefur lyft honum til vegs og valda í ís- lenskum stjórnmálum. Allt öðru máli gegnir um Geir Hall- grímsson. Faðir hans var þingmaður og flestir frændur hans og vinir. Hann er af svokallaðri Reykjahlíðarætt en mönnum af henni verður yfirleitt engrar undankomu auðið. Þeir verða þing- menn hvort sem þeim er það ljúft eða leitt. Þar segir ætternið eitt til um. Ég spái Geir glæsilegri framtíð. í þessari stuttu upptalningu hefur aðeins verið tæpt á sumu en af nógu er að taka. Hvað t.d. um Steingrím Her- mannsson, sem tók við Framsóknar- flokknum af föður sínum og hvað með Ingvar Gíslason sem skipaði Arnþór Helgason, frænda sinn, í stöðu um dag- inn? Hvað með þá frændur og uppeldis- bræður, Svavar Gestsson og Friðjón Þórðarson, sem mynduðu saman ríkis- stjórn og klufu Sjálfstæðisflokkinn fyrir ætternissakir? Þeir eru báðir af Breiða- bólstaðarættinni í Dölum, aldir upp hjá Steinunni gömlu á Breiðabólstað sem lagði á ráðin. Hvað með Hjörleif Gutt- ormsson, sem kominn er af Árna óreiðu í Brautarholti og er þar að auki fóstri Lúðvíks Jósefssonar og hvað með Ólaf G. Einarsson sem kominn er af Ragnari loðbrók? í næstu grein verður frekar farið í saumana á ættfræði framboðanna. En vegna þess að minnst var á Ólaf Ragnar Grímsson í upphafi þykir rétt að sýna frarn að sky ldleika hans við Skúla fógeta en sá skyldleiki uppgötvaðist er sáust líkindin með Ólafi og styttunni í Fógeta- garðinum. En ættrakningin er svona: Ólafur Ragnar Grímsson rakara Krist- geirssonar Jónssonar í Bakkakoti Jón- sonar gríss Magnússonar Skúlasonar fógeta. 9

x

Spegillinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spegillinn
https://timarit.is/publication/349

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.