Fálkinn


Fálkinn - 15.08.1962, Síða 25

Fálkinn - 15.08.1962, Síða 25
LÍKAMSRÆKT Ég minnist þess að hafa lesið um það einhversstaðar, að íslendingar væru orkulausir svo mjög að orði væri á ger- andi hið mesta. Væri tvítugur maður með svipaða orku og hann pabbi hans, maðurinn, langt genginn á sjötugasta árið. Ég er nú ekki gamall, en alls ekki ungur að heldur, heldur einhversstaðar þarna mitt á milli, þegar menn eru ekk- ert. Nú var það svo um daginn, að ég fór að spila knattspyrnu með nokkrum starfsbræðrum mínum, sem hafa hina mestu nautn af því að hlaupa hálf ber- rassaðir um víða velli, með þennan hérna bolta á undan sér, eða yfir sér, eða þá, sem oftast verður, hvergi ná- lægt sér. Ég veit satt að segja alls ekki hversvegna ég álpaði sjálfum mér út í annað eins og það, að fara að leika með í knattspyrnu. Nú, en ég taldi mig ekki svo gamlan, og þykist nokkuð vel að manni, miðað við menn, svona yfirleitt. Nema það, að þarna stend ég um fimm- leytið einmana maður milli tveggja stanga með þverslá yfir, og geri tilraun til þess að vera það sem ég eitt sinn var, markvörður í fjórða flokki í Fram. Eftir því sem mæði mín jókst, jukust og mörkin sem gerð voru hjá mér, bolt- inn fór á milli fóta mér, undir mig, yfir mig, til hliðar við mig og bókstaflega í kringum mig, rétt til að árétta þessa vonlausu stöðu mína í markinu. Og ég, blessaður aulinn, hljóp og stökk, kast- aði mér einhvern fjandann út í loftið, löngu eftir að boltinn var seztur um kyrrt í netinu, bara til að „vera með“. Ef boltinn fór fram hjá markinu, hljóp ég léttur í spori, ,,til að sýnast“, á eft- ir honum og þegar ég náði honum, var ég að kafna. Þá þóttist ég þurfa að laga skó minn, eða sokka, eða bara einhvern andskotann, allt var betra, en springa af mæði, svona fyrir allra augum. Og þegar dómarinn sá aumur á mér og flautaði æfinguna á enda, varð ég um stund að hanga í netinu, gapandi móti miðdegissólinni og spegilsléttum sjón- um og Snæfellsjökull var fegurri en ég hef lengi séð hann. Svo fórum við í bað, heitt og lengi stóð ég þar og var nú mun hressari. Ég gortaði jafnvel dálítið með, að ég hefði nú ekki búizt við því að ég væri í jafn góðri þjálfun og ég væri, eftir öll þessi innisetuár. — Þú færð harðsperrur í fyrramálið, sagði einn. — Vitleysa, sagði ég. Ég, sem syndi daglega. Ég þoli þetta. Hvenær er næsta æfing? Blessaður aulinn. Ég vaknaði með hljóðum daginn eftir. Að fara fram úr var ólýsanleg kvöl. Fæturnir virtust hafa yfirgefið mig, og skilið eftir í rúm- inu hjá mér tvo trédrumba, án liða- móta, án lífs, án blóðs. Bakið var marg- brotið, og handleggirnir megnðu ekki að lyfta kaffibollanum upp að vörun- um, sem voru það eina heila á öllum mínum langa líkama. Hvílíkt himin- hrópandi ranglæti. Þarna var ég, eins og ég hefði verið boltinn. Það var eins og ég hefði verið gripinn á lofti, það hefði verið sparkað í mig, ég kallaður „drepinn11 eins og það er kallað á knatt- spyrnumáli og sparkað svona tíu sinn- um í bölvaða þverslána. Dagurinn var hörmulegur. Hvílíkur dagur. Að sitja var kvöl, að standa í báða drumbana var kvöl, að leggjast út af um kvöldið var hræðilegt. Hver taug í skrokknum á mér veinaði, hver vöðvi lét gera svo vel og braka í sér, lífið var ekki lengur þess virði að lifa því. Og meðan ég leið þessar líkamlegu kval- ir, datt mér aldrei í hug að spyrja: Hversvegna??? Við, þessir blessaðir menn, sem vinn- um sitjandi, án afls, erum jafnvel hætt- ir að þurfa að hugsa, erum á góðri leið með að verða eins og lík sem gleymst hefur að grafa. Hér verður að taka í taumana. Vekja ,,líkin“ til lífs á ný, gefa okkur, sem förum stynjandi í hátt- inn, nýtt ljós, nýa von. Það verður að stofna framfarafélag miðaldra manna, sem hefur það eitt á stefnuskrá, að fækka kvöldunum sem við dveljumst á börum eða á hverskonar svalli, og auka líkamsrækt okkar. Við nennum ekki að stunda leikfimi, við skulum viðurkenna það. Hún gerir held ég ekki það gagn sem okkur dugar. Hér verða að koma til góðra manna ráð og djarfra, sem búa til nýtt hlutverk fyrir okkur, leik- arana í síðasta þætti lífsleiksins. Ég skora hér með á alla, sem hafa heila og kunna að nota hann, að senda mér tillögur um leik eða leiki sem henta miðaldra mönnum sem eru nú þegar í of þröngum buxum, af því að þeir vilja ekki horfast í augu við stað- reyndir. Leik, sem veitir okkur þá hreyfingu sem við þurfum, þá leikgleði sem börnin ein njóta. Leikurinn verður að vera mjög sniðugur. Hann verður að vera léttur í fyrstu, bráð- skemmtilegur, því vitið það allir, að það líf sem viðlifum er sterkur andstæð- ingur hins heilbrigða lífs. Leikurinn sá verður að vera öllum fær, öllum ódýr, og hann þarf að skila árangri fyrr en 15 mínúturnar hans Charli Atlas. Hitt er víst. Ég fer ekki í knattspyrnu oftar. En ég sit uppi með þá staðreynd, sem enginn þorir að viðurkenna, að ég er of gamall miðað við aldur. Ég geng með þá staðreynd í rassvasanum, í hvert skipti sem ég sezt lætur hún að sér kveða. Dagur Anns.

x

Fálkinn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.