Fréttablaðið - 17.11.2009, Blaðsíða 16
16 17. nóvember 2009 ÞRIÐJUDAGUR
greinar@frettabladid.is
FRÁ DEGI TIL DAGS
FRÉTTABLAÐIÐ Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík SÍMI: 512 5000, ritstjorn@frettabladid.is FRÉTTASTJÓRAR: Arndís Þorgeirsdóttir arndis@frettabladid.is, Kristján Hjálmarsson, kristjan@frettabladid.is Trausti Hafliðason trausti@frettabladid.is og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál) hdm@frettabladid.is
MENNING: Páll Baldvin Baldvinsson fulltrúi ritstjóra pbb@frettabladid.is VIÐSKIPTARITSTJÓRI: Óli Kr. Ármannsson olikr@markadurinn.is HELGAREFNI: Anna Margrét Björnsson amb@frettabladid.is og Sigríður Björg Tómasdóttir sigridur@frettabladid.is ALLT OG SÉRBLÖÐ: Roald Eyvindsson roald@frettabladid.is
og Sólveig Gísladóttir solveig@frettabladid.is ÍÞRÓTTIR: Henry Birgir Gunnarsson henry@frettabladid.is LJÓSMYNDIR: Pjetur Sigurðsson pjetur@frettabladid.is FRAMLEIÐSLUSTJÓRI: Kolbrún Ingibergsdóttir kolbrun@frettabladid.is
ÚTGÁFUFÉLAG: 365 miðlar ehf. STJÓRNARFORMAÐUR: Ingibjörg S. Pálmadóttir FORSTJÓRI OG ÚTGÁFUSTJÓRI: Ari Edwald
RITSTJÓRI: Jón Kaldal jk@frettabladid.is AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir steinunn@frettabladid.is
Fréttablaðið kemur út í 90.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Einnig er hægt
að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu
formi og í gagnabönkum án endurgjalds. Issn 1670-3871
Á dögunum skapaðist nokkur úlfaþytur þegar upp komst
að fjármálastjóri KSÍ hefði týnt
milljónum af kreditkorti sam-
bandsins á strípiklúbbi í Sviss
fyrir nokkrum árum. Í kjölfarið
var formaður KSÍ kallaður í við-
töl og hélt því fram að núna væru
líklega breyttar aðstæður en árið
2005 hefði þetta þótt léttvægt.
Vissulega er það staðreynd að
siðferði er afstætt og gildi taka
breytingum í aldanna rás. Þess
er ekki að vænta að hellismenn
á steinöld hafi haft nákvæmlega
sömu gildi og fólk í iðnvæddum
nútímasamfélögum. En hér erum
við að ræða um lítið land og fáein
ár. Getur það staðist að íslenskt
samfélag hafi gengið í gegnum
menningarbyltingu á fáeinum
árum?
Vissulega hafa ekki allir end-
urmetið sín gildi; sumum finnst
kannski mál á borð við þetta hjá
KSÍ ennþá vera algert smotterí
og þá með rökunum: „Hver hefur
ekki eytt milljónum af kredit-
korti annarra í strípiklúbbi í
útlöndum?“ En það hafa raunar
ekki allir gert og það sem meira
er, myndu ekki gera þótt þeir
væru í aðstöðu til þess. Sama
siðferðisvitundin kom fram hjá
markaðsmanni ársins 2009 á dög-
unum þegar ráðuneytisstjóri var
sakaður um að hafa notað inn-
herjaupplýsingar til að hagnast
fjárhagslega. Markaðsmaðurinn
snjalli kom ráðuneytisstjóranum
til varnar, ekki með því að lýsa
yfir sakleysi mannsins, heldur
með þeim rökum að ef hann væri
sekur þá væri það hið besta mál.
„Hver myndi ekki nota innherja-
upplýsingar í eiginhagsmuna-
skyni til að hjálpa fjölskyldu
sinni.“ Aftur er svarið hið sama:
Það hafa ekki allir gert og það
myndu ekki allir gera þótt þeir
væru í aðstöðu til þess. Formað-
ur KSÍ hefði getað bent markaðs-
manninum á að hann væri ennþá
að miða við siðferðisvitund ársins
2005; núna væru breyttir tímar.
Hjá þjóðfundinum sem hald-
inn var í Laugardalshöll um
helgina kom fram að nýir vind-
ar skekkja samfélagið. Slembi-
úrtakið sem mætt var á fundinn
komst að þeirri niðurstöðu að
heiðarleikinn ætti að vera í önd-
vegi í íslensku samfélagi. Þetta
finnst kannski einhverjum vera
sjálfsagður hlutur en hann er
það ekki. Samkvæmt formanni
KSÍ var þetta öðruvísi árið 2005
og hjá markaðsmönnum er þetta
ennþá öðruvísi. Þar þykir sá
snjallastur sem er til í að mæla
lögbrotum bót.
Þjóðfundurinn vill heiðarleika
og það er til marks um nýtt and-
rúmsloft á Íslandi. Á þjóðfund-
inum var líka talað um jafnrétti
og kannski er vert að stjórn KSÍ
fari líka að taka mið af því. Fyrir
örskömmu síðan, líklega hálfri
menningarbyltingu, þótti það
sæta miklum tíðindum að kona
sóttist eftir því að verða for-
maður KSÍ en hún hlaut þó ekki
brautargengi. KSÍ hefur á sér
það yfirbragð að það sé lokaður
karlaklúbbur þar sem stjórnir
endurnýi sig sjálfar og ógerning-
ur sé að breyta til. Heimsókn-
ir starfsmanna á strípiklúbba
þar sem kreditkort þeirra lenda
óvænt (en tímabundið) í hönd-
unum á skuggalegum mönnum
draga svo sannarlega ekki úr
ímynd KSÍ sem karlaklúbbs af
gamla skólanum. En Geir við-
urkennir að núna sé komið árið
2009 og staðan önnur. Kannski
verður bráðum líka menningar-
bylting innan KSÍ.
Heiðarleiki og jafnrétti eru góð
gildi, en á þjóðfundinum var líka
rætt um virðingu. Og virðing er
vissulega táknrænt hugtak sem
skírskotar í weberíska orðræðu
félagsvísindanna. Max Weber
vildi meina að í borgaralegum
samfélögum væru auður og vald
jafnan tempruð af þriðja þættin-
um, virðingunni. Í þeirri sýn fólst
að gróðahyggjan mætti ekki vera
einráð, þannig væri ekki hægt
að byggja upp samfélag. Þetta
gleymdist á dögum útrásarinn-
ar þegar íslenskir auðmenn ríktu
yfir landinu og allt snerist um þá
og þeirra hagsmuni. Árið 2005,
þegar KSÍ-fjármálastjórinn fór á
barinn með óbeislað kreditkort,
var virðingin í vörn á Íslandi
– eina gildið sem skipti máli var
auðgildið. Þeir sem ekki áttu pen-
inga urðu að taka þá að láni til
að vera með – í þeirri samkeppni
um ríkmannlegan lífsstíl marg-
földuðust skuldir heimilanna og
gríðarlegur fortíðarvandi varð
til sem núverandi ríkisstjórn
þarf að glíma við. En virðingin
er ekki bara weberískt hugtak,
hún er eitt af slagorðum baráttu-
samtaka fyrir félagslegu réttlæti.
Og kannski er það einn þáttur í
breyttu andrúmslofti okkar daga
– að félagslegt réttlæti er komið
aftur á dagskrá.
2005-siðferðið
SVERRIR JAKOBSSON
Í DAG | Réttlæti, heiðarleiki
og virðing
UMRÆÐAN
Jón Þór Sigurleifsson skrifar um
Barnasáttmála SÞ
í 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóð-anna er fjallað um þátttöku barna og
segir þar m.a.: „börn eiga rétt á að láta í
ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða
þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoð-
ana þeirra í samræmi við aldur þeirra og
þroska“. Í tilefni af 20 ára afmæli sáttmál-
ans vil ég fjalla lítillega um þátttöku barna í þjóð-
félaginu.
Eftir að unglingamenning varð til með tilkomu ´68
kynslóðarinnar og aukinni félagslegri meðvitund
ungs fólks hefur hlutverk barnsins breyst mikið.
Börn verða sífellt sjálfmeðvitaðri og þó það hafi
sínar slæmu hliðar (aukning sjálfsmyndarvanda-
mála í yngri aldurshópum) þá hefur það einnig þau
áhrif að krakkar læra gagnrýna hugsun fyrr og geta
velt alls konar hlutum fyrir sér. Þegar ungt fólk vill
taka þátt í umræðum um hin ýmsu málefni verður
að taka því vel ef vel er meint þar sem síendurtekin
neikvæð svörun við slíkri viðleitni til þátttöku getur
heft tjáningarhæfni einstaklingsins til langs tíma
litið. Þetta er ekki einhliða vandamál þar
sem unglingar eru misspenntir fyrir því að
vera félagslega virkir en að hafa þennan
valkost opinn tel ég grundvallaratriði sem
verður að vera til staðar. Á mínum grunn-
skólaárum var gagnrýnin hugsun ekki mjög
vinsæl meðal kennara og ef spurningar eins
og „Af hverju lærum við þetta?“ komu upp
var það ekki gagnrýnin hugsun heldur var
það „derringur við kennarann“.
Ég skil að kennarar vilji ekki eyða
kennslustundum í útskýringar á náms-
skrá en ég held að það væri mikil bót á kerfinu ef
umræðan væri opnari og ef slíkar rökræður gætu
átt sér stað í skólum væru börn betur undirbúin
undir þau verkefni sem þau standa frammi fyrir
síðar á skólagöngunni og að henni lokinni. Ótal verk-
efni í unglingadeild grunnskóla og framhaldsskóla
krefjast rökstuðnings og í daglegu lífi þurfum við
oft að færa rök fyrir máli okkar en ef réttur okkar
til að spyrja spurninga er tekinn frá okkur hvað
höfum við þá? Er tjáningarfrelsi ekki einn grund-
vallarþáttur mannréttinda óháð aldri?
Höfundur skrifar fyrir hönd ungmennaráðs
Barnaheilla.
Barnasáttmálinn og þátttaka barna
JÓN ÞÓR
SIGURLEIFSSON
Getur það staðist að íslenskt
samfélag hafi gengið í gegnum
menningarbyltingu á fáeinum
árum?
Stórhöfði 17 (gengið inn um Veggsport)
Sími: 695 8464 og 772 1025
www.jogastudio.bloggar.is
Hot jóga
Hatha Jóga
Byrjendanámskeið
Meðgöngujóga námskeið
Stakur tími 1.500 kr.
Mánaðarkort 9.265 kr.
3 mánaðakort 20.315 kr.
6 mánaðakort 30.600 kr.
15%
afsláttur af
öllum kortum
opnunartilboð
Byrjendanámskeið 12.665 kr.
Meðgöngujóga námskeið 9.265 kr.
Innifalið í kortum eru allir opnir tímar
ásamt þeirri þjónustu sem boðið er upp á
í Veggsport.
Ný og persónuleg jógastöð
ÍNN-áhrifin
Ingvi Hrafn Jónsson, Hallur Hallsson
og Jón Kristinn Snæhólm sátu á
rökstólum á Hrafnaþingi á dögunum.
Notaði sjónvarpsstjórinn tækifærið
og spurði sessunauta sína hvernig
þeim litist á Moggann eftir að Davíð
Oddsson tók við sem ritstjóri. Hallur
og Jón Kristinn voru báðir nokkuð
ánægðir; hrósaði sá fyrrnefndi
Mogganum sérstaklega fyrir að
vera ferskur og skemmtilegur.
Jón Kristinn bætti aftur á móti
við hversu ánægjulegt væri að
Morgunblaðið væri komið á
„ÍNN-línuna“ í Evrópu-
málum. Sannast þá hið
fornkveðna að dropinn
holar steininn.
Þorsteinn verðlaunaður
Þorsteinn frá Hamri hlaut verðlaun
Jónasar Hallgrímssonar á degi
íslenskrar tungu í gær og það verð-
skuldað. Ljóð Þorsteins eru mörg
hver holl lesning á þessum síðustu
og verstu tímum, til dæmis eftir-
farandi línur úr ljóðinu Golgata, úr
bókinni Spjótalögum á spegli
frá 1982, sem lýsa vel þeirri
auknu hörku sem komin
er í íslenska þjóðmála-
umræðu: „Þú kaupir
þér ekki nagla til að
krossfesta sálir – þú
þarft einúngis að
hnykkja rétt á
orðunum.
Lobbi rekinn
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri
Útvarps Sögu, er þekkt fyrir að
kalla ekki allt ömmu sína og láta
menn hafa það óþvegið þyki henni
ástæða til, sem er nokkuð algengt.
Hið sama má svo sem segja um
hagfræðinginn Guðmund Ólafsson,
Lobba, sem er reglulegur gestur
í þætti Sigurðar G. Tómas-
sonar á téðri útvarpsstöð.
Á dögunum beindi hann
spjótum sínum að Arnþrúði
og gerði gys að henni í
beinni útsendingu. Fyrir
vikið var hann látinn
taka pokann sinn.
Þeir þola oft minnst
sem láta hæst.
bergsteinn@frettabladid.isH
reyfingin sem gengur undir því fallega nafni Heims-
sýn, er með sérstakari söfnuðum landsins. Þar er
komið saman fólk sem á það eitt sameiginlegt að vera
sammála um hvað það vill ekki.
Eins og í kirkjum og íþróttafélögum landsins, skipt-
ir flokkspólitíkin ekki máli í Heimssýn. Heitustu vinstrimenn og
öfga hægrimenn geta setið hlið við á kirkjubekk og ákallað guð
sinn rétt eins og þeir geta sameinast á vellinum um að formæla
dómaranum ef hann snuðar liðið þeirra um vítaspyrnu.
Þannig getur trúin verið sameiningartákn og fótboltinn líka.
Sameiningartákn Heimssýnar er andúðin á Evrópusambandinu.
Máttur hennar er greinilega mikill eins og sést best á nýkjörnu
forystupari hreyfingarinnar. Varla er hægt að hugsa sér fólk með
jafn ólíkar stjórnmálaskoðanir og nýkjörinn formann Ásmund
Daða Einarsson, þingmann VG, og varaformanninn Heiðrúnu
Lind Marteinsdóttur lögfræðing, en hún er fyrrverandi frambjóð-
andi til formanns Heimdallar og kosningastjóri Björns Bjarna-
sonar.
Og andúðin á Evrópusambandinu hefur á köflum yfirbragð
trúarhita hjá sumum þeirra sem hafa tekið að sér að tala fyrir
hönd hreyfingarinnar. Þeirra á meðal er Ragnar Arnalds, fyrr-
verandi þingmaður Alþýðubandalagsins og fráfarandi formaður
Heimssýnar.
Ragnar kallaði eftir því um helgina að umsókn Íslands um aðild
að Evrópusambandinu yrði þegar í stað afturkölluð. Þá kröfu rök-
studdi hann með því að skoðanakannanir hafa sýnt undanfarið að
meirihluti þjóðarinnar er mótfallinn því að Ísland gangi í sam-
bandið.
Ragnari láðist hins vegar alveg að nefna að sömu kannanir
hafa ítrekað sýnt að mjög öruggur meirihluti þjóðarinnar styður
aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Sú afstaða er auðvitað merki um að almenn skynsemi er
útbreidd í landinu. Það er uppörvandi til þess að hugsa að almennt
vilja Íslendingar ekki segja já og amen við Evrópusambandinu án
þess að vita hvað innganga í sambandið hefur í för með sér. Meiri-
hluti þjóðarinnar vill sem betur fer sjá og heyra hver er möguleg-
ur ávinningur af því að bindast Evrópu nánari böndum og styður
því að látið sé reyna á málið með samningaviðræðum.
Ragnar Arnalds og félagar í Heimssýn vita að þjóðin mun hafa
lokaorðið um hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki. Sú
stund mun renna upp þegar samningur liggur fyrir og verður
lagður í dóm kjósenda.
Ómögulegt er að skilja af hverju Ragnar og skoðanasystkini
hans vilja koma í veg fyrir að málið fái að hafa þann sjálfsagða
og lýðræðislega gang.
Heimssýn verður að treysta þjóðinni.
Meirihluti styður
viðræðurnar
JÓN KALDAL
Eins og í kirkjum og íþróttafélögum landsins, skiptir
flokkspólitíkin ekki máli í Heimssýn.