Vikan


Vikan - 01.11.1962, Qupperneq 15

Vikan - 01.11.1962, Qupperneq 15
grónum hjalla, lengst inn til fjalla. Hann sér sumargrænt túniS og silfurband árinnar um libtrigðarík engi. Hann heyrir lóuna kveða lífinu lof og sér máríuerluna hlúa að hreiðrinu í bæjarveggnum. Hann sér vinnuþreytt fólk ganga frá vel unnu verki, þegar forsælan fer að færast yfir Fellsöxlina ■— en fyrst og síðast sér hann móður sína krjúpa við hvíta líkkistu frammi í stofu. Hann sér hana krossleggja hendurnar á brjóstinu og bæra varirnar og biðja blessunar guðs þeim manni, sem hún hefur einum unnað, en sem nú megnar ekki lengur að lýsa upp veg hennar, nema í minningunni. Hann sér hana signa yfir hvílurúmið hans hinzta og þrýsta hendi fast að hjarta, um leið og hún lokar stofunni hljóðlega á eftir sér og hverfur að sæng sinni — og svo myndi koma svefnlaus nótt. Sorg móður hans var ekki eins og hrukka, sem slétt- aðist við andblæ nýrra áhrifa og þann mátt tímans að mýkja misfellur. Nei, hún myndi vera líkust þyrni sem stóð í hjartastað og þrýsti til blóðs, martröð, sem mótaði skýran, ævarandi skugga. Ungi maðurinn tekur bréfið enn og les. En hvað það var líkt henni, fáort, skýrt og fölskvalaust, sem framast mátti verða. Heilt og satt, tært eins og tindrandi dögg eftir frostsvala nótt — laust við væmið blíðumál, en þó log- andi af helgri glóð heitrar ástar. En hvað hann þekkti móður sína vel á þessum fáu lín- um, sem hér stóðu skrifaðar — orðfáa og æðrulausa — aðalskonu í almúgagervi, trúa og tígulega til síðustu stund- ar. Föður hans hafði verið á annan veg farið. Hann átti létta og ljúfa lund og listamar.nseðli, en var hvorki stoltur um skör fram, né stór í sniðum, né fastbundinn við mark- aða braut, fremur en lindin í leysingum vorsins. En í sái hans bjó sólskin og sumaróður og fjölmargir samferða- menn fengu ljós frá lífi hans. Ungur hafði hann þráð að setjast á skólabekk, una við listalindir — menntabrautin var hans markmið. En heilsa brast og sjóðir þurru, hvorttveggja í sömu svipan og ein- yrkjabúskapur á afdalajörð varð hans örlagadómur. En hann sá sjálfan sig í syninum, sem öllum stundum undi við bækur og handlék pappír og penna og hann strengdi þess heit að láta æskudraum sinn rætast í honum og til þess hafði hann fórnað kröftum og fjármunum um skör fram. En móður hans hafði verið það mótdrægt, að hann legði út á menntabrautina — þess minntist ungi maðurinn nú með sársauka. Hún vildi að hann yrði bóndi og gjörði garð sinn frægan með tilstyrk tækniþróunarinnar. Hún vissi það, daginn sem hann fór að heiman til að setjast fyrst í skóla, að hann var óðali sínu glataður, að hún var búin að missa hann eins og hin bömin — sex — aðeins með öðrum hætti og bréf hennar, sem blakti nú í hendi hans undirstrikaði til fulls þessa sáru vissu. Það var aðeins skrifað fyrir siðasakir og þó var það ákall frá innsta grunni þess hjarta, sem brann af elsku til alls, sem því var eitt sinn þundið. Ungi maðurinn strýkur hendinni yfir ennið og augun, sem eru svo undarlega rök, svo rís hann hægt úr sæti. Hann verður að komast út, hér þrengir allt að honum, svo að hann nær varla andanum. Það er því líkast sem einhver martröð sé að falla yfir hann. Hvora leiðina skyldi hann velja? Ef hann færi heim og yrði við ósk móður sinnar, brygðist hann föður sínum látnum, brygðist einnig æskuhugsjón sinni og heitustu þrá og tæki sér stöðu, sem hálfur maður á rangri hillu. En ef hann yrði kyrr, helgaði sig náminu og síðan starfi í samræmi við það, myndi hann bera sársauka í samvizk- unni æfilangt, vegna móður sinnar og missa í einu báða foreldra sína. Hann varð að heyja þessa baráttu undir beru lofti. Hann grípur hatt sinn og gengur út. Umhverfis dynur gnýr stór- borgarinnar og rykmökkurinn af götunni leggst um hann sem þétt ský. Enginn tekur eftir þvi, þótt hann gangi álútur með döggvotan hvarm. í ysnum mást einstaklingseinkennin út og iða hins fjöl- breytta lífs fær sína sléttu fleti — og svo er hitt, að „hvar er svo fátt sem í hópsins geim eða hljótt þar sem glaumur er mestur“. ----0----- Vor yfir íslandi. Sólin stafar gullnum geislum á fán- ana, sem blakta við hún víðs vegar í höfuðborginni. Fjölmargt æskufólk með hvítar húfur fylkir sér framan við skólann sinn, skólann, sem svo lengi hefir verið virðu- legasta menntastofnun þjóðarinnar. Það brosir með sól yfir hvarmi og breiðir faðminn fagnandi mót framtíðinni — blómstur sem blæsvali ómildra örlaga hefir enn ekki snortið, svo að menjar sjáist eftir. — Glaðir þegnar í gró- andans ríki. Kennarar ganga fram og bera fram blessunaróskir til hins bjarta skara. Þeir brosa hlýtt og minnast þeirrar stóru stundar, þegar þeir stóðu í hinum sömu sporum og hópur- inn, sem þeir eru nú að kveðja. Svo hverfa þeir heim, þöglir menn og þreyttir eftir vetrarstarfið — draga sig inn í skel sína, unz skólabjallan hringir á ný á næstu skammdegistíð. Hann gengur álútur einn sér yngsti kennarinn. Þessi vetur hefir valdið honum vonbrigðum. Hnossið er ekki hnoss, nema á meðan keppt er að því að höndla það. Þegar það hefir verið unnið missir það ljóma sinn, yl sinn og ilm og verður jafnvel einn af þokuhnoðrum hversdagsins. Nú er það heitust þrá hans að vera horfinn að svana- vatni á sumargrænni heiði, að sökkva sál sinni í ómælið, umvefjast yndi órofa kyrrðar, ganga síðan í lið með gró- andanum, yrkja moldina. Nú veit hann, að hann hefir valið skakkt, þegar hann tók blöð með prentsvertu á fram yfir bókfell náttúrunnar, sem fingur guðs skóp. Á það bókfell hefði hann átt að rita sitt ævikvæði og örlagarím. ---------------------------0----- Jólanótt. Ljósadýrð — lífrænir hljómar. Birtan frá Betlehemshöllinn bregður leiftrum yfir lönd og lýði. Mennirnir mætast í mildari hlýju — klakaskel hvers- dagsins fellur nú af þeim sem álagahamur fáeina daga. Vitundin fyllist ljúfri lotning. Blik augans er bjartara en ella. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Fagnaðarboðskapur jólanna er hljómgrunnur þeirrar hamingju. Og þó geta margir verið daprir á jólum. Jólaljósin geta brotnað í höfugum tónum og þjáningastunur búið að baki lofsöngvanna. Lífið er harðleikið oft og mislynt — í það minnsta auð- ugt af tilbrigðum tóna, slungið ólíkum örlagaþráðum, fullt af litbrigðum ljósa og skugga og á bak við það ljós, sem brosir bjartast við heiminum getur stundum búið stærsti skugginn. í skrautbúinni stofu í hjarta höfuðborgarinnar situr vörpulegur vel klæddur maður —- maður sem veraldarvís- an segir sælan og hefir hafið til vegs — maður í virðingár- stöðu, leiðbeinandi þeirra, sem leggja leið sína í æðstu menntastofnun landsins — prófessor að nafnbót — meistari í norskum fræðum — orðuriddari og öndvegismaður — einn hinna hamingjusömu, sem hafa fengið þá ósk uppfyllta Framhald á bls. 40. Mn móður hans hafði verið það mótdrægt, að hann legði út á mennta- brautina — Þess minntist ungi maðurinn nú með sársauka. Hún vildi að hann yrði bóndi og gjörði garð sinn frægan með tilstyrk tækniþróunarinnar* VIKAN 15

x

Vikan

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.