Menntamál - 01.02.1944, Side 12
30
MENNTAMÁL
hugsað til úrvinnslu, þ. e. leiðréttinga stíla og þess háttar.
Um presta og fyrirlesara er það viðurkennt, að þeir
þurfi að búa sig undir ræður sínar, en það er engu
minni nauðsyn að búa sig undir kennslustund en fyrir-
lestur, nema fremur sé. Það er mjög auðfundið á kennsl-
unni, hvort tíminn hefur verið rækilega undirbúinn
eða ekki. Kennslustarfið byrjar hvorki né endar við
upphaf og lok kennslustundar, og reyndar ekki heldur,
þegar skólinn er settur að haustinu, því að þá þarf kenn-
arinn að hafa skipulagt vetrarstarfið. Námsskrá er hér
mjög rúm, og eru skólar okkar um það líkari enskum
skólum en skólum Norðurlanda. Þetta er veikleiki og
styrkleiki í senn, eins og er í öllu frelsi. Sé undirbúning-
urinn vanræktur, verður starfið ómarkvíst allan veturinn.
Það tjáir ekki að ætla sér að nota kennslubókina sem
námsskrá. Hér eru sömu bækur notaðar í öllum barna-
skólum, þótt starfstíminn sé mjög mislangur, og eru þær
vitanlega mjög miðaðar við þarfir duglegustu barnanna
í lengstu skólunum, og gera því miklu meira en fullnægja
lágmarkskröfum fræðslulaganna. Er því hin mesta nauð-
syn fyrir kennara, sem vinna við smærri skólana, að þeir
geri upp við sig strax að haustinu, hvað þeir ætla að
kenna og hverju að sleppa, en láti ekki skeika að sköpuðu
um, hvað eftir verður að vorinu eða við fullnaðarpróf.
Barnaskólarnir hafa áreiðanlega bæði djúp og víðtæk
áhrif, víðtæk vegna þess, hve þeir eru almennir, og djúp
vegna þess, hve nemendurnir eru mótanlegir. Verður því
vel að vanda til skólanna og kennarastarfsins að öllu
leyti, svo að áhrifin verði sem heilladrýgst.“