Menntamál - 01.04.1957, Blaðsíða 51
MENNTAMÁL
37
hærra dró. Vér fórum að kenna hrolls, enda súgblautir
eftir regnið, sem vér höfðum lent í um daginn, og var jafn-
vel ekki laust við, að tennur glömruðu í þeim, sem næm-
astir voru fyrir svalanum. En enginn hafði bent oss á,
áður en lagt var af stað, að hafa með oss skjólföt.
Þegar komið var til Baguio, voru menn þreyttir og
kaldir. Þannig til reika gengu þeir fyrir borgarstjórn
Baguio-borgar. En sem betur fór, tók sú heimsókn aðeins
skamma stund. Smurt brauð og ávaxtasafi var á borðum,
en enginn virtist hafa lyst, og lítil var gleði manna að því
hófi. Að því búnu var mönnum ekið til gistihúss eins, þar
sem ágætur, heitur matur beið þeirra. Tóku menn nú
að hressast, og lund þeirra léttist, er þeir settust við fag-
urlega skreytt borð í hlýjum og rúmgóðum salarkynnum.
I þessu sama gistihúsi áttu stjórnarmenn þingsins og kon-
ur allar að gista um nóttina, en alþýða karlmanna í skál-
um, sem filippseyskir kennarar eiga í útjaðri borgarinnar.
Dansskemmtun fór fram í gistihúsinu eftir kveldverð.
Ekki tókum við Sollesnes þó þátt í henni, kusum heldur
að halda til skálanna, þar sem við áttum að gista um nótt-
ina, snöruðum okkur niður í kaldar, rakar rekkjurnar,
huldum þær flugnanetjum og fórum að sofa.
Næsta morgun, sunnudaginn 5. ágúst, vöknuðum við
Sollesnes snemma og klæddumst. Við gengum út og lituð-
umst um. Léttskýjað var og sól komin upp, en dýrlegur
svali í lofti, því að nú vorum við í 1650 metra hæð yfir
sjávarflöt. Við okkur blasti falleg, bjartleit borg í um-
gerð eins hins dýrlegasta landslags, sem ég hef augum litið.
Háir ásar og hnúkar, þaktir barrskógum, risu í vestri,
norðri og austri. Eftir giljum og skorningum fossuðu læk-
ir stall af stalli. Fuglakliður og nærandi gróðurangan fylltu
loftið. Ljósleit smáhýsi sáust á víð og dreif um skógi vaxn-
ar brekkurnar. Allt var tært, hreint og ósnortið. Fegurð-
in, sem umlykur borgina, og hinn heilsusamlegi fjallasvali,
sem leikur um hana, hefur gert hana að griða- og hvíldar-