Menntamál - 01.02.1976, Page 15

Menntamál - 01.02.1976, Page 15
í heild mætti segja að afstaða nemenda túlki, í og með, félagslega bundna mynd (sterotype) af hlutverki og tilgangi skólans. Því mætti ætla að svörin ráðist af eftirfarandi þáttum í hugarheimi nemenda: a) Hvað sé mikilvægt (miðað við þær viðmiðanir sem gilda í þjóðfélaginu). b) í hverju felist fullnæging (með tilliti til þess þroskaskeiðs sem nemendur í rannsóknarbekkj- unum eru á - á aldrinum 7-10 ára). Samkvæmt þroskasálfræði Piaget eru börn þá að glíma við að samræma hlutlæg fyrirbæri á rökrænan og raun- hæfan hátt. Þetta er skeiðið sem í sálfræði Piaget nefnist skeið hlutlægrar rökhugsunar. c) Hvað hafi tilgang fyrir framtíðina og þar með félagslegt gildi. Svarið við a) er tiltölulega jákvætt fyrir hefð- bundnar greinar, vegna félagslegrar viðurkenn- ingar þeirra, en óhagstætt fyrir tónmennt, þar sem hún virðist ekki hafa viðurkennt félagslegt gildi í augum almennings (t.d. foreldra). Svarið við b) er mjög hagstætt fyrir sérgreinar eins og leikfimi og ýmsa handmennt (leiknigrein- ar). Svarið við c) er tiltölulega hagstætt fyrir átt- hagafræði (samfélagsfræði; undirbýr nemanda und- ir ,,lífið“) og einnig fyrir hefðbundnar greinar (til að verða nýtur þegn í framtíðinni verður maður að læra að lesa, reikna og skrifa). Þetta eru ákaflega almennar túlkanir á þeirri vísbendingu sem niðurstöðurnar sýna. Ekki er tekið tillit til ýmissa breytna sem kunna að skipta máli í viðhorfum nemenda, svo sem afstöðu kennara, aldur, „bekkjargæði“, kynferði, stundatöflur o.fl. í nánari athugun hér á eftir (línuritunum) verða greind áhrif þessara breytna á heildarmyndina og gerðar tilraunir til að skýra ýmsar niðurstöður út frá þeim. Hér skal því þó bætt við að töluverður mismunur er á vinsældum hefðbundnu greinanna í mismun- andi bekkjum. Skýringar á því geta verið margar; ein sennilega sú að mismunandi kennaraáhrifa gæti. Sérstakur áhugi og/eða kennsluhæfileikar kennara sem kenna reikning eða lestur getur haft þau áhrif að bekkurinn hafi jákvæðara viðhorf til þessarar greinar en hann myndi ella hafa. Ef viðhorf sömu bekkja til sömu greina yfir tveggja ára tímabil eru könnuð, kemur í ljós að heildarþróunin er niður á við og það gildir um allar námsgreinarnar án tillits til hver greinin er. Er það í sjálfu sér athyglisverð staðreynd. Hún hlýtur að vekja skólamenn til umhugsunar, því að það skiptir þá miklu máli ef reynsla nemenda af skólanum verður, að öðru jöfnu, til þess að áhugi þeirra á námi og námsgreinum dvíni eftir því sem reynslan vex. Hér virðist skólareynsla og námsleiði fylgjast að. Tvær skýringar gætu átt hér við: 1. Félagsleg aðhæfing (socialization) nemenda getur haft neikvæð áhrif, þ.e. yngri nemendur eru jákvæðari gagnvart skólastarfi en eldri. 2. Skólinn veitir nemendum hvorki nægilega vitræna né tilfinningalega fullnægingu með „kennsluframboði“ sínu (er hér átt við námsefni og kennsluaðferðir, þ.e. bæði inntak og miðlun); eðlilegur áhugi og atferlisvakning í upphafi skóla- göngu dvínar smátt og smátt; nemendur verða fyrir vonbrigðum. Það gefur auga leið að það verður að slá marga varnagla, ef slíkar tilgátur um hugsanlegar skýr- ingar á þessari þróun „niður á við“ hjá nemendum eru settar fram, því ógerlegt er að alhæfa út frá svo lítilli rannsókn. Til þess að geta svarað þessum spurningum nánar þyrfti að fylgjast betur með viðhorfum nemenda til ýmissa námsgreina yfir mun lengra tímabil (t.d. 5-6 ár). Þegar könnuð eru svör nemenda við spurningum um tómstundaiðju utan skólans (samanburður á vinsældum þess að leika sér, lesa bækur, horfa á sjónvarp og hlusta á tónlist), kemur ýmislegt áhugavert fram. Spurningin sem innir eftir áhuga barna á „að leika sér“ virtist í samanburði við aðra tómstundaiðju svolítið óljós fyrir nemendum og svörin við henni voru miðsvæðis á vinsælda- kvarðanum. Svörin við þrem spurningum eru áhugaverð: 1) „Hlusta á tónlist“ samanborið við „að horfa á sjónvarp“. Hér var sjónvarpið yfirleitt mjög hátt metið (vinsælt) í samanburði við tónlistina (óvin- sæl). Hugsanleg túlkun gæti verið þessi: „hlusta á tónlist“ er huglægt (abstrakt) en „horfa á sjónvarp“ er hlutlægt (konkret) og því nær hugarheimi nemenda á þessum aldri. 2) „Hlusta á tónlist“ samanborið við ,,að lesa bækur“. Niðurstaðan er svipuð og í 1), en þó ekki eins á kostnað tónlistar. Hugsanleg skýring á þessum viðhorfum nemenda er sú sama og við spurningu 1). 3) „Lestur“ (í skóla) í samanburði við „að lesa bækur“. Hér verður samanburðurinn óljósari. MENNTAMÁL 15

x

Menntamál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Menntamál
https://timarit.is/publication/376

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.