Heima er bezt - 01.12.1960, Qupperneq 29
stað heim á leið. Enn sem fyrr liggur leið hans fram
hjá Afengisverzluninni, og hún er opin að vanda. En
nú lítur Hallur ekki þangað. Hann finnur enga löngun
hjá sér að koma þar við. Glaður og svifléttur í spori,
frjáls úr hlekkjum ógæfunnar heldur hann beina leið
heim að þessu sinni.
Ragna er ein að störfum í eldhúsinu. Hallur kemur
inn til konu sinnar, og nemur staðar við hlið hennar.
Síðan tekur hann vikukaupið upp úr vasa sínum og
réttir henni það með sigurbrosi. — Gerðu svo vel,
Ragna mín, segir hann. — í þetta sinn kem ég heim
með kaup heillar viku óskert.
Ragna tekur við peningunum og lítur innilega á
mann sinn. — Þetta minnir mig á fyrstu búskaparárin
okkar, Hallur, þegar við vorum ung og hamingjusöm,
segir hún saknaðarkenndri röddu.
— Getum við elcki lifað það upp aftur, orðið ham-
ingjusöm á ný, Ragna?
— Jú, vissulega, Hallur, með Guðs hjálp getum við
það.
— Við skulum bæði biðja Hann að hjálpa okkur til
þess. Afengi skal ég aldrei bragða framar.
— Þá er líka þyngsta bjarginu velt úr vegi, og allt
annað verða smámunir einir.
— Ragna mín, ætlarðu þá að leggja út á nýja braut
með manninum þínum og gefa honum traust þitt að
nýju?
— Já, vinur minn, alveg óhrædd, því ég veit að þú
hefur sigrað á hinum rétta vettvangi.
Hallur tekur um báðar hendur konu sinnar og dreg-
ur hana blíðlega að sér. Þau vefja hvort annað örmum
eins og á morgni lífsins og hamingjunnar. Bæði hafa
eignazt þá vissu á þessari stundu, að þeirra bíður nú
framtíð rík af blessun og sannri hamingju.
VI.
Fanginn.
Mildur haustdagur hvílir yfir borginni. Frú Eygló er
ein á heimleið frá vinkonu sinni, sem býr í úthverfi
borgarinnar, og að þessu sinni kemur hún þaðan með
djúpa hryggð í huga. Vinkona hennar færði henni í
dag ömurlegar fréttir. — Góður æskuvinur þeirra
beggja, jafnaldri og fermingarbróðir situr nú innilok-
aður í fangahúsi borgarinnar, en vinkona frú Eyglóar
vissi ógerla um orsök þess, að svona var komið fyrir
honum. Hún hafði fengið bréf heiman úr æskusveit-
inni þeirra nýlega, þar sem henni var sagt frá þessu,
svo það var áreiðanlega satt.
Frú Eygló gengur hægt eftir götunni og horfir dap-
urlega niður fyrir sig. Hann Bjössi, þessi góði drengur,
sem hún þekkti svo vel í æsku, skuli nú vera fangi í
hegningarhúsi. Það er hræðilegt! Hún sér hann svo
skýrt fyrir sér í endurminningu heima í æskusveitinni
þeirra, þar sem þau léku sér saman börn, og hann var
henni kær sem bezti bróðir. Og hún sér hann einnig í
anda á fögrum vordegi, er þau stóðu bæði við altari
Drottins og unnu það heit að hafa Frelsarann að leið-
toga lífs síns, og það var vissulega hjartans ásetningur
þeirra beggja að ganga á guðs vegum.
En hvað hefur komið fyrir hann Bjössa? Aumingja
aldurhnignir foreldrar hans. Hann var yngstur af tiu
börnum, og við hann tengdu þau áreiðanlega miklar
vonir. Eitt sinn heyrði hún móður hans segja, þegar
rætt var um Bjössa:
— Við gömlu hjónin kvíðum ekki framtíðinni, hann
Bjössi minn verður ellistoðin okkar, en hin börnin eru
öll flogin úr hreiðrinu. Og þessi þreytta tíu barna móð-
ir batt sínar fegurstu vonir við þennan yngsta son sinn,
sem var líka góður drengur. En svo hefur hann senni-
lega farið eitthvað að heiman út í veröldina og villzt
af réttri leið, aumingja Bjössi.
Frú Eygó andvarpar þunglega, en það gagnar lítið
að aumka hann aðeins, hún verður að revna að hjálpa
honum á einhvern hátt í nafni meistara síns. Hún veit
ekki, hve lengi hann hefur verið dæmdur til að dvelja
í fangahúsi. Ef til vill er sá tími þegar útrunninn. Hún
verður tafarlaust að gera tilraun með að ná fundi hans
sem allra fyrst, því hver stundin getur orðið henni
dýrmæt.
Hún hlýtur að fá leyfi fangavarðarins til þess að tala
við Bjössa dálitla stund, og frú Eygló fyllist nýjum
eldmóði samúðar og kærleika. Hún breytir þegar um
stefnu og gengur beinustu leið að fangahúsi borgar-
innar.-------
í þröngum, skuggalegum fangaklefa situr ungur
maður og gjörvilegur á hörðum bekk og starir döpr-
um vonleysis augum fram fyrir sig. Á morgun er hann
frjáls maður á ný. Þá má hann fara héðan aftur út í
veröldina. Frjáls á ný. Hann hristir höfuðið. Orðið
„frelsi“ er glatað í réttri merkingu í lífi hans og vekur
honum aðeins sársauka. Hvert á hann að fara, þegar
hann er laus úr fangelsinu? Hann veit það ekki. Hér í
borginni á hann enga vini, sem hann getur leitað til
undir þessum kringumstæðum. Það langar sjálfsagt fáa
til að hýsa hann, þegar hann kemur beina leið úr fanga-
klefanum. Allir hljóta að líta niður á hann, sem orðið
hefur sekur við landslögin, sektin og niðurlægingin
hlýtur alls staðar að sjást á honum, hvar sem hann fer.
Það verður honum því aðeins til nýrra kvala að um-
gangast fólk.
Hann hefði helzt kosið að mega fara héðan beina
leið heim, en til foreldra sinna getur hann ekki farið.
Hann hefur brotið svo mikið gagnvart þeim. Hann fór
að heiman í atvinnuleit, án þess að slíks væri nein þörf,
og þvert á móti vilja foreldra sinna, skildi þau tvö ein
eftir aldurhnigin og þreytt við búskapinn í stað þess
að vera kyrr hjá þeim og bregðast ekki trausti þeira,
og svo....
Hann grúfir andlitið í höndum sér og stynur sárt af
ómælisdjúpri kvöl og algeru vonleysi. Hurð fangaklef-
ans er opnuð, en fanginn lítur ekki upp í fyrstu. Hon-
um er sama þó að þjónar þessarar stofnunar gangi hér
um. En brátt heyrir hann fangavörðinn segja:
Heima er bezt 475