Heima er bezt - 01.01.1968, Page 24

Heima er bezt - 01.01.1968, Page 24
bæi, og var mér ekki grunlaust um, að bóndi þessi kyssti húsbændurna fyrir góðgerðirnar, og þó einkum hús- freyjurnar. — Þá er það á einu ágætu heimili, að löng göng lágu frá útidyrum inn að baðstofudyrum, en í göngunum var skellihurð. — Skellihurð er eins og hver önnur hurð á hjörum, en á henni er ekkert læsingarjárn. En grannur kaðall eða snæri er fest í efsta horn hurðar- innar og dregið í gegnum gat á dyratrénu efst, en lóð bundið neðan í færið. Þegar hurðin er opnuð lyft- ist lóðið, en þegar hurðinni er sleppt, lokast hún með dálitlum skelli fyrir þunga lóðsins. Þegar ég kvaddi á þessum bæ, gleymdi ég svipu og vettlingum inni í baðstofu, og varð þess ekki var fyrr en ég var kominn út á hlað, en þá snaraðist ég aftur inn göngin til að ná í svipuna og vettlingana. Ég rykkti upp skellihurðinni, en rakst þá á fylgdarmann minn, þar sem hann var að kveðja ungu húsfreyjuna með kossi á bak við skellihurðina. Mér brá fyrst, en sagði svo í glettni: „Þetta þyrfti ég að kunna.“ Þá brosti frúin og sagði: „Þetta ættir þú að geta lært.“ — Og er sú saga ekki lengri. 5. KVEÐJUSIÐIR UM VÍÐA VERÖLD. Norskur rithöfundur, er nefnist K. Nyrup, hefur skrifað bók um kossinn, útbreiðslu hans og kveðjusiði um víða veröld. Þá bók hef ég ekki haft með höndum, en ég hef þó lesið ýmislegt um kveðjusiði, einkum með- al frumstæðra þjóða — sem áður nefndust einfaldlega villimenn. Til eru svertingar í Afríku, sem nudda saman nef- broddunum, er þeir heilsast, og eru kveðjusiðir villi- manna yfirleitt skrítnir og margbrotnir. Segja má, að sá siður að heilsast og kveðjast með handabandi, sé nú allsráðandi meðal menningarþjóða, þótt nú færist mjög í vöxt að kveðjur séu lauslegar og aðeins lyft húfu eða hönd í kveðjuskyni, eða það sem nefnt er að kasta á kveðju. Oft hef ég séð það á Norðurlöndum, þegar fólk er að kveðjast þar á brautarpöllum, að þótt það faðmist mjög innilega og kyssi á kinnar, háls og enni, að þar kyssist það sjaldan á munninn í fjölmenninu og það jafnvel þótt um náin skyldmenni eða hjón sé að ræða. En sú venja mun vera að skapast, og það fyrir mörgum áratugum í sumum löndum, að koss á munninn sé að- eins ástaratlot, en ekki kveðjusiður, eins og var fyrr meir á íslandi og er jafnvel sums staðar enn. En móti þessum þjóðarsið fór unga fólkið að berjast um síðustu alda- mót. Sumarið 1946 fór ég allvíða um Svíþjóð og þar á með- al um Lappland og Fornedalinn. Einu sinni fór ég frá Kiruna á áætlunarbíl um 100 km leið niður dalinn. Um miðjan daginn stanzaði bíllinn stund, þar sem vegamót voru hjá smáþorpi eða byggðahverfi, og fóru þá allir farþegar og bifreiðastjórinn heim á næsta bæ, en við sátum einir eftir í bílnum, sænski námsstjórinn, sem með mér var, og ég. En strax og farþegarnir voru komnir heim á bæinn, kom ung kona hlaupandi til okkar að bílnum og bauð okkur heim í kaffi. Við urðum sár- fegnir og fórum heim með þessari ungu konu. Heima á bænum var okkur vel tekið, og vorum við þar strax eins og heima hjá okkur. Fólkið var svo alúðlegt og gestrisið. Þegar fólkið vissi að ég var frá Islandi, þurfti það um margt að spyrja. En skrítið þótti mér, þegar þetta ágæta fólk fór að kveðjast. Það gékk þétt hvort að öðru og vafði handleggjum um háls hvors annars, eins og það ætlaði að kyssast, en munnarnir komu aldrei saman, heldur snertust aðeins kinnarnar. — Þetta voru þeirra kveðjusiðir. Rétt á eftir stanzaði bíllinn aftur neðar í dalnum — heima á hlaði á prestssetri einu. Prestshjónin komu strax út og buðu okkur ókunnu ferðamönnunum inn í bæ- inn. Þau voru ung og glaðvær. Ég fór að segja þeim frá þessum einkennilegu kveðjusiðum í þorpinu, sem við komum í áður. Þau sögðu að á þessu svæði í daln- um byggi sértrúarflokkur, sem væri ágætt fólk, en hefði ýmissa sérkennilega siði og þar á meðal væru að heils- ast og kveðjast. Eg var að reyna að útskýra fyrir þeim á minni fátæklegu sænsku, hvernig mér kom þetta fyrir sjónir, sagði að það hefði stannað við að kyssast.*) 6. KOSSINN SEM ÁSTARATLOT. Um kossinn sem ástaratlot væri í skyndi hægt að gera heila bók með tilvitnunum í ljóð og sögur, sem fjalla um kossinn, sem dýrlegustu og yndislegustu nautn manns og konu, sem unnast heitt. En aldrei ætti þó að misnota kossinn, og fals og slægð í sambandi við ástar- kossa hefnir sín jafnan. Grímur Thomsen skáld hefur ef til vill hitt á snjöll- ustu og áhrifamestu lýsingu á töfrum ástarkossa — en hann segir svo í einu kvæða sinna: „Á vara þinna bergði ég brunni, burt hef ég margar sorgir kysst. Ég lífsins dögg þér drakk af munni en drakk þó aldrei mína lyst.“ Síðasta ljóðlínan, „drakk þó aldrei mína lyst“, túlkar skáldleg sannindi — þorstinn eykst við hvern koss um leið og kossinn svalar ástarþránni. Frægt er ljóð Steingríms Thorsteinssonar um kossa- auðlegð ungmeyjunnar. En hann segir svo: „Hvað munar mær um dropa? Hvað munar sól um geisla? Hvað munar grund um grasstrá, og grænan skóg um laufblað? * Stanna: Stanga, hika við. 20 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.