Heima er bezt - 01.01.1968, Page 36

Heima er bezt - 01.01.1968, Page 36
Vala varð að mjólka kýrnar og kveikja upp eld- inn. Henni létti mikið morguninn sem Manga kom aftur fram og tók við sínum verkum, eins og ekkert hefði í skorizt. Manga stakk að henni kandísmola sem hún dró upp úr pilsvasa sínum og strauk henni um vangann. Vala var komin á fremsta hlunn með að segja henni frá Úlla, en hætti við það á síðustu stundu, og í stað þess sagði hún: „Manga, veiztu að mig dreymdi í nótt, að ungur maður í bættum fatagörmum og auðsjáanlega sár- svangur, kæmi inn í fjósið til þín, þar sem þú varst að mjólka, og bæði þig að gefa sér mörk af mjólk kvölds og morgna. „Hvað sagði ég?“ spurði Manga spennt. „Þú tókst hvíta merkurmálið þitt, fylltir það af mjólk og fékkst honum. ,Hana, skarnið, hafðu þetta/ sagðir þú.“ „Nei, það hefði ég ekki sagt við ókunnugan mann.“ „Jú, jú, þú sagðir þetta, enda var þetta ekki mað- ur, bara strákur sýndist mér, lítið eitt eldri en ég, mér fannst hann vera líkur Herði,“ bætti hún við. „Blessaður litli drengurinn minn, veiztu hvað, ég ætla að láta mjólk í málið og vita, hvað verður um hana.“ „Ætlarðu að gera það? Heldurðu ekki að Mál- fríður komist að því?“ „Ég held hún viti lítið hvað í kúnum er, svo dreg ég bara af sopanum mínum, og þínum líka, til að gefa blessuðum drengnum.“ Þar með var Vala viss um að Úlli fengi mjólk, á meðan eitthvað var til í kúnum. Blessuð kerlingin hún Manga. Nú kom sér vel huldufólkstrúin hennar. Fyrsti snjórinn kom um göngurnar. Þá fór að kólna í bólinu hjá Úlla. Hann skalf eins og hrísla á nóttunni, þó hann vefði um sig öllu fatakyns og hringaði sig saman til að fá ylinn af sjálfum sér. Engjaheyskapnum var lokið, en Vala þurfti að smala á hverjum degi, svo hægt væri að mjólka ærnar, því búið var að taka lömbin undan þeim. Nú var miklu auðveldara að ná í mat. Úr sauða- mjólkinni var búið til smjör, skyr og ostur. Það var líka tilbreyting að fá nú nýjan þorsk í soðið, og einu sinni þegar faðir hennar hafði skroppið stundarkorn fram á skak, kom hann heim með tvo seli. Það var þó búbót. í sláturtíðinni fengu allir nóg að borða af nýju slátri og lifrarpylsu, lundaböggum og öllu hnossgæti. Krakkarnir hlökkuðu óskaplega til, þegar farið var að sjóða úttroðin vélindin, það var mesta hnossgæti sem þau gátu hugsað sér. Úlli naut góðs af þessu. Vala var oft í vandræðum með að fela matarögnina hans. Hefði hann ekki ver- ið sísoltinn, hefði hann ekki borðað þann mat sem hún færði honum, því margt af því hafði hann aldrei bragðað áður. En sulturinn gerir sætan mat, og því tók hann við öllu og borðaði allt sem hún færði hon- um með þakklátum hug. Eftir að Vala fór að smala, var hún vön að fela einn silung úr netunum undir steini, taka hann er hún fór í smalamennskuna og sjóða hann í hvernum og færa síðan Úlla á heimleiðinni. Saltlausan varð hann að borða fiskinn, en var orðinn því svo vanur, að það skipti hann litlu. Hvernig hefði farið fyrir honum, hefði hann ekki hitt þessa kjarkmiklu ráðagóðu stúlku. Hún var jafn- gömul Körlu systur hans. Ekki hefði Karla getað gengið í spor Völu. Hún var líka alin upp eins og veikbyggð rós, þar sem hún var einkadóttirin, en þeir strákarnir fjórir. Tárin féllu í dropum niður með nefinu á piltin- um, er honum varð hugsað um æskuheimili sitt. Fað- ir hans og bræður einhvers staðar að berjast, Kurt fallinn, og hann hér. Hugsazt gæti að hann hefði það bezt af þeim öllum. Vesalings mamma og Karla sem báðar voru vanar að sitja sólarmegin í lífinu! Pabbi átti þá ósk æðsta að gera mömmu hamingjusama, hann tilbað hana. Verst var hve Vala hafði lítinn tíma handa hon- um. Þeim gekk sæmilega að skilja hvort annað með því að nota handapat og allskyns táknmál til hjálpar. Honum fór talsvert fram í málinu, og ýmislegt rifj- aðist upp fyrir honum, þegar hann heyrði orð sem hann hafði kunnað, en verið búinn að gleyma. Nú varð Vala að hlusta á stríðsfréttirnar með at- hygli til að geta sagt Úlla gang málanna. Hann varð glaður við er landar hans höfðu unnið sigur, en hefðu þeir hörfað til baka eða misst margar flugvélar, sagði hann að Bretar og bandamenn þeirra sendu út þess- ar fréttir, svo að þeirra fólk missti ekki kjarkinn. í hans augum var fráleitt að óvinirnir gætu yfirbugað þýzka herinn. 32 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.