Heima er bezt - 01.06.1972, Síða 14
hann ekki haft samúð með mér, sem var nýbúin að missa
báða foreldra mína og átti ekkert eftir?
Nei, það var hvergi miskunnar að vænta í þessum
kalda heimi. Það var tilgangslaust að hugsa um slíkt.
Hitt var meiri huggun að renna huganum til þeirra, sem
líkt var ástatt fyrir. Eg fór að hugsa um þær þjóðir, sem
höfðu borizt á banaspjótum. Var ekki tilgangurinn þar
sá sami og hjá kaupmanninum? Réðst ekki hinn sterkari
og voldugri á lítilmagnann, kúgaði hann, tók með of-
beldi eigur hans, rak hann landflótta burtu eða ofurseldi
hann ánauð og þrældóm. Þá áttu hinir betra, sem misstu
allt sitt í eldi eða fyrir sprengjum. Það lenti þó ekki í
höndum óvinanna þeim til hags.
Ætti ég að kveikja í bænum? Nei, það væri synd.
Pabbi og mamma hefðu óskað þess, að ég léti æðri hönd
stjórna þessu öllu.
Allt í einu fann ég hitastraum fara um mig. Sólar-
geislarnir höfðu náð upp til mín. Mér fannst þeir reyna
að smjúga inn að hinu hrellda hjarta mínu og græða
djúpu undina, er sveið svo mjög.
Eg litaðist um. Þarna í kringum mig voru kindurnar,
sem ég þekkti svo vel. í gærmorgun voru þær mín eign,
en í gærkveldi voru þær komnar í annarra hendur. Þær
voru vinir mínir, sem ég varð að láta af hendi. Ég hafði
vonað, að peningar þeir, sem ég eignaðist á uppboðinu,
nægðu til að greiða kaupmanninum skuldina. En hún
var svo mikil þessi skuld, og krafan var miskunnarlaus.
Þegar ég sat þarna og hugsaði, heyrði ég allt í einu
einhvern þungan nið. Eg htaðist um. Niðurinn óx og
varð að öskri. Mosalitaða hlíðin, sem í morgun var svo
fögiu: ásýndum, hreyfðist. Kindurnar tóku viðbragð og
hlupu sem fætur toguðu eitthvað út í buskann. Ég sat
ein eftir og horfði á skriðufallið. Jörðin titraði, og ég
hugsaði, að nú fengi ég víst að fara með. En svo varð
ekki.
Ég svimaði og æpti upp yfir mig, þegar skriðan nálg-
aðist bæinn heima. Á svipstundu var honum sópað
burtu. Túnið og engjarnar urðu að moldarflagi, þar
sem steinarnir stóðu upp úr eins og klettar úr hafinu.
Niðri við ána stöðvaðist skriðufallið, aðeins lítill hluti
þess féli fram í hana og litaði hana.
„Áin litaðist af svitadropum og hjartablóði pabba og
mömmu,“ sagði ég við sjálfa mig.
Þó ghtruðu gleðitárin í augum mínum, er ég leit til
himins og hvíslaði með grátþrunginni rödd:
„Ég þakka þér, Drottinn.“
Þegar kyrrð var komin á, gekk ég rólegum skrefum
niður moldarflagið. Ég var að fara heim.
Ég vissi, að kaupmaðurinn tæki ekki fallnar rústir og
sundurtætt land upp í skuldina. Jörðin var mín eign.
Sama valdið, sem hafði hrifið burt foreldra mína,
hafði nú að vísu eyðilagt handaverk þeirra. En. rætur
mínar höfðu ekki skerzt. Þær stóðu dýpra en skrifufall-
ið náði.
Ég átti fast land undir fótum, land, sem enginn gat
haggað.
Hannes Hjartarson
Framhald af bls. 186. ____________________________
raunar fleirum — að drykkjuskapur er okkar rammasta
þjóðarböl og niðurdrep fyrir hvern þann, sem verður
áfengissýkinni að bráð. Gegn þessum háska hefur hann
iagt fram mikið starf í félagssamtökum bindindismanna.
Á yngri árum Hannesar á Herjólfsstöðum var sr.
Bjarni Einarsson prestur í Álftaveri og sat á Mýrum.
Hann var strangur bindindismaður. Hafði hann mikið
starfað í stúkunni Einingin í Reykjavík á skólaárum
sínum. Eftir að hann komst út í prestsstarfið, taldi hann
sér skylt að láta þetta velferðarmál til sín taka og stuðla
að bindindisstarfsemi meðal safnaða sinna. Gekkst hann
fyrir stofnun bindindisfélags í Álftaveri laust fyrir alda-
mótin. Upp úr því félagi var stúkan Foldin nr. 88 stofn-
uð 1903. Var Hannes einn af stofnendum hennar og
hefur verið meðlimur hennar alla tíð síðan. Var hann
með í því starfi af lífi og sál og gegndi þar lengi starfi
umboðsmanns. Er þeim, sem þetta ritar, enn í fersku
minni hve vel Hannes, þá aldraður orðinn, naut þess að
vera með unga fólkinu á samkomum þess þegar bindindi
var í heiðri haft og það skemmti sér án þess að vera
undir áhrifavaldi vínguðsins.
Mundi vissulega öðruvísi vera umhorfs á þessu sviði
þjóðlífsins, ef fleiri menn, sem segjast sjá háskann og
viðurkenna hann í orði, leggðu sig fram um að starfa
að uppbyggingu bindindissamtakanna í landinu.
Hannes Hjartarson horfir nú úr hárri elli yfir sína
löngu ævi. Ekki hefur hann gert víðreist um sína daga.
Vel hefur hann og hans fólk unað sér í sinni heima-
byggð, sveitinni litlu frammi við sjó, milli Mýrdalssands
og Kúðafljóts, sem sífellt á Kötlugos yfir höfði sér. í
þeirri sveit er Hannes á Herjólfsstöðum góður fulltrúi
þeirrar kynslóðar, sem um síðustu aldamót stóð í broddi
lífsins, ung og djörf og fús til að fórna sér fyrir frelsi
og framfarir þjóðar sinar. Vér öll, sem nú lifum, stönd-
um í mikilli þakkarskuld við þetta fólk. Þá skuld skulum
vér gjalda með því að vera trú hugsjónum þess. Þá mun
oss vel vegna.
Leiðréttingar
í grein um Einar Guðfinnsson, í marzblaði H. e. b.
1972, aftara dálki 7. línu að neðan, stendur Margrét
Thorberg, á að vera Kristín Thorberg.
Á bls. 78 í sömu grein, 11. 1. a. o., upp með mynd
stendur Geirfinnur, á að vera Guðfinnur.
Á bls. 79, fremri dálki, 25. 1. a. o., stendur Pétmr
Friðgeir, á að vera Pétur Guðni.
194 Heima er bezt