Heima er bezt - 01.03.1982, Blaðsíða 31

Heima er bezt - 01.03.1982, Blaðsíða 31
systkini mín og faðir dóu öll í röð eftir aldri, það yngsta, Guðný, fyrst, þá Þórsteinn Einarsson, Akureyri, faðir Vernharðs Þorsteinssonar menntaskólakennara á Akur- eyri, þarnæst Steinunn Einarsdóttir, sem bjó síðast í Kaupangi, þarnæst Stefán Einarsson, Möðrudal (faðir minn), þá Björn Einarsson, Ameríku, og síðast Hróðný Einarsdóttir. Þau voru öll fædd á Brú á Jökuldal. Börn Einars og Önnu. Sigurður Sigurðsson fóstursonur Hróðnýjar og Jóns Kjartanssonar rak féð norður, þá um tvítugt. Sigurður varð síðar kennari á Hólum í Hjaltadal, og svo barnakennari á Seyðisfirði, og síðast nú bókavörður þar. Hann kom með féð hingað norður í Möðrudal. Og með því að ég átti að fara norður að Hálsi til að læra undir fermingu og fermast, sem ég gjörði, þá var ég látinn fara með honum til að reka féð, en gangandi samt þó 40 drógar væru hér stundum í gamla daga eða fleiri. Við höfðum að vísu einn hest, jarpan, sem séra Einar átti, en á honum var talsvert trúss flutt í hnakknum, svo við tylltum okkur sjaldan á klárinn. Við fórum fyrsta daginn í Víðidal, annan í Grímsstaði, þriðja dag var ferjað yfir Jökulsá frá Grímsstöðum, og lágum við Sigurður þá nótt í sæluhúsi, sem var lítil sæla, því þar voru kostarýr þægindi. Þaðan fórum við snemma morguns á Mývatnsfjöll að Reykjahlíð við Mývatn. Vorum 14 klukkutíma. Fimmta dag að Kasthvammi í Laxárdal, sjötta dag að Fagranesi í Aðaldal, sjöunda dag að Fljóts- bakka. Ætluðum í Ingjaldsstaði, en ófærðin var svo mikil að kindurnar voru á kafi niðri í snjónum, sást aðeins á hrygginn og gátu ei farið nema ein og ein í slóðina, svo að við snerum við á gamla braut sem lá ofan í Fljótsbakka. Hún var ein af bráðabirgðaruppgjafabrautastúfagjörðinni á íslandi. Áttunda daginn, og síðasta, fórum við að Hálsi en skildum féð eftir í Sigríðarstaðaskógi. Morguninn eftir vantaði eina botnótta rollu með lambi, og kom hún aldrei fyrir í göngum um haustið, og voru menn farnir að halda að hún hefði aldrei komist svo langt. En ég fullyrti alltaf að hún hefði verið í fénu um kvöldið þegar við skildum við það. Þegar komið var fram yfir veturnætur kom ærin sjálf niður úr skógarhlíðinni, ofan í Merkjalág milli Fornastaða og Sigríðarstaða, og síðan heim í Háls. Og eftir það sá engin kindin Norður-Múlasýslu nema ein ær, móhníflótt með hvíta stjörnu í enni, hún kom árið eftir hér heim í Möðrudal með 2ja vikna lamb. Stjarna gamla hafði synt Jökulsá með lambið sitt. Og hefur eflaust komist heim í Arnórsstaði á Jökuldal, um 180 kílómetra veg. Þetta eru kallaðar skyn- lausar skepnur! Alls staðar var okkur vel tekið á leiðinni, og fyrir okkur greitt við ár og þessháttar. Og um veturinn eftir kom ægi- legur fjöldi gesta í Háls. Þá sagði Hróðný föðursystir alltaf að þessir menn hefðu hjálpað þeim Nonna og Sigga yfir ár eða hýst þá, eða gefið þeim mjólk að drekka. Alltaf þurfti að borga allt lífið út ef einhver gjörði henni gott eða henn- ar. (Ég hygg reyndar að Sigurður hafi boðið borgun fyrir allan greiða í ferðinni). Ég hef nú sjálfur oft fundið til þessa að ég er líkur gömlu, kæru föðursystur með það að ég er alltaf í skuld við þá sem einhvern tíma hafa gjört mér greiða og stundum alla þeirra niðja. Og hef nú stundum getað gefið þeim kaffisopa eða fylgt þeim spöl á hestum. Á Hálsi leið mér afskaplega vel þann vetur. Og var nú að grípa í að læra hundrað blaðsíðu Helga kverið, en skaust á milli á skíði, skauta eða sleða, og ætla ég að segja hér 2-3 slíkar sögur. Einu sinni fór ég frá kverinu með skíði uppí Hálshnúk og renndi mér heim á tún. En það voru skörð i garðinn og ætlaði ég að hitta eitt skarðið og gjörði það, en það var hryggskafl í skarðinu svo skíðin fóru á kaf en ég hélt áfram heim á tún og kom á hausinn niður. Fann ég mikið til, en þorði ekki að segja föðursystur frá því. Öðru sinni fórum við Björn Pálsson og Isfeld Guð- mundsson austur í Messuklauf í Fornastaðahólum snemma morguns á sunnudegi, að renna okkur ofan í klaufina. Stóðum á litlum stalli og steyptum svo skíðunum fram af og niður. 1 lögginni var aðeins rúmlega skiða- lengdin slétt, og svo snarbratt upp hinum megin. Við vor- um nokkuð vissir að standa niður, en steyptumst alltaf af miklu afli í brekkuna á móti, þar til síðast að við vorum allir búnir að standast raunina, þá fórum við heim. Þó var nú versta útreiðin sem ég fékk á föstudaginn langa. Þó fórum við Björn og ísfeld og Benedikt Einarsson frá Skógum í sleðatúr uppá Þinghólinn, en það var hyldjúp krapablá neðanvið, við héldum að sleðinn myndi fljóta yfir af ferðinni. Ég var fremstur og stýrði en Benedikt Einarsson fór af sleðanum af því hann var haltur og ekki nema á öðrum fæti. En þegar niður kom, fór sleðinn á kaf að framan, og ég hentist framaf ofan í blána, og sleðinn rann ofan á mig. Þar fékk ég áreiðanlega ærlegt bað. Ég var auðvitað þægur og hlýðinn að gjöra allt sem mér var sagt að gjöra. En frú Jóhanna bað mig einu sinni að sofa frammi í stofu hjá Ólafi Sveinari Hauki Benediktssyni Sveinssonar sýslumanns á Héðinshöfða við Húsavík. En ég var svo feiminn við hann, að ég þorði ekki að fara fram með honum, svo séra Einar varð sjálfur að sofa frammi hjá honum. Mér þótti það nú vont. Ólafur Sveinar Haukur var albróðir Einars Benediktssonar, skáldsins okkar góða. Hann var mikið laglegri en Einar. Haukur var með afar áberandi falleg brún augu. Gáfaður, skemmtilegur en myrkfælinn. Skaði að hann skyldi ei fá að lifa. Skreyta þjóð og skemmta með að skrifa, því ei var hann síðri en Einar Benediktsson. Og efalaust hlotið heiðursmen. Einu sinni var ég sendur seint um kvöld upp að Vöglum með rekstur, og séra Einar frændi minn sagði mér að hafa Glóa gamla með mér, það væri skemmtilegra. Ég tók það gott og gilt. Og það gekk ágætlega uppeftir með kindurnar, og ég fékk kaffi á Vöglum, og fór svo. En þegar ég var að fara út með Brandshlíðinni, tók Glói til að urra og gelta svo ég varð ærður í myrkfælni, og tók sprettinn heim í Háls, og inn í baðstofu. Það var afar skemmtilegt og göfugt fólk í Fnjóskadal þá, t.d. spurningabörnin, Lundsbræður, Indriði og Steingrím- ur, og Hróastaðadrengir, Helgasynir. Þeir dóu ungir menn, nema Sigurður. Og Skógarbörnin, Hannes, Halldór, faðir Bjarnar lögfræðings á Akureyri, Benedikt söðlasmiður halti, Sigríður og önnur systir sem ég man ei nafn á, og Jónína Sigurðardóttir frá Draflastöðum, sem síðar varð Heima er bezt 103

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.