Heima er bezt - 01.01.1984, Blaðsíða 30

Heima er bezt - 01.01.1984, Blaðsíða 30
Jón í Möðrudal, eins og hann var og hét, og eins og hann er orðinn mótaður í þjóðsögunni, sem þá þegar var orðin til, og þá og síðan hefir gengið um meðal manna, var enginn venjulegur maður, og vakti hann athygli okkar við fyrstu sýn, eitthvað —já margt sem ekki er svo auðvelt að skilgreina í frásögn og síst á bók, einkenndi hann frá öðrum mönnum, og er áhætta tekin að fara að ræða um þennan mann, og hann muni eftir þá handfjöllun standa sem skuggi einn af sjálfum sér. Slíka áhættu hafa allir tekið í frásögnum sínum, allt frá dögum Snorra til ambögutíma vorra. Það mátti fljótlega finna, jafnvel á göngu okkar inn bæjarrangalann og til eldhússins að það var enginn venju- legur staður þar sem við vorum mættir, og þetta virtist Jón bóndi í Möðrudal vita manna best. Það var ekki aðeins alúð húsbændanna og stórmannleg rausn við gesti sína, þar sem Þórunn Vilhjálmsdóttir frá Teigi í Vopnafirði, húsfreyja staðarins, var hér síst til baka haldin. Nei, það var líkast og heit trú og fullvissa, að staðurinn Möðrudalur bæri langt yfir önnur stórmerki landsins að mikilleik, og þetta sýrði hér öll brauð, þau sem á borð voru borin og hin sem framreidd voru sem sakramenti sálar- innar. Og það er býsna örðugt þreyttum, sveittum og göngumóðum ferðamanni að átta sig á þeirri heimsmynd sem honum er opinberuð hér inn til öræfa. Það er margt fólk hér í Möðudal — alls staðar fólk. Börn þeirra Jóns og Þórunnar eru fimm, sem ég veit um með vissu, og öll voru þarna heima á staðnum. Fyrst skal nefna Stefán, sem þarna var þó ekki enn orðinn þjóðfrægur maður en seinna varð. Sá sem gekk dægrin löng um Möðrudalsöræfin villtur og ekki villtur í vetrarstórhríð, barinn og hrakinn og aðframkominn maður, þegar loksins drógst til bæjar, og hafði þá ekki enn brotið upp böggulinn sem hann tók til fyrirgreiðslu og flutnings, en hafði þegar til kom að geyma hlý ullarföt sem hefðu svo sannarlega komið honum vel, svo hrjáðum manni, en ekki brást hann trúnaði með skilvísina. Það hefir áður fjárhirðum verið falin sér- stæð sending til útdeilingar meðal manna og svo vel var því til haga haldið, að enn stafar frá því birtu og yl, og kannski barg það Stefáni í hríðinni. En af öðrum toga var spunnin sú þjóðfrægð Stefáns þegar til kom, að hann sýndi á stræti höfuðborgarinnar vorgleðina í gervi graðhestsins, sem svo vel var formaður að þröng gerðist á götum úti svo fólk mætti sjá, rétt eins og í dag í lognhríð þegar fólk er hætt að sjá. Allt er þetta með nokkrum ólíkindum með Stefán bónda, sem þar að auki spilar á „draggargan“ sem einhver kallaði harmonikuna, —en hér er hann í Möðrudal giftur föngulegri konu, sem Lára heitir, og á hún hér vænleg —að ég held þrjú börn, nokkuð vaxin, og man ég dreng hennar þar við útiverk, og þarna sá ég nokkuð sem ég minnist ekki í annan tíma: Það var maður á ferð á milli útihúsa, og bar á bakinu tunnustokk sem mér virtist létt stafatunna með kaðalstroffu til að halda í. Bar hann í þessu moðsalla eða úrgang frá innistöðufé til útigangspenings. Öllu slíku drusluðum við nú Þingeyingar í pokum af vefnaði, jafnvel erlendum. En hér er svo komin Jóhanna dóttir Jóns, systir Stefáns, eldkvik og bráðskörp kona að sjá, og sannaði hún það betur síðar, en hún er rétt stigin upp af sænginni frá því að ala barn. Og þarna var enn stödd ljósmóðirin hennar litla barns, og ég kalla hana Aldísi af því mér finnst að hún hafi heitið það. Og þá er það Jón bóndi Jóhannesson, sem er eiginmaður Jóhönnu, en önnur er hér dóttir Jóns Stefáns- sonar, fullorðin, sem heitir Þórlaug, tápleg stúlka, en missti heilsuna nokkrum árum eftir að hér er verið að segja frá. Þá hafði ég fréttir af Jóni föður hennar í erfiðum vetrarferðum i snjó hér skammt fyrir sunnan, þar sem ég bý nú —og bjó þá Þetta voru þung spor þessum lífsreynda og þreytta föður i heimsókn að Kristnesi, en þar var háð hin erfiða en óvissa barátta við hvítadauðann, en Þórlaug náði ekki að sigra þar — eða svo teljum við sem eftir lifum. Þá eru hér á höfuðbólinu tveir synir Jóns, Vilhjálmur og Þórhallur, að verða fullorðnir. Nokkuð löngu seinna réðist að Möðrudal ung stúlka úr Bárðardalnum, Margrét Sveinsdóttir í Stórutungu, og varð hún kona Vilhjálms. Ekki vildi ég þurfa að staðfesta fyrir rétti tölu fólksins á bænum, enda mun ekki til þess koma, en vel gæti ég borið fyrir mig töluna tólf til fimmtán manneskjur alls. Óglöggt sáum við ferðamenn litlu börnin á staðnum, eftir kynnin af stórmennum fjallanna, þar sem líka fjöllin sjálf hétu Karl og Kerling. í^ssi nafnfræga háslétta, þar sem Möðrudalur stendur, liggur 460 metrum ofar sjó. Ein víðáttumesta bændajörð landsins, með gnæfandi fjöll í átt til himins til og frá um alla þessa víðáttu, en þó óx undrunin enn að mun, þegar ég nokkuð löngu seinna gekk upp á toppinn á Herðubreið í heiðskíru veðri. Þvílikri sjón er engin leið að lýsa. Að horfa niður til stórbýlisins Möðrudals, Austfjarðafjöllin og jökl- ana alla og vestur og heim, og sjá Sprengisand hverfa inn í kvöldhúmið, þá á það sannarlega við það sem einhver sagði: Þú verður aldrei samur maður. — Og þér finnst furðanlegt fánýti margt sem deilt er um niðri á jörðinni. Á elstu landamerkjaskrá og samkvæmt örnefnum um þetta svæði, gætu hafa verið hér átta jarðir í byggð, en nú um langa tíð aðeins Möðrudalur og Víðidalur. Hér í Möðrudal sátu prestar um aldir. Á tímabili var sameiginlegt prestakall Víðirhóls- og Möðrudalssóknir, en lagt niður með lögum árið 1907, og var þá Möðrudalur lagður til Hofteigs á Jökuldal, en um 1980 er þjónað þar frá Valþjófsstað. Það var ekki fyrr en löngu seinna en við göngum hér um hásléttuna, að Jón Stefánsson tekur til höndum, og byggir sjálfur kirkju hér á staðnum, að miklum hluta með eigin höndum er mér sagt, og auk þess málaði hann altaristöfl- una sem er í kirkjunni, þó að mér fyndist þegar ég sá þessa töflu, og hlýddi um leið á Jón spila á orgelið, að frelsarinn væri í sleðaferð í fjallabrekkunni þarna yfir altari kirkj- unnar, þarf það ekki að vera rétt séð. En þó svo væri finnst mér það engin fjarstæða hér í Möðrudal. En mest er um hitt vert að Jón hefur gefið fólkinu sem hér býr, og kemur til með að lifa hér ómetanlegt tækifæri til að fullnægja að 26 Heima er bezl

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.