Æskan - 01.02.1983, Qupperneq 16
1
Mark Twain
MAURINN
Oft er við áðum á ferðalagi okkar gerðum við okkur það
til gamans að horfa á hina starfsömu maura, sem sífellt
voru að bjástra við eitthvað. Ég fann ekkert nýtt í fari þeirra
- ekki snefil af neinu, sem væri til þess fallið að breyta
skoðun minni á þeim. Að mínu viti er alltof mikið gert úr
gáfnafari mauranna.
Ég hef í mörg sumur gert mér það til dundurs að kynna
mér lifnaðarhætti maura, er ég hefði átt að hafa eitthvað
annað fyrir stafni, og ennþá hef ég ekkert séð sem bendi til
þess, að lifandi maur hafi meira vit í kollinum en dauður. Þá
á ég að sjálfsögðu við venjulegan maur. Því miður hef ég
engin kynni haft af hinum frábæru svissnesku og afrísku
maurum, sem hafa þingkosningar, herskyldu, þrælahald
og ræða trúmál. Þeir maurar eru sjálfsagt svo ágætir, sem
náttúrufræðingarnir vilja vera láta, en vitsmunir maura, eins
og þeir gerast og ganga, eru hreinasta blekking.
Ég kannast að sjálfsögðu við, að þeir eru starfsamir; þeir
eru starfsamastir allra lifandi vera á jörðinni - það getur
maður séð - en ég furða mig á heimsku þeirra. Maur fer út
til að draga í búið, finnur sér bita í soðið, og síðan hvað?
Fer hann heim með fenginn?
Nei - hann fer allt annað en heim. Hann veit ekki, hvar
hann á heima. Þó að hann eigi ekki nema tvo metra heim,
stoðar það ekkert, hann ratar þangað ekki.
Hann finnur bráð sína, eins og ég tók fram. Venjulega er
hún eitthvað, sem hvorki hann eða nokkur annar maur
getur notað til neins. Venjulega er það sjö sinnum stærra
en það ætti að vera. Hann tekur í það þar sem erfiðast er
að ná taki. Hann lyftir því svo hátt frá jörðu, sem hann
framast getur, og leggur af stað, ekki heim, heldur með
fumi og fáti og eyðir kröftum sínum til einskis gagns.
Hann kemur að steini, og í stað þess að krækja, klifrar
hann yfir hann, afturábak, og dregur hlassið á eftir sér, og
lætur það detta niður hinum megin. Þar dustar hann rykið
úr fötunum, þurrkar sér um hendurnar, grípur bráð sína,
veltir henni fyrir sér, lætur hana niður fyrir framan sig
andartak, snýr síðan baki að henni, teymir hana spölkorn á
eftir sér, tekur hana skyndilega upp og leggur af stað með
hana í allt aðra átt en áður. Þá verður hátt gras í vegi fyrir
honum.
Honum dettur ekki í hug að krækja fyrir grasið. Hann
verður að klifra og dregur hina einskis nýtu bráð sína með
sér upp stráið - álíka viturlegt og ef ég væri á leið til
Parísar frá Heidelberg og klifraði yfir turninn á dómkirkjunni
í Strassburg í leiðinni. Þegar hann er kominn alla leið upp
stráið, verður hann þess vísari, að ekki var það þangað,
sem hann ætlaði, lítur snöggt kringum sig og klifrar eða
dettur niður og leggur síðan af stað í nýja átt.
Eftir svo sem hálftíma göngu staðnæmist hann á að
giska hálfan metra frá þeim stað, sem hann fann gripinn,
og leggur þar frá sér byrðina. Hann er nú búinn að ferðast
um allt umhverfið og klifra yfir alla steina og hauga, sem
orðið hafa á vegi hans. Nú þurrkar hann svitann af enninu,
réttir úr bakinu og ráfar af stað aftur, álíka tilgangslaust og
áður, og jafn hratt. Hann fer í krákustígum um umhverfið og
fyrr eða síðar hlýtur hann að rekast á herfangið, sem hann
skildi eftir skömmu áður.
Hann minnist ekki að hafa séð það fyrr. Hann lítur í
kringum sig til að finna leiðina, ekki heim, heldur eitthvað
annað, þrífur herfangið og leggur af stað. Hann lendir í
sams konar ævintýrum og áður, og loks verður hann að
leggja frá sér byrðina til að hvíla sig. En þá kemur annar
maur á vettvang. Maður getur getið sér til, að vinurinn segi
eitthvað á þessa leið, að engisprettuleggursé herramanns-
matur, og bjóðist til að rétta hjálparhönd við að koma
honum heim. Þeir verða ásáttir um það og taka síðan hvor í
sinn enda á engisprettuleggnum, og toga af öllum kröftum í
sína áttina hvor.
Eftir stundarkorn verða þeir að taka sér hvíld og ráðgast
um málið. Þeim finnst eitthvað vera athugavert, en geta
ekki skilið, hvað það er. Síðan byrja þeir á nýjan leik og á
sama hátt. Sami árangur. Þeir taka að ásaka hvor annan.
Hvor um sig áskar hinn um að stofna til vandræða. Það
fýkur í þá og orðasennunni lýkur með áflogum.
Þeir hlaupast á og bítast um hríð. Síðan veltast þeir um
jörðina og löðrunga hvor annan, uns annar missir fót eða
þreifihorn og verður að haltra burt til að gera að sárum
sínum. Þeir sættast og hefja sömu fávitavinnuna að nýju.
En nú er særði maurinn ekki lengur með fullu fjöri, svo að
hinn maurinn dregur hann, ásamt herfanginu, á eftir sér.
Stundu síðar, er engisprettulöppin hefur verið dregin
hingað og þangað, er svo komið, að hún liggur nákvæm-
lega þar sem hún var í upphafi. Svitinn drýpur af maurun-
um og þeir virða hana fyrir sér, hugsandi, og komast loks
að þeirri niðurstöðu, að þurrkaðar engisprettulappir séu
ekki þess virði, að þeim sé haldið til haga, og fara síðan
hvor í sínu lagi í leit að afrifinni nögl eða einhverju álíka
fánýtu.
í skóginum í fjallshlíðinni sá ég maur leika svipaðan leik
með dauða köngurló, sem var tíu sinnum þyngri en maur-
inn. Að vísu var köngurlóin ekki alveg dauð, en svo mjög af
henni dregið, að hún gat enga mótspyrnu veitt.
Þegar maurinn varð þess var, að ég veitti honum eft-
irtekt, velti hann köngurlónni á bakið og beit hana á bark-
ann, lyfti henni upp og lagði af stað burt með hana. Hann
hrasaði um steina, steig á lappirnar á köngurlónni, dró
16