Æskan - 01.09.1985, Blaðsíða 23
r I Óralandi
Manni fór á ný að taka eftir því að
Teini væri dálítið toginleitur.
Þeir voru systkinasynir. Jónas fað-
ir Teina var móðurbróðir Manna.
Jónas var stýrimaður á Ævari, tutt-
ugu og fjögurra tonna koppi sem Ár-
mann, faðir Manna og nafni, átti.
Jónas var allra manna sterkastur og
ýmist kallaður Jónas sterki eða Jónas
túli. Hann þótti svo kjaftfor að
mestu hörkutólum blöskraði.
Teina var strax trúað fyrir að gæta
Manna. Ármann var alltaf til sjós og
Ólöf móðir Manna kenndi fyrstu
hjúskaparárin sín ef hún var þá ekki
landmaður og beitti. Fljótlega kom í
ljós að Teini reyndist svo góður
barnfóstri að á betra varð ekki kosið.
Gæslan var ósjálfráð, dagarnir liðu í
leik sem báðir nutu.
Þegar Teini var þrettán ára fóru
þeir Manni í sölvafjöru. Þeir ætluðu
að tína handa Jónasi, hann var mesta
sölvaæta.
Þeir leituðu lengi en voru aldrei
vissir um hvernig sölin litu út, óðu
sker af skeri og brögðuðu á þaranum
en féll ekki bragðið. Manni hélt þó
að það breyttist við þurrkun. Það
þótti Teina trúlegt. Loksins afréðu
þeir að tína rauðan þara sem gnægð
var af á einu skerinu. Að vísu var
hann morandi í marfló.
Heldurðu að það sé verra? spurði
Teini.
Er hún nokkuð vond á bragðið?
spurði Manni.
Teini skóflaði nokkrum marflóm á
þarablað og lét upp í sig. Þegar hann
hafði smjattað og rennt niður kvað
hann upp dóminn:
Ekkert verri en sölin.
Þeir tíndu stundarkorn.
Söl eru holl, sagði Manni, það seg-
ir mamma. Pabbi þinn er áreiðanlega
sterkur af því að éta söl.
Á Teini að verða sterkur? spurði
Teini. Og Manni líka?
Manni var til í það. Þeir fóru að
éta. Manni gafst óðara upp en Teini
hélt áfram.
Og kræklingur, sagði Manni, hann
er fínn.
Þeir færðu sig til og fundu kræk-
ling, tíndu hann og fóru upp á sker til
að éta. Teini opnaði hann með vasa-
hnífnum og gaf Manna fyrsta skel-
fiskinn. Hann var eins og eggjarauða
á bragðið. Teini át nokkra kræklinga
en Manni vildi ekki meira.
Maður verður stór og sterkur af
kræklingi, sagði Manni.
Og Teini hélt áfram að éta.
Svo hætti hann skyndilega. Hann
glápti á opna skel í lófa sínum,
hræddur og undrandi.
Sjáðu Manni, hvíslaði hann.
I miðjum fiskinum sló dökkrautt
hjarta á stærð við nögl á litlafingri.
Þetta er áreiðanlega hjartað, sagði
Manni.
Teini varð skelfingu lostinn.
Hann er lifandi, hann er lifandi,
hvíslaði hann og reyndi að loka skel-
inni. Teini hefur verið að éta lifandi
dýr.
Já, samsinnti Manni, við skulum
ekki éta meira.
Og marflóin? spurði Teini, er líka
hjarta í henni?
Ætli það. Hún er svo lítil.
En kræklingurinn, veinaði Teini,
kræklingurinn hefur hjarta.
Hann rak tvo fingur ofan í kok á
sér og ældi. Þeim sýndist marflóin
koma lifandi upp úr honum. En
hvert einasta kræklingshjarta var
hætt að slá. Þeir grétu báðir góða
stund. Þegar þeir litu upp var skerið
umflotið.
Þá óð Teini í land með Manna á
háhesti.
Framhald í næsta blaði.
23