Eimreiðin - 01.09.1970, Side 8
152
EI M R E13 IN
íhaldssamur að eðlisfari og fjarri því að binda bagga sína sömu
hnútum og samferðamenn, á hinn bóginn kemur fram, að hann mun
lítt hafa fylgzt með þróun málvísinda á síðara helmingi 19. aldar.
Ein af eftirlætishugmyndum Gröndals, og sú er hann oft kom að,
var aðild Sæmundar fróða að Eddu. í Ströbemœrkninger og enn síð-
ar í greinum þremur um Sæmundar Eddu°) leiðir hann líkur að því,
að Sæmundur hafi safnað Eddukvæðunum. Ýmsar skýringar á orð-
um og sérnöfnum í Eddu grundvallaði hann á þeirri gömlu kenn-
ingu, að vagga mannkynsins hefði staðið í Asíu — og eru sumar þeirra
allfurðulegar. Eddukvæðin taldi Gröndal ort á íslandi og færði þar
fram til sönnunar skyldleika orða og setninga innbyrðis í kvæðun-
um. Síðasta af hinum þremur Edduritgerðum Gröndals fjallaði um
Sæmundar-Eddu og norræna goðafræði og kenningar þeirra Sofusar
Bugges og V. Rydbergs um þau efni.7) Sú ritgerð er hógværari en
hinar fyrri, en ber þess jafnframt menjar, að Gröndal hefur fylgzt
allvel með á þessu sviði og lesið rit sumra hinna fremstu yngri
fræðimanna á sviði Eddukvæðarannsókna og norrænnar ritskýring-
ar, þeirra Hofforys, Mogks og enn fleiri. Gröndal hættir þó sem fyrr
til að senda málfræðingum hnútur og er andvígur öllum kenningum
Bugges og bollaleggingum um uppruna Eddukvæða.
í ritgerðinni Um fornan kveðskap íslendinga og Norðmanna8)
heldur Gröndal því fram, að fornmenn hafi ort kvæði sín eftir til
finningu, en ekki einvörðungu eftir föstum og ákveðnum brag-
reglum, enda ímyndun ein að nokkur veruleg rímkennsla hafi átt
sér stað.
í afmælisgrein um Gröndal áttræðan véfengir prófessor Finnur
Jónsson að vísu, að slíkar hugmyndir hafi nokkurn tíma átt við rök
að styðjast, og segir síðan: „Hitt er rétt hjá B. Gr. og það er það,
sem hefur vakað fyrir honum, að vilja ekki kannast við, að allt eigi
að vera keiprétt hjá öllum skáldum á öllum tímum. Það er nú víst,
að það eru til ýmis afbrigði einkum hjá eldri skáldunum; sumir
bragfræðingar álitu allt slíkt síðari tíma afbakanir; þar fóru þeir
villir vega. — B. Gr. hefur fundið, að þetta var gerræði, hans „lieil-
brigða skynsemi" lét á sér bera og vakti hann til andmæla. — Það er
yfir höfuð að tala „hin heilbrigða skynsemi," sem B. Gröndal hefur
allajafnan sýnt, þrátt fyrir öll hans skáldlegu ærsl og skrípalæti."
6) Sjá Gefn III og IV.
7) Sjá Tímar. Bókm.fél. 1892.
8) Sjá Tímar. Bókm.fél. 18S2.